Lesbók Morgunblaðsins - 07.02.2004, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 07.02.2004, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. FEBRÚAR 2004 7 R agnar Jónsson fæddist að Mundakoti á Eyrarbakka 7. febrúar 1904. Foreldrar hans voru Jón Einarsson og Guðrún Jó- hannsdóttir. Þau eignuðust fimm börn, Jóhann, Jónínu, Elínu, Gísla og Ragnar. Guðrún, einkadóttir foreldra sinna, var frá Mundakoti en Jón af Síðu í Skafta- fellssýslu. Hann kom á Bakkann til sjó- sókna, gerði auk þess skó fyrir fólk, og varð síðar útvegsbóndi og hreppstjóri með meiru, þótti einkar duglegur og stórhuga, en stilltur mað- ur. Hún var af Bergsætt, söngvin og gamansöm, þó ákveðin og þótti góður einhugur þeirra á milli. Heimili þeirra hjóna ein- kenndist af gestrisni, hjálpsemi og menningarbrag. Kvöldlestr- ar, kveðskapur, tónlist og annað sem stundað var á vökum heima í Mundakoti varð Ragnari tíðrædd og ljúf minning. Á Eyrarbakka sem um aldur var mikil miðstöð verslunar og athafnalífs á Suðurlandi og var svo enn á uppvaxtarárum Ragn- ars, bæjarbúar voru þá um 1.000, þar var öflugt félags- og menningarlíf, tónlist svo sem kórar og hljóðfæraleikur var með fjölbreyttasta móti, leikfélag og stúkur, prentsmiðja og þar var elsti barnaskóli landsins. Danskra áhrifa gætti mjög á bæjar- bragnum ekki síst fyrir áhrif Hússins sem með alþekktum myndarskap, gestrisni og fágaðri heimsmenningu og tónlist ekki síður en með viðskiptaháttum sínum mótaði bæjarlífið á Bakkanum og vítt um landið. Margt var um aðkomufólk bæði til róðra og verslunar, hafskip lágu við bryggju að ekki sé talað um fjöruna og mýrarnar. Staðurinn varð því gróskumikið at- hafnasvæði fyrir börn að alast upp í. Ragnar hleypti heimdraganum 16 ára og hélt til náms í Verslunarskóla Reykjavíkur þar sem hann var tvö ár. Strax að því námi loknu réð hann sig í vinnu sem skrifstofu- og starfs- mann hjá Smjörlíkisgerðinni Smára, þar sem hann síðar gerð- ist hluthafi og hefur verið við kenndur síðan. Þó að Eyrarbakki hafi verið líflegur, reyndist Reykjavík sá staður sem vel hæfði hrifnæmi og athafnaþrá Ragnars. Borgin var í örum vexti á öllum sviðum, aðfanga og framkvæmda, iðn- aður í uppsiglingu, nýjar starfsgreinar í mótun og mannlíf fjöl- skrúðugt. Strax í upphafi Reykjavíkurdvalar sinnar komst Ragnar í samband við lista- og menningarfólk, opnum og leitandi konum og körlum sem komu saman í heimahúsum til samræðna og listiðkunar, einkum voru það Guðrún, ekkja Þorsteins Erlings- sonar skálds og Erlendur í Unuhúsi sem komu þar við sögu. Þarna við ástundun frjórra umræðna um bókmenntir og listir, heimspeki og trúmál, kynntist Ragnar mörgum góðum félögum og samstarfsmönnum og konum sem síðar áttu eftir að hafa djúp áhrif á líf hans og framtíð, svo sem Halldóri Laxness, Þór- bergi Þórðarsyni, Nínu Tryggvadóttur og mörgum öðrum. Með þeim kynntist hann nánar klassískri tónlist, enda var þar hlust- að af grammófóni og plötuklúbbur stofnaður svo njóta mætti ferskrar tónlistar frá útlöndum á hagkvæmu verði. Án efa mest fyrir áhrif Erlendar og þeirra félaga í Unuhúsi eykst áhugi Ragnars og skilningur á listum, á aðstöðu listamanna og á list- sköpun yfirleitt. Menningarlíf var mjög að kvikna í Reykjavík á þessum árum, Alþingishátíðin 1930 var lyftistöng, þar sem stórsýningar voru haldnar, fjölbreytni í tónlist og leiklist þar sem erlendir tónlist- armenn voru fengnir til leiks ásamt þeim sem fyrir voru og stofnað var íslenskt útvarp. Vegna tengsla sinna við listamenn fór Ragnar að hafa af- skipti af menningarmálum og láta þar til sín taka; áhrif hans, eldmóður og framkvæmdagleði fóru að verka á hin ýmsu svið lista. Hann hefur efnast og er orðinn annar eigandi Smjörlíkis- gerðarinnar Smára. Tónlistarskólinn var nú stofnaður og Páll Ísólfsson, organisti