Lesbók Morgunblaðsins - 01.05.2004, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 01.05.2004, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. MAÍ 2004 9 þeim, en síðan hurfu þeir út, El Padrino og sá hvítklæddi. Trumbuslátturinn taktfasti hljóm- aði stöðugt og sálmar voru kyrjaðir, en innan stundar sneru þeir aftur, sá hvítklæddi og El Padrino, og lagði sá síðarnefndi hænurnar nú á altarið því þær voru orðnar hauslausar og hættar öllu vængjablaki. Blóðinu hafði hins vegar verið roðið í hár og hársvörð þess vígða, auk þess sem það hafði verið borið á svörtu tálgusteinsmyndirnar tvær. Og nú kraup hann aftur fyrir altarinu, lagðist svo á gólfið, fyrst á aðra hliðina og síðan hina. Magnaðist nú trumbuslátturinn og söngurinn mjög, og þar sem fólkið hafði áður dillað sér undir taktinum upphófst nú raunverulegur dans. Drengurinn sem hafði boðið mér að koma inn í þetta hús og rétt mér rommglasið reyndist heita Héctor og var eins og stiginn út úr grískri goðsögn. Hann kom nú að máli við mig og útskýrði fyrir mér að þetta væri trúarathöfn og afmælisdagur hins vígða, og gerði mér skiljanlegt að það væri við hæfi að við færum í nærliggjandi verslun að kaupa romm handa afmælisbarninu, sem við auðvitað gerðum. En ekki dugði flaska handa afmælisbarninu, það þurfti aðra handa Eleguá og enn aðra handa Héctor. Og svo mátti ekki gleyma börnunum … „Ekkert diskótek hér!“ Þegar við mættum aftur í samkvæmið, vel birgir af veigum og sætindum, var dansinn all- ur að magnast og rommglösin gengu á milli manna og guðirnir fengu líka sinn skammt. Ég sá að hænurnar lágu ekki lengur á altarinu, það var búið að reyta þær og hluta í sundur og þær voru á leið í pottinn. Það var dansað og sungið og hlegið og faðmast og afmælisbarnið var manna glaðast og faðmaði alla, en einkum þó karlmennina í samkvæminu. Þetta var allt í senn, ein stór fjölskylda og nágrannar, því fólk- ið bjó allt í götunni. Blótið var haldið í húsa- kynnum móður Héctors, og hún naut greini- lega mikillar virðingar í þessum hópi. Að því kom að trommuleikararnir hættu að slá kassa sína og hólka, og sett var snælda í græjurnar sem virtust vera stolt afmælisbarnsins því þær gátu framleitt nægan hávaða til að fylla alla götuna og hverfið líka ef því var að skipta. Þeg- ar hænurnar voru loks fullsteiktar voru margir gestanna farnir. Ég hafði sest í einn af þeim fáu stólum sem voru í þessum húsakynnum og allt í einu kom kona og vildi færa mér hænsnakjöt með hrísgrjónum. Ég náði þó varla að hafna þessu góða boði áður en El Padrino og annar nærstaddur gripu í taumana og sögðu réttilega að það væri nær að gefa þetta börnunum. Kjöt er ekki daglegur réttur á borðum þessa fólks. Það hefur í raun alls ekki efni á að leggja sér kjöt til munns nema þá við alveg sérstök há- tíðabrigði, og þessar hænur voru bæði horaðar og visnar og lítið réttlæti að láta mig, vel mett- an aðkomumanninn taka matinn frá börnunum. En guðirnir fengu sinn skammt og tónlistin ómaði sem aldrei fyrr og dansinn var stiginn linnulaust og ekki laust við að hann fylltist af erótískri spennu er á leið. Að því kom að El Padrino þótti nóg komið og hrópaði hárri raustu: „Alt! Esta no es una discoteca, esta es una casa religiosa!“ „Hættið, nú er nóg komið! Þetta er ekkert diskótek, þetta er trúrækið heimili!