Lesbók Morgunblaðsins - 03.09.2005, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 3. september 2005 | 3
Þ
að heyrir alltaf til tíðinda þegar
nýjar yfirlitssýningar líta dags-
ins ljós í Listasafni Íslands. Þá
eru tekin fram verk úr safneign-
inni sem tilheyra ákveðnu tíma-
bili íslenskrar myndlistarsögu
og leitast við að skýra það á sem skilvirkastan
og fjölbreyttastan hátt. Þrjár slíkar sýningar
hafa verið haldnar í safninu á undanförnum
misserum, í röð sýninga sem
miða að því að gefa yfirlit yfir
þróun íslenskrar myndlist-
arsögu frá aldamótunum
1900.
Í dag verður fjórða sýningin í þessari röð
opnuð. Að þessu sinni er viðfangstímabilið árin
1945–1960 og ber sýningin yfirskriftina Frá
abstrakt til raunsæis.
Nýtt hlutverk listarinnar
Þetta tímabil í íslenskri myndlistarsögu er
jafnan talið einkennast af umbrotum sem og
grósku. Á tímabilinu kom fram ný skilgreining
á myndlist; hvað hún væri, um hvað hún ætti
að fjalla og hvert hlutverk hennar væri. „Í
þeirri hugsun sem þá kom fram fólst að mynd-
listin ætti ekki að túlka og fjalla um veru-
leikann, heldur búa til nýjan veruleika sem lyti
sínum eigin lögmálum. Á þessu tímabili, frá
1945 og fram til 1960, var þessi hugsun að
þróast og öll umræða hér heima snerist að
miklu leyti um þessa nýstárlegu grundvall-
arskoðun. Þess vegna má segja að þetta hafi
verið umbrotatími,“ segir Ólafur Kvaran, for-
stöðumaður Listasafnsins, um sýninguna.
Á fyrri hluta 20. aldar var sú skoðun
ríkjandi í íslenskri myndlist að list bæri fyrst
og fremst að draga upp mynd af raunveruleik-
anum. En árið 1945 hélt Svavar Guðnason sýn-
ingu hér í Reykjavík þar sem hann sýndi ein-
göngu abstraktmálverk. Með þessari
tímamótasýningu hans hófst saga íslenskrar
abstraktlistar og í kjölfarið fylgdi September-
hópurinn með sýningar sínar á árunum 1947–
1952. „Þær sýningar, rétt eins og sýning Svav-
ars, voru gífurlega mikilvægar fyrir þessa orð-
ræðu um hlutverk listarinnar. Hópurinn setti
fram texta, þar sem þeirri skoðun var varpað
fram að áhorfandinn ætti í upplifun sinni fyrst
og fremst að einbeita sér að form- og litrænum
tengslum, því þar væri að finna raunverulegt
gildi verkanna,“ segir Ólafur.
Hann segir listamenn hafa nánast litið á
myndlistina út frá sjónarhóli þróunarkenn-
ingar, þar sem abstrakt væri hápunkturinn í
þróun myndlistar undanfarinna tíma. „Þetta
var stíft, heimspekilegt kerfi sem þessir lista-
menn settu fram og unnu samkvæmt, og það
var mikið tekist á um gildi þess á þessum
tíma.“
Alþjóðavæðing í fyrsta sinn
Allan 6. áratuginn var geómetrísk abstraktlist
öðru fremur stíll þeirrar kynslóðar sem þá
haslaði sér völl í íslenskri myndlist. Þessi þró-
un var samstíga því sem var að gerast í nor-
rænni og evrópskri myndlist og má segja að þá
hafi í fyrsta sinn komið fram stór hópur ís-
lenskra listamanna, sem var samstíga rót-
tækri list samtímans í Evrópu.
