Lesbók Morgunblaðsins - 13.09.2003, Side 10

Lesbók Morgunblaðsins - 13.09.2003, Side 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. SEPTEMBER 2003 F ÖSTUDAGINN 19. september verða rússneskir tónleikar í Iðnó með tríóinu Gorki Park, Þar verð- ur meðal annars frumflutt á Íslandi klarínettutríó rússnesku tónskáldkonunnar Galinu Ivan- ovnu Ustvolskayu. Flytjendur eru Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari, Freyja Gunnlaugsdóttir, klarín- ettuleikari, og Birna Helgadóttir, píanóleikari. Mikið var lagt upp úr menningu og listum í fyrrum Sovétríkjunum og áttu listamenn að dásama hina rauðu stjörnu í austri, jákvæðar hetjur byltingarinnar og hið ágæta stjórnskipu- lag þar sem allir lifðu sælir og jafnir í sátt og samlyndi. Samfélagið gat af sér frábæra lista- menn sem iðkuðu list sína hugsjóninni til dýrðar og kommúnismanum til framdráttar. Á tímum Stalíns var við lýði ströng ritskoðun í tónlist jafnt sem bókmenntum og allt sem var framúrstefnulegt eða nýstárlegt svo ég tali nú ekki um andlegt eða trúarlegt var talið ögrun við kommúnistaflokkinn og byltinguna. Þrátt fyrir skýra stefnumótun stjórnvalda í listum voru margir listamenn sem hugsuðu fram á veginn og frömdu list sína í laumi fyrir sig og framtíðina þó hún bryti í bága við hinn þjóðern- islega rómantíska sósíalrealisma stjórnvalda. En fólk lifir ekki á listinni einni saman og mörg tónskáld höfðu lifibrauð sitt af því að semja tón- list fyrir leikhús og kvikmyndir eða skrifa létta tónlist í þjóðlegum anda. Tónskáldkonan Galina Ustvolskaya er ein þeirra listamanna sem bjó við harðsvíraða rit- skoðun kommúnistaflokksins. Mark Swed lýsir Ustvolskayu sem beinskeyttri, fífldjarfri og hættulega dramatískri, konu sem aldrei seldi sál sína til að þóknast flokknum og hefði aldrei látið þvinga sig til auvirðulegrar iðju líkt og að semja kvikmyndatónlist eða léttvæga þjóðlaga- tónlist. Hefði Ustvolskaya framfylgt þessu hefði það verið einstakt í sovéskri tónlistarsögu og hún einnig verið sérstaklega svangt tónskáld með engar tekjur. Þetta er þó ekki alveg rétt því að á 5. áratugnum samdi Ustvolskaya fjöldann allan af sósíalrealískum verkum með titlum líkt og Dögun yfir ættjörðinni, Draumur Stenka Rasins, Heill þér æska, Dirfskuverk hetjunnar og fleiri. Eftir að kommúnisminn leið undir lok út- rýmdi Ustvolskaya þessum verkum, tók þau af opuslista sínum og þvertók fyrir að þetta væri hennar tónlist. En þessi verk voru engin glöp bernskunnar heldur aðeins yfirhylming, leið til að lifa af því að á sama tíma skrifar Ustvolskaya nafnlaus verk sem hún geymdi á kistubotni þar til mörgum árum seinna og flest þeirra eru frumflutt 15–30 árum eftir tilurð þeirra. Dularfulla konan Persóna Galinu Ivanovnu Ustvolskayu er sveipuð dulúð og lítið er um hana vitað. Heim- ildir um hana eru flestar óbeinar og sumar þjóð- sagnakenndar. Ustvolskaya lokaði sig inni og lifði stóran hluta ævinnar við einsemd og sára fátækt, hún hefur alla tíð neitað að veita viðtöl og aldrei verið við frumflutning verka sinna. En eitt er víst að hún var dáð af samferðamönnum sínum og hafði áhrif á stór tónskáld líkt og Shostakovich og Stravinsky. Hún fæddist í Sankti Pétursborg árið 1919 og lærði við konservatoríið þar í borg þar til heims- styrjöldin síðari braust út og stöðvaði námið. Milli 1937 og 1947 fer hún í einkatíma til Dimitri Shostakovich og þau héldu nánum vinskap og áttu í leynilegu ástarsambandi. Löngu