Morgunblaðið - 16.10.2005, Side 10

Morgunblaðið - 16.10.2005, Side 10
10 SUNNUDAGUR 16. OKTÓBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ V ið landamærin bíður löng röð bíla. Flestir eru nýlegir og margir í dýrari kantin- um – BMW, Mercedes Benz og Volvo – þó inn á milli megi greina stöku Lödu sem komin er til ára sinna. Velkomin til Imatra. Landamærastöðvar í suð- austurhluta Finnlands þar sem 1,2 milljónir manna, flestir Rússar, fóru í gegn á síðasta ári. Þegar nær dregur skýlum landamæravarð- anna skiptist bílaröðin í tvennt – öðru megin safnast drekkhlaðnir vörubílar á meðan fólks- bílarnir renna inn í hina röðina. Þegar komið er að hliðinu hlaupa menn út með pappírana sína og svara spurningum. Enda þurfa allir íbúar Sovétríkjanna fyrrverandi að sýna gilda vegabréfsáritun við komuna til Finn- lands líkt og annarra landa Evrópusambands- ins, nokkuð sem Rússar eru ekkert sérstaklega ánægðir með. Hægt er að fá áritun sem heim- ilar dagsveru í Finnlandi samdægurs, en lengri tíma tekur að fá hefðbundna vegabréfsáritun með lengri gildistíma. Fyrir kemur að einhverj- um er vísað frá og leitað er í stöku bíl og því tek- ur það ferðafólkið mislangan tíma að komast í gegn. Áfengi og sígarettur Landamæraverðir, klæddir hermannagræn- um búningum, eru víða sýnilegir, sem og blá- klæddir tollverðir sem eru með sérstakan rönt- genbíl á staðnum er gegnumlýsir heilu farmhlössin án þess að það þurfi svo mikið sem að opna vöruvagnana. Lítið fer þó fyrir smygli á fólki og eiturlyfjum við finnsku landamærin, öllu algengari fundur er rússneskur vodki og sígarettur. „Þau lögbrot sem við verðum helst varir við hér eru smygl á sígarettum og áfengi, auk þess sem sumir reyna að sleppa við gerð tollskjala,“ segir Tommi Kivilaakso, yfirmaður tollþjónust- unnar í Austur-Finnlandi. En dæmi eru um að tugir þúsunda lítra áfengis finnist í einni send- ingu sem og hundruð þúsunda sígarettna. „Við höfum þó vissulega líka áhyggjur af eiturlyfja- smygli þó minna sé um slíkt og heróínfundurinn við landamærin í Vaalimaa eykur óneitanlega á þær,“ bætir hann við. Eiturlyfjafundurinn sem um ræðir er enda sá stærsti í sögu finnskra yf- irvalda, en rúmlega 50 kg af tyrknesku heróíni fundust í ágúst sl. við leit í vörubíl sem var á leið frá Rússlandi til Svíþjóðar. Er talið að heróínið hafi verið flutt landleiðina alla leið frá Tyrk- landi. Ekki eru þó allir smyglarar jafnstórtækir og flest málin eru öllu hversdagslegri. Sumir Rúss- ar nota sér til dæmis Finnlandsferðirnar til að drýgja bágar tekjur heima fyrir og töluvert er um að eldri konur frá nærliggjandi rússneskum bæjum geri sér ferð með áætlunarrútum hlaðn- ar áfengi og sígarettum sem þær svo selja á úti- mörkuðum í bæjum hinum megin landamæra- línunnar. „Þetta er óneitanlega líka vandamál sem við reynum að taka á með því að taka af þeim varn- inginn. Konunum er þó ekki haldið heldur fara þær samdægurs heim á ný með sín 50 kíló [af finnskri vöru] og selja þar áður en þær koma í næstu heimsókn og svona gengur þetta fram og til baka,“ segir Kivilaakso. En 50 kg er há- marksþyngd varnings sem rússneskum ein- staklingi er heimilt að flytja með sér yfir landa- mærin án þess að greiða af honum skatta og skyldur í Rússlandi. Ekki fyrirheitna landið Þótt fáar fréttir berist af mansali, vændi og smygli á fólki er alltaf eitthvað um að fólk reyni að komast inn í landið án tilskilinna leyfa. Í fyrra var tæplega 900 manns neitað um að halda áfram ferð sinni til Finnlands við landa- mærin og tæplega 600 til viðbótar var synjað um vegabréfsáritun á ræðismannaskrifstofum og í sendiráði Finna í Rússlandi. Svo eru alltaf nokkrir sem ekki fara löglegu leiðina. Í hópi landamæravarðanna við Imatra eru þeir Harri Malmén majór og Mauri Välimaa höfuðsmaður, en í Finnlandi starfa um 750 landamæraverðir við að gæta landamæranna sem liggja að Rússlandi. Um 250 þeirra starfa í