Lesbók Morgunblaðsins - 07.02.2004, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 07.02.2004, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. FEBRÚAR 2004 5 halda heiftarglundroða frostjötna (Þurs) í skefjum. Þessar rúnir standa í ákveðnum skilningi fyrir dulvitandi sálarlífsöfl en sam- ræmi þeirra er forsenda reglu og jafnvægis. Við höldum, fyrir tilstilli innblásturs (Óss), inn í annan heim/niður í djúp sjálfsins (Reið) og snúum aftur hlaðin þekkingu og helguð guðlegu skipulagi (Kaun). Hagals- eða Heimdallarætt er öllu flóknari þótt einnig hún búi yfir söguþræði. Þegar mótlæti steðjar að (Hagall) verða menn að virkja ofurmannlegt afl hið innra (Nauð), sál- arkraft sem gjörir þeim fært að sigrast á erf- iðleikum (Ís), uppskera og afla lífsviðurværis (Ár), jafnframt því sem barist er til and- legrar endurlausnar (Sól). Þessar ættir lýsa skírn og sigurveldi en Týsætt kann að vísa á rétt líferni í samfélagi sem helgað er guðunum. Guðirnir bjóða upp á réttlæti og sigur (Týr), ódauðleika og hjálp á erfiðum stundum (Bjarkan), en til að svo megi verða hljóta menn að uppfylla skyldur sínar (Maður), sýna samfélagi sínu hollustu og beita kröftum sínum í þágu ljóss og friðar (Ýr). Rúnir í skáldskap Það gengur kannski goðgá næst að vitna til nútimaskáldskapar í þessu samhengi, en í skáldsögu Gunnars Gunnarssonar um land- námsmenn Íslands, Jörð, er að finna svip- aðan rúnaskilning og hér hefur verið lýst. Á fyrstu ferð Ingólfs Arnarsonar til Reykjavík- ur greinir hann á steinum og í gliti vatns hvað eftir annað rúnina Í, en reið eftir það undir sól á sömu för. Hin fyrsta ferð er farin undir táknum Íss, Reiðar og Sólar, í leit að tveimur sjóreknum súlum er táknuðu, mann með fugla á öxlum önnur, en hin mann á hjóli, með brotið spjót, líkan þrumufleyg, í annarri hendi og hamar í hinni. Seinna er sagt frá sýn Ingólfs landnámsmanns við spá- eld að vorblóti: „Ég sá Í, mína eigin rún; en einnig rún þessa lands, – ís, eld, háska. Sennilega einnig háskalega köllun. En hvað sem öllu líður: eyjartáknið. Ómögulegt að vísa því á bug. Og það því fremur, sem það var bundið, já, sam- anslungið F, fangrúninni, hamingjurúninni framar öllum öðrum, – fé, frjósemi, forræði, dýrmætir fundir, örugg framtíð, allt það, sem Freyr ann manni og fegurst er. Þetta Í og F og þannig samslungin, sem ég sá þau þessa nótt forðum í alvísu djúpi eldsins, munt þú finna rist, höggin, hömruð á ekki fáum stöð- um hér á Arnarhváli. Hver hlutur frá hendi föður þíns ber þetta tákn; nálega allt, sem ég hef átt, er merkt því! Hitt munt þú aftur á móti vart greina, að þar er einnig dulin dauðarún, sem eldhafið geymdi einnig, - rún fósturbróður míns. Þann dag, sem þú megn- ar að lesa hana, munt þú einnig skilja, að líf og dauði og hamingja er eitt; að enginn getur gengið lífinu á hönd án þess að vilja einnig dauðann…“ Heimsmynd rúna er vistfræðilegs eðlis, ólíkt kabalískum og kristnum töfrahefðum, því rekja má einstök rúnatákn til náttúru og náttúruafla, til ákveðinnar náttúrusýnar: Að lífið streymir hingað eins og af sjálfu sér, en skapar stöðugt nýjar myndir; kemur sjálf- krafa og er sjálfu sér líkt, er annað og nýtt, en þó samt við sig, líkt og alltaf