Morgunblaðið - 22.08.2004, Blaðsíða 20
20 | 22.8.2004
Allir sannir unnendur sakamálasagna hafa oftar en einu sinni lagt af stað í leið-angur til að leita uppi höfunda sem henta þeim, höfunda sem fullnægja þeimkröfum sem viðkomandi lesandi gerir til slíkra sagna – en þær kröfur eru
auðvitað mismunandi eftir smekk. Of oft koma menn til baka úr slíkum leiðöngrum
vonsviknir. Vandasömust er leitin að höfundi sem fullnægir þessum kröfum ekki að-
eins einu sinni, heldur oft og helst alltaf. Af þeim mikla fjölda höfunda sem nú iðka
þessa eðlu list eru fáir sem standa Bandaríkjamanninum Michael Connelly á sporði
þegar kemur að því að standast kröf-
ur, a.m.k. þess sem hér ritar, bók eft-
ir bók eftir bók. Eða því sem næst.
Michael Connelly fór reyndar að
skrifa sakamálasögur í þeim dúr sem
hann hafði sjálfur haft gaman af að
lesa, kannski einmitt vegna þess að
hann fann ekki nógu marga höfunda
sem stóðust þær kröfur, bók eftir
bók eftir bók. Ekki eftir að hann
varð fyrir opinberuninni miklu, sem
var Raymond Chandler og hans
meistaraverk. Eftir heilan áratug af
krimmalestri vaknaði hans eigið
sköpunargen til lífsins. Og nú eru
bækurnar orðnar 14 á síðustu 12 ár-
um, flestar margverðlaunaðar met-
sölubækur.
Spegilmynd og andstæða Rétt eins og
brautryðjandinn Chandler gerði á 5.
og 6. áratugnum kortleggur Conn-
elly hálfri öld síðar einkum bakhliðina á glansandi
framhlið Kaliforníu, Hollywood og Los Angeles, en
einnig er spilaborgin Las Vegas honum hugleikin.
Hann hefur annan takt og öðruvísi tilfinningu fyrir
sögusviði sínu en Chandler; það er dýpra á rómantík-
inni og húmornum þar sem raunsæinu er teflt fram, en
stílgáfan er ósvikin og aflvaki bókanna er, eins og hjá
fyrirrennaranum, mannúð, réttlætiskennd og samúð
með þeim sem verða undir og utangarðs í spilltu sam-
félagi sterkra andstæðna. Þessi söguheimur Connellys
hefur í sjónarmiðju rannsóknarlögreglumanninn, og
nú í seinni tíð einkaspæjarann Hieronymus Bosch, sem
kallaður er Harry öðrum til þæginda, en eins og alnafni
hans, málarinn, skynjar Bosch umhverfi sitt sem heim
ógnar, ótta og myrkraverka sem sættu furðu nema fyrir
þær sakir að illsku mannanna virðast engin takmörk
sett. Gegnum þetta háskalega fen öslar Bosch í leit að
lausnum á ráðgátum fólskuverkanna, hvort heldur er í
allsnægtum eða örbirgð, meðal hárra sem lágra, og
reynir að fullnægja einhvers konar réttlæti, sem, eins og
í flestum góðum krimmum, býr umfram allt innra með
honum sjálfum frekar en í lögum og reglum hins opinbera kerfis. Einfarinn Bosch er
því í senn spegilmynd þessa umhverfis og andstæða þess. Hann er ofurseldur starfi
sínu eða köllun og í einkalífinu ganga lífsfyllingin og lífshamingjan honum ítrekað úr
greipum. Einatt liggur hann andvaka með reynslu sinni og sárum minningum, reykir
og drekkur og leitar huggunar í djasstónlist.