seinna segir Ustvolskaya frá því þegar Shostakovitch bað hennar, „einhvern tíma á fimmta ára- tugnum“. Hún hryggbraut hann og stuttu eftir það slitnar upp úr sambandinu. Ustvolskaya virðist hafa haft djúpstæð áhrif á Shostakovich og viðurkennir hann í bréfi til Ustvolskayu hversu mjög hún hafi haft áhrif á tónlist hans. Einnig er haft eftir honum að hann sé sann- færður um að tónlist hennar muni ná heims- frægð og verða metin af öllum þeim sem skilja kjarna sannrar tónlistar. Nefnir hann Ust- volskayu „meðvitund tónlistar sinnar“ og „hinn kvenlegi Dostojevsky rússneskrar tónlistar“. Shostakovich lýsir því einnig hvernig honum hafi mistekist að hafa áhrif á tónlist Ustvolsk- ayu eins og sjá má af orðum Ustvolskayu um Shostkovich: „Nú, eins og þá hafna ég tónlist hans, og því miður ýtir persóna hans aðeins undir óbeit mína. Eitt er deginum ljósara, að fyrir mér er eins frægur maður og Shostako- vich alls ekki stórfenglegur. Þvert á móti, hann gróf líf mitt í jörðu og myrti mínar ljúfustu kenndir.“ Sambandið við Shostakovich Shostakovich tileinkaði Ustvolskayu enga tónsmíð né heldur minnist hann á hana í Testi- mony, æviminningum sínum. Löngu seinna, ári fyrir dauða sinn vitnar hann í tónlist hennar í sinni eigin tónlist. Í verki sínu Svíta um vísur Michaelangelo op.145 notar hann stef úr klarín- ettutríóinu hennar frá 1949. Í níundu laglínu svítunnar sem er nefnd Nóttin vitnar hann í klarínettutríói Ustvolskayu. En annað stefið í fyrsta kafla tríósins er tilvitnun í annan kaflann úr fyrsta strengjakvartett Shostakovich. Þetta verk virðist hafa verið Shostakovich hugleikið því hann notar stefjabrot úr sama tríói í fimmta strengjakvartett sínum op. 92 frá 1952, í kóda fyrsta þáttar, á harmþrungnasta stað verksins birtist skyndileg stefið úr klarínettutríói Ust- volskayu. Taldar eru líkur á því að Ustvolskaya hafi kynnt Shostakovich fyrir sálmum þeim er hann notar sem efnivið í sjöundu sinfóníu sína. Að öðru leyti eiga tónskáldin tvö lítið sameiginlegt og sannleikann um samband þeirra munum við aldrei fá að vita. Mstislav Rostropovich þekkti þau bæði og segir frá því að Ustvolskaya hafi haft miklar mætur á Shostakovich og samband þeirra hafi verið mjög náið. Rostropvich segir einnig frá því að Ustvolskaya hafi veitt Schostakovich mikinn andlegan stuðning eftir Zhdanof-úr- skurðinn 1948, þegar stjórnvöld skipuðu honum að snúa sér aftur að sósíalrealískum tón- smíðum. Seinna bjó Ustvolskaya með Yuri Balkashin tónskáldi, þau höfðu þekkst lengi en giftust aldrei. Shostakovich talar um þá staðreynd í bréfi til vinar síns Isaac Glickman með því að vitna í Destemónu í Óþelló: „Það voruð ekki þér sem ég unni heldur þjáning yðar“. Hann bætir við: „Þessi dostojevska hlið á persónuleika hennar er miðpunktur tilveru hennar og ég ótt- ast hvað framtíðin ber í skauti sér.“ Balkashin deyr 37 ára úr flogaveikikasti árið 1960 og Ust- volskaya lokar sig af frá umheiminum í lítilli íbúðarholu í Leningrad og eyðir öllum sjötta áratugnum í þögn og sorg í sárri fátækt. Ust- volskaya semur aðeins eitt tónverk á þessum tíu árum það er dúett fyrir fiðlu og píanó frá 1964. Trú, sköpun og tortíming Ustvolskaya segir um klarínettutríóið frá 1949: „Frá og með þessu verki er öll mín tónlist trúarlegs eðlis og jafnframt afneitar hún hinum eldri verkum sínum veraldlegs eðlis.