Íslendingaþættir Tímans - 28.03.1984, Blaðsíða 8

Íslendingaþættir Tímans - 28.03.1984, Blaðsíða 8
Páll Magnússon, frá Bitru Fæddur 15. janúar 1894 Dáinn 16. febrúar 1984 Páll Magnússon frá Bitru, fyrrv. starfsmaður Bögglaafgreiðslu KEA á Akureyri, iést hinn 16. f.m. háaldraður og farinn að heilsu og líkams- kröftum. Hann var jarðsunginn frá Akureyrar- kirkju 23. febrúar. og flutti aldavinur hans, sr. Birgir Snæbjörnsson, honunt fallega kveðju við það tækifæri og minntist hans hlýlega sem verðugt var. Páll var um sína daga vel þekktur maður á Akureyri og í eyfirskum sveitum, vinamargur og kunnur fyrir háttvísi og ráðvendni. Páll var Eyfirðingur að ætterni, fæddur 15. janúar 1894 í Bitru í Glæsibæjarhreppi. Voru foreldrar hans hjónin Magnús bóndi í Bitru Tryggvason frá Vöglum í Hrafnagilshreppi og Sigríður Kristjánsdóttir, einnig ættuð úr Fram- Eyjafirði. Magnús í Bitru var duglegur bóndi, en ráða má af líkum, að heimiliö hafi verið þungt og ekki auður í garði, þótt þar virðist öllu hafa reitt vel af vegna dugnaðar hjónanna og barnaláns, þótt mörg væru börnin. Alls voru Bitrusystkin 9 talsins, fædd á árabilinnu 1892-1906 og komust öll til fullorðinsára, lifðu fram á gamalsaldur. 3 bræður og 6 systur. Bræðurnir voru Ólafur, sundkennari á Akureyri. Páll, sem hér er minnst og Tryggvi, póstfulltrúi í Reykjavík. Voru þeir bræður elstir systkinanna, og mjög jafnaldra. Systurnar voru: Kristín, giftist Finni Sigmundssyni landsbókaverði í Reykjavík, María átti Karl Kristjánsson á Akureyri, Jónína, býr á Akureyri, giftist Guðmundi Baldvinssyni frá Sólborgarhóli. Lára, ógift og barnlaus, bjó í Reykjavík. Anna, heima á Akureyri, ógift, og Septína, bjó á Akureyri, ógift en átti eina dóttur. Öll eru þessi systkin nú látin nema þær María, Jónína og Anna. sem eiga heima á Akureyri. Það varð Bitruheimilinu mikið áfall, þegar Magnús Tryggvason dó á besta aldri frá konu og 9 börnum, því elsta 17 ára og því yngsta þriggja ára. Páll var þá 15 ára þegar faðir hans féll frá. Sigríður Kristjánsdóttir hélt áfram búskap nokkur ár eftir lát manns síns, og naut þar sinna tápmiklu sona, Ólafs og Páls, en Tryggvi var í fóstri hjá föðurfólki sínu á Vöglum. Ólafur giftist burtu og fór að búa á annarri jörð þar í sveitinni, og fluttist þá forstaða heimilisins mjög í hendur Páli. sem ætíð vann móður sinni og ungum systrum, svo að heimilið sundraðist aldrei, þótt fjölskyldan flyttist frá Bitru og hætti þar búskap. Fer ekki milli mála að þá vann Páll mikið og óeigingjarnt starf fyrr móður sína og systur, þegar mest reið á. Má geta nærri að vinnan sat þaralgerlega í fyrirrúmi, enda munu ekki tvímæli á, að Páll notaði hverja stund og hvert tækifæri til þess að vinna fyrir heimilinu og verða móður sinni að liði í erfiðri lífsbaráttu. Skólanám kom auðvitað ekki til greina. Hjá Páli 6 varð brauðstritið því snemma aðalhlutskiptið. og ekki varð annað séð en að hann yndi því án minnstu beiskju. Hann var vel að manni, mikill verkmaður og eftirsóttur til vinnu af þeim. sem slíku réðu. Lengi vann hann við sprengingar í grjótnámi Akureyrarbæjar og e.t.v. víðar, sann- kallaða erfiðisvinnu. Frá 1945 og fram yfir sjötugt var Páll starfsmað- ur Kaupfélags Eyfirðinga, fyrst í þjónustu kjöt- búðar, en lengst af starfandi í „bögglaafgreiðsl- unni". sem svo er nefnd og þekkt hefurverið sem eins konar miðstöð samgangna um sveitir Eyja- fjarðar. Naut Páll sín vel í þessu starfi og leysti það ágætlega af hendi. Mun Páli hafa þótt skemmtilegt og tilbrcytingasamt að vinna í böggla- afgreiðslunni, þangað átti margurerindiogjafnan mikið um að vera. Persónueigindir Páls nutu sín á þessum stað, góðvild hans og hjálpsemi. snyrti- mennska hansog ráðvendni. Auk þess var það svo að þó að Páll træði sér hvergi fram, var hann í eðli sínu mannblendinn og félagslyndur og dró sig ekki í skel, síst af öllu í hópi vina og jafningja. En það voru einmitt slíkir menn, sem lögðu leið sína á bögglaafgreiðsluna. Þar verða reyndar allir jafnir um leið og þeir koma inn fyrir dyr. Páll kvæntist 16. maí 1931 Helgu Jónsdótturfrá Öxl í Húnavatnssýslu, einarðri og gáfaðri konu, sem mikið lét að sér kveða í ýmsum félagsmálum á Akureyri á sinni tíð. Þau Páll voru ekki bráðung þegar þau gengu í hjónaband, og talin voru þau býsna ólík að gerð. Þau virðast þó hafa átt ýmislegt sameiginlegt, því sambúð þeirra varð hin farsælasta og síst verri en margra hjóna, sem stofnað hafa til hjúskapar síns fyrir girndarráð ein saman. Þau Helga og Páll áttu friðsælt og fallcgt heimili að Oddeyrargötu 6. Þar ríkti gestrisni, myndarskapur, ættrækni og tröllatryggð við þá, sem þau gerðu að vinum sínum. Helga Jónsdóttir lést 20. júlí 1969. Uppúr því flyst Páll á Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri og átti þar heimili til dánardægurs. Sr. Birgir skýrði frá því í útfararræðunni, að Páll hefði gefið Akureyr- arkirkju peningagjöf til mininningar um konu sína, og var upphæðinni ráðstafað til sjóðs, sem Kvenfélag Akureyrarkirkju hafði stofnað í því skyni að kosta flóðlýsingu kirkjunnar hið ytra. Annað sem Páll Magnússon lét af hendi rakna við góð málefni verður ekki rakið hér, en á margan hátt liðsinnti hann náunga sinum og þau hjón bæði, en ekki varð þeim barna auðið saman og eiga þau cnga niðja. Páll hafði góða líkamsburði og var vel á sig kominn. En að lokum féll hann eftir nokkuð stranga glímu við Elli kerlingu, þá glímu sem enginn vinnur. sem í henni lendir. Mér virðist ævi Páls hafa verið einkar farsæl og að hann hafi skilað m erkilegu dagsvcrki eins og reyndar öll þau Bitrusystkin. sem vcrið hafa sérlega vel látin og góðir þegnar talin. Blessuð sé minning Páls Magnússonar. ingvar Gíslason. Þeir sem skrifa minningar- eða afmælis- greinar í íslendinga- þætti, eru vinsamlegast beðnir um að skila vélrituðum handritum ÍSLENPINGAÞ/ETTIR

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.