Morgunblaðið - 27.08.2004, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 27.08.2004, Blaðsíða 8
8 FÖSTUDAGUR 27. ÁGÚST 2004 MORGUNBLAÐIÐ GYLFI Þ. GÍSLASON leystur undan öðrum skyldum þessa jarðlífs. Heilsa dr. Gylfa leyfði samt ekki að hann sækti skólanefndarfundi síðustu árin eða frá því að Ragnar Björnsson, skólastjóri og stofnandi Nýja tónlist- arskólans, lést í október 1998. Hugurinn hvarflar enn lengra aftur í tímann. Sumarið 1962. Líklega í byrjun ágúst. Sólin skein uppá hvern dag eins og nú í ágúst. Eða þannig er minningin. Ragnar geislar af gleði og hugsjónaeldi þessa daga. Það liggur við að hann dansi ballett svo fjaður- magnað stígur hann til jarðar. Hvað er á seyði? – Menntamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, hefur boðað fáeina tónlistarskólastjóra á nokkurra daga rabbfundi með sér. (Ragnar var um þetta leyti skólastjóri Tónlistarskól- ans í Keflavík.) Gylfi ber undir þessa menn hugmyndir um tónlistarskólana í landinu og það í náinni framtíð. Ragnar átti vart orð til að lýsa gáfum þessa manns, skarpskyggni og fram- sýni og – vogun. Hann var að und- irbúa byltingu í tónlistarmenntun landsmanna. – Og sá kunni nú að vinna! Ekki of stór til að leita ráða, spyrja og breyta. Vann hratt og skýrt. Þeir sem hugsa skýrt, gera flóknustu hluti einfalda í augum ann- arra. Þetta var upphafið af nýjum lögum um tónlistarmenntun í landinu, er gerbreyttu möguleikum hæfileika- fólks út um allt land að stunda tónlist- arnám. Allir sem njóta máttu, minnast veislusnilli menntamálaráðherrans dr. Gylfa Þ. Gíslasonar. Hnitmiðuðum smásögunum er glöddu andann og auðguðu í senn. Ég minnist persónulega yndislegra stunda með hjónum, frú Guðrúnu Vil- mundardóttur og dr. Gylfa, við ýmis tækifæri. F.h. Nýja tónlistarskólans og sjálfrar mín þakka ég dr. Gylfa Þ. Gíslasyni fyrir ómetanlegan stuðing. Ekkju hans, frú Guðrúnu, sonum þeirra og öðrum ástvinum votta ég innilega samúð og bið þeim blessunar í sorg sinni. Sigrún Björnsdóttir. Það er ekki ofmælt, að Gylfi Þ. Gíslason hafi verið áhrifamesti leið- togi Alþýðuflokksins þann tíma, sem hann var í forustu fyrir flokkinn. Hann var kjörinn þingmaður Alþýðu- flokksins aðeins 29 ára gamall og sat á þingi fyrir flokkinn í rúma 3 áratugi. Hann var ráðherra Alþýðuflokksins í 15 ár og formaður flokksins í 6 ár. Hann var um langt skeið helsti fræði- maður flokksins á sviði jafnaðarstefn- unnar og stefnumála Alþýðuflokks- ins. Hann skrifaði bókina Jafnaðarstefnan en einnig fjölda rita og blaðagreina um jafnaðarstefnuna og málefni Alþýðuflokksins. Ég kynntist Gylfa árið 1949, er ég gekk í Alþýðuflokkinn. Gylfi var þá róttækur ungur þingmaður og við ungir jafnaðarmenn litum upp til hans. Jafnaðarstefna Gylfa varð okk- ar biblía. Hann gaf sér ávallt tíma til þess að ræða við unga jafnaðarmenn og hafði mikil áhrif, ekki aðeins sem stjórnmálamaður heldur einnig sem fræðari. Ég átti þess kost að vinna mjög ná- ið með Gylfa um langt skeið. Sem blaðamaður á Alþýðublaðinu frá árinu 1953 hafði ég nær daglegt sam- band við hann sem þingmann og for- ustumann flokksins. Og sem starfs- maður í viðskiptaráðuneytinu um langt árabil