“ Rann þá sumum í skap en dansmóð- urinnaf öðrum. Lá nú brátt við að hendur væru látnar skipta. Ég vissi ekki nema vera kynni að nærvera mín væri orsök þess ósættis er þarna blossaði upp og flýtti mér að kveðja og þakka fyrir mig. En mér fylgdu fleiri gestir út á göt- una og yfir á nærliggjandi veitingahús, þar sem kverkar voru nú vættar í svalandi mojito, rommdrykk með ferskum límónusafa og mintu- laufi. Fólkið sem brátt sat þarna í kringum mig var Héctor og systir hans, sem ber það skáld- lega nafn Marisol. Þarna var líka 12 ára sonur hennar, Hiram, og móðir þeirra og amma, sú sem hafði eldað hænurnar í eldhúsinu og gegndi greinilega stóru móðurhlutverki þarna í götunni. Og svo var einn ungur félagi þeirra í viðbót. Við reyndum eftir mætti að spjalla sam- an og spyrjast fyrir um daginn og veginn. Ég skildi brátt að það var ekki venja þessa fólks að sitja á stað sem þessum og drekka fokdýran mojito fyrir dollara. Marisol, sem var 34 ára móðir Hirams, sagðist vera ekkja frá því son- urinn var ársgamall. Hún sagðist starfa sem barnaskólakennari og hafa 142 pesóa á mánuði í laun fyrir fulla vinnu til þess að sjá þeim far- borða. Það er erfitt að gera sér grein fyrir hvað það þýðir í erlendum gjaldmiðli, en mér er sagt að samkvæmt ríkjandi gengi gæti það talist samsvara 10 bandaríkjadölum. Tvöfalt hagkerfi Efnahagskerfið á Kúbu er svo flókið að það er erfitt fyrir utanaðkomandi að skilja það, en stjórnvöld hafa í raun komið á tvöföldu eða þreföldu hagkerfi eftir að ríkjandi neyðar- ástandi var lýst yfir fyrir rúmum áratug, en það gerðist þegar Sovétríkin voru aflögð og ut- anríkisviðskipti Kúbu við Austur-Evrópuríkin lögðust að mestu af. Það var reiðarslag fyrir kúbanskt efnahagslíf, og síðan hefur ferða- mannaþjónustan verið eitt helsta haldreipi kúbverska þjóðarbúsins ásamt fjárfestingum erlendra stórfyrirtækja. Eftir að vöruskipta- verslun með sykur og önnur kúbönsk hráefni lagðist af skapaðist bráð þörf fyrir erlendan gjaldeyri. Því var aflétt banni við því árið 1995 að almenningur hefði undir höndum eða versl- aði með erlendan gjaldmiðil. Meðal annars til þess að fólk gæti fengið stuðning í erlendri mynt frá brottflúnum ættingjum á Miami. Um leið var komið á tvöföldum innri markaði: ein- ungis allra brýnustu nauðsynjar fást fyrir hinn innlenda gjaldmiðil, allt annað er selt fyrir bandaríska dollara. Vöruverð í verslunum er almennt auglýst í bandarískum dollurum á Kúbu. Þegar við stóðum upp frá borðum á þessum veitingastað greiddi ég reikning í doll- urum sem samsvaraði 2–3 mánaðarlaunum kennslukonunnar, miðað við ríkjandi gengis- viðmið, og þá skildi ég að kennslukonan var í raun útilokuð frá þessum stað. Hún sagðist greiða nærri 2/3 af 142 pesóa mánaðarlaunum sínum í rafmagn, vatn og gas. Vatnið sækir hún í sérstaka vatnsbíla sem aka vatni í hverfið, og þarf hún að bera það í hús og hefur því ekki rennandi vatn. Það litla sem eftir er af laun- unum fer í daglegar nauðsynjar, mat og klæði fyrir son hennar, en maturinn er einkum hrís- grjón og rótarávextir. Allt annað er munaðar- vara sem einungis er hægt að láta sig dreyma um. Ég átti eftir að kynnast vanda hennar bet- ur daginn eftir. Þegar ég sagðist vilja finna leigubíl á hótelið svöruðu þau að það væri óþarfa spandans, þau gætu hjólað með mig. Pilturinn sem með okkur var átti reiðhjól sem hafði verið breytt í þríhjól með tveimur aftursætum, og það var sama þótt ég reyndi að segja þeim að ferðin í Vedado- hverfið væri löng, þau vildu endilega hjóla með mig. Við hjóluðum á ljóslausu hjólinu í nátt- myrkrinu í gegnum alla bílaumferðina eftir