Tíminn - 31.12.1987, Blaðsíða 12

Tíminn - 31.12.1987, Blaðsíða 12
12 Tíminn Fimmtudagur 31. desember 1987 Steingrímur Hermannsson: Góðir íslendingar, Vafalaust verður árið 1987 talið með merkari árum. Á þessu ári fékk mannkynið nýja von um betri framtíö. Samkomulag tókst með stórveldunum. Skref var stigið af braut þess kapphlaups sem staðið hefur um áratugi með framleiðslu fleiri og öflugri gereyðingarvopna. Fækkun kjarnorkuvopna og útrýmingu efnavopna er nú lofað, og menn anda léttar. Árið hefur heldur ekki verið viðburðasnautt hér á landi. Kosningar til Alþingis einkenna árið, að sjálfsögðu öðru fremur. Þótt við framsóknarmenn megum vera ánægðir með kosningaúrslitin, er enn óljóst, hvort þau muni reynast þjóðinni til góðs. Aðeins stjórn þriggja flokka eða fleiri varð mynduð. Við þörfnumst mjög festu og stöðugleika í stjórn- málum, sem sagan sýnir, að erfitt hefur reynst að skapa með fleiri flokka stjórnun. Við skulum vona, að það takist þó nú. I þessum áramótahugleiðingum tel ég rétt að fjalla um það hættulega ástand, sem virðist á ný vera að skapast í efnahagsmálum, og um stöðu heimi. Hjöðnun verðbólgu - jöf nun lífskjara Því verður ekki neitað, að á síðasta kjörtímabili náðist mikill og athyglisverður árangur í viðureign- inni við verðbólguna. Árin 1985 og 1986 voru ekki síst lærdómsrík. Efnahagsmálin virtust vera að fara úr böndum í upphafi ársins 1985. Með samstilltu átaki ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins tókst þó að ná á ný tökum á þróun efnahags- mála. Dró þá svo úr verðbólgu, að hún var um síðustu áramót orðin nálægt 10 af hundraði og sú lægsta, sem hún hefur verið í 12 ár. Ekki var síður athyglisvert, að á þessum sömu árum tókst að jafna verulega kjörin, einkum í kjara- samningunum í desember 1986. Til þess að ná þessum árangri, bæði í verðlagsmálum og jöfnun lífskjara, lagði ríkissjóður mikið af mörkum. Má jafnvel færa rök að því, að í þeim efnum hafi verið teflt á tæpasta vaðið. Sjávarafli fór jafnframt vaxandi og gott verð hefur verið á afurðum okkar erlendis. Um síðustu áramót var því full ástæða til bjartsýni. Syrtir í alinn Því miður hafa vonir um jafnvægi í efnahagsmálum ekki ræst, a.m.k. ekki enn. Pvert á móti hafa hættu- merkin birst svo ekki verður um villst. Ekki er það síður áhyggjuefni, að það átak, sem gert var til að jafna lífskjörin, hefur að mestu runnið út í sandinn. Raunar voru einkenni vaxandi þenslu og viðskiptahalla orðin nokk- uð augljós á vormánuðum. Þá kann- aði ég hvort grundvöllur væri fyrir nokkrum viðnámsaðgerðum. Svo reyndist ekki vera enda kosninga- baráttan í algleymingi og ýmsir töldu að slíkt gæti beðið fram yfir kosning- ar. Eftir kosningar hafði ríkisstjórnin misst meirihlutann og Sjálfstæðis- flokkurinn var í sárum og upptekinn við myndum ríkisstjórnar af öðrum toga. Þeir samtals um fjórir mánuð- ir, sem þannig glötuðust í aðgerðar- leysi, hafa orðið dýrkeyptir. íslands og skyldur í breyttum Augljóslega er pottur brotinn ein- hversstaðar. Þróunin krefst þess að málin séu brotin til mergjar og það lagfært, sem afvega hefur farið. Orsakirnar eru eflaust margar og samofnar. Þenslan er oftast nefnd. Hún er þó fyrst og fremst