Morgunblaðið - 22.08.2004, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 22.08.2004, Blaðsíða 16
16 | 22.8.2004 Áfram er rætt um innbyggða þræði. Þótt hin raddbyggða plata sé óneitanlega frumleg má heyra að hún er í rökréttu framhaldi af mörgu sem Björk hefur áður gert. „Ég á upp- tökur frá því ég var átján ára þar sem eru bara raddir, þannig að þetta hefur verið að malla í mér lengi. Það sem kom mér helst á óvart var að ég skyldi gera þessa plötu núna, ég hélt frekar að ég myndi gera hana þegar ég yrði 55 ára.“ Hún bendir á að vinir sínir hafi að vissu leyti orðið hissa, enda sé langstærstur hluti þeirrar tónlistar sem hún hlustar á heima við án söngs. „Það hef ég áreiðanlega gert, ómeðvitað, til þess að vernda mig. Til þess að fá að búa til minn eigin söngstíl. Auðvitað er öll tónlist komin einhvers staðar frá, enginn getur byrjað á núllpunkti, en aðferðirnar eru mis- jafnar. Ég skil til dæmis ekki þá sem hlusta bara á Bob Dylan, vilja vera eins og Bob Dylan og syngja svo alveg eins og Bob Dylan. En svo er merki- legt að fatta eftir á hvaðan áhrif hafa seytlað inn, eftir allt saman.“ Hún segist aðspurð fylgjast með tónlist á heimsvísu og hér á Íslandi „svona í og með“. „Ég er samt svo mikill nörd að ég festist stundum í einu horni alveg í eitt, tvö ár – og missi þá af einhverju öðru á meðan. Þetta fer líka eftir áhuga, ég veit til dæmis yfir höfuð lítið um gítarrokk. En ef við horfum á stóru myndina, jú, þá fylgist ég nokkuð vel með.“ Kviknar í fólki Þegar 21. öldin rann upp átti allt að verða svo frábærlega nýtt, samt gerðist ekkert beint um aldamótin. Nú eru nokkur ár liðin, finnst þér tónlistin vera að þróast í ein- hverjar ákveðnar áttir? Hún svarar óhikað, þótt hún sé enginn – eins og hún segir – spámaður. „Ég held, að ef eitt orð er til yfir tónlist í dag, eitthvað sem fólk sá ekki fyrir, en á við um popp, klassík, rokk og allt hitt, þá sé það ástríða.“ Hún leitar að leið til þess að útskýra: „Ef maður lendir á fylliríi með íslenska strengjaoktettinum eftir tónleika, á skrýtnu hótelherbergi, með gettóblasterinn og bunka af geisladiskum og fer að tala um tónlist, eru flestir sammála um að uppáhaldstökurnar þeirra séu frá upphafi síð- ustu aldar, þegar tæknin var fremur ófullkomin. Þar var fólk að impróvísera í verk- um eftir Bach eða Beethoven og missti kannski úr nótur – en samt var að kvikna í því af ástríðu! Svo hófst 20. öldin og allt varð meira fullkomið, sem var frábært því annars hefð- um við ekki laptop og lækningar við alls konar sjúkdómum. En um leið varð tónlist- in dálítið útreiknuð, tónskáld eins og Ligeti og Penderecki; eftir fyrri og síðari heimsstyrjöldina þóttu tilfinningar hallærislegar og hlupu bara með fólk í gönur og klúður. Sama hugsun var í abstraktmyndlist. Þar á eftir kom svo tímabil, síðasti hluti aldarinnar, þar sem allir voru kúl og kaldhæðnir. En nú er komið í ljós að mann- skepnan getur ekki án tilfinninga verið, þær brjótast bara annars staðar fram ef þeim er haldið niðri. Læknar eru að komast að því hægt og rólega að fólk fær krabbamein af, segjum, reiði – og fólk sem er elskað eða ástfangið veikist síður,“ segir hún en slær um leið varnagla, hún verði að nota myndræn dæmi þótt í þeim felist alhæfingar. „Þetta er að gerast í tónlistinni líka – lífsneistinn, að vera til, ástríðan – það er ekki hægt að reikna allt út.“ Og það er eitthvað við það hvernig Björk setur fram mál sitt, með óreglulegum áherslum og lífi í andlitinu, sem segir að þetta sé ekki stærðfræðileg heldur einmitt lífræn kenning. Hún bætir við að verkefnið núna sé að púsla saman tækninni og tilfinningunum, en ekki fara með þær sem tvo ósamrým- anlega þætti. „Kannski er þetta endurtekning á hippaboð- skapnum, ég held samt að þeir hafi verið aðeins á undan sinni samtíð,“ álítur hún. Nú sé að koma í ljós að ýmis kerfi, sem hipparnir vöruðu við, virki einfaldlega ekki til lengdar. „Til dæmis kapítalisminn, þetta viðhorf: Hvernig græði ég mestan pening? Það virkar, jú, en á þann hátt að sumar þjóðir verða ógeðslega ríkar en hinar alveg brjálaðar – og fara að búa til sprengjur.“ Hún afsakar aftur alhæfingarnar. Og bætir við. „Ég er kannski ekki að segja neitt nýtt, en ef þú ert að biðja mig um að taka heila öld fyrir, þá er þetta mín tilfinning.“ Hún hefur eytt síðustu árum á víxl í New York og Reykjavík og segir hafa verið áhugavert að fylgjast með því hvernig Bandaríkjamenn brugðust við atburðunum 11. september 2001. „Ég sá að þeir trúðu ekki þessum ástríðum, að menn væru til- búnir að deyja fyrir málstað. Nú er ég ekki að réttlæta það sem var gert, meirihluti þessa fólks er heldur ekki svo grimmur að vilja drepa, þótt það sé fúlt út í rökhyggj- una. En tilfinningahitinn þótti ótrúlegur.“ Þegar hér er komið sögu gæti skrásetjari samtalsins alveg þegið kaffibolla, en hug- skeytið ratar augljóslega ekki til þjónsins. Frammi situr aðstoðarmaður Bjarkar, Scott, sem hefur auga á klukkunni og sér um að hún tali ekki frá sér allan kraft. Kannski er það hann sem stöðvar huglæga kaffipöntun á miðri leið. Til þess að tefja ekki tímann. Tvímælalaust eyrun Sem sé, ástríða getur verið af ýmsum toga en það virðist vera jákvæða tegundin sem smitast um þessar mundir, um það vitna sum lagaheiti á Medúllu; Triumph of a Heart, Öll birtan, Pleasure is All Mine... kannski óþarfi að ráða í hversdagsföt Bjark- ar líka en sterkur bleikur litur situr í minninu. Textana á Björk sjálf, utan Oceania sem er eftir Sjón. Tveir eru ennfremur fengnir að láni, Vökuró, fyrrnefndur texti Jakobínu Sigurðardóttur og svo sonnets / unreali- ties XI eftir bandaríska skáldið e.e.cummings, en hann kom einnig lítillega við sögu á Vespertine. Er hann gamalt uppáhald? „Nei, nei, í rauninni vissi ég ekkert um hann fyrr en nýlega, um það leyti sem ég var að gera Vespertine. Ég veit ekki hvað þetta er, ég les ekkert svo mikið af ljóð- skáldum og mjög sjaldgæft að ég hugsi strax: Þetta myndi ég vilja syngja! En hann er ofsalega sensitífur og auðmjúkur, liggur við gegnsær, orðin eru úr híalíni. Hann talar 1977 Björk 1993 Debut 1995 Post 2001 Vespertine 2004 Medúlla 2000 Selmasongs1997 Homogenic

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.