“ Haft er eftir Ustvolskayu: „Ég skrifa aðeins þegar hugur minn er í trúarlegu algleymi. Þá læt ég tónlist mína hvíl- ast í langan tíma. Þegar hinn rétti tími kemur afhjúpa ég tónlistina. Og ef sá tími kemur ekki tortími ég henni. Ég tek aldrei við skipunum annarra manna.“ Þrátt fyrir trúarlega upphafningu er tónlist Ustvolskayu myrk og ofstækisfull, stundum grimm og ruddaleg. Stravinsky segir um tónlist Ustvolskayu „ … og eftir að hafa hlustað á tón- list hennar rann upp fyrir mér ljós, ég skildi þýðingu járntjaldsins í raun og veru“. Ustvolskaya segir um tónlist sína: „Það er ekki hægt að rekja tónlist mína til nokkurs annars tónskálds. Ég skora á alla þá sem elska tónlist mína að reyna ekki að skil- greina hana fræðilega.“ Það virðist viðeigandi að skoða tónlist hennar með lotningu fjarlægðarinnar og reyna að skilja hana sem eina heild. Ustvolskaya virðist sann- færð um að tónlist hennar sé auðskiljanleg fyrir alla þá sem nálgast hana með réttu hugarfari. Þó er það ekki auðvelt verkefni þar sem tónlist hennar er afar persónuleg og stundum tormelt. Frans C. Lemaire líkir tónlist Ustvolskayu við fjarlæga stjörnu, þegar þyngdarafl hennar hefur dregið að sér allan massa alheimsins í hnött á stærð við appelsínu: „Þetta er ástand fyrir fæðingu alheimsins, fyrir trúarbrögð, fyrir krossinn, í alheimslegri, ójarðbundinni vídd þar sem náttúran á sér engan samastað og manneskjan hefur ekkert hlutverk.“ Þessi lýsing væri sennilegri ef Ustvolskaya hefði ekki samið symfóníur sem ákalla miskunn Jesú Krists og ávarpað drottin allsherjar beint í verkum sínum. Þessi verk eru sannarlega ekki ópersónuleg af þeirri tegund sem Lemaire leggur til, miklu frekar hið gagnstæða, en stíll- inn gæti hugsanlega villt mönnum sýn og verið misskilinn sem eitthvað ómannlegt, tímalaust og abstrakt. Til dæmis hefur Reinbert de Leeuw valið að hafa abstraktmálverk eftir Konstantin Malevich (rauða torgið) utan á hulstri geisladisk síns með tónlist Ustvolskayu, í bæklingnum kallar hann tónlist Ustvolskayu súprematíska tónlist. Ef hann á við með þessu að tónlist Ustvolskayu sé algjörlega abstrakt er ég hróplega ósammála. Til dæmis hljómar fiðlu- sónata hennar frá 1952, sem er á geisladiski De Leeuw, eins og músíkölsk ræða og endurtekin stef hennar eins og setningar, jafnvel blíðuhót. Á sama geisladiski er Oktettinn frá svipuðum tíma sem er ákaflega myndræn, tilfinninga- þrungin tónlist líkt og klarínettutríóið frá 1949. Á rauða torgi Malevichs hefur bóndakona gjör- samlega horfið inn í slétta abstraktsjón. Bónda- konur Ustvolskayu í oktettinum hennar eru aftur á móti fullkomlega skýrar. Ef ég ætti að líkja Ustvolskayu við rússneskan 20. aldar myndlistarmann myndi ég frekar útnefna expressíónistann Vasily Kandinsky. Sérstæður höfundur Menn hafa reynt að rekja áhrif í tónlist hennar til jafnólíkra tónskálda og Bartók og Pärt, Hindemith og minimalistanna, þau eru alltaf frekar langsótt. Sá sem kemst kannski næst Ustvolskayu í stíl er Messiaen, nánar til- tekið miðtímabil hans og má færa rök fyrir þessu með líkum stíl og tónmáli í fimmtu prél- údíu Ustvolskayu og Parlui tout été fait úr Vingt regards sur l’enfant Jésus og einnig milli Klarínettutríós hennar og kvartettnum fyrir endalok tímans. Þó er tónmál Ustvolskayu myrkt og svartsýnt samanborið við bjart litróf fransmannsins. Ekki er þó víst að Ustvolskaya hafi þekkt tónlist Messiaens en tónlist þessa kaþólska módernista var úrskurðuð úrkynjuð og bönnuð á tónskáldaráðstefnunni í Rússlandi árið 1948 og ólíklegt að tónlist hans hafi