áður; hvort sem er í hvínandi brjálæði norðlægra vetra eða grænloga suðræns sumars. Í þessu býr vitund um hjól sem ekki má bresta, bónda- hugsun, enda er sem náttúrumögn og guð- dómar renni saman. Bændur hafa alltaf vitað manna best að æ sér gjöf til gjalda, að mönn- um er óhollt að mæða jörðina með offrekju, láta sér þrútna metnað og níðast á eða fleyga hana stálum í ofstopa. Sá sem slíkt gjörir fær sköpum að mæta svo um munar. Rúnirnar kenna að maðurinn sé hvorki afl- miðja alheimsins né mælikvarði allra hluta, heldur hluti af ævarandi heild. Sé til fullkom- inn maður þá er hann í senn tré og eldur, árstíðir hver af annarri, – sá sem nú er, sem liðinn er og óborinn. Hann er samrunninn öllum tíma, er allt, og er það allt í einu, nú og hér, – töframeistarinn. Slík lífsvitund er jafn einföld og verða má, stöðugt ný og ævaforn, fólgin í vitneskju um að fræ, hverrar teg- undar sem það er, hlýtur að sökkva til jarðar, verða að öngvu í mold og myrkri, hætta að vera það sjálft og til, því fyrr klofnar það ekki til nýs og fjölbreyttara lífs. Þannig er því varið um jurtir sem menn. Náttúran elur af sér, eyðir upp, deyðir og fæðir í ævarandi hringrás; vex og gildnar, visnar og blæs út á nýjan leik. Þannig er það og ekki öðruvísi; þótt sól hverfi í vetur um sinn þá snýr hún aftur öðru sinni, af leyndum lindum rennur tíminn fram. Rúnameistarinn átti sér varla draum um dagskímu handan við allt, líkt og kristnir meinlætamenn, heldur lindir sem þessar, að laugast í þeim eftir funaskírn ragnaraka þá töflur finnast í grasi; og þetta væri ekki nýr heimur heldur sá gamli, eldi efldur til öflugra lífs, hinn nífaldi heimur guðsins sem skap- aður var hinn níundi á leið tilverunnar upp úr óskópni; sá sem maðurinn á sér þá þrá æðsta að samlíkjast. *** Við nemum ekki leyndardóm rúnanna með skýlausri trúartryggð, heldur í tvílýsu vit- undar, þegar augu blind af dauða bresta til sjónar um aðra heima. Slíkt táknmál felur í sér eitthvað sameigið og óhjákvæmilegt, milda og bitra eining, sem ekki verður af- máð, þótt hugur verði að þoku í þokum, hold að moldu og blóð að vatni í vötnum. Þá sem aldrei fyrr leiftra himinljós um manninn of- an, því dauði er skírsla, kraftbirting efstu einingar. Slík er heimspeki rúnanna, svona og öðruvísi ekki, heimspeki sem við nemum með innri hugan, bak við lukt augnalok; þeg- ar við leyfum hug okkar að leika á hvörfum og skyggnast um. Matthías Viðar Sæmundsson hefur á und- anförnum átján vikum birt flokk rúnalýsinga og tvær greinar um heimsmynd rúnanna og táknheim þeirra í Lesbók. Hann lést síðast- liðinn þriðjudag, þriðja febrúar, aðeins 49 ára að aldri. Lesbók þakkar Matthíasi Viðari samfylgdina en lesendur hennar hafa fengið að njóta skrifa hans mörg undanfarin ár. Neðanmálsgrein: 1 Edred Thorsson, 1987, bls. 140. Nokkrar heimildir sem tengjast greinaflokknum: Píslarsaga séra Jóns Magnússonar. Matthías Viðar Sæmundsson sá um útgáfuna. Mál og menning, Reykja- vík, 2001. E.M.Butler: The Myth of the Magus. Cambridge: At the University Press; New York: The Macmillan Comp- any, 1948. Björn Jónsson á Skarðsá: „Nockud lijted Samtak um Runer“. Lbs. 756, 4to, bl. 207. Hdr. skráð að mestu 1777, en til samanburðar haft Lbs. 636 4to, skráð að mestu ca 1750-1770. Sjá einnig Pál Eggert Ólason: Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. IV. Bókaverzlun Ársæls Árnasonar, Reykjavík 1926, bls. 279-284. Munnmælasögur 17. aldar. Bjarni Einarsson bjó til pr. Hið íslenzka fræðafélag, Reykjavík, 1955. Arngrímur Jónsson: Crymogæa. Þættir úr sögu Ís- lands. Jakob Benediktsson þýddi. Sögufélag, Reykjavík 1985. Cornelius Tacitus: Germanía. Páll Sveinsson íslensk- aði. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík, 2001. Einar Ól. Sveinsson: Íslenzkar bókmenntir í fornöld I. Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1962. D. Jason Cooper: Using the Runes. A comprehensive introduction to the art of Runecraft. The Aquarian Press, Northamptonshire, 1987. Francois-Xavier Dillmann: „Um rúnir í norrænum fornbókmenntum.“ Skírnir, haust 2000. Rudolf Simek: Hugtök og heiti í norrænni goðafræði. Ingunn Ásdísardóttir þýddi. Heimskringla, Reykjavík. Snorra Edda. Árni Björnsson bjó til prentunar. Ið- unn, Reykjavík, 1975, bls. 17-25. Edred Thorsson: Runelore. A Handbook of Esoteric Runology. Samuel Weiser, Inc., York Beach, Maine, 1988 (frumútg. 1987). Helge Ljungberg: Tor. Undersökningar I indoeuro- peisk och nordisk religionshistoria. Uppsölum, 1947. Bruce Dickins: Runic and heroic poems and the old teutonic peoples. Cambridge: at the University Press, 1915; Edred Thorsson, 1988, bls. 116-117. Anders Bæksted: Goð og hetjur í heiðnum sið. Alþýð- legt fræðirit um goðafræði og hetjusögur. Eysteinn Þor- valdsson íslenskaði. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Reykjavík, 1986. Finnur Jónsson: Goðafræði Norðmanna og Íslendínga eftir heimildum. Hið íslenska bókmentafjelag, Reykja- vík – MCMXIII). Richard Cleasby/Guðbrandur Vigfússon: An Ice- landic-English Dictionary. Oxford. At the Clarendon Press, 1957, og Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orð- sifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík, 1989. Gunnar Gunnarsson: „Örlög.“ Árbók 46-7. Helgafell, Reykjavík, 1948. James M. Peterson: The Enchanted Alphabet. A Guide to Authentic Rune Magic and Divination. The Aquarian Press, Northamptonshire, 1988. Einar Ól. Sveinsson: Íslenzkar bókmenntir í fornöld I. Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1962. Donald Tyson: Rune Magic. Llewellyn Publications, St. Paul, Minnesota, 1999. Carl G. Liungman: Dictionary of Symbols. W. W. Nor- ton & Company, New York, London, 1991, bls. 10-11. OG TÖFRATÁKN Morgunblaðið/RAX Við nemum ekki leyndardóm rúnanna með skýlausri trúartryggð, heldur í tvílýsu vit- undar, þegar augu blind af dauða bresta til sjónar um aðra heima. Slíkt táknmál felur í sér eitthvað sameigið og óhjákvæmilegt, milda og bitra eining, sem ekki verður afmáð, þótt hug- ur verði að þoku í þokum, hold að moldu og blóð að vatni í vötnum. Þá sem aldrei fyrr leiftra himinljós um manninn ofan, því dauði er skírsla, kraftbirting efstu einingar. Slík er heimspeki rúnanna, svona og öðruvísi ekki, heimspeki sem við nemum með innri hugan, bak við lukt augnalok; þegar við leyfum hug okkar að leika á hvörfum og skyggnast um.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.