Íslendingaþættir Tímans - 21.07.1982, Síða 8
ALDARMINNING
Guðný Sveinsdóttir
frá Sæbóli í Aðalvlk
F. 14. júli 1882.
D. 25. janúar 1981.
Meðal skýrustu og kærustu bernskuminninga
minna eru þær, sem tengdar eru því, þegar ég
fékk að fara með föður mínum í heimsókn yfir
að Sæbóli, að hitta „frænku á Bólinu“, en svo
kallaði faðir minn að jafnaði Guðnýju
Sveinsdóttur, sem var tengd okkur með þvi, að
maður hennar, Magnús Dósóþeusson, og faðir
minn voru bræðrasynir.
Glöggt fann ég, hvað faðir minn mat þessa konu
mikils, enda stafaði frá henni hressilegum
menningarbiæ, sem fyllti barnshuga minn
hrifningu. Guðný hafði komið til Aðalvikur
aldamótaárið 1900 austan úr Húnavatnssýslu, en
hún var fædd að Gili í Svartárdal 14. júlí 1882,
og var því aðeins 18 ára þegar hún kom í okkar
sveit. Guðný var ung tekin í fóstur af
prestshjónunum á Auðkúlu í Svinavatnshreppi,
og hjá þeim var hún, þar til hún fór á vit örlaga
sinna í Aðalvik. Sú ferð var gerð að beiðni móður
hennar, sem var að flytjast til Vesturheims og var
ætlun Guðnýjar að vera aðeins stuttan tima hjá
eldri systur sinni, sem þar var gift.
Guðný var óvenjulega glæsileg og fjörmikil
kona, og heyrði ég föður minn oft minnast á það,
hve mikils virði það hefði verið þessari afskekktu
byggð, að hún ílentist þar, og var ekki örgrannt
um, að hann mæti frænda sinn, Magnús í
Görðum, meira en ella fyrir að honum skyldi
takast að tengja hana ætt okkar.
Þau Magnús og Guðný gengu í hjónaband 1904.
Fyrstu þrjú árin bjuggu þau að Látrum i Aðalvik,
en þá fluttu þau sig vestur yfir víkina að Sæbóli.
Þar bjuggu þau siðan óslitið, þangað til Magnús
fórst með vélbátnum Leifi frá ísafirði rétt fyrir
jólin 1924 ásamt tveim bræðrum mínum og fjórum
öðrum ungum mönnum úr Aðalvík.
Þau Magnús og Guðný eignuðust sjö dætur, og
var sú yngsta á öðru ári, þegar hann féll frá. Er
augljóst, að oft hefur verið þröngt i búi hjá
ekkjunni með dætumar sjö, en hana brast aldrei
kjark og allt bjargaðist.
Þegar ég hugsa nú til Guðnýjar og annarra
ástvina, sem flestir eru horfnir, finnst mér, að með
þeim hafí dáið hluti af bernsku minni. Aðalvíkin
er að vísu harðindapláss, þótt mikið sé þar af
fegurð. Þar fannst því enginn, sem var aflögufær
með fé, en auðlegð hjartans var þar meiri en ég
hef kynnst síðar á lífsleiðinni. Guðný var ein
þeirra mæðra, er í fátækt fórnuðu öllu fyrir börn
sín, og það var vissulega erfitt að skilja, hvernig
henni tókst einni að sjá fyrir barnahópnum, auk
þess að vera ávallt veitandi öðrum i örbirgð sinni.
Og aldrei kom ég svo að Sæbóli, að hún hefði
ekki eitthvað að rétta mér. Það mun og hafa verið
reynsla annarra, sem af henni höfðu kynni.
8
Hún Guðný var stór i fátækt sinni og lífið gat
ekki beygt hana, þótt öllum megi ljóst vera,
hversu yfirþyrmandi sorg það var að missa
eiginmanninn og fyrirvinnuna frá stórum
barnahópi og standa frá þeim dimmu haustdögum
ein uppi með dæturnar og forsjá heimilisins.
Jarðnæði það, sem hún hafði, var litið og það svo,
að hún gat aðeins heyjað handa örfáum kindum.
Varð hún því að treysta að mestu á stopula
fiskvinnu, þegar róið var vor og haust. En yfir
vetrarmánuðina vann hún við sauma- og
prjónaskap.
Það þurfti þvi einstæða nýtni, sparsemi og
sjálfsafneitun til að komast af með átta manns í
heimili við slikar aðstæður. En Guðný kvartaði
aldrei, og ekki leitaði hún til hreppsins um
stuðning. Enginn skyldi hæla fátækt, en sé hún
óumflýjanleg, er galdurinn sá, að láta hana ekki
eitra lif sitt, og þá list kunni Guðný Sveinsdóttir
öllum öðrum fremur, enda var hún okkur öllum,
sem henni kynntumst, ógleymanleg.