var ég í daglegu sam- bandi við Gylfa sem viðskiptaráð- herra. Auk þess áttum við mikið og náið samstarf innan Alþýðuflokksins. Það var unun að vinna með Gylfa. Betri samstarfsmann var ekki unnt að hugsa sér. Gylfi var mjög flinkur stjórnmála- maður. Hann var mjög vel að sér á öll- um sviðum stjórnmála, en starfaði einkum á sviði efnahagsmála og menntamála. Hann var hagfræðingur að mennt. Hann var góður ræðumað- ur, mjög ritfær og afkastamikill. En þó hann starfaði mikið að viðskipta- og efnahagsmálum var hugur hans einnig mikið bundinn við listir og menningarmál. Hann var mjög list- rænn í sér og hafði mikinn áhuga á tónlist. Hann var góður lagasmiður og samdi nokkur mjög falleg lög. Áhrif Gylfa á íslensk stjórnmál voru mjög víðtæk. Víða má sjá spor hans í stjórnmála- og viðskiptasögu þjóðarinnar. Hann hóf afnám inn- flutningshafta sem viðskiptaráðherra í viðreisnarstjórn Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins 1959–1971. Hann átti stærsta þáttinn í því, að Ís- land sótti um inngöngu í EFTA 1970 og gekk frá aðild Íslands að þeim samtökum sem viðskiptaráðherra. Segja má því, að Gylfi Þ. Gíslason hafi átt stóran þátt í því að innleiða við- skiptafrelsi hér á landi. Hann hafði einnig mikil áhrif á mennta- og menn- ingarmál sem menntamálaráðherra og átti m.a. mikinn þátt í endurheimt handritanna frá Danmörku en þau komu hingað til lands í menntamála- ráðherratíð hans. Sem formaður Al- þýðuflokksins og forustumaður um langt skeið hafði Gylfi mjög mikil áhrif. Hann átti verulegan þátt í því að gera Alþýðuflokkinn að nútímaleg- um jafnaðarmannaflokki. Gylfi var prófessor í rekstrarhag- fræði við viðskiptadeild Háskóla Ís- land um langt skeið. Hann var mjög góður kennari og fræðimaður. Átti ég þess kost að njóta kennslu hans við viðskiptadeild Háskólans. Með fráfalli Gylfa Þ. Gíslasonar er fallinn frá mjög merkur stjórnmála- maður og fræðimaður.Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að starfa með Gylfa og eignast vin- skap hans. Ég og Dagrún, kona mín, vottum eftirlifandi eiginkonu hans, Guðrúnu Vilmundardóttur og fjöl- skyldu innilega samúð okkar. Drott- inn blessi minningu Gylfa Þ. Gísla- sonar. Björgvin Guðmundsson. Kveðja frá Fóstbræðrum Menn koma og fara. Með lífi sínu og starfi skrá þeir sögu sína, sögur sem markaðar eru misjafnlega djúp- um dráttum, stundum svo að aðrir verða ósjálfrátt hluti eða þátttakend- ur sögunnar. Við fráfall dr. Gylfa Þ. Gíslasonar hverfur af sjónarsviðinu maður sem sannarlega setti svip sinn á samtíðina, svip sem byggður var á reynslu og þekkingu manns sem ávallt hafði að leiðarljósi öll þau gildi sem hollust eru hverjum manni. Stjórnmálabarátta, langur embættis- ferill og umfram allt gríðarleg störf í þágu þjóðarinnar eru að baki. Dr. Gylfi var mikill áhugamaður um menningu og listir, en sérstaklega var tónlistin dr. Gylfa hugleikin, enda liggja eftir hann fjölmörg tónverk sem þjóðin þekkir. Tónlistin er töfra- vald sem er máttugra en öll tungumál jarðarinnar samanlögð. Hún hefur einnig sérstöðu meðal annarra list- greina, því hún er alþjóðlegt tungu- mál sem allir skilja og getur veitt okk- ur innsýn í