Íslendingaþættir Tímans - 27.07.1983, Blaðsíða 3

Íslendingaþættir Tímans - 27.07.1983, Blaðsíða 3
Guðrún Jónsdóttir, frá Guðrúnarstöðum Fædd 7. júní 1887 Dáin 10. júní 1982 Þótt seint sé vil ég úr bæta og gera það, sem ég hafði heitið, að minnast með nokkrum orðum mikillar vinkonu minnar allt frá bernskudögum, Guðrúnar Jónsdóttur, frá Guðrúnarstöðum í Vatnsdal, en rúmt ár er síðan hún dó. Þrjú síðustu árin og þó vel það hafði hún dvalið' á Elliheimilinu Grund í Reykjavík, en andlát hennar bar að þ. 10. júní á síðastliðnu ári. Varð æfi hennar full 95 ár. Hún var fædd þ. 7. júní árið 1887. Var ein af sjö börnum þeirra Axlarhjóna Stefaníu Guðmundsdóttur og Jóns Jónssonar. Bræður Guðrúnar voru þrír, þeir Jósef prestur á Setbergi, Sigurður bóndi á Litlu Giljá og Jón yngri í Öxl. Systumar voru auk Guðrúnar, Sigríður, Jórunn og Helga. Þær fluttu allar burt úr heimahéraði. Tvær fyrrnefndu til Reykjavíkur, en Helga til Akureyrar. Öll eru þessi systkini nú dáin og kvaddi Guðrún síðust þeirra. í æsku minni var mikið talað um þau Axlar- systkinin og foreldra þeirra. Þótti mikið kveða að þessari stóru fjölskyldu sökum myndarbrags í heimilishaldi og glaðværðar systkinanna. Leiðir þeirra Guðrúnar og Helgu lágu fram í Vatnsdal, þótt ekki yrði það til langframa, hvað Helgu snerti. Átti hún þó bæði drauma og æfintýri í Vatnsdalnum, sem hún trúði mér strákpatta fyrir. En sú saga verður ekki sögð þótt ljóslifandi sé í minni mínu. Draumar Guðrúnar rættust aftur á móti og urðu að veruleika í Vatnsdalnum. Ung hafði hún lært karlmannafatasaum í Reykjavík og fyrst man ég eftir henni er hún var við saumaskap hjá móður minni í Þórormstungu og síðan sem húsmóður á næsta bæ, Guðrúnarstöðum, en hún varð eigin- kona Guðmundar Magnússonar, bónda þar og hafði hann flutt þangað vorið 1908 með foreldrum sínum, Sigurlaugu Guðmundsdóttur og Magnúsi Kristinssyni, sem áður höfðu búið á Ægissíðu á Vatnsnesi og komið upp stórum barnahóp við lítil efni, en ekki skort á hæfileikum, sbr. að þeir voru bræður Guðmundar, Ásgeir skólastjóri á Hvammstanga, Magnús ritstjóri Storms, Kristinn kaupmaður og síðar bóndi á Kleifum og Björn er bjó um skeið bæði í Húnavatnssýslu og Skagafirði. Guðmundur Magnússon kom að Guðrúnar- stöðum við lítil efni og hafði jörðin verið í eyði í tvö ár. Húsakostur var gamall torfbær og útihús mjög léleg. Þurfti þvf þar um að bæta, svo sem föng leyfðu. Þröngt var á palli í gömlu baðstofunni. Þar var Þó unnið úr ull og hrosshári,, sem tíðkaðist í þá daga. Sigurlaug á Guðrúnarstöðum var annáluð tókona og fór mikið orð af. Á Guðrúnarstöðum var og þá bróðir Sigurlaugar, Helgi, kallaður malari, og fleiri, en í skjóli þeirra Guðrúnar og Guðmundar endaði þetta fólk æfidaga sína og held ég að enginn er til þekkti hafi efast um eðlikosti þeirra hjóna til þess að mýkja því elliárin. Þá voru á Guðrúnarstöðum í sumardvöl bróðurböm Guðmundar, börn Magnúsar og í grein er Gerður Magnúsdóttir ritaði um Guðrúnu 85 ára lýsti hún því hvað að henni og þeim systkinum snéri, en Gerður segir m.a.: „Þetta voru yndislegir dagar og má vart á milli sjá hvort mátti sín meira, hin hlýja rósemi Guðmundar eða græskulaus glaðværð Guðrúnar, en þau voru einstaklega samrýmd og samhuga og féll þar aldrei skuggi á.