Lesbók Morgunblaðsins - 29.11.2003, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 29.11.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. NÓVEMBER 2003 ÞAÐ SEM mér fellur best við frímerki er að þau sem eru gölluð eru dýrmætust“ (326). Það er Peder, sonur frímerkjasalans Oscars Miil, sem trúir bestu vinum sínum, þeim Barnum og Vivian, fyrir þessu um leið og hann sýnir þeim gult frímerki sem átti að vera grænt en er vegna galla síns verðmætara en öll þau grænu til samans. Orð Peders hitta vini hans í hjarta- stað því þau þrjú tilheyra „gallaða“ fólkinu; fólkinu sem er öðruvísi, oft einmana og þjáð og þarf að þola stríðni, áreitni og útilokun – ef það dæmir sig ekki bara sjálft úr leik og lokar sig inni. Og það eru ekki bara þau þrjú sem fylla hóp hinna „gölluðu“ heldur má segja að allar að- alpersónur Hálfbróðurins tilheyri hópnum; ef þau bera „galla“ sinn ekki utan á sér þá hafa þau verið særð djúpu sári sem markar alla þeirra tilveru. Þau eru buguð, bækluð, hálf en þrá að vera heil, eins og er margítrekað í frá- sögninni. Það er Barnum, sem er sögumaður bókarinn- ar og segir okkur örlagasögu fjölskyldu sinnar og vina og frásögn hans spannar áratugi og margar kynslóðir. Hér er sem sagt um að ræða breiða epíska frásögn um kjör manneskjunnar í hverfulum heimi; heimi sem er þrátt fyrir allt hægt að vera hamingjusamur í – eins og Barn- um segir á einum stað - „það var bara svo óvanalegt og vöndur hamingjunnar kom sífellt á mann fáti.“ (406-7) Barnum hefur erft „galla“ föður síns, Arnolds, en báðir eru þeir óvenju- lega litlir. Þegar við bætist að Barnum er skrýddur ljósum krullum sem vaxa beint út í loftið er hann dæmdur til þess að þola sífellt fikt eldri kvenna í hárinu og þarf að sýna skilríki til að komast inn á bíó og fá afgreiðslu í ríkinu, fram eftir öllum aldri. En fyrst og fremst þarf Barnum að þola stríðni skólasystkinanna og sí- felldar athugasemdir hinna fullorðnu um hæð sína og um hið óvenjulega nafn sem hann ber og faðir hans valdi í trássi við bæði móður og prest: „Ég hef verið kallaður snáði, dvergur, písl, vett- lingur, þumall, splæs, tossi, pípuhreinsari og sviginn eins og nafnið mitt sé ekki meira en nóg að bera“ (219) segir Barnum og tilvísanir til þessa ágalla hans er eitt af þeim leiðarstefjum sem hljóma út alla frásögnina. Það má því segja að einum þræði fjalli sagan um mikið hitamál í umræðu á Íslandi í dag, einelti og áhrif þess á þá sem fyrir því verða. Saaby Christensen hefur sagt frá því að upp- haf sögunnar hafi verið það að hann langaði til að skrifa sögu um þrjár konur (sjá viðtal í bóka- blaði Morgunblaðsins 24. nóvember síðastlið- inn). Konurnar þrjár eru móðir, amma og langamma Barnums. Þær búa saman á Kirkju- veginum í Osló og eru kynntar fyrir lesand- anum þann 8. maí 1945, friðardaginn sem mark- aði endalok síðari heimstyrjaldarinnar. Á þeim degi gerist atburður sem á eftir að setja mark sitt á líf fjölskyldunnar það sem eftir er. Unga konan, Vera, er að ná í þvott uppi á þurrklofti, hún er að flýta sér og hún er „barmafull af sér- stakri gleði“.Hún er á leiðinni út í lífið með vin- konum sínum til að halda upp á friðinn. Vera er tæplega tvítug og líf hennar er að hefjast ein- mitt núna, eftir fimm ára stríð og myrkratjöld. Á þessum tímamótum er ráðist aftan að henni, „síðustu skref stríðsins“ hljóma í fótataki að baki Veru sem á sér einskis ills von og hún sér aldrei andlit nauðgarans heldur bara hendur hans og á aðra höndina vantar fingur. Saga Barnums á upptök sín í þessum ofbeldisglæp, en ávöxtur hans er hálfbróðir hans Fred, sem fæðist níu mánuðum síðar í leigubíl og var nefndur af leigubílstjórnum í höfuðið á friðinum sem hélt innreið sína í landið þegar hann