Lesbók Morgunblaðsins - 31.01.2004, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 31.01.2004, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 31. JANÚAR 2004 Ég ætla að hefja mál mitt á ljóði sem heit-ir Ég hugsa um þig, en kom upphaflegaút árið 1981 í ljóðabókinni RóbinsonKrúsó snýr aftur. … ég hugsa um þig sem snerist gegnum lífið á sjötíuogáttasnúningahraða svo drusluleg að dagarnir pass’ekki lengur á þig frekar en litlu úlpurnar frá því á róluvellinum ég hugsa um þig innanum brúna kandísmola minninganna sem ég játa að oft eru svartar sem lakkrís um þig þegar sandkassinn var hollívúdd og litlu plastbílarnir í fullri alvöru draumsins keyrð’ okkur inn á snotur heimili úr upplýstum auglýsingum tímaritanna sem tannlæknirinn geymdi á biðstofunni ég átti appelsínugula einbýlishúsið á snobbhill ég hugsa um þig er við gengum fjöruna og horfðum feimin á notaða smokkana á niðurbrotin skipin sem aldrei átt’eftir að sigla á bömmer um höfin og voru í hæsta lagi athvarf smyglara og bólugrafinna stráka sem fróuðu sér í ryðguðum lestunum á fyrsta sjens í huganum og fúnar spýtur og geðveikrahælið gult og eyjan græna þar sem klaustrið bíður enn eftir munkunum sem eru fyrir löngu farnir og koma aldrei til baka nema stundum dulbúnir sem túristar ég hugsa um þig í stigagöngum blokkanna í þokumóðu sjoppunnar sem var frelsið utan girðingarinnar sem frímínúturnar lokuðu okkur inní um þig þegar veturinn kynti kaldar sígarettur á milli okkar þig í sjoppunni og hetjur kalda stríðsins í klámfengnum stellingum erótísk blöðin í glugganum sem gerðu miðstöðvarklefann mystískan þegar við pössuðum að enginn heyrði kossana sem hljómuðu einsog skothvellir á milli okkar ég var hans þú varst gréta nornin var konan á næstu hæð ég hugsa um þig sem hélst þig geta djókað með dagana sem síðar reyndust grafalvarlegir og gáfu sig fram einsog gangsterar á miðsvetrarprófunum sem héngu einsog könglóarvefur í slaufum tíkarspenanna og lögðust yfir burstaklippt höfuðin á eilífum bömmer í ræðum skólastjórans það var einsog að teika tímann að ætla að gera allt á mogun fyrr eða síðar lentirðu undir hjólum hans ég hugsa um þig sem gerðir mistökin aldrei af öðru en miskunnarleysi gagnvart sjálfri þér svo hrukkótt í framan svo sljó í voðfelldum draumi um göturnar einsog vindsæng sem loftið hefur yfirgefið og ég hugsa um mig sem sný mér undan þessu andliti á stoppustöðinni einsog sannleikanum einsog minningu sem ég hef grafið með ljósbláan miða milli fingranna á leiðinni þangað sem notuðu smokkarnir niðurbrotnu skipin og geðveikrahælið gult bíða þín enn á sextánsnúningahraða gegnum líf sem safnar baugum í svefni Ég er stundum allt of fljótur að segja já. Safnið um mig. Góð hugmynd. Ég segi já við Skúla á Skriðuklaustri þegar hann hringir í febrúar. Nú, ekki fyrr en í október. Ég hlýt að redda því. Og strax sé ég fyrir mér stóra höll, þar sem ráðamenn framtíðarinnar klippa á borða. Hé- gómagirnin gýs upp í mér, öll verðlaunin, bæk- urnar, umsagnir úr erlendum blöðum. Það hlýtur að verða flott, bæði erindið og safnið. Nei, er ekki betra að safnið sé lítið og snyrti- legt, hlýlegt og vingjarnlegt. Barnabækur, plötuumslög, nútímaljóð. Plútóblýantar, pennar, allt týnt og tröllum gefið Já, kannski