veruleika sem engin orð fá lýst. Til lengri tíma litið þá verður það því ekki síður framlag hans til tónlist- ar en störf að stjórnmálum sem halda munu nafni hans á lofti. Á lengsta menntamálaráðherraferli sögunnar gafst honum einnig tækifæri til að örva margan góðan listamanninn til dáða og góðra verka. Dr. Gylfi var ötull í því að kynna ís- lenska menningu fyrir öðrum þjóðum og rækta hvers konar menningar- tengsl. Á starfsferli sínum átti hann með víðsýni og þrotlausri baráttu stóran þátt í að leggja grunn að þeirri sterku stöðu sem við Íslendingar bú- um við í dag sem menningarþjóð. Samleið dr. Gylfa og Fóstbræðra varði í tæpa hálfa öld. Hann var kórn- um í senn hollvinur og ráðgjafi og hef- ur honum jafnan verið búinn ríkur sess í ranni Fóstbræðra. Dr. Gylfi var heiðursfélagi í kórnum og var sæmd- ur Gullhörpunni, æðsta heiðursmerki kórsins hinn 22. apríl 1972, en þann dag vígði kórinn nýtt félagsheimili sitt. Meðan Gylfi hafði heilsu til mætti hann alltaf á Þorrablót Fóstbræðra og hélt þannig við góðum vinskap, en vinskapur hans og trúmennska við kórinn var einlæg og traust. Fóstbræður vilja þakka dr. Gylfa mikilvirk störf í þágu Friðrikskapellu, en hann var formaður stjórnar sam- taka um byggingu Friðrikskapellu sem reist var til minningar um hinn mikla æskulýðsleiðtoga sr. Friðrik Friðriksson, en kapellan var færð að gjöf þeim fjórum félögum sem sr. Friðrik stofnaði hinn 25. maí 1993, á 125 ára ártíð hans. Eru Fóstbræður eitt þeirra félaga. Í hugum þeirra sem þekktu dr. Gylfa mun hann í minningunni geym- ast sem einn af hinum mikilvirkustu fulltrúum íslenskrar menningar á síð- ari tímum. Í djúpri virðingu og fullir þakklætis vilja Fóstbræður þakka minnisstæð kynni og þau djúpu spor sem dr. Gylfi Þ. Gíslason hefur mark- að í sögu kórsins með velvilja og ein- beittum áhuga. F.h. Karlakórsins Fóstbræðra vil ég með þessum fátæklegu orðum votta eiginkonu hins látna og fjöl- skyldu allri dýpstu samúð og virð- ingu. Guð blessi minningu dr. Gylfa Þ. Gíslasonar. Eyþór Eðvarðsson formaður. Fáa menn hefi ég virt og metið jafnmikils og Gylfa Þ. Gíslason. Á unglingsárunum var hann mér góður og hlýr og pólitískur lærifaðir alla tíð. Um jafnaðarstefnuna, réttlæti og manngildishugsjónir lærði ég af bók- um hans, ritum og ræðum. Líf hans allt var vitnisburður um áhrif hins vitra, rökvísa og menntaða manns, heimsborgara, sem hafði það að meg- inmarkmiði að hefja gildismat jafnað- arstefnunnar til vegs og virðingar, efla og bæta skólastarf, menningu og listir. Hann hafði áhrif á þróun efna- hagsmála og viðskipta umfram aðra íslenska stjórnmálamenn, opnaði glugga í dimmum og þröngum vist- arverum hins íslenska viðskiptalífs og ruddi brautir til alþjóðaviðskipta. Þá efldi hann mjög norrænt samstarf og margvísleg alþjóðleg samskipti, hafði mikil áhrif á farsæla lausn landhelgis- og handritamála og lagði lóð á vog- arskálar margra málaflokka, sem horfðu til framfara. En Gylfi Þ. var ekki bara stjórnmálamaður. Hann var kennari og fræðimaður, ákafur listunnandi og umfram allt góður, vandaður og hjartahlýr maður. – Hann hefur þegar verið metinn að verðleikum og spor hans verða víða