endilangri Malecon-strandgötunni og ferðin tók áreiðanlega þrjátíu–fjörutíu mínútur. Hav- ana er lítið sem ekkert upplýst á nóttunni vegna olíuskorts. Pilturinn var að niðurlotum kominn þegar við komumst á endastöð, en þau báðu mig endilega að koma aftur daginn eftir, því þessi afmælis- og trúarhátíð væri ekki af- staðin. Daginn eftir var ég kominn niður í gamla miðbæinn um hádegisbilið. Ég fór í einu bóka- búðina við aðal verslunargötuna, Calle Obispo, og spurðist fyrir um bækur um Ocha-regluna. Mér var ráðlagt að kaupa tvær af fjórum bók- um sem ég fann um þetta efni í þessari annars fátæklegu bókabúð. Síðan hélt ég í áttina að Plaza vieja til að hitta þetta nýja kunningjafólk mitt við kyrrlátari aðstæður og fræðast betur um það sem ég hafði upplifað kvöldið áður. Þetta var sunnudagur, og mér var tekið fagn- andi og boðið til sætis í besta stól ömmunnar í þessari fjölskyldu. Altarið var enn í horninu, og hljómlistin hljómaði enn úr hátölurunum og nú komu gestir, bæði karlar og konur, og krupu fyrir guðamyndunum og helgigripunum, lögð- ust á hliðarnar og fóru með bænaþulur. Mér var skipað að taka þátt í þessum athöfnum með því að styðja þrem fingrum á jörðina annað slagið. Ég dró upp bækur mínar og tók að spyrja spurninga um merkingu þess sem ég hafði séð. Það var eins og þessar bækur vektu næstum óttablandna virðingu hjá þessu fólki, og það spurði strax hvað ég hefði greitt fyrir þær. Það voru 22 bandaríkjadollara, tvenn mánaðarlaun kennslukonu fyrir tvö lítil kver.1 Ég þurfti að lána þeim lesgleraugun mín til þess að þau gætu lesið, en þegar nauðsynlegri sjónskerpu var náð var eins og augu þeirra opnuðust og þau sögðu: Sjáið, þarna er það! Þarna eru þeir allir! Þau vissu um allt sem þarna stóð skrifað. Og svo fóru þau að segja mér frá guðunum. En þau sögðu líka annað: „Þú kemur hingað og kaupir dýrar bækur um okkar trúarbrögð, en okkur er fyrirmunað að nálgast þær. Hvernig eigum við að nálgast svona hluti? Eru það ekki mannréttindabrot, að okkur skuli fyrirmunað að kaupa bækur um okkar eigin trúarbrögð?“ Það þarf ekki að taka það fram að það voru engar bækur á þessu heimili eða öðrum sem ég heimsótti þarna í hverfinu þessa tvo daga. Og jafnvel kennslukonan átti ekki lesgleraugu, sem gerðu henni kleift að lesa venjulegt lesmál á bók. En svo var tekið upp léttara hjal og Héctor hélt því fram, kannski í gamni, að hann ætti afmæli í dag og það væri ástæða til að halda upp á það. Við fórum í dollarabúðina í hverfinu og keyptum drykkjarföng og rauðan bol handa afmælisbarninu og settumst svo út í garð og horfðum út á hafnarflóann í Havana og nutum veðurblíðunnar og ég spurði Marisol hvort líf hennar væri erfitt. Það eru ekki efni til þess hér að rekja allar raunir hennar, en í stuttu máli þá sagði hún að stjórnvöld hefðu sett margar brýnustu nauð- synjar á dollaramarkað, og þar með gert þorra fólks ómögulegt að nálgast þær. Hún sagði að Kúba byggi við gott heilbrigðis- og mennta- kerfi, en að öðru leyti hefðu stjórnvöld í raun sett þá út á gaddinn, sem ekki hefðu aðgang að dollurum ferðamannanna. Hún hafði greinilega lítið álit á fjölmiðlunum og sagði að þeir spegl- uðu ekki þjóðfélagsveruleikann á Kúbu. Þar væri linnulaus hugmyndafræðileg umræða sem aldrei snerti veruleika fólks eins og hennar. Fólks sem býr til dæmis við þær aðstæður í miðborg Havana að hafa ekki aðgang að renn- andi vatni. Fólks sem hefur ekki efni á öðrum mat en hrísgrjónum og