“ Undir þessi orð Gerðar getum við sveitungar þeirra Guðrúnarstaðahjóna tekið, Guðmundur var mikið Ijúfmenni og vel virtur af samtíðar- mönnum og nágrönnum. Dagfar Guðrúnar ein- kenndist ætíð af hressileik og heillyndi til þess að semja sig að aðstæðum og svo fór að hún þurfti á því að halda um langa æfi. Var það henni mikil gæfa og auðsöfnun í formi vináttu þeirra er hún umgekkst, en örlög hennar urðu þau að fara víðar en frá Öxl og fram að Guðrúnarstöðum. Örlagarík þáttaskil urðu í lífi hennar snemma árs 1937, er Guðmundur maður hennar andaðist rúmlega 51 árs að aldri. Börn þeirra fjögur Stefanía, Sigurlaug, Sigþrúður og Guðmundur voru þá öll í æsku og tvö þau yngstu vart af barnsaldri. Dvöl hennar og barnanna varð ekki löng á Guðrúnarstöðum úr því, en til æfiloka var Guðrún alltaf „frá Guðrúnarstöðum". Þar varð blóma- skeið æfi hennar. En mótlætið beygði hana hvorki eða braut, svo að skynjað yrði. Hún gerðist ráðskona hjá nokkrum bændum og börn hennar dreifðust og eignuðust eigið heimili. Tvö þeirra Stefanía og Guðmundur dóu á undan móður sinni. Síðustu árin áður en Guðrún fór á Elli- heimilið Grund naut hún mjög umönnunar Sig- þrúðar dóttur sinnar og manns hennar Benedikts Blöndal, sem mat tengdamóður sína mjög mikils. Þá var og Guðrún um skeið hjá dótturdóttur sinni og nöfnu í Höfnum á Skaga. Hvar sem Guðrún fór eignaðist hún vini. Hún var trygglynd og rækti vináttu vel. Því alltaf auðfúsugestur þá er hana bar að garði. Aldrei einfari eða einstæðingur á sinni löngu æfi og hafði einstæðan hæfileika til þess að víkja frá sér leiðigjörnum smámunum, en því meiri til þess að njóta björtu hliða lífsins og var það hennar ríkidæmi. Síst skyldi undan skilja í þessum minningaþætti um Guðrúnu á Guðrúnarstöðum að geta um það í dagfari hennar, sem skapaði henni nokkra sérstöðu meðal samtíðarmanna hennar, en það var afdráttar-og hlédrægnislaust fylgi hennar við Framsóknarflokkinn, allt frá stofnun hans. Þar áttu þau hjónin alfarið samleið og ekki fer á milli mála að í huga mínum er Guðrún frá Guðrúnar- stöðum sú kona hér í Húnavatnsþingi sem af mestri djörfung og afdráttarleysi tjáði hug sinn í þessum efnum. Lýsti þetta afdráttarleysi Guðrún- ar sér t.d. í því að hún sótti fundi flokksins í héraði eftir því sem við varð komið og lét ekki á sig fá þótt hún væri þar, ein kvenna. Hafa sumir hlotið viðurkenningu fyrir minna. En ég leyfi mér nú, er Guðrún er öll að færa henni þakkir fyrir þetta og alla hennar velvild og elskusemi við foreldra mína, okkur systkinin og konu mína. Minningin um Guðrúnu frá Guðrúnarstöðum er jafn fersk þótt hún hafi nú legið í nokkru meira en eitt ár í gröf sinni. Slíkir persónuleikar, sem hún, lifa áfram þótt hverfi af sviðinu. Guðrún frá Guðrúnarstöðum var jarðsett í Reykjavík þ. 16. júní f.á. Sr. Guðmundur Þor- steinsson frá Steinnesi, prestur í Árbæjarsókn, talaði yfir líkbörum hennar. Auk venslamanna voru viðstaddir þá athöfn vinir Guðrúnar bæði úr Reykjavík og svo nokkrir norðan úr Húnavatnssýslu, Saga hennar var öll og er nú að baki. Grímur Gíslason

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.