Lesbók Morgunblaðsins - 12.06.2004, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 12.06.2004, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚNÍ 2004 9 H vað er lýðræði? Er það góð hugmynd? Ríkir lýðræði í heiminum? Skyldi vera vit í umræðunni um lýðræði sem á sér stað á Íslandi nú um stundir? Það getur verið. Eina söguhetjuna í nýrri skáldsögu José Sara- mago dreymir að hún sé að veiða orð með fiðrildaháfi, laus orð, orðamökk sem tvístrast eins og flugur, orð á stangli, orð sem leita undan, renna saman í dagblað; skáldsagan Ritgerð um skýrleika er fiðrildaháfur fullur af orðum sem gætu rétt eins verið komin úr íslenskum samtíma, orð á stangli, annarleg teikn, skýr orð, orð með rænu, slitin úr umræðunni – um- ræða um lýðræði á sér víst stað víðar en á Íslandi. Samkvæmt portúgalska Nóbelsverðlaunahafanum José Saramago er ekkert lýðræði í heiminum. Lýð- ræði er falleg skel sem inniheldur ekki neitt. Á þeim nótum talaði Sara- mago í Norræna húsinu á bókmenntahátíð þar sem hann var gestur síðastliðið haust. Þar sagði hann bók- ina sem hann ynni að fjalla um lýðræði. Að draga sjálft lýðræðið í efa, má það? Auðvitað má það og hefur verið gert, Platon vefengdi lýðræðiskerfið, Aristóteles efaðist um það, hugmynda- sagan er full af efasemdum um gildi lýðræðisins, í kjarna þess er sögð fólgin þverstæða, það ummyndist í andstæðu sína; Jacques Derrida segir lýð- ræðið vera „loforð sem stendur en hefur enn sem komið er ekki verið (fyllilega) efnt.“ Hef- ur ekki lýðræði annars beðið ýmis sláandi skipbrot, svo sem feril Adolfs Hitlers, sem komst til valda með lýðræðislegum hætti? Derrida – ég vitna eftir Birni Þorsteinssyni í grein í tímaritinu Hugur (15:2003) – tekur sem dæmi kosningar í Alsír árið 1992 þar sem stefndi í að flokkur öfgamanna sem hugðist afnema lýðræðið næði hreinum meiri- hluta; kosningum var aflýst og herlög sett á, lýðræðið var með öðrum orðum afnumið til að koma í veg fyrir að lýðræðið væri afnumið. En við vorum að tala um Saramago, hver er það? José Saramago er portúgalskur rit- höfundur, Nóbelsverðlaunahafi í bókmennt- um, 81 árs, býr á Spáni. Nýja bókin hans heitir Ensaio sobre a Lucidez á frummálinu, Ensayo sobre la lucidez í spænskri þýðingu Pilar del Río, eiginkonu Saramago. Ritgerð um skýrleika, gæti hún heitið á íslensku. Eft- ir Saramago hefur komið út á íslensku skáld- sagan Blinda í þýðingu Sigrúnar Á. Eiríks- dóttur sem einnig þýddi Söguna um ókunnu eyjuna sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins (27.03.2003). Nýja skáldsagan er nokkurskon- ar systurbók Blindu, nokkrar sögupersónur eru sameiginlegar bókunum tveimur og orðið „Ensaio“, sem er ekki gott að þýða, tengir titla þeirra. Og báðar bækur fjalla um ein- kennilegt neyðarástand sem skekur ótilgreint samfélag. Ritgerð um skýrleika ber skýr ein- kenni höfundar síns, ekki síst röddina í text- anum, nálæga höfundarrödd, rödd Saramago, hlýlega rödd sem einkennir allar bækur hans. Sigrún Á. Eiríksdóttir talar um þessa auð- þekkjanlegu rödd í yfirlitsgrein um verk Saramago í Lesbók 6. september 2003 og bætir við hinum einstaka stíl hans „sem flæðir fram eins og ólgandi fljót, er flókinn, ljóðrænn, hraður og hægur, hnígur og stígur eins og ljóð eða tónverk.