rótarávöxtum. Fólks sem hefur ekki aðgang að bókum og upplýs- ingum og fólks sem er sagt að bjarga sér sjálft með dollara um leið og slegið er á hendur þess ef það reynir að skapa sér sjálfstæðan tekju- grundvöll. Fólks sem hefur ímigust á öllum ferðamönnunum vegna þess að það nýtur einskis af peningum þeirra og finnst þeir ekki skilja neitt af því sem þeir sjá. Mestar voru áhyggjur Marisol þó af Hiram, syni sínum. Hann hafði verið greindur með viðvarandi hjartveiki, þannig að hann myndi seint ná fullri lífsorku nema fyrir kraftaverk. Það var ekki sjáanlegt á drengnum að öðru leyti en því að hann var lítill eftir aldri. Hiram er bæði greind- ur og fallegur strákur og hefur mjög þjálfaða rithönd miðað við aldur. Marisol sagði að nú treysti hún á það að guðinn Obatalá myndi lækna son hennar. En til þess að svo mætti verða þyrfti hann að vígjast guði þessum og klæðast hvítum fötum í heilt ár. Það besta sem ég gæti gefið henni væru hvít föt á drenginn hennar til að þóknast guðinum Obatalá. Guð þessi var sendur af skapara heimsins, Olod- umare, til þess að skapa manninn í sinni lík- amlegu mynd á jörðinni. Hann ræður einnig gangi himintungla og varðveitir frið, samlyndi og réttlæti á milli manna og er einnig sáttaboði milli guðanna. Einkennislitur hans er hvítur og honum skal fórnað hvítum dúfum eða hænsn- fuglum. Þá skildi ég hvers vegna hænurnar voru hvítar, sem fórnað var deginum áður. Fórnargjafir hans geta einnig verið hvít hrís- grjón eða mjólk eða granatepli. Hlutir sem tengjast honum hafa áferð silfurs og hvítra málma. Hann hefur mörg andlit og sólin og máninn eru líka tákn hans. Þennan fróðleik fékk ég hjá Marisol og Héctor á meðan við horfðum út á flóann og hún benti mér á ferju- báta sem komu og fóru. Pílagrímsferð til Regla Hvert fara þeir? spurði ég. Þeir fara til La Regla, sögðu þau. Eigum við kannski að sigla þangað? Já, því ekki það, það tekur enga stund. Og við sigldum yfir flóann með þessum ferju- báti og Marisol sagði að við ættum að kasta smámynt í hafið, því siglingin til La Regla væri pílagrímsferð. La Regla er í rauninni úthverfi Havana og þegar þangað kom blasti við allmikil kirkja og flestir farþegar virtust einmitt eiga erindi í hana. Þetta var kaþólsk kirkja búin mörgum sérkennilegum dýrlingamyndum, sem sumar voru klæddar í litrík föt. Þetta voru allt viðurkenndir kaþólskir dýrlingar, en það sem mest aðdráttarafl hafði var Jómfrúin svarta, umvafin heiðbláum kufli með silfurútsaumi. Þessi systkin, sem höfðu tekið virkan þátt í blótathöfninni kvöldið áður, krupu nú fyrir Jómfrúnni svörtu í Regla, verndardýrlingi staðarins og sérstökum verndardýrlingi blökkumanna í hinu kúbverska samfélagi. Ég gerði mér grein fyrir að í augum Marisol var Svarta jómfrúin í Regla staðgengill Obatalá, guðsins sem hún var vígð, og þetta var einmitt aðferðin sem svörtu þrælarnir frá Afríku höfðu beitt til þess að fá að halda sinni menningu allt frá nýlendutímanum: þeir sögðu spænska rannsóknarréttinum að Obatalá væri hið afr- íska nafn á Jómfrúnni í Regla og þannig voru þessi tvenn trúarbrögð, Ocha-reglan og krist- indómurinn, sameinuð á yfirborðinu og gátu þannig þrifist hlið við hlið. Eftir byltingu Castros á Kúbu féll kaþólska kirkjan í ónáð og byltingin sjálf varð í raun staðgengill opinberra trúarbragða. En Ocha-reglan eða „Santerian“ hefur lifað góðu lífi undir yfirborðinu, og þau systkin segja mér að þessi trúarbrögð hafi aldrei verið jafn virk og einmitt