er hægt að breyta bílskúrnum þar sem ég hef vinnustofu í safn, en þar kemst bara ekkert fyrir nema það sem þar er. Hann er fullur af bókum og pappírum. Bíllinn hímir einmana úti í kuldanum. Alla vega hugsa ég: Ég hlýt að klóra mig fram úr þessu. Svo líður tíminn og það er fyrst þegar ég fer að þreifa á málinu í alvöru að ég geri mér ljóst að hugmyndin er nokkuð hrollvekjandi. Ég á við að söfn koma vanalega til skjalanna löngu eftir að menn eru dauðir. Ég þarf því að ímynda mér að ég sé dauður, en ef ég væri dauður gæti ég ekki ímyndað mér neitt. Sjálfum finnist mér ég líka vera á besta aldri, ekki nema 49 ára eða rétt rúmlega fer- tugur. En segjum svo að ég sé nú þegar orðinn safngripur. Það myndi þýða tvennt: Annars vegar að ég væri rosalega merkilegur en hins vegar að minn tími væri liðinn, að engra nýjunga sé frá mér að vænta, ég gæti hengt mig upp einsog gömul jakkaföt, áhugaverð en ónothæf. Það er auðvitað staðreynd að höfundar nú- tímans eru mislengi að koma ár sinni fyrir borð. Halldór Laxness talaði um að upphefðin kæmi að utan. Hann meinti að enginn tæki eft- ir manni heima fyrir fyrr en útlendingar kæmu auga á verðleika manns. Enginn er spámaður í sínu föðurlandi og svo framvegis. Þetta er sí- gilt en ekki algilt. Ég hef á hinn bóginn sagt að upphefðin komi að innan, og það þarf ekki að vera nein mót- sögn þarna á milli. Ég á við að bókmenntir heimsins eru í endalausum samræðum, sömu hugmyndinni skýtur upp á mörgum stöðum í einu, en það er í sjálfu sér ekki frægðin og framinn sem skera úr um innsta eðlið. Staðreyndin er að bókmenntir festa sig í sessi nokkuð óháð útbreiðslu þeirra. Minnumst þess að hinar sígildu bókmenntir Íslendinga voru fimmhundruð ár á leiðinni út fyrir land- steinana. Æðsti mælikvarðinn sem ég legg á bókmenntaverk er sá að eftir á getum við ekki hugsað okkur lífið án þeirra. Ísland væri öðru- vísi ef Heimsljós væri ekki til og enn líkjum við mönnum við Gretti Ásmundarson. Er hægt að hugsa sér Danmörku án H.C. Andersen? Eng- land án Shakespeares og Bítlanna? Þegar ég segi að upphefðin komi að innan þá meina ég að sjálfsögðu að það er sjálfur sann- færingarkraftur sköpunarinnar sem ræður úr- slitum. Hitt er síðan alveg rétt að ef höfundur í nútímanum kemst ekki í lifandi samræður við önnur málsvæði í gegnum þýðingar þá á hann auðvitað á hættu að njóta ekki sannmælis heima fyrir og kemur því ekki til álita sem safn fyrr en eftir nokkra mannsaldra. Og þó. Það á ábyggilega eftir að búa til safn tengt Þórbergi Þórðarsyni og á fæðingarstað hans í Suðursveit er þegar hafin ferðaþjónusta tengd honum og verkum hans. Þó er Þórbergur sjálf- sagt sá höfundur okkar sem er illþýðanleg- astur og ekki nokkur leið að halda því fram að upphefð hans hafi komið að utan, þó með þeirri undantekningu að hann hafði það embætti að vera skrímslafræðingur hennar hátignar Bretadrottningar. En talandi um söfn og safngripi: Einhvern veginn líður tíminn með þeim hætti að margt sem maður á mínum aldri hefur lifað eru orðn- ar hálfgerðar fornminjar og efni í góða safn- gripi. Sjöundi áratugurinn, til að mynda, er álíka fjarlægur og Rómaveldi, og söfn hér í bænum hafa einmitt verið að setja upp sýningar um þann áratug, búa til unglingaherbergi og