Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 10.07.2004, Qupperneq 5

Lesbók Morgunblaðsins - 10.07.2004, Qupperneq 5
            lítil fyrir valdhafana, fremur tákn en uppreisn og öðru fremur eitthvað æskilegt fyrir óæskilega vessa. „Sá sem kom gallabuxnaæðinu af stað var rithöfundurinn Jack Kerouac með bók sinni On the road.“ Eða eitthvað á þessa leið farast bandaríska höfundinum William Burroughs orð árið 1969 þegar hann skrifaði með sínum hætti bók um buxurnar og kallaði hana: Denim, from cowboys to catwalks. Með þessari tilvitnun í Burroughs er því ekki haldið fram að beatnikarnir hafi alltaf verið í gallabuxum heldur ríkti galla- buxnaandi í verkum þeirra og með honum áttu þeir þátt í því að skapa talsvert langlífa bandaríska fagurfræði. Til voru listamenn sem lifðu og störfuðu í sönnum gallabuxnaanda eins og málarinn Jackson Pollock. Það er hægt að sjá þegar hann var kvikmynda- ður við að mála eða „þræða lit“ á striga með þeim hætti að láta hann leka þynntan úr penslum á striga breiddan á gólf, sköllóttur með sígarettu milli varanna. Jafnvel málari eins og Picasso smit- aðist og lét vitna um sig í gallabuxum, og síðar komu Warhol, söngvarinn Bob Dylan, strákarnir í Rolling Stones og Bruce Springsteen. Þetta áttu að vera karlmenn á karlmenn ofan. Konur fengu líka sitt, sérstök tíska fyrir þær hafði fyrst litið dagsins ljós árið 1938 með buxum sem fengu nafnið Lady Levi’s og ári síðar hvatti tískublaðið Vogue lesendur sína til að kasta rósótta greiðslusloppnum í ruslið og vera í kúrekabuxum innan dyra á morgnana. Með þessu hófst bylting og farið að framleiða annan klæðnað en venjulegar buxur úr denim. Allt var reynt til að koma hrjúfa baðmullarefninu ósnortnu úr því sem var kallað „buxnablindgan“ og nota það til dæmis í jakka eða inniskó. Til að hvetja konur til nýrra dáða í nýjum klæðnaði birti Vogue mynd af frægu sýningarstúlkunni Verúsku í bandarískri grindhoraðri út- gáfu af japanskri geishu klæddri kímono, ekki úr silki heldur denim. Konur höfðu nú fengið stóra sneið af gallabuxnatertunni til að vera sitt eigið augnayndi og það sem eftir var af henni fengu karl- menn. Buxur þeirra þrengdust svo betur sæist það sem á amer- ísku var kallað the basket og í körfunni framan á buxunum var ágætið innan við loku. Með nýfengnum þrengslum átti að móta á mátulega háttvísan hátt fyrir dularafli karlmannsins, en síðan átti kvenlega innsæið að sjá um hitt. Karlar höfðu aldrei fengið álíka mikið frelsi til að sýna sinn mann við lærin. Þetta var upp- haf þess að nú mega karlmenn líkja ófeimnir eftir konum og vera í þröngum sokkabuxum en samt helst bara á reiðhjóli eða í skokki. Eftir þetta leið ekki á löngu þangað til stóru tískukóngarnir byrjuðu að sníða alklæðnað í anda Levi’s. Meðal annars Calvin Klein. Í fótspor hans fetuðu Ralph Lauren og Versace. Meira að segja teiknaði Gucci gallabuxur árið 1990 sem kostuðu hvorki meira né minna en rúmlega 4 þúsund evrur. Öll hjól fóru að snúast og brúðarkjólar féllu fyrir efninu denim, kvöldkjólar líka. Þannig hefur gangur mála verið hvað varðar leiðina sem buxur Levi Strauss