heyrst í Sovétríkjunum á fimmta áratugnum. Eftir þögn sjötta áratugarins skrifar Ust- volskaya þrjú verk með trúarlegum titlum snemma á sjöunda áratugnum: Donna nobis pacem, Dies Irae og Benedictus qui venit. Þetta eru ekki gáfulegir titlar á miðjum valdatíma Brésnévs og væri hægt að líta á þá sem ögrun við stjórnvöld. Ustvolskaya bendir á að þessi verk séu ekki trúarleg í eiginlegum skilningi en „full af heil- ögum anda og myndu hljóma best í kirkju án nokkurs formála eða vísindalegra skýringa“. Ustvolskayu varð ekki að ósk sinni og þessi verk voru frumflutt í konsertsölum árin 1975 og 1977. Á árunum 1979 til 1989 semur hún þrjú tónverk og fjórar symfóníur fylgja í kjölfarið. Þrátt fyrir hina virðulegu nafngift symfónía eru verkin í beinu framhaldi af verkunum á undan með trúarlegum titlum og nýstárlegri hljóð- færaskipan. Verkin verða styttri og styttri og síðustu tvær symfóníurnar eru varla tíu mín- útur. Ustvolskaya notar aldrei fulla hljómsveit heldur raðar hún saman ólíkum hljóðfærum eftir hentugleika og geðþótta. Í fjórðu symfóní- unni (bænasymfóníunni) eru aðeins fjögur hljóðfæri og er hún um átta mínútur að lengd. Í daglegu tali yrðu þessi verk kölluð kammerverk en Ustvolskaya neitar því alfarið að hafa nokk- urn tíma samið kammertónlist, að tónlist sín sé ekki þess eðlis. Síðbúnar vinsældir Það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum að tónlist Ustvolskayu náði eyrum hins vestræna heims og hefur hún nú náð nokkurri útbreiðslu. Árið 1986 var Grand Duett hennar fluttur á Wiener Festwochen líklega í fyrsta sinn opin- berlega fyrir stóran áheyrendahóp. 1988 var fjórða symfónía hennar (bænasymfónían) frum- flutt í Leningrad og í framhaldi á því á hátíð kventónskálda í Hamborg. Ustvolskaya afþakkaði hins vegar boðið og sagðist fyrirlíta „þessar feministasamkomur“. Af sama tilefni lagði hún til að skipulagðar yrðu hátíðir karl- mannlegra tónskálda og gaf út þá yfirlýsingu að henni væri illa við að konur flyttu tónlist hennar. Klarínettutríóið Athyglisvert er að klarínettutríó Ustvolsk- ayu er samið seint á Stalíntímanum eða 1949 árið eftir Zhatnof-úrskurðinn þar sem tón- skáldum voru lagðar línurnar um hvernig tón- list ætti að skapa í Sovétríkjunum. Ustvolskaya leiðir öll boð og bönn hjá sér og skrifar trúarlegt módernískt verk sem brýtur algjörlega í bága við hinn sósíalrealíska hugmyndaheim. Tónlistin er myndræn og skiptast á hrikaleg- ar andstæður, styrkleikamerki eru ýkt í báðar áttir, allt frá ppp til fff og skipst á hvíslandi ein- ræður klarínettunnar og ofstækisfull þrástef þar sem öll hljóðfærin öskra af öllum lífs og sálar kröftum. Galina Ivanovna Ustvolskaya býr nú í hárri elli í Sankti-Pétursborg. Heimildir: Frans C. Lemaire, „Music in 20th Century Russia“, Boris Schwartz, „Music and musical life in Sovet Russia“, Elizabeth Wilson, „Shostakovich: a life remembered“, Ian McDonald, „Music under Soviet rule“, Mstislav Rostropovich, „Shostakovich“. RÚSSNESK HULDUKONA Höfundur er klarínettuleikari. E F T I R F R E Y J U G U N N L A U G S D Ó T T U R Tónskáldkonan Galina Ustvolskaya er ein þeirra listamanna sem bjuggu við harðsvíraða ritskoðun kommúnistaflokksins. Hér er sagt frá ferli hennar og tónlist en næsta föstudag verður frumflutt á Íslandi klarínettutríó eftir hana í Iðnó. Galina Ustvolskaya náði ekki eyrum hins vestræna heims fyrr en á áttunda áratugnum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.