„Svavar hafði verið virkur þátttakandi í hin-
um evrópska listheimi úti í Danmörku, og list-
rænt gildi verka hans á 5. áratugnum hefur
mikla sérstöðu í íslenskri myndlist,“ segir
Ólafur. „Síðan kemur fram ný kynslóð á 6. ára-
tugnum, að hluta til með eldri listamönnum
eins og Nínu Tryggvadóttur, Þorvaldi Skúla-
syni og Sigurjóni Ólafssyni, en líka yngri lista-
mönnum eins og Hjörleifi Sigurðssyni, Herði
Ágústssyni, Guðmundu Andrésdóttur, Karli
Kvaran, Eiríki Smith, Sverri Haraldssyni,
Benedikt Gunnarssyni, Valtý Péturssyni, Jó-
hannesi Jóhannessyni og Kristjáni Davíðssyni.
Það sem þau voru að fást við var í takt við það
sem gerðist í Evrópu á sama tíma og það var
eiginlega í fyrsta sinn sem íslensk myndlist
tók þátt í alþjóðlegri umræðu um myndlist.“
Heildstæð mynd af tímabilinu
Tímabilið sem tekið er fyrir á sýningunni nú
markast í upphafi af sýningu Svavars árið
1945, en lýkur með nýjum viðhorfum sem
komu fram í kringum 1960 með Erró í broddi
fylkingar, sem krafðist raunsærra skírskotana
af ýmsum toga. „Það er ákveðin krafa sem
kemur fram hér á landi í tengslum við hinn al-
þjóðlega myndlistarheim; popplistina, Flúxus
og fleira, að listin eigi að fjalla um umhverfið
og raunveruleikann. Tímabilið frá 1945–1960
er því mjög afmarkað í íslenskri myndlist-
arsögu,“ segir Ólafur.
Hann bendir á að hlutverk sýningarinnar
sem opnuð verður í dag sé ekki eingöngu að
fjalla um það sem óx nýtt fram á tímabilinu –
abstraktlistina – heldur einnig það sem eldri
og hefðbundnari listamenn voru þá að fást við.
„Við erum að sýna hvaða breytingar urðu til
dæmis í verkum Kjarvals, Jóns Stefánssonar
og Ásgríms, en þær voru miklar. Síðan tökum
við líka listamenn sem koma inn á þessum ár-
um, en tengja sig meira við hefðina, eins og
Veturliða Gunnarsson, Jóhannes Geir, Hrólf
Sigurðsson og Sigurð Sigurðsson. Sýningin á
að bregða upp heildstæðri mynd af því hvað
hæst bar í íslenskri myndlist á þessum árum.“
Ólafur segir þó ómögulegt að halda því fram
að svipuð sýning hefði getað verið haldin í
Reykjavík á því tímabili sem verkin voru unn-
in. „Við skrifum söguna út frá okkar for-
sendum og á sýningunni leggjum við áherslu á
að með abstraktlistinni voru íslenskir lista-
menn í fyrsta sinn að gera svipaða hluti og
kollegar þeirra í Evrópu á sama tíma. Íslensk
list varð þá hluti af samtímanum. Þess vegna
gefum við verkum þeirra aukið vægi í þessari
sögulegu sviðsetningu til að undirstrika hina
nýju sýn á listina og tengslin við hið alþjóðlega
listsamfélag. Til grundvallar sýningu okkar
liggur faglegt, listrænt mat á því hvað við í
safninu teljum að hafi verið áhugaverðast á
þessum tíma, meðal annars út frá hinu nýja
hlutverki listarinnar og samhengi, og hún var
sett upp með hliðsjón af því.“
Upphaf hins ís-
lenska abstrakts
Listasafn Íslands hefur á undanförnum miss-
erum boðið upp á röð sýninga, sem miða að
því að gefa yfirsýn yfir þróun íslenskrar
myndlistarsögu frá aldamótunum 1900.
Fjórða sýningin í þeirri röð verður opnuð í
dag og fjallar hún um tímabilið 1945–1960
undir yfirskriftinni Frá abstrakt til raunsæis.
Þorvaldur Skúlason Komposition, 1954, olía, Listasafn Íslands.
Svavar Guðnason Stuðlaberg, 1949, olía, Listasafn Íslands.
Eftir Ingu Maríu
Leifsdóttur
ingamaria
@mbl.is
Hjörleifur Sigurðsson Málverk, olía, 1956, Listasafn Íslands.