Þetta eru að sönnu klassísk minni úr krimmahefðinni, en ekki klisjur. Connelly
reynir í hverri bók að endurnýja söguheim sinn og aðalpersónu, auka við þekkingu
sína og okkar á margbrotnum ástæðum þess að Bosch er eins og hann er í þjóðfélagi
sem er eins og það er. Connelly er því meðvitaður um nauðsyn þess að bækurnar
staðni ekki og hjakki í sama farinu; hann breytir frásagnaraðferðum, fer úr 3. per-
sónufrásögn yfir í 1. persónu, bætir reglulega við persónugalleríið og skapar nýjar að-
alpersónur til að hvíla Bosch, þótt hann sé jafnan á sveimi í bakgrunninum. Þannig
eru allar bækur Connellys lifandi eða lífrænn söguheimur, þar sem leiðir persóna
skerast og sögurnar skarast. Connelly er ákaflega flinkur plottari, skammtar upplýs-
ingar af öryggi og tvinnar marga þræði saman í einn áður en yfir lýkur. Sögulausn-
irnar eru þó ekki óbrigðular. Þótt tilviljanir séu vissulega til í veruleikanum eru þær
vandmeðfarnar í krimmum og stundum, ekki síst í seinni tíð, hefur Connelly hallað
sér fullmikið að slíkum uppákomum og ólíkindum til að leiða frásögnina til lykta.
Ekki síður hafa áhrif Hollywood orðið heldur ágeng á köflum, þar sem höfundurinn
leitar á náðir skotbardaga og þess háttar myndrænna flugeldasýninga á örlaga-
stundum. Þetta er miður, en þó skiljanlegt, því kvikmyndaréttur fyrstu fjögurra sagn-
anna um Harry Bosch var seldur til framleiðanda án þess að úr þeim hafi orðið bíó-
myndir, einkum vegna þess að handritin hafa ekki náð að myndgera hugarheim
löggunnar. Hins vegar gerði Clint
Eastwood bíómyndina Blood Work
eftir samnefndri bók Connellys, en
þar er Bosch ekki í aðalhlutverki
heldur fyrrum alríkislöggan Terry
McCaleb, sem skýtur svo upp kolli í
öðrum bókum. Blood Work er mun
betri bók en bíómynd vegna ýmissa
einfaldana og breytinga handritsins.
Birtan við enda ganganna Sjálfur hef-
ur Michael Connelly sagt að þegar
hann skrifaði fyrstu bókina um
Harry Bosch, The Black Echo, hafi
hann alls ekki gert ráð fyrir að úr yrði
syrpa bóka í framhaldinu. En eftir
því sem syrpunni vindur fram hafi
hann smám saman öðlast gleggri yf-
irsýn yfir þennan söguheim og hvert
hann stefnir. Í fyrstu gerði hann efn-
islýsingar á söguþræði áður en hann
hóf skrifin en í seinni tíð láti hann
nægja að hafa óljósar hugmyndir um persónur og plott
og svo „dimma skímu fyrir endanum á göngunum“;
hann fari ekki af stað fyrr en hann hafi þessa skímu –
áfangastað sögunnar. Hann er allt frá sjö mánuðum
uppí vel á annað ár að skrifa eina bók. Hann skrifar
heima, fyrst á vettvangi í Los Angeles en núna í Tampa í
Flórída þangað sem hann fluttist nýlega af fjölskyldu-
ástæðum. Hann og eiginkona hans eiga tvö börn sem
þau vildu að kynntust afa og ömmu í Flórída, þar sem
Connelly ólst upp. Connelly segir að sköpun sín hafi
breyst eftir flutninginn. Áður hafi hann farið á sögusvið-
ið og kynnt sér aðstæður áður en hann skrifaði; nú skrifi
hann um Los Angeles eftir minni sem veiti honum
öðruvísi ánægju og aukið sköpunarfrelsi. Hugmyndir
fær hann jafnt úr fjölmiðlum sem af eigin reynslu og
þeim þjóðfélagsbreytingum sem hann sér í kringum sig
og sögum sem lögreglumenn segja honum. „Bestu
glæpasögur spegla það sem er að gerast í þjóðfélaginu,“
segir hann.