suðausturhluta landsins þar sem umferð er hvað mest, en sameiginleg landamæri ríkjanna eru 1.269 km löng. Í fyrra voru 26 einstaklingar gripnir við að reyna að laumast yfir landamærin sem, auk landamæravarðanna, er gætt af 100 varðhundum, 90 myndavélum og 280 skynjur- um. Fjöldi þeirra sem eru gripnir við að reyna að laumast í gegn hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarin ár og þeir eru fáir sem ekki skila sér til baka eftir dagsheimsóknina, að sögn þeirra Malmén og Välimaa. Við því liggja líka sektir, auk þess sem þeir benda á að framboð af vinnu fyrir ólöglega starfskrafta sé ekki jafnmikið í Finnlandi og til að mynda í Bandaríkjunum þar sem stórir hópar fólks flykkjast yfir landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó í leit að betra lífi. Svo liggur svarið e.t.v. líka í því, líkt og Perttu Varti- ainen, rektor Joensuu-háskólans, bendir á, að Bandaríkin eru fyrirheitna landið í hugum Rússa en ekki Finnland, þó að þeim líki vel að fara í verslunarferðir þangað. Því fer líka fjarri að allir þeir sem koma í heimsókn yfir landamærin hafi eitthvað sak- næmt í huga. Stór hluti þeirra sem koma frá Rússlandi til Finnlands kemur þangað í dags- langa verslunarferð og eyðir á milli 40 og 2.000 evrum, eða 3.000–150.000 kr. Gestirnir í glæsivögnunum eru líka oft eyðsluglaðir, enda koma margir þeirra úr röð- um svonefndra „novo Russki“ – nýja aðalsins, líkt og sumir kalla hina nýríku elítu. Og úr röð- um þeirra efnameiri sem biðu við landamærin í Imatra komu flestir frá Sankti Pétursborg, sem raunar liggur nær Imatra og nærliggjandi bæj- um en finnski höfuðstaðurinn Helsinki. Þessir ferðalangar eru líka aufúsugestir í augum margra kaupmanna sem kunna vel að meta við- skiptin. Þannig hafa sumar verslanir í bæjum við landamærin rússneskumælandi starfsfólk á sínum vegum, skilti og vegvísa að vöruhúsum sem selja virðisaukaskattlausa vöru má finna á finnsku, ensku og rússnesku og textinn á eyðu- blaði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts í Finnlandi er einnig á þessum þremur málum. Þegar forvitnast er í Artek-versluninni í Hels- inki, sem selur nokkuð dýra finnska naumhyggjuhönnun, um hvort Rússar séu áberandi meðal viðskiptavina er svarið að svo sé ekki – naumhyggjan falli ekki að smekk hinna nýríku. Hliðið til austurs Þó finnska naumhyggjan falli Rússum ekki í geð er ljóst að heimsóknir rússnesku ferða- mannanna og viðskipti við rússnesk fyrirtæki skila engu að síður drjúgum hagnaði. Virðis- auka- og skattfrjáls viðskipti við Rússland námu 11.161.000 evrum, sem samsvara um 856 milljónum króna, í fyrra. Árið 1991 var upp- hæðin 168.000 evrur. Umferðin um landamærastöðina í Imatra hefur líka aukist verulega á undanförnum árum og er umferðin raunar orðin það mikil að landa- mærastöðin í núverandi mynd annar henni ekki. „Þess vegna er verið að byggja nýja varð- stöð sem komast á í gagnið 2006 og mun auð- velda flæði um landamærin til muna. Þar verða til að mynda tvær endastöðvar – ein fyrir fólks- bíla og önnur fyrir flutningabíla,“ segir maj- órinn Harri Malmén. Þegar framkvæmdasvæðið er skoðað fer heldur ekki framhjá neinum að nýja landa- mærastöðin, sem er vel á veg komin, verður mun umfangsmeiri og stærri en sú gamla. Hjá finnsku stjórnsýslunni hafa menn þó nokkrar áhyggjur af því að Rússar hafi til þessa sýnt litla tilburði í þá átt að leggja tveggja km vega- kafla að landamærastöðinni sín megin línunnar, og óttast þeir að fresta verði að taka stöðina í notkun ef það dregst að leggja veginn. Og þegar vel er að gáð má sjá beinan og breiðan veg vel merktan Sankti Pétursborg enda snögglega við hávaxinn vegg grenitrjáa. Ástæða seinagangs- ins er sögð vera sú að Rússar vilja að Evrópu- sambandið styrki framkvæmdina, en sam- bandið vill víst að verktakar sjái sjálfir um að sækja um slíka styrki á meðan að rússnesk yf- irvöld vilja ekki ráða verktaka