Lesbók Morgunblaðsins - 13.03.2004, Blaðsíða 5
eindreginn reynslusinni og taldi að nytja-
stefnan hlyti í öllum atriðum að byggja nið-
urstöður sínar á reynslu.
Í siðfræði samtímans eru mest ræddir þrír
meginstraumar: dyggðakenning sem runnin
er frá Aristótelesi, lögmálskenning sem kom-
in er frá Kant og nytjastefna sem að flestu
leyti er komin frá Mill. Kant er í hópi áhrifa-
mestu hugsuða um siðferðisefni þótt ýmis at-
riði kenningar hans séu umdeild. Þótt þessar
lýsingar séu hnotskurnir þá vona ég að þær
veiti ofurlitla vísbendingu um stöðu Kants.“
Guðmundur Heiðar telur siðfræðikenning-
ar síðari tíma, sem draga í efa möguleikann á
að finna algildar reglur, ekki hafa sýnt fram
á neina veikleika í siðfræði Kants.
„Í samtímanum er það mikil tízka að efast
um algildið. En það skiptir öllu máli hvernig
efasemdirnar eru rökstuddar. Ein leiðin sem
farin hefur verið er í svonefndum átthaga-
kenningum um siðferðið. Þær ganga út á að
siðferði sé ævinlega staðbundið og hljóti í öll-
um efnum að vera bundið nánasta umhverfi
og komist aldrei út fyrir það. Í sem allra
stytztu máli þá væri öll siðfræði átthaga-
fræði. Þessi skoðun merkir að einungis er
mögulegt að ræða um siðferði innan tiltek-
inna áttahaga, maður getur einungis borið
saman ólíka siði í ólíkum átthögum en ekkert
sagt um að einn siður sé betri en annar, það
er einfaldlega merkingarlaust að tala þannig.
Það er ekki ástæða til að fjölyrða um þær
rökþrautir sem svona skoðun lendir í en eins
og hún stendur hlýtur hún að vera röng. Það
er einfaldast að benda á tvær staðreyndir því
til stuðnings. Önnur er sú að það á við um
alla menn að þeir eru upprunnir á tilteknum
stað og tilteknum tíma en það útilokar ekki
að þeir geti skilið annað fólk á öðrum stöðum
og öðrum tímum. Hin er sú að benda á að við
skiljum án teljandi fyrirhafnar algildar stað-
hæfingar. Það þarf ekki sérlega mikla fyrir-
höfn að skilja setninguna allir menn eru jafn-
ir. Þetta er ekki sérlega frjó umræða. Það er
miklu frjórri umræða sem snýst um það
hvort algildiskenningar þurfi annars konar
rökstuðning eða undirbyggingu nú en áður.
Ein leiðin er sú að smíða þurfi nýja kenningu
um manneðlið sem útskýri til dæmis að sum-
ar þarfir eru sammannlegar svo að eitt dæmi
sé nefnt og útskýri þannig hvernig siðferði
getur verið algilt. Kant getur lagt ýmislegt til
málanna í þessum rökræðum bæði um mann-
eðlið og mannlegan skilning. Það er ástæða
til að taka eftir því að allar kenningarnar sem
ég nefndi áður, dyggðakenningin frá Arist-
ótelesi, algildiskenning Kants og nytjastefna
Mills líta á algild hugtök og staðhæfingar um
þau sem eðlilegan hluta siðferðisins þótt þær
gefi honum ólíkt vægi.“
Guðmundur Heiðar telur því, að Kant eigi
enn fullt erindi við lesendur.
„Það er ekki svo að Kant sé bara forn-
gripur sem ástæða sé til að dást að kurt-
eislega en snúa sér síðan að einhverju alvar-
legra. Það eru í meginatriðum tvær ástæður
fyrir því að Kant á erindi við okkur nú á dög-
um. Í fyrra lagi þá mótaði hann mörg þau
vandamál sem enn er glímt við í heimspeki.