ruddu frá fátækum til auðmanna og -kvenna, einkum þeirra sem hafa komist í sviðsljósið, ekki vegna sérstakra hæfileika heldur hlálegs innihalds með hjálp iðn- aðar sem er kenndur við auglýsingar. Á næstu árum ætlar Levi’s að koma með nýtt alþýðlegt buxna- safn, aðeins fyrir stúlkur, undir nafninu Lady Levi’s, til að koma í veg fyrir að tískukóngar kæfi fyrirtækið sem kom fyrst buxunum á legg. Þótt framtakið sé vænt í garð stúlkna vofir yfir því hætta, heyrst hafa raddir að óþolandi sé að konur og karlar gangi í sama einkennisbúningi, nú sé tími til kominn að færa aftur á stall ein- staklingshyggju og frumleika og það verði aðeins gert með því að konur taki aftur til við buxnasauminn. Sálfræðingar á sviði klæðnaðar halda því sterklega fram að á heimilinu mótist einstaklingurinn, drengir og stúlkur, og móðirin skapi börnum örlög með fötunum sem hún fær þeim. Svo hjólið á kannski eftir að snúast gegn fjöldaframleiðslu á fötum, skapgerð, smekk og óskum. Ýmislegt fleira er markvert í tengslum við buxurnar en það að ef maður ætlar að komast í þær með góðu móti þarf hann að halda upprunalegum línum, því enginn fæðist ýstrubelgur. Hið leynda tákn hefur verið margvíslegt frá vöggunni í San Francisco til okkar dags. Óhætt er að segja: „Í upphafi var efnið“, en öllu efni fylgir merking og möguleiki til skilnings. Buxurnar eru hvort tveggja í senn heild og brot og þær hafa valdið múghegðun og samræmt skynjun fremur en þær styrki meðfætt eðli, þótt til séu þeir sem reyna að halda sér frá lýðnum með upplituðum buxum, máluðum, tættum í persónulegum stíl. Fyrir bragðið er vert að skoða þær frá sjónarhól félags- og sálfræði. Í þeim má greina formvilja, siðfræði og þörf fyrir niðurrif og uppbyggingu. Í engum flíkum sem maðurinn hefur klæðst í sögu sinni, karlar og konur, börn og unglingar, hafa legið eins í augum uppi hreyfingar innan samfélagsins, þótt einsleitar séu, alltaf blá- ar. Til að mynda er auðsætt að í sama mæli og erfiði daglegs lífs minnkaði fengu buxurnar tákn þess, tilbúin einkenni slits. Ungt fólk sóttist ekki eftir þrældómi heldur því að bera utan á sér táknið: Rifur, óhreinindi. Um þetta var séð í framleiðslunni, fólk þurfti bara að kaupa buxur og smeygja sér í þær. Eftir því sem auðnuleysið óx urðu buxurnar slitnari á lærunum, líkt og hjá skó- smiðum fyrri tíma en algerlega heilar. Allt var tilbúið, einnig lyktin. Í vönduðum verslunum, hinum svonefndu buxna- paradísum, var hægt að kaupa buxur með hverskyns ólykt: Hlandlykt, hrossalykt, leðurlykt, jafnvel nálykt o.s.frv. Menn og konur sem höfðu aldrei leitað gulls upp um fjöll og firnindi eða skriðið á hnjánum eftir öðru en leikföngum og tísku fylltust á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar söknuði eftir tíma sem þau höfðu aldrei kynnst. Það sem eitt sinn þótti van- sæmd, að vera í görmum, varð eftirsóknarvert. Aldrei verður þráin meiri en þegar maðurinn leitar og finnur með auðveldum hætti og hann myndi fyrirlíta og forðast fundinn þyrfti hann að kynnast honum í raun og veru. Hin tilgerðarlega eymd fór sem eldur í sinu um vesturlönd, rifnar buxur, ekki bara