afleiðing en ekki frumorsök vandans. Grafa verður dýpra. Meiri afli hefur blásið kappi í kinn og forsjár í fjárfestingu ekki gætt sem skyldi. Þetta virðist vera forn fjandi okkar fslendinga, hvenær sem vel gengur. Vafalaust hefur þetta aukið á þensluna, en er að mínu mati þó langt frá því að vera megin ástæða hennar. Halli á ríkissjóði hefur einnig átt sinn þátt í þenslunni. Staðreyndin er, að skattahækkanir á síðasta kjörtímabili voru óraunhæfar, því ekki tókst að draga samsvarandi úr útgjöldum. Oft vill þó gleymast að halla ríkissjóðs má að töluverðum hluta rekja til mjög mikilvægrar þátttöku í kjarasamningunum 1986, eins og fyrr er rakið. Hallinn á ríkissjóði virðist mér því heldur ekki vera megin orsök jrenslunnar og þess ástands, sem nú er orðið í efnahagsmálum þjóðarinnar. Sannfæring mín, er, að alvarleg- asta brotalömin hafi orðið í stjórn peningamála. Frjálsræðið margróm- aða hefur á því sviði reynst fjötur um fót, enda varla annars að vænta á meðan efnahagsmál þjóðarinnar eru svo langt frá því að vera í jafnvægi eins og öllum má Ijóst vera. Stjórn peningamála Við stjórnarmyndunina 1983 lögðu sjálfstæðismenn þunga áherslu á, að frelsi yrði aukið sem mest og sem fyrst á sem flestum sviðum efnahagsmála. Það er að sjálfsögðu í samræmi við þá yfirlýstu skoðun sjálfstæðismanna að efnahagsmálin séu bestu komin í höndum hins frjálsa markaðar og fjármagnsins. Þótt við framsóknarmenn viljum frelsi einstaklingsins mikið, töldum við og teljum enn, að á frelsinu þurfi að hafa góða stjórn, ekki síst á meðan jafnvægi hefur ekki náðst í efnahagsmálum og dómgreind manna er meira eða minna undir áhrifum óljósra verðbóiguvæntinga. Eins og oft, þegar um samstarf flokka með ólíkar stefnur er að ræða, varð niðurstaðan sú, að mæst var á miðri leið. Nokkrar breytingar í frjálsræðisátt voru gerðar, en ýmsir varnaglar slegnir, sem við framsókn- armenn töldum að tryggja ættu við- unandi framkvæmd. Því miðurhefur þó enn sannast, að ekki fara ætíð saman orð og gerðir. Þegar ákvörðunarvald um vexti var fært frá Seðlabanka til viðskipta- bankanna, var, að tillögu okkar framsóknarmanna, það vald sett í hendur bankaráðanna. í þeim sitja hjá ríkisbönkunum fulltrúar stjórn- málaflokkanna, sem ætla má að hafi hagsmuni atvinnulífsins einnig í huga. Þetta hefur reynst haldlítið. Vextir virðast ákveðnir af þeim fjár- magnsmarkaði, sem er utan ríkis- bankanna, „gráa markaðnum" svo- nefnda. Að okkar kröfu var sett í lög, að Seðlabankinn gæti þess að vaxta- munur verði hóflegur og raunvextir svipaðir og í helstu viðskiptalöndum okkar. Við hvöttum einnig mjög til þess, að sett yrðu lög um eftirlit með og stjórn á verðbréfamarkaðnum og það var gert. Hvorugt hefur komið að því liði, sem til var ætlast, enda líklega lítt vinsælt hjá þeim, sem trúa á töframátt hins frjálsa fjár- magnsmarkaðar. Því miðursýnist mér, að afleiðing- in hafi orðið hvert slysið eftir annað. Fyrir mistök, að því er virðist, varð okur frjálst, og þótt sett hafi verið ný lög um okur, virðast ákvæði þeirra haldlítil. Nú er upplýst að raunvextir eru u.