Lesbók Morgunblaðsins - 13.03.2004, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 13.03.2004, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. MARS 2004 T jaldvagn í fullum skrúða tekur á móti safngestum, sem leggja leið sína í vestursal Listasafnsins á Akureyri um þessar mundir, en andspænis vagninum má sjá myndband af framkvæmdum á virkjunarsvæði Kárahnjúka þar sem hvín og syngur í dísilvélum, stálhjólum og viðvörunarbjöllum, sem eiga kannski að segja manni að mun meiri hætta sé á ferð en aðeins farartæki að bakka. Með þessum hætti mætti lýsa innsetningu Önnu Líndal sem nefnist Halló Akureyri! og verður til sýnis í Listasafninu á Akureyri fram til 9. maí nk. Að sögn Önnu lagði hún leið sína á fram- kvæmdasvæðið við Kárahnjúka sl. sumar í þeim tilgangi að taka m.a. upp myndir af fram- kvæmdunum og í kjölfarið vann hún verkið Í bakgarðinum sem sýnt var í Listasafni Reykja- víkur sl. haust. „Þar notaði ég sama myndefni og í innsetningunni núna sem skjáhvílu á kjöltutölvu,“ segir Anna og tekur fram að hún ætli sér að vinna meira með myndefni úr þess- ari ferð í næstu verkum sínum. „Fyrir mér felst heilmikil áskorun í því að takast á við beinharðan raunveruleikann á for- sendum myndlistar. Þannig felst viðfangsefnið í því að líta handan yfirborðsins, handan veru- leika sem teflt er fram og freista þess að sjá samfélagið eins og það er í raun og veru. Mynd- listin hefur sinn eigin tjáningarmáta og aðrar nálgunarleiðir og á þann hátt fáum við nýtt sjónarhorn á hlutina.“ Viðbragð við ytra áreiti oftast kveikjan að verkum mínum Spurð hvers vegna virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka séu henni svona hugleiknar svarar Anna því til að framkvæmdirnar séu í sínum huga einfaldlega eitt stærsta pólitíska málefni okkar tíma. „Í gegnum tíðina hefur uppsprettan að verkum mínum oftast verið við- bragð við ytra áreiti og í dag er t.d. ekki hægt að opna blað án þess að lesa þar greinar um löngun stjórnvalda til þess að hafa forystu í ál- framleiðslu heimsins. Á sama tíma verður mað- ur var við mikla valdabaráttu og valdníðslu í tengslum við þessar framkvæmdir. Ef ég á að setja þetta í samhengi við eitthvað dettur mér einna helst samlíking við stríðsrekstur í hug, því þarna eru á ferð sömu lögmálin. Það eru þessar stóru valdamiklu blokkir sem verða allt- af að hafa stríð einhvers staðar í heiminum til að geta drifið apparatið áfram. Líkt og með stríðsreksturinn þá þarf að knýja þessar vélar áfram og það eru mjög margir sem græða á þessu í einhvern smá tíma, en samt held ég að allir geri sér grein fyrir því að þegar dæmið verður á endanum gert upp þá tapa allir í raun á Kárahnjúkavirkjun. Og það sem meira er, ég held að stjórnmálamennirnir, sem hafa verið að berjast hvað mest fyrir þessum framkvæmd- um, geri sér þetta líka fullljóst.“ Aðspurð segist Anna með verki sínu Halló Akureyri! vera að skoða hvernig framkvæmd- irnar við Kárahnjúkjavirkjun endurspegli lang- anir og þrár Íslendinga. Beðin að útskýra þetta nánar bendir Anna á hversu áberandi löngunin í skjótfenginn gróða sé í allri umræðunni. „Ráðamenn telja fólki trú um að við verðum að fara í þessar framkvæmdir til þess að detta ekki ofan í sömu fátækt og á árum áður og al- menningur lætur þetta viðgangast vegna þess að það er hrætt við bakslag í efnahagslífinu. Það er hrætt um að geta ekki tekið þátt í neyslusamfélaginu ef ekki er farið út í þessar framkvæmdir og þess vegna lætur það eftir sér að hugsa ekki lengra fram í tímann.“ Framkvæmdirnar munu hafa dýpri og margslungnari áhrif Anna bendir réttilega á að Íslendingar hafi um langa hríð virkjað landið. „Samt er margt öðruvísi núna við þessa framkvæmd. Bæði er að verið er að nota mun öflugri tæki þannig að það er hægt að framkvæma meira á mun skemmri tíma en áður. Síðan er lykilatriði að þarna er verið að fara inn á algjörlega nýtt landsvæði, því þetta er stærsta ósnortna viðátta Evrópu og við eigum hana ekkert ein. Með þessum fram- kvæmdum erum við að rjúfa svæði sem hefur á einhvern óljósan máta verið sá kjarni sem hefur byggt upp karakter þessarar þjóðar,“ segir Anna og bendir á að framkvæmdirnar muni að sínu mati þannig hafa mun dýpri og marg- slungnari áhrif en við gerum okkur grein fyrir. „Mér finnst alltaf jafn ótrúlegt að heyra ráðamenn tala um þessa hreinu orku eins og þeim beri hreint og beint skylda til að nýta