nú. Hverju skal trúa? Ég er ekki í aðstöðu til að dæma um útbreiðslu trúarbragða á Kúbu, en hitt er ljóst að kúbverska byltingin á sér ákveðna hliðstæðu í hinni kristnu trúarhefð. Margir forsprakkar hennar voru af sannkristn- um rótum og réðust gegn spilltri harðstjórn af kristinni réttlætiskennd. Þeir voru líka margir reiðubúnir að fórna lífi sínu fyrir málstaðinn, og kúbverska byltingin á sér marga „heilaga“ píslarvotta. Che Guevara er bara einn af mörg- um, þótt hann sé þeirra frægastur. Það var ekki síst stuðningur Bandaríkjastjórnar við hina spilltu yfirstétt á Kúbu sem gerði landið að bitbeini stórveldanna í kalda stríðinu og þvingaði Kúbu undir væng hins sovéska for- ræðis, sem enn heldur efnahag eyjarinnar í heljargreipum, þótt Sovétríkin séu löngu liðin undir lok. Það er ekki síst hið óréttláta við- skiptabann Bandaríkjanna á Kúbu sem hefur skapað stjórnvöldum þar skálkaskjól til að við- halda löngu úr sér gengnu skrifræðis- og efna- hagskerfi, sem þjónar nú varla öðru en að við- halda sjálfu sér og storka óvininum í norðri. Flestar ákvarðanir Fidels Castro um frelsis- sviptingu og skerðingu á mannréttindum hafa verið réttlættar með viðskiptabanni Bandaríkj- anna, og ekkert hefur verið þessu steinrunna kerfi jafn traustur bakhjarl og einmitt við- skiptabannið. Það er í krafti viðskiptabannsins sem þjóðin hefur staðið vörð um forseta sinn gagnvart umheiminum. Það blasir hins vegar við öllum sem koma til Kúbu að hið tvöfalda hagkerfi sem fólkinu er gert að lifa við er í raun líka tvöfalt siðgæði og órafjarlægt öllum hug- myndum um sósíalisma. Enda er ekki um þenn- an vanda fjallað í kúbverskum fjölmiðlum. Þar er látið sem hann sé ekki til. Það er þessi þver- sögn sem núna er að grafa undan hugsjónum sósíalismans á Kúbu. Mælskulist og persónu- töfrar Fidels Castro eru vissulega einstök, en við ríkjandi aðstæður verður ekki annað séð en að stjórn hans hafi annað hvort misst tengslin við veruleikann eða reynt að fela hann undir skykkju fornrar frægðar. Slíkt verður skamm- góður vermir, því af löngum kynnum mínum af þessari ágætu þjóð þykist ég nú heyra frá æ fleiri viðmælendum að mælskulistin hrífi þá lítt þegar hún er fram borin til þess að fela hið tvö- falda siðgæði steinrunnins stjórnarfars, sem ekki megnar lengur að leiða vatn í krana fólks- ins sem býr í hjarta hinnar gömlu Havana. Viva Cuba libra! Heimildir: 1 Önnur bókin er fræðilegt yfirlitsrit eftir Adrian de Sousa Hernández: El sacrificio en el culto de los Orichas – Ebbó Animales, Materiales y Plantas. Ediciones Ifatumo, 1998. Á kápu bókarinnar eru þessi vísdómsorð: „La vida no es más que el proceso de dar para recibir“: Lífið er ekki annað en það að gefa til þess að þiggja. Bókin er 197 bls. í vasabókarformi og kostar 15 dollara. Hitt kverið er eftir Gérald Mouial: La Santeria – Religion popular cubana, myndskreytt af listamönnunum Lawrence Zúniga Batista og Santiago Rodrigez Olazábal, útgefin af Ediciones Unión 2002. Texti þessa heftis er bæði á spönsku og ensku og það er 62 bls., myndskreytt, í nokkuð stærra broti. Verð USD 7,00. Höfundur er listfræðingur. Reuters „Mælskulist og persónutöfrar Fidels Castro eru vissulega einstök, en við ríkjandi aðstæður verður ekki annað séð en að stjórn hans hafi annað hvort misst tengslin við veruleikann eða reynt að fela hann undir skykkju fornrar frægðar.“ Dæmigert áróðursskilti í Havana.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.