var getinn. Í nafni Freds býr að sjálfsögðu írónía en einnig sátt móðurinnar sem elskar barnið sitt hvernig sem uppruna þess var varið. En sáttin nær ekki til persónuleika drengsins sem „sefur órólega, eins og hann sé þegar með martröð, tveggja daga gamall, hann grenjar hærra en öll hin börnin þegar hann er vakandi, kreppir litlu hnefana svo þeir verða eins og rauðar kúlur“ (93). Drengnum er haldið frá móður sinni fyrstu dagana á meðan möppudýrin plotta að láta ætt- leiða hann í burtu án þess að hafa móðurina með í ráðum. En það er langamma barnsins, Sú Gamla, sem kemur í veg fyrir það og loksins þegar drengurinn er lagður við brjóst móður- innar þagnar hann, en hún fær engu að síður á tilfinninguna að hann kunni ekki við sig (94). Fred grætur ekki meira eftir að heim er komið, hann liggur og „bíður og starir upp til móður sinnar með „dimmri ró“. Þannig leggur höfund- urinn grunninn að hinni myrku titilpersónu verksins sem mestanpart frásagnarinnar er fjarverandi, ef ekki beinlínis horfinn í lengri eða skemmri tíma í senn, þá einhvers staðar til hlið- ar, þögull, í skugganum, í sjálfsskipaðri ein- semd: Reiður, hættulegur og ógnandi, en einnig brothættur og viðkvæmur. Nafn hans ber einn- ig merkinguna „voldugur“ og einmitt þannig er hann innan frásagnarinnar; hann heldur kon- unum þremur og litla hálfbróður sínum (sem bæði lítur upp til hans og óttast hann) í nokkurs konar gíslingu með nærveru sinni einni saman, en þó enn fremur með fjarveru sinni, en sú lengsta varir hátt á þriðja áratug. Ólíkt Fred á Barnum sér föður, Arnold Nil- sen, sem sólskinsdag einn kemur rúllandi á fjór- um hjólum glæsilegs blæjubíls inn í líf þessarar litlu fjölskyldu sem samanstendur af þremur konum og einum þöglum dreng og tekst að fá hina beygðu Veru til að hlæja. „Hjólið“ er reyndar það tákn og viðurnefni sem fylgir Arn- old allt frá því hann var barn á hinni vindasömu eyju Röst sem liggur útundan norðurjaðri Nor- egs. Þar rúllaði hann sér í formi lifandi hjóls á ofsahraða niður grasi gróna brekku, fram af klettum og ofan í sjó. „Ég ætla að selja vind!“ svarar hann þeim sem spyrja hvað hann ætli að verða þegar hann verður stór og uppsker hlátur allra nema föður síns sem skammast sín fyrir sinn undarlega smávaxna son. En vindinn er einmitt hægt að selja ef hann fer fyrst í gegnum hjólspaða vindmyllunnar og „hjólið“. Arnold Nilsen á eftir að selja margan vindinn áður en nokkurs konar hjól verður honum að bana langt fyrir aldur fram. Arnold er unglingur þegar hann strýkur burt af eyjunni og finnur sinn samastað í Sirkus Mundus, þar sem hann kynn- ist meðal annarra Íslendingnum Pétursson, stærsta manni í heimi, sem þar er til sýnis. Af sirkusstjóranum lærir Arnold orðatiltæki sem hann gerir að lífsmottói sínu: „Mundus vult de- cipi. Ergo dicipatur“: Heimurinn vill láta blekkja sig. Þess vegna skaltu blekkja hann. Arnold gerir blekkinguna að listgrein sinni og hikar ekki við að blekkja sína nánustu jafnt sem ókunnuga. Kannski er það Fred sem sér best í gegnum þennan stjúpföður sinn sem hann hat- ar frá fyrstu stund. Arnold staglast á þessu mottói við son sinn Barnum og endurtekur það í mismunandi tilbrigðum: „Það er ímyndunarafl- ið sem er mest af öllu!. Því það sem þú sérð er ekki mikilvægast. Það er það sem þú heldur að þú sjáir!“ (122) „ - Breiddu út orðróm og sáðu efa, Barnum [...] enginn trúir þér hvort eð er, [...] Og þar fyrir utan er sannleikurinn leiðinleg- ur.