Lesbók Morgunblaðsins - 13.03.2004, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. MARS 2004 11
Hversu geðveikur var Jón Magn-
ússon sem ritaði Píslarsöguna?
SVAR: Jón Magnússon ritaði píslarsögu
sína 1658–59, þá tæplega fimmtugur. Þar
greinir hann frá hremmingum þeim sem
hann hafði orðið fyrir til líkama og sálar og
rekur til galdramanna sveitunga sinna.
Þetta var á þeim tíma sem svonefnt galdra-
fár grúfði yfir Evrópu og teygði anga sína
til Íslands, einkum Vestfjarða. Munu Íslend-
ingar samt hafa verið heldur minni ákafa-
menn á þessu sviði en margar nágranna-
þjóðanna. Erfitt er að átta sig á hve mikil
ítök galdratrú átti í öllum almenningi á
þessum tíma. Ásakanir um galdra hafa
væntanlega stundum ráðist af átökum um
gögn og gæði fremur en trú á mátt
galdranna.
Í Píslarsögu Jóns Magnússonar greinir
höfundur með miklum tilþrifum frá aðsókn-
um ýmiss konar sem hann verður fyrir. Frá
sjónarhorni nútíma lesanda kemur sá heim-
ur sem þarna er lýst oft framandi fyrir sjón-
ir:
Oft var munnurinn til að finna svo sem
kipraður og kreistur út á aðra kinnina, svo
ég hugði andlitið mundi aflagast [...] Eftir
yfirlestur yngra Jóns sást venjulega ormur
uppi á pallfjölunum undir rúminu, sem ég lá
í og stundum sást hann hlykkjast og beygja
sig í kringum mig í rúminu.
Því er nærtækt að afgreiða lýsingar Jóns
sem afsprengi einhvers konar geðveiki eða
geðröskunar. Hins vegar þarf að greina á
milli spurningarinnar um það hvort Jón
Magnússon hafi verið geðveikur í þeim
skilningi að raunveruleikaskyn hans hafi
verið brenglað og hinnar hvort hann hafi
þjáðst af einhvers konar geðröskun án þess
að vera endilega geðveikur. Þetta tvennt er
alls ekki eitt og hið sama.
Það getur verið afar snúið að greina geð-
ræn vandkvæði eða geðraskanir fólks þó að
það sé enn á lífi og við getum beitt þeim
greiningar- og mælitækjum sem best eru og
aflað upplýsinga að vild. Oft er í þessu sam-
bandi einmitt notað orðið geðraskanir frem-
ur en geðsjúkdómar þar sem þekking okkar
á þessum erfiðleikum er oftast mun tak-
markaðri en sú þekking sem við höfum á
sjúkdómum. Með því er í engu gert lítið úr
þjáningum fólks sem á við geðræn vandamál
að stríða. En af þessu má ljóst vera að það
getur verið bæði varasamt og erfitt að
greina geðraskanir fólks sem bjó við hug-
myndaheim sem orðinn er okkur fjarlægur.
Sama gildir vitanlega þegar við reynum í
nútímanum að greina geðraskanir eða geð-
veiki hjá fólki sem kemur úr allt öðrum
menningarheimi en þeim sem við búum í.
Svo dæmi sé tekið getur það sem litið er á
sem þunglyndi lýst sér allt öðru vísi í Róm-
önsku-Ameríku en hér á Fróni. Menn lýsa
þar sums staðar hitatilfinningu eða eldinum
sem færi sig frá fótum upp eftir líkamanum
sem fræðimenn telja samsvara þunglyndi á
okkar slóðum. Engu að síður reyna gam-
ansamir menn að greina þunglyndi hjá Agli
Skallagrímssyni, andfélagslega persónuleik-
aröskun hjá Gretti Ásmundarsyni, oflæti Al-
exanders mikla eða hugvilluröskun hjá
Ágústi Strindberg.
Hvað varðar hinn síðastnefnda eins og
greint er frá í nýlegri bók um þennan skáld-
jöfur hafa svokallaðir fræðimenn ýmist full-
yrt að hann hafi þjáðst af geðhrifapersónu-
leikaröskun, geðklofagerðarröskun,
jaðarpersónuleikaröskun, alkóhólisma, heila-
skemmdum margskonar, geðklofa eða floga-
veiki. Það eitt hafa menn verið sammála um
að hann átti við alvarlega geðröskun að
stríða, og þessar ályktanir hafa menn dregið
af vitnisburði andstæðinga hans og skáld-
legu hugarflugi hans sjálfs. Að menn komist,
að því er virðist í alvöru, að slíkri niðurstöðu
á svo veikum grunni, er áminning um hversu
vafasöm slík fræðimennska er. Svo fremi
fólk gleymi hins vegar ekki varnöglum sem
slá verður í slíkum tilvikum er þetta í sjálfu
sér kannski saklaus samkvæmisleikur.
Enda þótt píslir Jóns Magnússonar minni
um margt á einkenni geðraskana þarf að
skoða lýsingar hans á þeim í sögulegu sam-
hengi. Jón Magnússon lifði á tímum þegar
galdrar og áhrif þeirra voru væntanlega við-
tekin sannindi meðal meirihluta Íslendinga.