í vegagerðina fyrr en fjárveitingin hefur verið tryggð. Það eru engar ýkjur hjá Malmén að umferðin um finnsku landamærin hafi stóraukist frá því að kalda stríðinu lauk og Sovétríkin liðuðust í sundur. Árið 1991 fóru um 315 þúsund manns í gegnum landamærastöðina í Imatra. Í fyrra voru það 1,2 milljónir, en það ár fóru alls um 4,5 milljónir manna um landamærin milli Finn- lands og Rússlands og voru 70% þeirra Rússar. Árið 1991 keyrðu líka 87 þúsund ökutæki í gegnum landamærastöðina í Imatra, innflutn- ingur nam 64.000 tonnum og útflutningur 31.000 tonnum. Árið 2004 var bílafjöldinn hins vegar kominn upp í 710.000, innflutningur nam 417.000 tonnum og útflutningur til Rússlands hafði aukist nær 45-falt og nam 1.391.000 tonn- um! Gamlar erjur Íbúar Lappeenranta, 60 þúsund manna bæj- ar sem liggur í rúmlega 20 km fjarlægð frá Imatra, hafa ekki farið varhluta af þessari þró- un. Ástand efnahagsmála á svæðinu hefur enda batnað til muna á sl. árum og ljóst er að þeim fjölgar stöðugt sem eru jákvæðir í garð þess- arar rússnesku innrásar. Á öldum áður var Lappeenranta af og til, líkt og fleiri hlutar Finn- lands og raunar landið allt um hundrað ára skeið, hluti Rússlands. Bærinn hefur líka á öðr- um tímapunkti legið mun fjær rússnesku landa- mærunum en hann gerir í dag, en Rússar inn- limuðu hluta finnsku Kirjálahéraðanna og um leið finnsku borgina Viipuri í Sovétríkin árið 1940. Á suður-kirjálska sögusafninu í Lappeenr- anta sýna upplýsingaspjöld með frösum á borð við „á tímum minna haturs“ líka nákvæmlega hversu stormasöm samskipti þjóðanna hafa verið, á meðan að textar á finnsku og rússnesku minna ekki síður á grannann. Mikil fátækt á ár- unum eftir heimsstyrjöldina síðari auk klásúlu í friðarsáttmála þjóðanna um að a.m.k. helming- ur skólabarna yrði að velja rússnesku sem val- fag leiddi líka til haturs margra í garð Rússa, sem ennþá eimir eftir af hjá sumum fulltrúum eldri kynslóðarinnar og enn í dag skilar sér í tregðu til að læra rússnesku. Þannig velur að- eins um 1% finnskra skólabarna að læra rúss- nesku, nokkuð sem finnsk stjórnvöld hafa tölu- verðar áhyggjur af í ljósi vaxandi viðskipta ríkjanna. Mikil tungumálanámsskylda í finnskum skól- um útskýrir þó e.t.v. líka að einhverju leyti tregðu nemenda í dag til að bæta við sig rúss- neskunni, en ekki er óalgengt að nemendur þurfi að læra fjögur erlend tungumál til að ljúka námi í framhaldsskóla. Þannig er sænskan skyldunám í finnskum skólum og strax um 8-9 ára aldur byrja börnin að læra sitt annað erlent tungumál og velja flestir þá enskuna. 11 ára gömul geta börnin svo valið eitt tungumál enn, sem er utan námskrár, og velja þá flestir þýsku, sumir frönsku og langfæstir rússnesku. Hjartað látið ráða för Í Lappeenranta og nágrenni er ekki að finna marga nýbúa, en um 1.700 manns af erlendum uppruna búa á svæðinu. Talan er að sögn Tuija Willberg, yfirmanns menntamála í Lappeenr- anta, nokkuð há fyrir hinar dreifðari byggðir, en engu að síður lægri en finnska meðaltalið. Um 1.000 þessara nýbúa komu frá Rússlandi eða öðrum ríkjum fyrrum Sovétríkjanna. Á tímabili á tíunda áratugnum fjölgaði inn- flytjendum frá Rússlandi líka nokkuð ört á þessu landsvæði en talan hefur haldist stöðug frá árinu 2000. Innflytjendalöggjöfin hefur þá verið þrengd umtalsvert á síðustu árum og nú verða þeir sem flytja ætla sig um set yfir landa- mærin að geta annað hvort gengið að tryggri vinnu á svæðinu eða hafa þegar fjárfest þar í fasteign. Umferð milli Finnlands og Rússlands hefur aukist umtalsvert frá því kalda stríðinu lauk. Anna Sigríður Einarsdóttir brá sér að landamærunum. Við landamærin þarf að sýna gilda vega- bréfsáritun áður en haldið er áfram. Skipaskurðurinn á Saimaa-vatninu tengir Rússland og Finnland. Byggingastíll í Helsinki þykir víða minna á byggingar í Sankti Pétursborg. Rússarnir koma!

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.