eld- hús, sem heyra sögunni til en eru þó ótrúlega nálægt í tíma og rúmi. Þá hafa menn verið að koma upp poppminja- safni í Keflavík og flestir sem það snýst um eru sprelllifandi, jafnvel enn að gefa út plötur. Ný- látnir listamenn eða lifandi hafa einnig verið á yfirlitssýningum. Lífið er ekki bara „Who wants yesterdays papers“ heldur eru blöðin frá því í gær strax orðin saga. Sérhver ný tíska byggist á að endurvekja gamla tíma og í listum vakna eldri tímabil með reglulegu millibili. Haruki Murakami endur- lífgar Richard Brautigan. Jorge Luis Borges gerir forna íslenska sagnalist að efnivið í nú- tímabókmenntir. Futurisminn rís upp í pönk- inu og surrealismi dagsins í dag er frekar hversdagslegt raunsæi. Hina sígildu húsmóður væri hægt að taka, stoppa upp og setja í glerbúr, og jafnvel jafn- réttiskonurnar sem veltu henni úr sessi, þær eru líka orðnar safngripir og mikið af bók- menntunum sem skráðar voru undir þeirra merkjum frekar úreltar. Ég átti ljósgrátt plastsverð með kínversku keisarahöfði; ég myndi hengja það upp á vegg. Ég átti Zorro í átta bindum; ég myndi raða þeim í hansa- hillu. Ég átti Enid Blyton, Ármann Kr., Oliver Twist og Vesalinga Hugos. Ég átti Kardamommubæinn á grammófónplötu en engan grammófón. Ég átti teygjubyssu, svarta rúllukragapeysu og fótbolta sem einn góðan veðurdag hvarf undir strætisvagn. Úr ljóðinu sem prentað er hér í upphafi er geðspítalinn enn á sínum stað, og eyjan græna, en þar er ekkert klaustur, bara kirkja, og nið- urbrotnu skipin í fjörunni eru löngu horfin og eflaust smokkarnir líka. Sögurnar eru kannski alltaf þær sömu, en umhverfið breytist stöðugt. Þegar ég var að alast upp nutum við mikils frelsis, höfðum að- gang að hafinu, fjörunni og skipunum, en nú er búið að byggja fyrir allt, lagera, vöruhús, gámahafnir og svo framvegis. Þá kemur spurningin: Varðveitum við sög- una sem hverfur í menningunni? Geymist hún á safni? Fortíðin verður aldrei til nema sem endursköpuð í minningunni. Menningin er með þeim hætti ákveðin miðlun á minningu, sem er viðhaldið með listsköpun og fleiru. Söfn eru auðvitað til vitnis um að eitthvað sé horfið. Sumir staðir verða líka einsog söfn, yf- irgefin sjávarþorp á Vestfjörðum, nú eða frí- ríkið Kristjanía í Kaupmannahöfn, þar sem maður gengur úr einum veruleika inn í annan. Á slíkum stöðum þarf enga safnverði, þar er það veruleikinn sjálfur sem hefur breytt sér í safn, ef svo má segja. Nú til dags er afar algengt að fólk rísi upp gegn breytingum. Það vill viðhalda þessum bletti, þessum stað. Spurningin er þá hvort framfarir séu að ganga á ákveðin verðmæti eða hvort hér sé um ákveðna fortíðarhyggju að ræða. Hlutirnir öðlast ekki merkingu fyrr en þeir eiga að hverfa. Og þá kemur spurningin: Er þá aðeins hægt að varðveita það sem var á safni eða í minningu menningarinnar? Ef ég væri safn myndi ég safna ryki … Ég sé fyrir mér auða ganga og sal þar sem tvær eldri konur rýna í handskrifuð blöð undir gleri. Og önnur segir: „Nú skrifaði hann svona illa.