Skýrasta dæmið er sennilega sú kenning
hans að til þess að vera frjáls væri nauðsyn-
legt að við værum óbundin af orsakalögmál-
inu. Heimspekingar ræða þennan vanda enn
og við kunnum í raun ekki svarið. En það er
ekki bara að hann hafi mótað margar þær
ráðgátur sem við fáumst enn við heldur hafði
hann snjöll rök fyrir svörum sínum við þess-
um ráðgátum. Þetta má sjá af því sem hann
segir um rök fyrir tilvist Guðs svo að eitt
dæmi sé nefnt. Í síðara lagi þá setti Kant
fram skoðanir sem okkur eru nú runnar í
merg og bein, eru orðin algerlega sjálfsögð
sannindi. Kunnasta dæmi slíks er það sem
hann segir um einkunnarorð upplýsingarinn-
ar: „Sapere aude“, þorðu að vita, þorðu að
nota þitt eigið hyggjuvit. Það er ósjálfræði
mannvitsins að njóta eilífrar leiðsagnar ann-
arra en þora ekki að hugsa sjálft. Ef mennt-
un er eitthvað eitt á okkar dögum þá er hún
það að læra að hugsa sjálfur, meta rök sem
aðrir hafa fyrir eigin niðurstöðum og komast
svo sjálfur að sínum.“
En skyldu siðfræðirit geta nýst manni til
að læra siðferði?
„Þessari spurningu verður að svara bæði
já og nei. Neikvæða svarið er mikilvægara.
Ef fólk hefur ekki hlotið eðlilegt uppeldi þar
sem það venst því að þurfa að taka tillit til
annarra, umgangast fólk, dýr og hluti eðli-
lega, þá held ég að vonlaust sé að kenna því
siðferði þegar það er að vaxa úr grasi eða er
vaxið úr grasi. Ákveðin grunnþjálfun í
bernsku virðist vera nauðsynlegt skilyrði sið-
ferðis. En hafi fólk hlotið eðlilegt uppeldi og
búi við þokkalegar aðstæður þá getur
kennsla í siðfræði þjónað tilgangi og eflt sið-
ferðisvitund fólks. Í samtímanum úir og grúir
af vandamálum og ráðgátum sem ómögulegt
er að leysa nema með því að hugsa skipulega
um siðferðileg efni.“
kga@mbl.is
ATLANTSHAFIÐ ER
LEIKVÖLLURINN
Í
slensk náttúra er á margan hátt gjöful,
ekki aðeins fyrir Landsvirkjun og er-
lenda álrisa, heldur einnig fyrir lista-
menn sem vinna í ýmsum listgreinum
og liststílum. Hún er ekki einungis
uppspretta hugmynda og uppljóm-
unar fyrir listamenn þjóðarinnar,
heldur skýtur hún líka upp kollinum í
verkum þekktra erlendra listamanna sem
hingað koma sem gestir. Í einu af galleríum
Edinborgar gekk ég nýlega fram á bók eftir
bandarískan ljósmyndara sem í eru geysilega
fallegar svart-hvítar myndir, unnar upp úr
sama efniviði, íslenskri náttúru eins og hún
er séð með auga gestsins. Bókin, sem ber
nafnið Dreaming of Gokstad(Draumurinn um
Gaukstaðarskipið), vakti strax athygli mína
og sérstaklega í ljósi þess að hún virðist hafa
farið fram hjá flestum hér á landi þegar hún
var gefin út árið 1988. Eintak af bókinni er til
dæmis ekki að finna í hinu alfróða bókasafns-
kerfi okkar Íslendinga, Gegni.