þ.b. tvöfalt hærri en í okkar helstu viðskiptalöndum og staðfest er að eftirlit með þeim fjármagnsmarkaði, sem er utan bankakerfisins er lítið sem ekkert. Enda blómstra verð- bréfasalar, kaupleigur, ávöxtunar- fyrirtæki og hvað það allt heitir. Háir vextir viðskiptabankanna segja ekki nema brot af sögunni allri. Stór hluti fyrirtækja og einstak- linga neyðist til þess að leita á náðir verðbréfasala og kaupleigufyrir- tækja, og þar munu raunvextir vart vera undir 14 til 20 af hundraði. Og nú er þriðja þrepið stigið á þessari braut. Til þess að ná sem fyrst í fjármagn til þess að greiða hina háu vexti, mun vaxandi fjöldi fyrirtækja selja fjármagnskröfur sín- ar á hinum „gráa markaði“ með meiri eða minni afföllum. Þegar allt er dregið saman er fjármagnskostnaðurinn ekki 10 af hundraði heldur líklega nær 20 til 30 af hundraði umfram verðbólgu hjá fjölmörgum fyrirtækjum ogeinstakl- ingum. Að sjálfsögðu er það mikill mis- skilningur að slíkur fjármagnskostn- aður auki ekki verðbólgu. Kenning- in segir að háir vextir eigi að draga úr eftirspurn eftir fjármagni og því úr þenslu. Eflaust er það svo, þar sem efnahagslífið er í jafnvægi og verðbólga sáralítil. Hér á landi er ástandið annað. Hér spyr enginn um vexti, aðeins hvort hann fái lánið. Fjármagnskostnaðinum er síðan jafnóðum velt út í verðlagið. Reynd- ar hafa sérfræðingar nú loks viður- kennt að vaxtabremsan „virðist ekki virka“ hér á landi við ríkjandi að- stæður. Ég er að vísu ókunnugur á refil- stigum fjármálafrumskógarins, en ég er engu að síður sannfærður um, að þar er að finna það mein, sem mestu veldur og ræður í þeirri öfug- þróun, sem geisar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Fyrir tveimur vikum keypti ég jólaljós í verslun í Hollandi. Þau kostuðu tæplega 400 krónur. Þegar heim kom, rakst ég á nákvæmlega sömu ljósin í verslun. Þar kostuðu þau tæplega 900 krónur. Flestir þekkja fjölmörg slík dæmi. Getur ekki verið, að óhóflegur fjármagns- kostnaður eigi sinn þátt í slíkum verðmun? Offjárfestingin Frjálsræðið teygir anga sína víða. Sumum kann að þykja ánægjulegt, að hér skuli vera risin ein glæsileg- asta verslunarhöll í Evrópu og einn stærsti skemmtistaðurinn. Slíkir staðir munu nógu margirog stórir nú orðið hér á landi til þess að þjóna milljónaborgum. En hefur þjóðin efni á slíkri fjárfestingu? Fyrir nokkrum árum töldu sumir fjölgun togara og annarra fiskiskipa nánast boða hrun hins íslenska efna- hagslífs. Það eru þó mikilvægustu framleiðslutæki þjóðarinnar og bera þá björg í bú, sem undir öllu stendur. Á framleiðslunni hvílir það, sem fyllir verslunarhallirnar glæsilegu og skemmtistaðina stóru. Við skul- um vona að þjóðarbúið kikni ekki undan þeirri byrði. Verkefnin framundan Þessarar ríkisstjórnar bíða mörg verkefni. Sum eru stór, önnur lítil, en flest eru þau mikilvæg. Hlúa þarf að því, sem jákvætt er, eins og t.d. hverju því, sem hvetur unga og aldna til heilbrigðara og betra mannlífs. Það er mikill mis- skilningur að draga úr aðstoð við æskulýðsstarf og íþróttahreyfingu og má ekki verða svo í raun, þegar dæmið er gert upp á mjlli ríkis og sveitarfélaga. Við alla gerða samninga ber og að standa skilyrðislaust og Ijúka því, sem fyrri ríkisstjórn hefur hafið og um samið. Landbúnaðarmálin koma í huga í þessu sambandi. Þar