Þegar afstaða er tekin til þess hvort svo-
nefndar ranghugmyndir eða ofskynjanir séu
til marks um geðveiki eða ekki þykir nú á
dögum skipta miklu hvort viðkomandi er
einn um þetta eða deili þessu með hópi
manna sem hann hrærist með og tekur mið
af. Sú hefur trúlega verið raunin með Jón
Magnússon. Það er því væntanlega mjög
hæpið að tala um geðveiki Jóns í þessum
skilningi. Vitanlega er samt harla líklegt
eins og Sigurður Nordal ritar í formála út-
gáfu sinnar á Píslarsögunni að Jón hafi verið
sérkennilegur maður, jafnvel í augum sam-
tíðarmanna.
Ef við höldum áfram samkvæmisleiknum
er afar mikilvægt að greina á milli þeirra
einkenna sem Jón lýsir og svo hins vegar
túlkunar hans á þessum einkennum. Hið síð-
arnefnda ræðst trúlega enn meira af tíð-
aranda en hið fyrra. Ýmis einkenni sem Jón
lýsir eru alþekkt bæði hjá fólki almennt og í
ríkari mæli til dæmis hjá þeim sem greindir
eru með áráttu og þráhyggjuröskun. Þar má
nefna áleitnar hugsanir um að guðlasta eða
aðrar freistingar sem Jón nefnir svo.
Margt bendir til þess að sjálf baráttan við
slíkar hugsanir geri þær enn illvígari. Þar af
leiðandi kunna þær að vefjast frekar fyrir
fólki sem er trúhneigt eða með öðrum hætti
mjög upptekið af því að hugsa ekki það sem
því finnst vera ljótar hugsanir. Marteinn
Lúther mun meðal annars hafa þurft að
glíma við slíka þráhyggju. Þarna er vandinn
því sá að því uppteknari sem maður er af
þessu þeim mun erfiðari verður gjarnan
vandinn.
Önnur einkenni Jóns minna til dæmis á
það sem kallað er líkömnunarraskanir og
svo framvegis. Niðurstaðan er því sú að ým-
is einkenni Jóns píslarsöguhöfundar má
heimfæra upp á einkenni þess sem nú er lit-
ið á sem geðraskanir. Jón leið líka augsýni-
lega vítiskvalir. Í einhverjum skilningi mætti
segja með fyrirvara að hann hafi trúlega átt
við að stríða geðröskun á borð við þung-
lyndi, líkömnunarröskun, felmtursröskun
eða hugrofsröskun af einhverju tagi sem síð-
an blandast saman við og birtist í efniviði
þess menningarheims sem hann bjó í.
Allar ályktanir um geðsýki, geðveiki eða
geðröskun eru hins vegar afar hæpnar.
Spurningin er hvort skilningur á hugarheimi
sautjándu aldar varpar ekki fremur ljósi á
Jón Magnússon og skrif hans en greining
einkenna hans í ljósi nútíma hugmynda um
geðraskanir.
Jakob Smári, prófessor í sálarfræði við HÍ.
HVERSU GEÐ-
VEIKUR VAR JÓN
MAGNÚSSON?
Hver var ástæðan fyrir kalda stríðinu, hver er
munurinn á orðatiltæki og málshætti og af hverju
skelfur maður af kulda? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum hef-
ur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum og hægt er að lesa
svörin á slóðinni www.visindavefur.hi.is.
VÍSINDI
1912
RAÐAÐ EFTIR
FÖÐURNAFNI
Í grein í Ísafold 13. mars
1912 er því mótmælt að í
niðurjöfnunarskrá (útsvars-
skrá) fyrir Reykjavík hafi
verið reynt „að koma á
þeim stórhneykslisviðrinishætti að raða
nöfnum manna eftir föðurnafni þeirra. Öll-
um mönnum, körlum og konum, hverju nafni
sem heita, er þá haugað saman í eina dembu
við stafinn sem föðurnafn þeirra byrjar á“.
Sagt var að nýlunda þessi væri sprottin upp
á pósthúsinu. „Hér mun raunar vera um að
tefla hádanskt apaspil eða útlent, sem kem-
ur fram meðal annars í því að sníða burt úr
stafrófi voru það sem er ólíkt eða óalgengt í
öðrum norrænum stafrófum. Þegar Þ-ið er
horfið verður að leita að Ara Þorgilssyni í t-
unum. Ja, þvílík framför!“
1928
ÞREYTTUR
ÞINGMAÐUR
„Þingmaður Vestur-
Húnvetninga vekur enn á
sér eftirtekt með nýstár-
legum hætti,“ sagði Ísafold
13. mars 1928. „Á nætur-
fundinum aðfaranótt þess 1. mars sótti þing-
manninn svefn svo mikill að hann féll fram á
borðið og sofnaði. Tók hann síðan að hrjóta
svo hátt að hrotur heyrðust að forseta.