á hnjánum heldur á lærum og rassi, stundum við nárann og hægt að sjá inn um gatið. Að vera í druslum var ekki bara tilbúin uppreisn heldur kyn- ferðisleg ögrun æstrar en kyndaufrar æsku, ekki með „dýrslega“ þörf heldur hafði hún hrökklast út á jaðar samfélagsins. En druslur einskorðuðust ekki við jaðarfólk, auðugir, einkum ungir karlmenn, tættu buxur sínar. Það að líkjast ræfli þótti fínt. Þegar konur fóru að ganga í níðþröngu heyrðust afturhalds- raddir um að þrengslin kæfðu hold þeirra, lyktin ykist, maurar settust milli rasskinna, ykju kláða, svo sama vilpa myndaðist og við meyrutær; og allt átti þetta að valda ókvenlegum hreyfingum með ljótum hljóðum þegar langar neglur rífa í óþjált efnið. Þetta heyrðist hjá virtum læknum en varnarorðið hafði engin áhrif ef marka má sölu. Konur byrjuðu þá líka að rífa buxurnar eins og karlmenn, en rifurnar merktu ekki að lofta þyrfti út. Lindar, flip- ar minntu á barrokkstíl liðinna alda þegar föt hefðarfólks voru flipuð. Þetta var formgnægð utan á líkamanum þannig að sú at- hygli sem hafði áður beinst að mestu milli fótanna flökti nú um allan líkamann. Þetta og annað jókst og fékk fleiri einkenni eða tákn. Til að mynda var í tísku að karlmenn helltu klór í efnið til að fá hvítan blett við nárann. Engu var líkara en limurinn andvarpaði svo sáran og bæði um hjálp að efnið upplitaðist. Í fyrstu var aðferðin notuð í táknmáli manna sem voru kallaðir kynvillingar en hafa nú fengið kurteisisheitið samkynhneigðir. Í mörgum löndum var hneigðin ennþá refsiverð og bannað að hafa sérstaka staði þar sem þannig menn gætu „merað sig“ í friði með sínum líkum „inn- an klíkunnar“ svo klórtáknið gagnaðist um skeið, það var vís- bending: Maður með hvítan blett var á „línunni“. Um leið og karl- mönnum almennt fannst bletturinn snjall til heilbrigðs brúks, tákn um flæðandi sæði og kyngetu, stækkaði hann og fór varla fram hjá neinum. Þá vandaðist málið: Fremur þeir sem fóru villir vegar í kynhneigð sinni en þurfandi konur ráku augun í blettinn, lögðu sína merkingu í hann og leituðu svars. Þannig fór rétt karl- mannseðli oft í súginn. Svona mætti lengi telja fram dulda merkingu buxnanna. Á síðustu árum hafa komið fram einkenni um úrkynjun og tek- ið á sig ýmsar myndir. Framleiðendur hafa att þeim fram í takt við tímann í von um að halda lífi í buxum sem margir eru að verða þreyttir á, þótt þær séu samkynsbuxur og eigi að vera jafnrétt- ismál. Buxur í vinnustíl eru ætlaðar fólki sem hefur aldrei dýft hendi í kalt vatn, svonefndum markhópi sem vinnur ekki ærlegt handtak og þraukar á hnignunarskeiði samtímans. Þannig fólk vill líta út eins og vinnuþrælar, buxnalega séð. Einnig hefur verið gerð aðför að litnum, ekki með klórbletti heldur hvítum strokum á lærum, svo buxurnar minna á beinagrindabúning sem fólk not- ar á mexíkanskri dauðahátíð. Algengt var fyrir síðustu þingkosningar í Frakklandi að konur í París sæjust á götu með rauða klessu niður á mitt læri eins og þær hefðu tíðir. Í Madrid mátti sjá karlmenn með brúna klessu að aftan eins og þeir hefðu kúkað á sig. Þetta þótti djarft en var meinlaus