greind í framfarasögu þjóðarinnar. Hugsjónir hans, kenningar og skoð- anir áttu ósjaldan undir högg að sækja, en njóta nú almennrar viður- kenningar og munu hafa áhrif um ókomna tíð. Með Gylfa Þ. Gíslasyni er genginn einn besti sonur þessarar þjóðar. Blessuð sé minning hans. Árni Gunnarsson. Gylfi Þ. Gíslason var nágranni minn og vinur í meira en fimm og hálfan áratug. Það sem öðru fremur einkenndi verk hans og viðhorf var óvenjuleg framsýni. Hér má nefna breytingu Háskóla Íslands úr emb- ættismannaskóla í fjölbreytta æðri menntastofnun og enduskipulagn- ingu grunnskólanáms. Hann var ára- tugum saman talsmaður aukins frels- is í viðskiptum innanlands sem utan og sá snemma að slíkt frelsi með ábyrgð væri engan veginn í andstöðu við nútímalega jafnaðarstefnu. Lög um tónlistarskóla munu halda nafni hans lengi á loft. Ég kveð Gylfa með virðingu og þökk og votta aðstandendum hans hluttekningu mína. Baldur Símonarson. Ung kona kom ég fyrst á heimili Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðrúnar Vil- mundardóttur. Ég minnist Gylfa í hægindastólnum við símann á kont- órnum. Í þessum stól spjallaði hann við gesti sína og miðlaði þeim af reynslu sinni, sögur af hversdagsleg- um atburðum urðu í frásögn hans gjarnan ýmist fyndnar eða mikilvæg- ar. Í þessum stól voru örugglega líka rædd málefni sem skiptu sköpum fyr- ir land og þjóð; ósjaldan hringdi sím- inn á meðan gesturinn drakk kaffið og komst ekki hjá því að skynja að mað- urinn við símann átti sér marga við- mælendur og að honum virtist ekkert mannlegt óviðkomandi. Hlýja og örlæti mætti sérhverjum gesti, sem kom á Aragötu 11, heimili þrungið menningu og tónlist en þar sem einnig ríkti fjör og fastheldni á gamla siði. Við matarborðið var alltaf eins og gestirnir væru konungbornir og skipað var til sætis í samræmi við tilefni hverju sinni. Á þessum tíma- mótum sækja margar minningar á hugann frá slíkum stundum. Það er erfitt að lýsa hughrifum, en ég veit að margir vinir sona þeirra deila með mér tilfinningunni, og minningunum um fróðlegar og skemmtilegar um- ræður undir borðum um dægurmál, listir eða lífsreynslu. Um gómsæta rétti Gurru, sem enginn verðlauna- kokkur hefði toppað, og húsbóndann sem skenkti gómsæt vín á báða bóga og valdi ljúfa tónlist með. Með Gylfa Þ. Gíslasyni er horfinn fulltrúi hefðbundinna gilda og unn- andi fagurra lista. Við sem eftir lifum fáum áfram að njóta verka hans og listsköpunar. Lög eins og „Ég leitaði blárra blóma“ og „Hanna litla“ hitta mann beint í hjartað. Jafnvel þó að hlustandinn vissi ekkert um höfund- inn kæmist hann ekki hjá því að skynja að þarna hefði setið við píanóið mikil tilfinningavera og rómantíker. Ég þakka kynnin. Hjördís Hákonardóttir. Það byrjaði um 1975 að ég þýddi greinar og ræður Gylfa Þ. Gíslasonar á dönsku þegar þörf var á. Það gat verið vandaverk því maðurinn var vægast sagt vel að sér í dönsku. Hann vissi hins vegar það sem ekki allir skilja að við semjum illa á öðrum tungum en móðurmálinu. Svo gat hann verið gagnrýninn þegar þýðing- in var til, en alltaf kurteis svo af bar. Árin 1980–84 bjó ég í Danmörku en haustið 1984 kom ég aftur heim og mjög stuttu eftir heimkomuna rakst ég á Gylfa á förnum vegi. Hann heils- aði mér kurteis að venju og spurði hvort ég væri ekki sestur að úti. Ég svaraði sem var að hér væri ég kom- inn og reyndar án teljandi vinnu. „Það er gott,“ sagði hann. „Þá getur þú far- ið að þýða fyrir mig aftur!