og tónskáld, varð fyrsti skólastjóri. Tónlistarfélagið var stofnað 1932 fyrir tilstuðlan Ragnars og með tólf áhugasama tónlistar- unnendur, postulana svokölluðu, að bakhjarli. Tónlistarfélagið, sem hafði það að markmiði að vinna að framgangi tónlistar og rækta tónlistarsmekk landsmanna, fór hljótt en umbreytti þeim mun meiru í tónlistarlífi Íslendinga. Á þess vegum voru haldnar fjölmargir glæsilegir konsertar með úrvalstónlistarfólki bæði innlendu og erlendu sem jafn- framt treystu grunn Tónlistarskólans og Hljómsveitar Reykja- víkur og síðar Sinfóníuhljómsveit Íslands. Trípólíbíó, stór braggi vestur á Grímsstaðaholti, var keypt og rekið sem kvikmyndahús auk þess að þjóna til tónleikahalds. Tónabíó var síðar reist þar sem Tónlistarskólinn fékk fast aðsetur og er hann þar enn. Tónleikahald fór þá að mestu fram í Austur- bæjarbíói, sem Ragnar byggði ásamt öðrum og varð má segja fyrsti vísir að reglulegu tónlistarhúsi í höfuðstaðnum. Voru þar fluttir margir glæsilegir konsertar á vegum Tónlistarfélagsins sem og leiksýningar og revíur til styrktar leikhúsbyggingu o.fl. Á árunum fyrir heimsstyrjöldina síðari hafði Ragnar for- göngu um að hingað kæmu ýmsir ágætir tónlistarkennarar frá meginlandi Evrópu og fór sjálfur nokkrar ferðir til að ráða fólk til starfa. Fjárskortur var vissulega mikill við upphaf þessa metnaðar- fulla frumstarfs en þar var það ekki síst kraftur, bjartsýni og smitandi starfsgleði Ragnars sem gerði hið ómögulega mögu- legt. Hinir sömu eðlisþættir hans leystu líka úr læðingi þátt- töku margra annarra sem á ýmsan hátt með vinnu og oft bein- um fjárframlögum stuðluðu að því að útfæra mátti fjárfrekar framkvæmdir svo sem flutning á stórum hljómsveitarverkum eða óperum. Margir hinna erlendu listamanna sem hingað komu á vegum Tónlistarfélagsins urðu mikil uppörvun og stoð lágum gróðri tónlistarlífs okkar. Má þar einkum nefna tengdafeðgana Adolf Bush, fiðluleikara og tónskáld, og píanóleikarann Rudolf Serk- in sem bundust ævarandi tryggð við Ragnar, landið og þjóðina. Afskipti Ragnars af bókaútgáfu hófust að mestu í samvinnu við gamlan kunningja hans, Kristin Andrésson, með útgáfu Halldórs Kiljans, Heimsljósi. Þeirra leiðir skildu og það Helga- fell fór að mótast sem síðar gaf út alla helstu höfunda samtím- ans hér á landi, þ.á m. Halldór Laxness, Tómas Guðmundsson, Davíð Stefánsson, Gunnar Gunnarsson, Þórberg Þórðarson, Steinn Steinarr en þar urðu verk Halldórs Laxness veigamikill þáttur. Þegar Halldóri voru veitt Nóbelsverðlaunin 1955 í Stokkhólmi var Ragnar þar viðstaddur. Það sem einkum einkenndi útgáfu Ragnars var mun stærri upplög bóka en áður höfðu tíðkast og það að rithöfundar fengu mannsæmandi laun fyrir vinnu sína, sem var nánast óþekkt á þeim tíma og olli fjaðrafoki á útgáfumarkaðnum. Það var hin afgerandi afstaða hans til sköpunar og aðstöðu listamanna, vinátta hans við þá og náin kynni sem gerðu að þessi forgangsröð um kaup og kjör rithöfunda varð grunnatriði og eðlilegur útgangspunktur. Ragnar bryddaði upp á mörgum öðrum nýmælum í útgáfu sinni. Þekkt er útgáfan á myndskreyttum Íslendingasögunum á nútímastafsetningu sem mikill styr stóð um á sínum tíma, auglýsingar hans skáru sig úr að frumleika og ný stétt auglýsingahönnuða fékk verksvið, vasabókaútgáfa hans varð með þeim fyrstu hér á landi, útgáfa á vönduðum eftirprent- unum þekktra myndverka eftir helstu myndlistarmenn þjóð- arinnar, útgáfa stórra vandaðra myndlistarbóka með verkum viðurkenndustu listamanna landsins í mjög stóru upplagi, svo mætti fleira telja. Tímaritið Helgafell, síðar Nýtt Helgafell, frjálslynt menningartímarit varð veigamikið í menningar- umræðu síns tíma og opinn vettvangur öllum rithöfundum og listamönnum án tillits til stjórnmálaskoðana. Nýjung þess var ekki síst hin prentuðu