“ Saramago virðir ekki reglur um setningafræði og greinar- merkjasetningu, þar með er ekki sagt að textinn hans sé beinlínis tilraunakenndur, José Saramago er stælalaus höfundur, sú að- ferð sem hann notar við greinarmerki og upphafsstafi gerir bókina talmálskennda, býr til mús- ikalskt flæði. Ritgerð um skýrleika trónir efst á metsölulistum á Íberíuskaganum; nei, ekki eru allir hrifnir. Er ekkert lýðræði í heiminum? Aðför að lýðræðinu! Lýðræðið birtist í skáldsögu Sara- mago ekki síst sem nokk- urskonar skálkaskjól, skrauthvörf, orð sem er allragagn og mest notað til sjálfsgöfgunar í pólitík og fjölmiðlum. Nei, stjórnmála- menn eru lítt hrifnir af Rit- gerð um skýrleika, fjöl- miðlafólki finnst að sér vegið, fjölmiðlar fá enda á baukinn hjá Saramago, klappa yfirvöldum lof í lófa eða hvessa klóna en firra sig um leið allri ábyrgð, láta eins og þeir leggi ekki grunninn að hinum mestu óförum og verða forviða eins og svívirtar, hreinar meyjar þegar einhver gagnrýnir þá, segir Nóbelsverðlaunahafinn í nýlegu viðtali (http://elcultural.es, 15. apríl, 2004). Efnafólk er tæplega uppnumið af bók Portúgalans, lýðræðið er í gíslingu fjölþjóðlegs peninga- valds, segir Saramago, fjölmiðlarnir eru í eigu auðhringa sem starfa, með fáum und- antekningum, í sátt og samlyndi við yfirvöld. Þau öfl sem mest áhrif hafa á líf fólks eru ekki lýðræðislega valin. Þau sem eru það hegða sér ekki lýðræðislega. Saramago segist í áðurnefndu viðtali ekki draga lýðræði í efa heldur þá skrípamynd lýðræðis sem ríkir þar sem stjórnmálaafl og peningaafl haldast í hendur. Að skila auðu? Fasísk viðmið innbyggð í lýðræðið sjálft, sögðum við, lýðræðið sem versta og altæk- asta algildið, sjálfsögð sannindi sem enginn lætur hvarfla að sér – eða vogar sér – að ve- fengja…? Tökum dæmi: Hvað myndi gerast ef meirihluti kjósenda í tilteknu samfélagi skilaði auðu í stjórnarkosningum? Hvert yrði svar lýðræðisins þar sem stjórnmálin eru vanari að rækta kjósendur, hlaða þeim upp í garða, ef svo má segja, en að hlusta á þá? Þetta er einmitt útgangspunkturinn í Ritgerð um skýrleika. Kjördagur er runninn upp í nafnlausri höfuðborg í nafnlausu landi, eng- inn hefur látið sjá sig enn í upphafi bókar, en það er líka rigning, kannski koma kjósend- urnir þegar styttir upp, já, þeir koma einn af öðrum, þeir kjósa, en þegar talið er upp úr kössunum kemur í ljós að meirihluti þeirra, yfir áttatíu prósent, hefur skilað auðu. Brugðið er á það ráð að endurtaka kosning- arnar en allt fer á sama veg. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda skilar auðu. Er þetta eitt- hvert samsæri? Undirróðursstarfssemi? Hef- ur öfgakenndur hópur anarkista náð tökum á kjósendum? Hver stendur á bakvið þetta? – hversu ríkt er ekki í mannlegri hugsun að halda að einhver eða eitthvað hljóti að standa á bakvið allt? Úrslitin verður að rannsaka, það verður að gera kannanir, yfirheyra fólk- ið. Þá seku verður að finna – ef ekki finna, þá finna upp. Enginn kannast við að hafa skilað auðu – en er annars nokkuð ólöglegt við það? Já, það hlaut að koma að þessu, segir fólkið blátt áfram og algjörlega æsingalaust, venju- legt fólk. Að skila auðu er lýðræðislegur rétt- ur, fólkið þekkir rétt sinn, það hefur tekið frjálsa og skýra ákvörðun, fylgir engum flokki og engri pólitík, val þess er fullkom- lega lýðræðislegt en lætur þó yfirvöld nötra á beinunum – þetta gerist ekki þótt mikill pró- sentuhluti sitji hjá, segir Saramago í viðtal- inu, enda er autt atkvæði merkingarbært öf- ugt við hjásetu. Ef auður kjörseðill skelfir stjórnmálaflokka er það einmitt vegna þess að hann er lýðræðislegur. Smám saman verða yfirheyrslurnar fasískar – í kjarna nú- verandi lýðræðisskipulags er fasismi – en þó áfram án árangurs. Yfirvöld bregða á það ráð að yfirgefa borgina, önnur borg er lýst höf- uðborg, stjórnvöld, lögregla og her yfirgefa hið sökkvandi skip, lýst er yfir neyðarástandi og borg uppreisnarinnar er sett í umsátur. Ritgerð um skýrleika skiptist nokkuð í tvennt, í fyrri hluta bókarinnar birtist breið mynd af samfélagi, við sjáum stjórnmálaleið- toga kljást við þann vanda að kjósendur skila auðu, það skín í tennur, þeir eru góðir við konurnar sínar. Í síðari hluta bókarinnar hef- ur lögregluforingi það verkefni að grennslast fyrir um hugsanlegan sökudólg í málinu, konu læknisins – persónur Saramago eru gjarnan nafnlausar – sem ekki varð blind þegar hvítablindan skall yfir þetta sama sam- félag í skáldsögunni Blindu. Það er lýðræð- isleg skylda lögregluforingjans að finna hana seka um samsæri – um aðför að lýðræðinu – því allt á sér upptök einhversstaðar. Við verstu hryðjurnar skella stjórnmálamenn á með mærðarlegum og merkingarsnauðum þvættingi um lýðræði. Einhversstaðar las ein söguhetjan: „Við fæðumst, og á því andartaki er sem við höfum skrifað undir samning, en sá dagur kann að renna upp að við spyrjum okkur Hver hefur skrifað undir þetta fyrir mig?“ Segjum ekki meir, slétt sagt mögnuð bók, vonandi verður hún þýdd á íslensku. Orð á stangli, örsnöggt hnífslag, lýðræði, hundur spangólar í bókarlok en þagnar fljótt, tveir blindir menn taka tal saman. Dagurinn gæti verið dagurinn í dag. Annaðhvort er að taka skáldskap alvarlega eða ekki. LÝÐRÆÐI, HUNDGÁ, TVEIR BLINDIR MENN… E F T I R H E R M A N N S T E FÁ N S S O N Höfundur er bókmenntafræðingur. Morgunblaðið/Þorkell „Lýðræðið birtist í skáldsögu Saramago ekki síst sem nokkurskonar skálkaskjól, skrauthvörf, orð sem er allragagn og mest notað til sjálfsgöfgunar í pólitík og fjölmiðlum.“ Ritgerð um skýrleika fjallar um það hvað myndi gerast ef meirihluti kjósenda í tilteknu samfélagi skil- aði auðu í stjórnarkosningum. Nýjasta skáldsaga portúgalska nóbelshöfundarins José Saramago, Ensaio sobre a Lucidez eða Ritgerð um skýrleika, kom út fyrir skömmu og hefur vakið gríðarlega athygli í heimalandi höfundarins og á Spáni þar sem hún hefur verið þýdd. Hér er rýnt í spænsku þýðinguna en bókin fjallar um lýðræði sem Saramago telur ekki til staðar í heiminum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.