Hringdi forseti bjöllunni til þess að vekja
þingmanninn. Er þetta bar eigi tilætlaðan
árangur sendi forseti þingskrifara einn sem
æfður er í hnefaleik og skipaði honum með
nokkrum þunga að stjaka við þingmanninum
svo hann vaknaði. Tókst skrifara að inna
það verk af hendi.“
1937
KNETTIR MEÐ
FJAÐRADÚSK
„Yngsta íþróttin sem iðkuð
er hér á landi að nokkru
verulegu leyti er án efa
knattleikur sem nefnist
badminton,“ sagði á
íþróttasíðu Morgunblaðsins 13. mars 1937.
„Íþrótt þessi fluttist hingað til lands fyrir
þremur árum með tveimur af áhugasamari
íþróttamönnum okkar Reykvíkinga, þeim
Jóni Kaldal og Jóni Jóhannessyni. Höfðu
þeir báðir numið þessa íþrótt í Danmörku er
þeir dvöldu þar samtímis.“ Haft var eftir
Jóni að þetta væri knattleikur er svipaði til
tennisleiks. „Knettirnir eru þó talsvert frá-
brugðnir að því leyti að á þeim er fjaðra-
dúskur. Knötturinn er sleginn með strengd-
um spaða, áþekkum tennisspaða.“ Sagt var
að íþróttin væri fólgin í því að leika knett-
inum á milli sín yfir net eftir sérstökum
reglum. Iðkendur voru á þessum tíma taldir
vera milli tuttugu og þrjátíu.
1948
VINSÆL SAGA
BIRT Á PRENTI
„Sagan af Hjalta litla er nú
komin út í bókarformi,“
sagði Vísir 13. mars 1948.
„Þegar höfundur bók-
arinnar, Stefán Jónsson
kennari, las söguna af Hjalta í barnatímum
Ríkisútvarpsins í vetur naut hún svo mik-
illar hylli að jafnt ungir sem gamlir lögðu
hlustirnar við og hlýddu á söguna með vax-
andi eftirtekt til enda. Þetta mun vera í
fyrsta skipti sem íslensk framhaldssaga hef-
ur verið lesin upp í útvarpið áður en hún
birtist á prenti.“ Stefán kenndi við Austur-
bæjarskóla í áratugi og er meðal annars
þekktur fyrir vísur um Ara og Gutta.
1974
OG EINNIG
HINUM MEGIN
„Enda þótt aldurinn sé far-
inn að færast yfir hann lék
hann á als oddi í afmælinu,“
sagði Morgunblaðið 13.
mars 1974 í frétt um 85 ára
afmæli Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar
daginn áður. Þessi meistari íslenskrar tungu
hafði í tilefni dagsins verið kjörinn heið-
ursdoktor við Háskóla Íslands. Um kvöldið
komu blysfarar að heimili skáldsins, sem
ávarpaði þá með þessum orðum: „Ég þakka
ykkur öllum innilega fyrir þann heiður sem
mér hefur verið sýndur og ég óska ykkur
alls hins besta á öllum ykkar leiðum – og
einnig hinum megin.“ Blaðið sagði að Þór-
bergur hefði kvatt komumenn „með því að
hneigja sig að austurlenskum sið, en gerði
síðan krossmark yfir aðdáendur sína“.
1984
UNDAN
OG OFAN
AF KVÓTANUM
Í Sandkorni DV 13. mars
1984, á fyrsta kvótaárinu,
sagði að útgerðarmenn
hefðu fengið senda tilkynn-
ingu um kvóta sinn í bréfi
frá sjávarútvegsráðuneyt-
inu og að það hefði verið á safaríku og hnit-
miðuðu máli, eins og tíðkaðist um sendingar
til óbreyttra. Upphaf bréfins var svohljóð-
andi: „Með tilvísun til laga nr. 81 31. maí
1976 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands
með áorðnum breytingum og reglugerðar
nr. 44 8. febrúar 1984 um stjórnun botn-
fiskveiða 1984, veitir ráðuneytið leyfi til
þess að veiða á ofangreindu fiskiskipi eft-
irgreint aflahámark neðangreindra botn-
fisktegunda.“
T ÍÐARANDINN Á TUTTUGUSTU ÖLD
„Það þótti tíðindum sæta er til þess spurðist að verslunin Gullfoss hér í bæ ætlaði að efna til
tískusýningar,“ sagði á kvennasíðu Morgunblaðsins 13. mars 1935, en þremur dögum áður
hafði fyrsta íslenska tískusýningin verið haldin á Hótel Borg. Á síðunni var sagt að kjólarnir
hefðu verið hver öðrum fallegri og að gestirnir hefðu horft með hrifningu á stúlkurnar „sem liðu
hægt og rólega inn eftir gólfinu, eftir blíðum hljóðfæraslætti, og sýndu helstu nýjungar vortísk-
unnar í kjólum og höttum“. Á myndunum eru drapplitur golfkjóll, milliblár hádegisklæðnaður og
dökkblár kvöldkjóll.
SÝNINGIN ÞÓTTI
TÍÐINDUM SÆTA
J Ó N A S R A G N A R S S O N T Ó K S A M A N