myndverk og myndskreytingar sem prýddu ritið. Á þeim tíma sem bókaútgáfan er að hefjast skilja þau Ragn- ar og Ásfríður. Ung kona úr Reykjavík, Björg Ellingsen, kem- ur þá inní líf hans og giftu þau sig 1938. Þau bjuggu lengst af í fjögurra herbergja íbúð vestur á Melum, fluttu á þeim tíma þegar þau hverfi voru að byggjast upp. Börn þeirra urðu Erna María, Auður Guðrún og Jón Óttar. Björg, fædd 1916, er önnur kynslóð Norðmanna hér á landi, yngsta barn hjónanna Maríu Ellingsen og Othars Ellingsen skipaverkfræðings sem komu ung til landsins þar sem hann var nýráðinn forstjóri Slippsins, síðar eigandi Verslunarinnar O. Ellingsen. Björg hafði mennt- ast í snyrtifræðum hér heima auk náms í Þýskalandi og Dan- mörku. Hún rak um tíma eigin stofu „Snyrtistofu Bjargar Ell- ingsen“ í Austurstræti og gekk sá rekstur vel. Glæsileiki hennar og hrífandi látleysi vakti verðskuldaða athygli á þessum árum þar sem hún brá sér rösklega yfir miðbæjargötuna á hvít- um snyrtisloppnum. Hún tók svo þá stefnu eins og margar af hennar kynslóð að hverfa frá eigin verksviði og frama, gerðist húsmóðir heimilis þeirra og varð umfram allt mikilvirk stoð og stytta Ragnars í umsvifamiklum erindum hans og lífsstarfi. Hann var hrifnæmur, hún föst fyrir, þó hugsjónarík sem hann og listelsk. Saman mynduðu þau heild sem bar uppi lífsstarfið svo það fengi borið ávöxt. Heimili þeirra sem einkenndist af gestrisni og opnu viðmóti varð hispurslaust athvarf hárra sem lágra, fáir fóru þaðan erindisleysu án þess um það væri spurt frekar. Útivera og öræfaferðir voru líka sérstakt áhugamál beggja hjónanna og um árabil fór fjölskyldan hvert sumar í þraut- skipulagðar ferðir á jeppanum um fjöll og dali landsins þar sem ákveðnar afmarkaðar slóðir voru kannaðar, gist í tjöldum og sæluhúsum. Sumarbústaður fjölskyldunnar í Grímsnesinu var vel nýttur ekki síst til útivistar. Það kom ekki síst til kasta þeirra beggja þegar umfangs- mikið málverka- og listasafn, sem þau Ragnar höfðu eignast vegna náinna kynna hans af virtustu listamönnum samtíðar sinnar, var gefið Alþýðusambandi Íslands 1961, sem varð þar með stofninn að Listasafni ASÍ. Þetta safn rekur í dag blómlegt galleri á Skólavörðuhæð, í Reykjavík miðri, og listamenn þurfa ekkert að greiða fyrir að koma þar verkum sínum á framfæri né þurfa gestir að borga inngangseyri svo enginn þurfi frá list- inni að hverfa af þeim sökum. Má vissulega segja að þar sé sem á svo mörgum sviðum öðrum sýnilegur ávöxtur óeigingjarns og mikilvirks starfs þar sem góður grunnur var lagður. Þegar Listahátíð í Reykjavík var stofnuð, var grunnur henn- ar að mestu hinar ýmsu stofnanir sem að menningu lúta, en þar var að auki eitt nafn einstaklings, Ragnars Jónssonar. Kannski lýsir það betur en fleiri orð þessum glaða gjafara, listvini og al- þýðufræðara. Hann lét ekki sitja við orðin tóm, heldur gerðist sjálfur bakhjarl listamannanna. Og um leið og við virðum fyrir okkur afrakstur starfs hans getum við minnst þess að það er eðli þess sem slíkt gerir að biðja ekki um önnur laun en þau að fá að sjá blómskrúðið í kringum sig. Erna Ragnarsdóttir RAGNAR JÓNSSON Ragnar Jónsson í Smára hefði orðið hundrað ára í dag en hann var einn mikilvirkasti áhrifamaður í íslensku menn- ingarlífi á síðustu öld. Lesbókin birtir grein um ævi og störf Ragnars ásamt erindi sem hann flutti um samfélagslegt hlutverk lista og bréfi sem hann ritaði til Matthíasar Johannessen vegna útkomu samtalsbókar við Þórberg Þórðarson, Í kompaníi við allífið. Matthías ritar inngang að bréfinu. Ennfremur ritar Þorsteinn frá Hamri grein um Ragnar. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Afmælisbarnið Ragnar í Smára ásamt eiginkonu sinni Björgu Ellingsen á heimili þeirra 7. febrúar 1979.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.