“ Þessar gömlu konur eru auðvitað ekki fædd- ar. Þú sem átt heima með eyju í hjartanu og víðáttur geimsins stétt undir iljunum: Réttu mér norðurljósin! Ég ætla að dansa við unglinginn sem heldur á stjörnunum. Við roðflettum myrkrið og afhausum eymdina. Söfn um höfunda. Við eigum söfn um höf- unda. Davíðshús á Akureyri, Gunnar Gunn- arsson á Skriðuklaustri og nú verður Gljúfra- steini, þar sem Halldór Laxness bjó, bráðum breytt í safn. Stundum er líka talað um höfunda sem safn- gripi. Svo eru auðvitað til höfundar sem eru einsog söfn, rykfallnir og gráir. Þegar við hugsum til dæmis um Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson þá höfum við vissa fjarlægð á líf þeirra; og einhvern veginn verður líf þessara höfunda samofið verkum þeirra. Það skyggir meira að segja á verkin með köflum. Þessir höfundar eiga báðir sitt ævintýri sem í rauninni er jafn spennandi og bækur þeirra; og varpar oft á tíðum ljósi á bækurnar. En hér erum við líka komin út í stöðu höf- undarins, sem á okkar tímum er kannski öllu hversdagslegri en hún var lungann úr síðustu öld. Ef við horfum á höfunda eins og Ernest Hemingway eða Jean-Paul Sartre þá eru þeir líka menn sem skyggja á verk sín. Hvort vilja menn rýna í The Short Happy Life of Francis Macomber eða þefa úr viský- flöskum Hemingways. Vilja þeir sjá veiðibyss- una hans og hattinn? Í Ameríku eru til samtök manna sem allir líta út einsog Hemingway í seinni hálfleik. Auðvitað fer áhuginn á verkunum og mönn- unum saman hjá okkur. Ef ég kæmi á Bítla- safnið í Liverpool myndi ég alveg vilja sjá greiðuna sem John Lennon notaði þegar hann var tólf ára. Bókmenntalega er þó áhugaverð- ara að rýna í I am the Walrus. Skoðum nú Sartre og Camus: Sartre, kaffi- húsabóheminn og baráttumaðurinn, sem alltaf var í fréttum og virtist lifa ótrúlega spennandi lífi, ritstýrði tímariti og sendi frá sér hverja bókina á fætur annarri. Camus í skugga hans, hógvær, hlédrægur, nema hvað hann dó með eftirminnilegum hætti, alls ekki jafn réttsýnn og Sartre, en nú á tímum þykir höfundarverk Camus mun áhugaverðara, hin persónulega heimspeki hans er ljóðræn og skáldleg og hitt- ir beint í mark. Alla vega les ég frekar Sýsífos- armýtuna en Veruna og neindina, en það segir kannski meira um mitt áhugasvið en þessi verk. Þeir höfundar sem hér eru nefndir eru af- kvæmi þeirra tíma þegar persóna höfundarins var miðlæg, ef svo má segja. Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson voru þjóðsagnakennd- ir menn. Þeir voru skáld. Þeir gengust upp í skáldahlutverkinu. Til þess var ætlast. Þeir voru skáld á stalli og áttu sér þannig rætur í hirðmannahefðinni. Eftir seinna stríð fer önnur tilhneiging að gera vart við sig. Höfundar reyna að greina líf sitt frá verkunum. Verkið verður til á sínum eigin forsendum. Günter Grass hefur verið talsmaður þessara sjónarmiða, en um leið er líf hans efniviður í helstu verk hans. Svo þetta er allt fullt af mótsögnum. Günter Grass byggði þessi sjónarmið sín ekki síst á Alfred Döblin, ráðuneytisstarfs- RITHÖFUNDUR „Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson voru þjóðsagnakenndir menn. Þeir voru skáld. Þeir geng- ust upp í skáldahlutverkinu. Til þess var ætlast. Þeir voru skáld á stalli og áttu sér þannig rætur í hirðmannahefðinni,“ segir í þessari grein þar sem höfundur veltir því fyrir sér hvernig safn um hann sjálfan myndi verða. E F T I R E I N A R M Á G U Ð M U N D S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.