“ (235) Barnum meðtekur boðskap föður síns og uppfyllir líka þá merkingu sem býr í hinu und- arlega nafni hans. Einnig það á rætur sínar að rekja til veru Arnolds í sirkusnum. Sirkusstjór- inn hefur orðið: „ – Barnum var konungur Ameríku, Arnold. Hann var meiri en Alexander mikli og Napó- leon til samans! [...] Því Barnum gerði heiminn að sínum sirkus! Öll veröldin var hringleikahús hans og sjálfur himinninn var tjaldið sem hann spennti yfir okkur! [...] Barnum vildi gera fólk hamingjusamt, hvíslar hann, hann vildi láta það hlæja, hrylla sig, gapa og dansa!“ Skáldskapurinn er ofinn úr ímyndunarafli og Barnum sér skáldskapinn sem möguleika til að stækka, til að komast upp úr sjálfum sér og sem leið til að höndla fjölskyldu sína og taka hana til sín. Og hann ætlar að taka útgangspunkt í fjar- verunni sem kemur svo víða við sögu fjölskyld- unnar. Langamman, Sú gamla, átti unnusta sem hvarf í ísinn á Grænlandsjökli áður en þau náðu að giftast en eftir að hann gat með henni dótturina Bolettu. Biðin eftir honum varð löng og tryggðapanturinn, bréfið frá Grænlandi, er einn af helgigripum fjölskyldunnar. Amman, Boletta, gefur aldrei upp hver er faðir dóttur hennar, Veru, einnig hann er fjarverandi og óþekktur eins og faðir Freds. Jafnvel Arnold er fjarverandi oft á tíðum og engin veit hvar hann er eða við hvað hann vinnur. Það vantar á hann aðra höndina (reyndar missir hann fyrst aðeins einn fingur, sem er staðreynd sem tengir hann á óhugnanlegan hátt við nauðgara Veru) og vafalaust lýgur hann því að hann hafa misst hana í stríðsátökum. Æskuvinkona Veru, gyð- ingastúlkan Rakel, hverfur í stríðinu og fjar- vera hennar markar líf Veru djúpum sporum og hún ber á fingrinum hring sem Rakel gaf henni í skilnaðargjöf. Fjarveran getur einnig tekið á sig mynd málleysis, eins og í tilviki Veru sem talar ekki eitt einasta orð meðan hún gengur með Fred, og Freds sem sjálfur segir ekki orð í marga mánuði eftir að hann hefur orðið fyrir áfalli. Fjarveran tengist þó allra helst Fred, eins og áður segir, og það er þessi fjarvera, þetta tóm sem Barnum ætlar að fylla með ímyndunaraflinu: „Fjarvera. Ég vissi hvað ég ætlaði að skrifa, en ekki í hvaða röð. Það er þetta sem er frá- sögnin: Röðin, atburðarásin, það sem kemur næst, bjöguð rökfærsla sem snýst ekki um or- sök og afleiðingu, heldur annars konar mennsku, ljóðrænt tímatal. Ég var ekki orðinn nógu stór fyrir þetta verkefni. Ég varð að vaxa með því, teygja úr mér, upp fyrir umboð mitt, verða sjálfum mér ofjarl. Ég ætlaði að fylla upp í fjarveruna og á þann hátt hefja hana upp“ (508). Í vissum skilningi er verk Saabye Christen- sen hringleikahús Barnums, sirkus þar sem hann heldur um alla þræði og stjórnar af list. Og við að lesa svona bók hlýtur lesandinn að verða hamingjusamur; hann hlær, hryllir sig, gapir og dansar – allt eftir höfði mikils sagna- meistara/sirkusstjóra. En sagnalist Barnums einskorðast ekki við hið prentaða orð, hann er nútímamaður og list- form hans er kvikmyndin. Barnum skrifar kvik- myndahandrit og í upphafi verksins er hann staddur á kvikmyndahátíð í Berlín, þar sem hann drekkur sig haugafullan umboðsmanni sínum og vini, Peder, til mikillar hrellingar. Alkóhólismi er reyndar einn af fylgifiskum móðurleggs fjölskyldu Barnums. Sú Gamla drakk Malagavín af mikilli list, Boletta stundar krána Norðurpólinn af kappi á sínum efri árum (þar er bjórinn ískaldur) og Barnum er korn- ungur þegar hann uppgötvar hæfileika áfeng- isins til að lyfta andanum og fá líkamann til gleyma kröm sinni. En lýsingin á því þegar Barnum vaknar timbraður á hótelherbergi í Berlín er ekki fögur, andinn í ræsinu og lík- aminn engist í kvöl. Eftir hægan þjáðan bata (lesist: afréttara, sund, gufubað og fleiri afrétt- ara) er hann tilbúinn til að fara á fund með um- boðsmanninum, tveimur Dönum og Englend- ingi – og þá hefst stórkostleg paródía á yfirborðsmennsku kvikmyndageirans. Kvik- myndaframleiðendurnir eru „á fertugsaldri, í klæðskerasaumuðum jakkafötum, með sólgler- augu í brjóstvasanum, tagl, hring í eyranu, stór- an maga og þröngan sjóndeildarhring. Þeir voru nútímamenn.