Thomas Joshua Cooper, höfundur Draums-
ins um Gaukstaðarskipið, skilgreinir sig sem
Vestur-Bandaríkjamann. Hann er fæddur ár-
ið 1946 í San Francisco í Kaliforníu. Fyrir
rúmum tveimur áratugum kom hann til Skot-
lands í þeim tilgangi að dvelja þar í eitt ár, en
hefur aldrei snúið þaðan aftur og er nú yf-
irmaður ljósmyndadeildarinnar í hinum virta
listaháskóla Glasgow School of Art. Sem ung-
ur maður vann Cooper einnig málverk og
skúlptúra, en allt frá árinu 1969, þegar hann
fann að eigin sögn sína sjálfstæðu listrænu
rödd, hefur hann helgað sig ljósmyndinni.
„Í kringum 1969 gerði ég mér grein fyrir
því að málverkið virkaði ekki fyrir mig og ég
hef líklega ekki verið nógu flinkur málari,“
segir Cooper brosandi, þar sem við sitjum á
skrifstofu hans í Glasgow sem er yfirfull af
bókum. „Síðan þá hefur öll mín myndgerð
[hann talar ekki um að taka myndir; heldur
gera þær] farið fram utandyra með myndavél
sem er frá árinu 1898, einu myndavélinni sem
ég hef átt og notað. Ljósmyndin var bara
rétti miðillinn og hentaði betur í það sem ég
var að byrja að kanna á þeim tíma. Ég var al-
inn upp í sveit og þaðan kom áhugi minn á
landslagi. Karlmennirnir í fjölskyldunni
unnu á búgörðum, hjuggu tré og veiddu fisk
sér til viðurværis, þannig að allir tengdust
landinu náið og það geri ég líka.“
Þó að landslagsljósmyndir Coopers séu all-
ar mannlausar skynjar maður sterk tengsl
milli lands og manns í þeim öllum. Hann seg-
ist vilja kanna í verkum sínum hvað gerist við
brotthvarf mannsins af landsvæðum sem ekki
eru lengur talin henta til búsetu og eru á
mörkunum á að fara í eyði. „Kjarnann í verk-
um mínum má finna í þrá mannsins til að eiga
heima einhvers staðar. Maðurinn sækist eftir
því að finna sér stað í veruleikanum og fólkið
sem býr á þessum kraftmiklu stöðum sem ég
heillast af er næmara fyrir umhverfi sínu og
tilvist en hinn almenni borgarbúi.“
Eins og áður segir má finna flestar þeirra
ljósmynda sem Cooper hefur unnið hérlendis
í bókinni Draumurinn um Gaukstaðarskipið.
Víkingaskipið í Ósló var í huga listamannsins
einskonar myndrænt fley í þeirri för sem
hann langaði að bjóða lesendum sínum í. Þar
var ætlunin að kynna lesendunum aðstæður
og staði sem kalla myndu fram eins konar
dagdrauma í huga þeirra sem létu sér mynd-
irnar varða. „Gaukstaðarskipinu var á tákn-
rænan hátt ætlað að fljúga milli heima og því
fannst mér það tilvalið að tengja það þessum
myndum frá þessum norðlægu löndum.“
Auk Íslands siglir Cooper lesendum bók-
arinnar um Skotland og skosku eyjarnar og
um Noreg. Á Íslandi beinir hann linsunni of-
an í svart hraunið við Surtshelli, myndir hans
af Breiðamerkurjökli eru stórkostlega kaldr-
analegar og jafnvel hinn hversdagslegi Gull-
foss hressist allur við og verður spennandi í
íslenskum augum sem eru honum alvön. Coo-
per minnist veru sinnar á Íslandi með vænt-
umþykju.
„Ég ferðaðist í ellefu daga um Ísland og
var skilinn eftir á stöðum sem ég vissi að mig
langaði að heimsækja. Á Vatnajökli steig ég í
fyrsta skipti á ís og myndaði jökulskörð og
ruðninga, staði sem ekki eru lengur til í því
formi, eyddust í hlaupinu eftir eldgosið 1996.