Guðný var jafnan sótt til að hjúkra og græða,
er veikindi bar að garði hjá nágrönnunum eða ef
slys urðu. Hún var einstaklega glögg og nærgætin
við allt, er laut að hjúkrun, og var slikt enn meira
virði en ella fyrir þær sakir, að þarna var miklum
erfiðleikum bundið að ná tii Iæknis.
Guðný hafði forgöngu um og vann að ýmsum
framfaramálum i hreppnum. Hún stóð meðal
annars fyrir þvi rétt eftir aldamótin eða stuttu eftir
að hún fluttist i sveitina, að stofnað var
lestrarfélag í hreppnum. Þannig átti hún hlut að
þvi, að stofnuð var barnastúka. Og þegar
verkalýðsfélag var stofnað þar 1930, þá áttum við
félagarnir góðan liðsmar.n, þar sem hún var, og
var stofnun þessara samtaka þó ekki allt of vel
séð þar i sveit.
Árið 1937 fluttist Guðný til ísafjarðar og gerðist
þá félagi í slysavarnadeildinni þar og starfaði síðan
innan vébanda hennar af miklum áhuga. Á
áttræðisafmælinu var hún kjörin heiðursfélagi
deildarinnar og við andlát hennar gaf deildin
myndarlega peningagjöf til minningar um hana.
Á ísafirði réðst Guðný til sjúkrahússins, þar
sem hún starfaði síðan samfleytt í 25 ár. Vann
hún aðallega sem saumakona sjúkrahússins. En
fljótlega varð annar meginþáttur starfs hennar að
vaka yfir þeim, sem gengið höfðu undir uppskurð
eða vaka varð yfir einhverjum öðrum ástæðum.
Féll Guðnýju þetta starf vel, og við margan
dánarbeðinn hefur hún staðið þann aldarfjórðung,
sem hún helgaði sig sjúkrahúsinu og sjúklingum
þess krafta sína. Hún flutti þar mörgum birtu og
yl og hrjáðum huggun.
Var mér sagt af þeim, sem reynt höfðu, að það
hefði verið sérstök tilfinning, sem ekki gleymdist,
að vakna af klóróformsvefninum eftir svæfinguna
og finna handtak Guðnýjar og hlýju. Þar
hjálpaðist allt að, mikil Iífsreynsla, trúarvissa og
öryggi. Rólyndi hennar og kærleiksrik umönnun
átti sér fá takmörk, og þess sáust aldrei merki, að
hún hefði átt erfiða ævi. Henni brást aldrei ráð i
neinni raun en auk þess átti hún létta lund, sem
gæddi hana bjartsýni. Skaprík gat hún samt verið
og einbeitt, en hún hafði tamið þá orkugjafa svo
að þessi þættir í fari hennar komu aðeins fram
sem dugnaður og atorka. Guðný hafði líka
sannarlega þurft á þessum eiginleikum að halda,
er hún stóð ein uppi, ung kona með börn sín og
þurfti að sjá fyrir allri velferð þeirra.
Erfiðleikar Guðnýjar hafa eflaust orðið til þess,
með öðru, að hún hafði óvenju mikla samúð með
þeim, er minna máttu sín, og hún skildi öðrum
betur þjáningar annarra. Hún hafði sannarlega
mikið að gefa af kærleika og umhyggju. Það fór
heldur ekki hjá því, að hún væri elskuð og virt af
sjúklingum, samstarfsfólki og læknum sjúkrahúss-
ins.
Þegar Guðný varð sjötug, fluttist hún til
Bergþóru dóttur sinnar i Keflavík og dvaldi þar
við kærleiksrikt atlæti, þar til hún varð að leggjast
á sjúkrahús árið 1979. Valdi hún þá að fara í
sjúkrahúsið á ísafirði, þar sem hún hafði átt svo
langan og sérstæðan starfsdag, enda virt af öllum,
sem með henni höfðu starfað. Þar lést hún svo
25. janúar 1981 á nítugasta og níunda aldursári.
Nú er hljótt og kyrrt yfir Víkinni okkar. Þar
eru aðeins minjar um það, sem einu sinni var,
lifandi saga og gleymd, sem fjallaði um
mannsbörn, oft svo einmana og yfirgefin, um
gleði og sorgir, sársauka og þjáning, mikla og
harða lífsbaráttu, athafnalíf sem ekki er lengur.
En hæst ber í minningunni lífssaga hinnar
stórmerku konu, Guðnýjar Sveinsdóttur, hun
gleymist engum, er af henni höfðu kynni.
Gunnar Friðriksson.
íslendingaþættir