hana, samanber yfirlýsingu Friðriks Sophus- sonar, forstjóra Landsvirkjunar, á alþjóðlegri ál- og orkuráðstefnu sem fram fór fyrr í mán- uðinum. Í umfjöllun Morgunblaðsins um ráð- stefnuna var haft eftir Friðriki að í dag notum við 17% af áætluðu heildarraforkuafli í landinu og að miðað við áform um álver Alcoa í Reyð- arfirði og stækkun Norðuráls yrði ársfram- leiðsla á áli hér á landi árið 2008 250% meiri en hún er í dag. Ráðamenn láta það hljóma eins og þeir séu að vinna góðverk fyrir heiminn á sama tíma og þeir láta grafa burt þessa ósnortnu víðáttu, sem okkur ber í raun skylda til að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Í nýlegum sjónvarpsþætti hlustaði ég á Halldór Ásgrímsson utanríkisráð- herra tala um að okkur bæri skylda til að skila náttúrunni betri til næstu kynslóðar en við tók- um við henni og ég skil einfaldlega ekki hvernig hann getur talið sér trú um að hann sé að því.“ Að mati Önnu eru viðhorf almennings til lands- ins samt að taka örum breytingum. „Einmitt þess vegna tel ég að ráðamönnum liggi svona mikið á að virkja Kárahnjúkasvæðið sem fyrst, því eftir örfáa áratugi mun almenningur ekki taka virkjunarframkvæmdir á borð við þessar í mál,“ segir Anna að lokum. Sýning með innsetningu Önnu Líndal verður opn- uð í Listasafninu á Akureyri í dag, en þar eru virkjunarmál þjóð- arinnar í brennidepli. SILJA BJÖRK HULDU- DÓTTIR hitti listakonuna að máli og fékk að heyra um sýn hennar á valdníðslu stjórnvalda. Ljósmynd/Friðþjófur Helgason Frá virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka. silja@mbl.is Morgunblaðið/Golli „Fyrir mér felst heilmikil áskorun í því að takast á við beinharðan raunveruleikann á forsendum myndlistar,“ segir Anna Líndal, en innsetning hennar Halló Akureyri! er í Listasafninu á Akureyri. VONIN UM SKJÓTFENGINN GRÓÐA NÝTT menningarkaffihús hefur litið dagsins ljós í Aðalstræti 10 og hefur fengið nafnið Jón forseti. Um er að ræða fjölmenningarhús með margs konar menningaruppákomum. Viðbót við góðan kaffisopa er neysla á menning- arlegu góðgæti, s.s. kvikmyndasýningar, bók- menntaupplestur, leikrit og lifandi tónlist, svo eitthvað sé nefnt. Á Jóni forseta er einnig listgallerí í 40 fm rými innaf kaffihúsinu sem ætlað er til sýningarhalds. Sýningarstjóri hef- ur verið ráðinn Ragnheiður Ragnarsdóttir myndlistarmaður og arkitekt. Hún var fram- kvæmdastjóri Nýlistasafnsins á árunum 1993- 2000. „Þarna verða metnaðarfullar sýningar,“ segir Ragnheiður. „Staðurinn er ennþá í mót- un og hefur allar forsendur til að vaxa og dafna í okkar fjölbreyttu menningarflóru. Þegar Ragnar Halldórsson, eigandi menning- arhússins, kom að máli við mig þess efnis að halda utan um sýningarhaldið sló ég strax til. Bæði vegna þess að mér finnst spennandi að taka þátt í þessari tilraun, að fá að hafa áhrif á mótun og þróun staðarins og eins hefur mér alltaf fundist vanta svona stað í menningar- lífið okkar.“ Hvernig listamenn munu sýna hjá ykkur? „Ég geri ráð fyrir því að þarna sýni hæfir myndlistarmenn, víðsýnir og áræðnir með áhuga fyrir því að sýna myndlist á öðrum stöðum en í hefðbundnum sýningarsölum. Myndlistarmenn með einhvern bakgrunn eru náttúrlega ekki tilbúnir að hoppa útí hvað sem er og myndu ekki taka þátt í sýningu nema þeir væru sáttir við staðinn, það er al- veg ljóst. Okkar listræna stefna er ekki lóð- rétt lína, listamenn mega t.d. mála veggina í salnum, ef þeim sýnist svo, sem hluta af sýn- ingunni, þannig að rýmið verður síbreytilegt.“ Þegar Ragnheiður er spurð að því hvernig hún telji að kaffihús og myndlistasýningar fari saman segir hún að sýningasalir þurfi ekki endilega að vera í hvítum kassa. „Sýn- ingasalir eru þar sem ákveðið er að þeir verði, þeir þurfa ekki endilega að vera í fyrir- framgefnu sýningarrými. Við sjáum það t.d. á Mokka að vel hefur farið að blanda saman kaffihúsi og myndlist. Það hefur tíðkast til fjölda ára og verið eftirsóknarvert að sýna þar.“ Á Jón forseta verða reglulegar sýningar ár- ið um kring. Fyrsti listamaðurinn til að sýna er Erla Þórarinsdóttir. Sýningu hennar lýkur 18. mars. Næstur til leiks er Finnur Arnar Arnarsson og sýnir hann ljósmyndaseríu af Jóni forseta. TÍMABÆRT AÐ OPNA MENNINGARKAFFIHÚS Morgunblaðið/Golli Ragnheiður Ragnarsdóttir sýningarstjóri á Jóni forseta. Verk eftir Erlu Þórarinsdóttur í baksýn.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.