Morgunblaðið - 30.10.2005, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 30.10.2005, Blaðsíða 21
sögur séu mjög vinsælar vegna þess að við náum öll að skilja hræðslu gagnvart því ókunnuga.“ Skyndilega heyrist í farsíma Vargas og á einu andartaki förum við úr heimspeki- legum vangaveltum yfir í að blóta tækninýjungum sem láta mann ekki friði fyrr en búið er að skoða skilaboðin. „Maður ætti nú að fá að ráða hvenær maður skoðar sín eigin skilaboð en ekki vera algjör þræll tækninnar,“ segir hún hlæjandi. Guðdómlegur lögregluforingi | Vargas er húmanisti og umhyggja hennar fyrir mann- fólkinu er eitt af því sem skín í gegn í skrifum hennar og sterkri persónusköpun. Ein af aðalhetjum hennar er lögregluforing- inn Adamsberg sem notar óhefðbundnar rannsóknaraðferðir og er ekki eins og fólk er flest. „Mér líkar vel að skrifa um Adamsberg af því að hann er svo rólegur, hann er í rauninni algjör andstæða við mig og það er róandi að skrifa um hann. Stundum ímynda ég mér hvernig ég myndi bregðast við aðstæðum, sem ég læt hann lenda í, en sjálf er ég mjög ör og geri stundum hlutina án þess að hugsa. Adamsberg er sjálfmenntaður, hann lifir augnablikin til fulls og skynjar hlutina öðruvísi en við hin. Hann líður einhvern veginn áfram. Hann hefur líka einhvern óútskýranlegan sjarma og í síðustu bókum mínum hef ég fylgt honum vel eftir en er þó enn að kynnast honum. Ég held að við hefðum öll gott af því að leyfa okkur að skynja aðeins betur það sem er í kringum okkur og sleppa taki á þessari fyr- irfram mótun hugans í ákveðna átt. Adamsberg er held ég dæmigerð hetja nútímans þó hann geti óneitanlega stundum farið í taugarnar á mér. Og eins og allar hetjur þá verður hann að hafa örlítinn guðdómleika svo að hann haldi áfram að vera spenn- andi,“ svarar Vargas þegar ég spyr um ákvarðanir Adamsbergs sem stundum geta verið illskiljanlegar. En hvaðan fær hún allar þessar hugmyndir? „Ég hef alltaf hlustað mikið á fólk, og fylgst með því, til dæmis í lestum eða strætó. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að fylgjast með ókunnugum í neðanjarðarlest- inni og giska á við hvað þeir vinni. Mér hefur fundist það vera mjög góð aðferð að horfa á skóna sem fólkið er í. Skór segja nefnilega mjög mikið um manneskjuna. Þó ég notist að einhverju leyti við raunveruleikann þá byggi ég samt ekki persónur mínar beint upp úr honum. Ég ímynda mér frekar samræður og svo á ég það til að fá fáránlegar hugmyndir sem ég get síðan ekki losnað við og verð því að nota. Einhvern veginn verður til bók úr þessu öllu saman.“ Lifir í sinni eigin spennusögu | Vargas er ekki einungis vinsæll rithöfundur og virtur fornleifafræðingur heldur einnig mikill áhugamaður um mannréttindi. Hún hefur undanfarin tvö ár barist fyrir réttindum ítalska rithöfundarins Cesare Battisti, sem var að hennar sögn ranglega dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir aðild að hryðjuverkum vinstri róttæklinga á áttunda áratugnum á Ítalíu. Battisti flúði til Frakklands og bjó þar í meira en áratug þegar frönsk stjórnvöld ákváðu fyrir ári að framselja hann til Ítalíu, þvert gegn loforði Mitterrands, fyrrver- andi forseta Frakklands, sem hafði lofað að þeir sem leituðu skjóls í Frakklandi gegn ítölskum stjórnvöldum á þessum tíma fengju að vera þar áfram. Eftir það sem stuðningsmenn Battisti kalla óréttlát og gölluð réttarhöld hefur hann verið í felum. Fred Vargas, sem kynntist Battisti í gegnum skriftirnar, er þetta mál kært. „Ég get ekki hætt að berjast fyrir þessu máli fyrr en réttlætinu er náð. Það er óþolandi að sjá að hægt sé að breyta sögunni og röngum hlutum sé haldið fram og það er skylda mín að reyna að koma réttum upp- lýsingum fram í dagsljósið. Það er ótrúlegur áróður í gangi til þess að sakfella saklaus- an mann og það verður einhver að berjast fyrir réttlætinu. Við erum frekar vongóð um að eitthvað komi út úr máli okkar hjá Evrópska mannréttindadómstólnum en ég get eiginlega ekki sagt þér meira um það þar sem þeir eru að hlusta núna,“ segir Varg- as og bendir á símann sinn. Þegar ég lít á hana gáttuð tilbaka, trúir hún mér fyrir því að lögreglan hleri símann hjá henni öllum stundum. „Segðu hæ,“ segir hún brosandi og ég veit varla hvort það er meint í gríni eða al- vöru. Vargas trúir því að réttlætið muni sigra að lokum og Battisti verði dæmdur laus allra mála því þetta mál sé prófsteinn á franska réttlætiskerfið. „Það er alltaf til fólk, yfirleitt venjulegt fólk sem berst gegn óréttlætinu og það er mjög upplífgandi að vita það. Það er mikilvægt fyrir mig að okkur takist þetta. Allt hitt er í rauninni mjög ómerkilegt í samanburði við Battisti-málið.“ Vargas er stödd í sinni eigin atburðarás sem er jafn, ef ekki meira spennandi en nokkur skáldsaga. Svona getur þá lífið hermt eftir listinni. | sara@mbl.is Saga er ekki nærri því eins skemmtileg ef það er ekki eitt- hvað illt sem hræðir okkur svolítið.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.