Þekking Michaels Connelly á skuggahliðum banda-
rísks mannlífs byggist að miklu leyti á þeirri reynslu sem
hann öðlaðist sem blaðamaður í 15 ár með sakamál sem sérgrein. Í samtali við annan
helsta krimmahöfund samtímans, Skotann Ian Rankin, sem birtist í The Sunday Tim-
es fyrir nokkrum árum, segir Connelly að eftirminnilegasta uppákoman frá þessum
tíma hafi verið „þegar ég var í símanum að reyna að veiða upp úr rannsóknarlög-
reglumanni staðreyndir um handtöku meints raðmorðingja. Þá kom annað símtal
inn svo ég setti lögguna á bið til að svara því. Þar var þá kominn hinn meinti rað-
morðingi sem vildi segja sína hlið á málinu!“
Michael Connelly er núna 47 ára að aldri, sagður hógvær maður og rólegur, þrátt
fyrir velgengni og metsölur um allan heim. Hann segist þakklátur fyrir að hafa fengið
tækifæri til að gera það sem honum finnst skemmtilegast og mest gefandi. Einu
áhyggjurnar segir hann í nýlegu viðtali snúa að því hversu lengi hann geti haldið
áfram að senda Harry Bosch inn í myrkrið í mannssálinni án þess að það verði ótrú-
verðugt að hann sleppi þaðan aftur tiltölulega lítt skaddaður. Hann segir að þegar
hann eignaðist börn hafi það breytt sér sem höfundi vegna þess að það hafi gert sig
að betri manni. Hann sér svipuð örlög til handa Bosch: „Hann stefnir inn í ljósið.“
ath@mbl.is
Michael Connelly er ekki aðeins meðal vinsælustu krimmahöfunda samtímans heldur einn sá fremsti
EINFARI Í UNDIRHEIMUM LOS ANGELES
BÆKUR | ÁRNI ÞÓRARINSSON
Flestir krimmar Michaels Connelly
hafa verið fáanlegir í bókaverslunum
hérlendis. Þeir eru allir lestrarins
virði en stjarna fylgir þeim titlum
sem greinarhöfundur telur bera af.
Harry Bosch í aðalhlutverki: The
Black Echo, Black Ice, The Concrete
Blonde*, The Last Coyote*, Trunk
Music, Angels Flight*, City of Bones,
Lost Light*.
Blaðamaðurinn Jack McEvoy í aðal-
hlutverki: The Poet* (langvinsælasta
bók Connellys og ein sú besta).
FBI-spæjarinn Terry McCaleb í aðal-
hlutverki: Blood Work*
Þjófurinn Cassie Black í aðalhlutverki: Void Moon
Harry og Terry í aðalhlutverkum: A Darkness More than Night
Vísindamaðurinn Henry Pierce í aðalhlutverki: Chasing the Dime
Nýjasta bók Michaels Connellys er The Narrows, sem er fram-
hald af The Poet, en hefur Harry Bosch í aðalhlutverki og FBI-
spæjarana McCaleb og Rachel Walling í aukahlutverkum.
BÆKURNAR
Í fyrstu bókinni um Harry Bosch, The Black Echo, vísar Connelly til þessa málverks, Nighthawks eftir
Edward Hopper, til að lýsa hlutskipti söguhetju sinnar: „Þögull, skuggalegur maður situr einn síns
liðs við afgreiðsluborð matstofu. Hann horfir yfir til annars viðskiptavinar, ekki ósvipaðs honum
sjálfum, nema hvað sá maður er með konu. Einhvern veginn fann Bosch til samkenndar með fyrst-
nefnda manninum. Ég er einfarinn, hugsaði hann. Ég er nátthaukurinn.“
Michael Connelly:
Kaliforníukrimmar