“ (23) Þeir eru hrifnir af handritum Barnums en vilja leggja inn pöntun: Þeir vilja „Rainman mætir Haustsónötunni“, eða „Miss Daisy mætir Sölumaður deyr“. Barn- um býður þeim klámmynd með aristótelískri uppbyggingu að fullnægingunni: „Nóra mætir Deep Throat,“ en þeir strunsa af fundi. Barnum getur ekki svarað kalli manna sem hafa þröngan sjóndeildarhring en hann á tilbúið handrit í fórum sínum. Það heitir Næturmað- urinn og er ef til vill annað orð yfir Hálfbróð- urinn. Það er Sú Gamla sem segir Barnum sög- una af Næturmanninum sem gróf dauða hesta inn í hæð í Stensparken í Osló. Þar er gott út- sýni yfir borgina og þar sitja Barnum, mamma hans, amma og langamma hans stundum og njóta útsýnisins, ofan á fjalli af dauðum hestum. „Það eru of margir næturmenn í fjölskyldunni okkar,“ hvíslar Sú Gamla að Veru þegar hún er að reyna að kalla hana til baka úr mállausu áfalli sínu. Síðar segir hún við Barnum að hann sé ekki næturmaður eins og Fred, en hann bregst reiður við því öðrum þræði þráir Barnum að geta samsamað sig stóra bróður sínum og kvöl hans sem hann skynjar vel og þráir að skilja. En kvikmyndahandritið Næturmaðurinn kem- ur ekki fyrir augu lesanda í þessari bók (nema þá í formi skáldsögunnar Hálfbróðurins). Hins vegar er hér að finna stutta kvikmyndhandritið Fitun, sem er frumsmíði Barnums á sviði hand- ritagerðar og er kostuleg útfærsla á reynslu hans af því að svelta sig og vera síðan sendur í sveit til fitunar, um leið og titill þess og efni er mótmynd við Sult Hamsúns sem kemur nokkuð við sögu. Síðara handritið nefnist Víkingurinn og er sprottið upp af tilraun Barnums og Ped- ers til að skrifa „norðra“ með Íslendingasög- urnar sem viðmið. Allur þessi þáttur sögunnar minnir grunsamlega á myndir Hrafns Gunn- laugssonar án þess að það sé ljóst hvort höf- undur sé hér meðvitað að vísa til þeirra. Hálfbróðirinn er sem sagt ekki bara klassísk epísk frásögn, heldur tekur hún mið af samtím- anum og Barnum sækir sínar hetjur og fyr- irmyndir til hvíta tjaldsins fyrst og fremst: Humphrey Bogart, James Cagney, Mickey Rooney náðu langt og höfðu kvenhylli þrátt fyr- ir að vera lágir í loftinu! Tilvísanarammi sög- unnar nær hins vegar langt út fyrir kvikmyndir og samtímann og teygir sig aftur til þöglu myndanna og klassískra bókmennta eins og áð- ur er fram komið. Á friðardaginn hendir Sú Gamla (sem var kvikmyndastjarna á tímum þöglu myndanna) ritverkum Hamsúns á bálið því hann er svikari, en mörgum árum síðar eru verk hans aftur sett upp í hillu, því þrátt fyrir svikin er hann sagnameistari. Þessi afneitun og endurupprisa Hamsúns er kannski táknræn fyrir glímu höfundar við þennan stóra áhrifa- vald, því fáa höfunda hefur Saabye Cristensen oftar verið líkt við en einmitt þennan norska meistara. Lars Saabye Christensen hlaut Bókmennta- verðlaun Norðurlandaráðs fyrir Hálfbróðurinn og er sá heiður vissulega verðskuldaður því hér er um að ræða norræna sagnalist eins og hún gerist best. Þýðandinn, Sigrún Kr. Magnús- dóttir á mikið lof skilið fyrir að miðla þessum skáldskap í öllu sínu listræna veldi yfir á ís- lenskt mál. Hálfbróðirinn er skáldverk sem unnendur góðrar sagnalistar ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Eini galli þess er að það er ekki lengra. Morgunblaðið/Fríða Björk Saabye Christensen ásamt þýðanda Hálfbróðurins Sigrúnu Kr. Magnúsdóttur. „ÍMYNDUNARAFLIÐ ER MEST AF ÖLLU“ Soffía Auður Birgisdóttir SKÁLDSAGA Hálfbróðirinn Lars Saabye Christensen. Íslensk þýðing: Sigrún Kr. Magnúsdóttir. Mál og menning 2003, 598 bls.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.