“ Þetta voru í mínum huga bestu móttökurnar sem ég hef fengið. Þá vissi ég að ég ætti heima hér. Pétur Rasmussen. Ég hygg að mörgum samtíðar- mönnum Gylfa Þ. Gíslasonar muni hafa þótt, að hans persóna hafi verið óvenju sannfærandi myndbirting þess glæsileika sem prýða mætti Ís- lending. Hann virtist hafa allt með sér: útlitið, menntunina, hæfileika til fræða og lista; og hlaut svo óvenju frægan og pottþéttan starfsframa í stjórnmálum og fræðum. Ekki spillti að hann var úr rótgróinni menntafjöl- skyldu; á tíma þegar slíkt var fyrir flesta aðeins fjarlægur draumur. Þetta varð til þess að ég skrifaði um hann kjallaragrein; stuttu eftir að ég kom heim að loknu mannfræðinámi í Kanada árið 1980. Þótti mér þá sem Sjálfstæðismanni, að hann væri bara stærri fyrir það að vera Alþýðuflokks- maður, því það virtist vera svo nær- tæk skoðun fyrir menntamann. Var ég ekki einn um slíka aðdáun á honum meðal 6́8 kynslóðarinnar. Nú, þegar foreldrakynslóðin okkar er sem óðast að hverfa, og sjálf 6́8- kynslóðin unnvörpum að komast á sextugsaldurinn, virðist sem ljómi forréttinda þess að vera menntamað- ur, hafi verið eitthvað sem einkenndi báðar okkar kynslóðir; og greinir okkur frá kynslóðunum sem eru að koma á eftir. Ég tel að dr. Gylfi Þ. Gíslason eigi heima við hlið dr. Sigurðar Nordal, sem einn af vitum íslenskra mennta- manna á 20. öld. Og að þeirra for- dæmi beri að halda á lofti í útflattri fjöldamenningu nútímans öðrum til hvatningar. Við Gylfi urðum hattkunnugir með tímanum. Þó kynntist ég beint Þor- steini syni hans á vettvangi rithöf- unda. En synir Gylfa hafa verið dug- legir við að halda merki hans á lofti. Oft hef ég skrifað minningargrein- ar þar sem ég hef vitnað í þýðingu mína á helgileik T.S. Eliots um písl- arvætti Tómasar Beckets, erkibisk- upsins af Kantaraborg á Englandi á 12. öld. Nú þykir mér sem eftirfarandi kafli hljóti að minna á einlægni þá sem einkenndi dr. Gylfa og aðra hug- sjónapólitíkusa, er Becket minnist hugsjóna sinna, og neitar að bakka með þær gagnvart sér minni stjórn- málamönnum: „Ef erkibiskupinn getur ekki treyst á krúnuna/ hefur hann aðeins góða ástæðu til að treysta Guði einum. Ég ríkti einu sinni sem kanslari og mönnum eins og þér var þá ljúft að bíða fyrir utan dyr mínar. Ekki aðeins við hirðina heldur líka á vígvellinum/ og á burtreiðavellinum urðu margir undan mér að láta. Skal ég sem ríkti sem örn yfir dúfum nú taka á mig úlfsgerfi meðal úlfa? Stunda þú áfram þína sviksemi: enginn skal fá sagt að ég hafi svikið konung“. Ég óska aðstandendum Gylfa huggunar á sorgarstundu. Tryggvi Líndal Nemendur viðskiptadeildar Háskóla Íslands heiðruðu Gylfa Þ. Gíslason á 70 ára afmæli hans hinn 7. febrúar 1987. Halldóra Traustadóttir og Eva Þengilsdóttir afhentu Gylfa 70 rauðar nellikur í tilefni af afmælinu fyrir fullum sal.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.