Íslendingaþættir Tímans - 29.12.1983, Blaðsíða 3

Íslendingaþættir Tímans - 29.12.1983, Blaðsíða 3
Jakob Sveinsson, yfirkennari Fæddur 19. júlí 1909 Dáinn 4. nóvember 1983 Við brottför Jakobs Sveinssonar er kvaddur tryggur félagi og traustur vinur. Svo miklir voru mannspartar hans, að æ verða minnisstæðir. Bjart var ætíð viðmót hans, sem starfaði af jákvæðni hans gagnvart öllum vandamálum og þeirri full- vissu í falslausum, heiðum huga, að jafnan væri vel að verki staðið. Jakob var hreinborinn Mýramaður, sonur bóndans á Hvítsstöðum, þess annálaða kvæða- garps og hreystmennis, Sveinns Helgasonar, og konu hans Elísabetar JÓnsdóttur. Oft er vitnað í bóndann, skáldið og söguhetjuna Egil á Borg, fræknleik hans og íturlund, þótt tíu aldir skilji á milli, en sterkur stofn laufgast lengi, og eiginleikar erfast og herðast. Hver veit nema Hvítsstaða- bóndinn hafi þar verið síðnjótandi arfþegi. Börn hans, nær öll að tölu, styrkja þá tilgátu; en sárasta fátækt varð þeim ekki farartálmi á leið til langþráðrar menntunar. Einyrkinn á Hvítsstöðum féll í valinn frá stórum barnahópi á bernskualdri. Sveitungar brugðust þá vel við og veittu börnum ásjá. Þannig ólst Jakob upp hjá afa mínum og ömmu á Grímsstöðum í Álftaneshreppi Hallgrími Níels- syni og Sigríði SteinunniHelgadóttur. frá sjö ára aldri. Þati gengu hoivn. i foreldra stað. enda kallaði hann þau ávallt pabba og mömmu. Snemma varð JaKoö liðtækur til búverka, enda var drengurinn harðger og tápmikill. Urðu þá allir að gera eitthvert gagn, því að orðtak Grímsstaða- bónda var „Sá, sem ekki vinnur, hann á ekki mat að fá." Jafnan var þá fært frá, því að sauðamjólk var drýgst til grautargerðar og gaf bezt smjör. Var þá Jakob valinn til yfirsetu. Það starf líkaði honum prýðisvel, sem öðrum unglingum hundleiddist. Við hjásetu tók hann með sér bækur og las þá mikið. einkum Jónas. Þorstein og Stephan G. Einn var sá staður landareignar, þar sem hann undi sér bezt með hjörð sína, Urriðaár-brekkur. Þessari birkivöxnu fjallshlíð unni hann alla tíð. Hér festi hann ást á landi og lærði að meta kraft og tign íslenzkrar tungu. Síðar lagði Jakob oft leið sína um þennan paradísarstað æskuára. í eðli sínu var Jakob vaskur maður, afkastamik- ill við alla vinnu, ósérhlífinn með afbrigðum, hvort sem hann gekk að slætti, var í votabandi, vann að heyhirðingu eða stundaði beitarhús. Léttur var hann í spori við smalamennsku og bar fljótt yfir, um víðáttumikla flóa og þétta skógar- ása. Röskleiki hans var annálaður. Jakob var líka léttur í lund, glaðsinna, laus við allt hugarvíl. Félagsskapur með honum var því einatt eftirsóttur. Jarðrækt var honum hugfólgin, svo sem garðlönd hans votta; en rækt lagði hann einnig við ljóðbundna mótun móðurmáls, enda þótt ekki væri slíku flíkað. Eitt erindi, ort til fósturmóður á jólum 1941, sýnir tvennt: einlægt þakklæti fyrir ástríkt atlæti og listilegan hagleik málsmeðferðar: Gafstu mér gullið, giftu reykelsið og munans myrrtt. Pað var hjarta þíns helgust fórn; gafst af örlæti allt. Maður. sem þannig orðar hugsun sína í spakmæla formi Ijóðaháttar, er vissulega meira en hversdagslegur rímari. Hætt er við, að hér hafi Jakob látið Ijós sitt undir mæliker, enda þótt fleiri stefjagull hafi hann átt í kistu sinni. Hér má raunar við bæta, að hann var drátthagur vel og gæddur mjög góðri söngrödd. Oft skreytti hann jólakort sín marglitum teikningum, sem gaman var að geyma; og í mannfagnaði tindraði rödd hans, hvell og skær.Lagsældin var óbrigðul. Svo trúr sem hann reyndist í verkum fyrir fósturforeldra sína og uppeldissystkin, svo trúr varð hann einnig sinni háu hugsjón: að öðlast menntun. Af eigin rammleik, efnalaus og án allra styrkja, tókst honum, með vakandi gáfum sínum, miklum viljastyrk, sparsemi og atorku, að stunda nám við fjórar menntastofnanir: Hvítárbakka- skóla, Flensborgarskóla, Kennaraskóla ogStatens Lærerhöjskole í Kaupmannahöfn. Af afloknu kennaraprófi stundaði hann fyrst farkennslu en varð svo fastur kennari við Austur- bæjarskólann um40áraskeið, 1932-1972. Engum getum þarf að því að leiða, að maður með hans fjölbreytta gáfnafar og léfta, lifandi lundarfar hlaut að reynast prýði sinnar stéttar, virtur og dáður af ofurstórum hópi nemenda. Þannig bjó Jakob við farsæld og brautargengi. En hamingjan stendur heimili næst. Jakob átti því láni að fagna að kvænast þeirri konu, sem var honum afburða tryggur lífsförunautur, Ingeborg Vaaben-Mortensen, hjúkrunarkonu. Svo samval- in voru þau hjón, að til sannrar fyrirmyndar má telja. Jakob auðnaðist að sjá tvo syni sína, Steinar Bendt og Svein Peder, ganga æðra menntaveg, sem sjálfur hafði hann þráð en ekki megnað. Við, vinir Jakobs Sveinssonar, minnumst hans með söknuði. Bernska okkar og æska er honum nátengd. Við slógum með honum rumba á útengjum, smöluðum, förguðum, veiddum saman sjlung og riðum til kirkju. Og snemma skildist mér, þá kornungum dreng, að hér fór maður, sem fjarri var allur flysjungsháttur. Það álit, sem mér þá bauð í grun, reyhdist rétt. Þannig varð ævi Jakobs Svcinssonar fagurt dæmi þess. hsernig dyggðanna kapp. heilbrigt mannvit. tryggð við æskustöðvar og trumennska i staríi gua sigrast á öllu torleiði. Gæfa er ævarandi granni slíkra manna, þvf að þakklæti. væntumþykja og virðing fylgja þeim, uns öllu vfir lýkur. Dr. Hallgrímur Helgason. Þeir sem skrifa minningar- eða afmælisgreinar í Islendingaþætti eru vinsamlegast beðnir að skila vélrituðum handritum íslendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.