örgrun, framleidd, sniðin fyrir fólk sem þorir ekki að gera neitt sjálfstætt, ekkert fyrr en það er tíska og viðurkennt. Þannig urðu buxurnar að einkennisbúningi getulausra, skoð- analausra, fólks með takmarkalausa þörf fyrir að láta bera á sér í heimi þar sem enginn tekur eftir öðrum; allir keppast við að sýna allt sem býr ekki yfir neinu og sanna þannig að það er ekkert að fela. Svona hefur uppgangur og hnignun heimsveldisins Levi’s- buxnanna verið frá óslítandi flík til ónýts hégóma. Þetta er ferð frá nauðsyn til nytjaleysis, þróun frá öreigastétt til stéttleysingja. Á síðasta ári í tilefni 130 ára afmælisins var valinn umboðs- maður buxnanna í Evrópu með aðsetur í Berlín. Hann á að vaka þar yfir framgangi þeirra. Í tilefni af nýrri framsókn var haldin 20. maí hátíð í fyrrum járnbrautarstöð. Þarna voru saman komnir fréttamenn frá 170 fjölmiðlum hvarvetna úr heiminum og 250 blaðamenn með önd í hálsi. Umboðsmaðurinn Kenny Wilson horfði björtum augum á framtíðina. Hann er ólíkur Levi Strauss í útliti, stundum er erfitt að sjá hvort hann er karl eða kona og klæðnaðurinn eftir því: Allt úr denim. Ef hann opnar munninn talar hann innfjálgur um framtíð denim, nýjan „topp“ úr denim, bíkíní úr denim hannað af Tommy Hilfiger. Stundum bregður Kenny á leik og talar um nýjan „topp“ hannaðan af Moschino Mare. Þessa stundina er toppurinn kvennærföt úr denim, legg- ingarnar við brjóstið eru frá Chanel en hálsmál jakkans frá Gucci. Yfir öllu í Berlín hvíldi útreiknuð þýsk hráslagaleg fegurð með alþjóðlegu ívafi tískukónga. Þeir iðuðu innan um gestina líkir hnellnum miðaldra frænkum, umkringdir brosandi ljóshærðum stúlkum á framabraut. Á vörum allra lék opið bros sem einkennd- ist af elskulegum kulda, bros sem heldur frá sér þeim sem brosað er við, jafn óyfirstíganlegt og Berlínarmúrinn meðan hann var upp á sitt besta nema viðmælandinn hefði auð og völd til að klifra yfir hverja hindrun á markaðnum. Á helgistundina í Berlín var líklega engum íslenskum fjölmiðli boðið, að minnsta kosti voru þeir ekki áberandi. „Er íslenska þjóðin þá svona ómerkileg eða lítil í hugum þeirra sem framleiða markverðar buxur?“ „Nei,“ er svarið. „Við sölu á buxum fer Levi’s ekki í manngrein- arálit, en guð minn góður, miðað við markaðsstærð er Ísland í hæsta lagi lítil stórþjóð.“ Þess ber að geta til fróðleiks og vara að greinin sem hér kemur fyrir sjónir almennings er vísindaleg þótt heimilda sé hvergi get- ið. Höfundurinn er hlutlaus, ólyginn, hefur ekki verið styrktur af buxnaframleiðanda og ekki heldur hlotið styrk úr Vísindasjóði. Greinin var upphaflega samin fyrir nokkrum árum en hefur farið í endurskoðun og verið lesin upp á fundi fyrir ári. Um það eru til heimildir og sagnfræðingar gætu vitnað um það, ef þeir nenntu að vera daglega í siðahlutverki sínu. Höfundur er rithöfundur. Morgunblaðið/Eggert Levi’s „Í kreppunni miklu kringum 1930 urðu buxur Levi’s að einslags þjóðbúningi bandarískra öreiga, og bændur með slitna hatta hrökkluðust í þeim af jörðum sínum, teknir í framan og kinnfiskasognir af sól og hungri.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.