Þegar ég gerði myndir við Gullfoss lét ég
strengja mig upp í kaðli til þess að sjá það
sem ég vildi sjá. Ég vildi reyna að upplifa fall-
ið í fossinn og þetta var frekar erfitt þar sem
ég er lofthræddur maður. Hins vegar verð ég
af og til að reyna á mig og það er mikilvægt
fyrir mig að vera þá með öll skilningarvit
glaðvakandi. Barnafossar voru líka heillandi
staður vegna sagna um barnadauðann þar og
því vildi ég reyna að nema hjartslátt staðar-
ins. Þegar ég kem á nýjan stað elska ég að
heyra sögur innfæddra um hann. Það er það
sem lífgar staðinn við fyrir mér. Ég vil að
myndir mínar verði síðan partur af þessum
sagnaarfi.“ Endanleg útkoma erfiðisins er
því bókmenntalegs eðlis, en sköpuð gegnum
linsu og meðfylgjandi texta sem Cooper velur
af kostgæfni.
Eins og fyrir hvern annan sagnaþul er það
mikilvægur partur í verkum Thomas Joshua
Cooper að spinna aðeins af fingrum fram.
Það er nauðsynlegt fyrir hann til að reyna að
fanga andann sem býr í landinu. „Það býr
andi í öllu og sérstaklega á landsvæðum sem
við mannfólkið höfum ýtt til hliðar og hætt að
byggja. Ég er hins vegar fullkomlega meðvit-
aður um að skynjun mín á umhverfinu á sér
takmörk. Náttúran er eilíf, okkur tekst
reyndar að spilla henni af og til, en hún leið-
réttir mistökin þótt síðar verði. Það erum
hins vegar við sem erum forgengileg.“
Í því verkefni sem Cooper er að vinna að
um þessar mundir er það Atlantshafið allt og
löndin sem við það liggja sem eru leikvöllur
hans. Með myndavélina í farteskinu er það
ætlun Coopers að rekja að einhverju leyti
ferðir frægra sjóferðamanna og landkönn-
uða milli gamla og nýja heimsins og þetta
mun auðvitað leiða hann aftur til Íslands þeg-
ar ferðir Leifs Eiríkssonar verða teknar fyr-
ir. Cooper kallar verkefnið The Atlantic Bas-
in project – The World’s Edge (Atlantshafs
landgrunnurinn – endimörk heims). Það er
ætlun hans að heimsækja helstu útnes landa
við Atlantshaf og reyna þannig að átta sig á
því hvernig menning hefur ferðast milli þess-
ara landa og heimsálfa. „Með því að elta
þessa menn vil ég reyna að endurvekja fyrir
sjálfum mér og áhorfandanum eftirvænt-
inguna sem hlýtur að fylgja því að sjá til
lands í fyrsta sinn. Lands sem þú veist að eng-
inn frá þínu menningarsvæði hefur áður séð.
Ég vil reyna að fanga þessa „fyrstu sýn.““
Þó að Cooper starfi sem ljósmyndari er
hann þó spenntari fyrir því sem er trúanlegt
en fyrir því sem er satt og sannað. Raunsæi
er því fjarri áhugasviði hans, þrátt fyrir
meintan innifalinn sannleika ljósmyndar-
innar. Það mætti því halda því fram að Thom-
as Joshua Cooper deili trúnni með landkönn-
uðum fortíðar sem aldrei hefðu lagt út í
ævintýri sín án þess að trúa á það sem þeir
voru að gera. Trúin og vonin um að finna sér
samastað í heiminum er því aðalatriðið í báð-
um tilvikum.
Bandaríski ljósmyndarinn Thomas Joshua Cooper er einn þeirra erlendu
listamanna sem hafa tekið sér íslenskt landslag og náttúru sem efnivið í verk sín.
GUÐNI TÓMASSON ræddi við Cooper um list hans og Ísland sem efnivið.
Ljósmynd/Thomas Joshua Cooper
„Jafnvel hinn hversdagslegi Gullfoss hressist allur við og verður spennandi í íslenskum augum sem eru honum alvön.“
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. MARS 2004 5