er hafin aðlög- un að breyttum aðstæðum, sem er bændum erfið, og kostar mikið fé á meðan yfir stendur. Ef vel er að málum staðið, er ég sannfærður um, að íslenskur landbúnaður verður öflugri eftir en áður og mikilvægari íslenskum þjóðarbúskap. Þessi erf- iða framkvæmd mun því aðeins takast, ef átakið er samstillt. Stöð- ugu stríði við banka og ríkissjóð verður því að linna. Nýsköpun í atvinnulífi, umhverf- ismál og ýmislegt fleira, sem til framfara getur horft vildi ég gjarnan ræða, en það verður að bíða annars tíma. Efnahagsmálin er það verkefn- ið, sem mikilvægast er og ekki má mistakast. Aðgerðir í efnahagsmalum Eins og ég hef áður rakið, dyljast ekki hættumerkin í efnahagslífinu. Spurningin er, hvort menn geta náð saman um aðgerðir. Launaskriðið hefur fært launþeg- um kaupmáttaraukningu, sem er að meðaltali langt umfram það, sem að var stefnt í síðustu kjarasamningum, og aukning þjóðarframleiðslu í raun ber. Geta menn látið sér nægja að viðhalda þessum kaupmætti en bæta þó kjör þeirra sem afturúr hafa dregist? Erfitt kann í raun að reynast að tryggja slíkt og ná um leið tökum á efnahagsmálum, en það væri þó verðugt og skynsamlegt markmið. Enn aukinn kaupmáttur er óraun- hæfur og mundi aðeins Ieiða til áframhaldandi þenslu og vaxandi verðbólgu. Ef slík þjóðarsátt næst, hefur ríkisstjórnin fastan grundvöll á að byggja. Þá getur hún ákveðið nauð- synlegar efnahagsaðgerðir og um leið byggt á umsömdum forsendum. Þær aðgerðir verða ekki taldar svo tæmandi sé. Ég vil þó nefna nokkur þau atriði, sem ég tel hvað mikilvæg- ust. Hallalaus ríkisbúskapur er mikil- vægur. Vonandi næst það með þeim fjárlögum, sem hafa verið afgreidd fyrir árið 1988. Þó óttast ég að útgjöldin séu í ýmsum tilfellum van- metin og hallalaus ríkisbúskapur muni þurfa að byggjast á því að skattheimtan verði bætt og úr skatt- svikum verulega dregið. Eins og ég hef áður sagt, tel ég bætta stjórn á peningamarkaðnum hvað mikilvægasta. Vil ég í því sambandi, m.a. leggja áherslu á ítarlegt eftirlit með fjármagnsmark- aðnum öllum, einnig þeim hluta, sem er utan bankakerfisins, glöggar upplýsingar um umsvif og kjör á þeim markaði, samræmda skatt- heimtu og hert skattaeftirlit, að lög verði sett um þær greinar fjármagns- viðskipta, sem eru án laga, eins og t.d. um notkun greiðslukorta, kaup- leigur o.fl. og að reglur og aðgerðir verði samræmdar og nái til fjár- magnsmarkaðarins alls. Eðlilegt er að gera þeim að greiða vexti og allan kostnað af notkun greiðslukorta, sem slík lán taka. Seðlabankanum ber einnig að sjálfsögðu að gera tillögu til ríkisstjórnarinnar um að- gerðir til lækkunar vaxta til samræm- is við vexti í okkar helstu viðskipta- löndum, eins og lög gera ráð fyrir. Þá tel ég einnig mjög athugandi, að Seðlabankinn ákveði þá hámarks- vexti, sem hæstir verði löglegir. Erlendar lántökur í heild verði skilyrðislaust takmarkaðar eins og lánsfjárlög og opinberar heimildir gera ráð fyrir, og stöðvaðar, á meðan þenslan er, til framkvæmda, þar sem óhóflega mikil fjárfesting er orðin. Mér sýnast reglur um bindingu fjármagns í Seðlabanka og kröfur um lausafjárstöðu banka haldlitlar, ef erlendar Iántökur og fjármagns- markaðir utan bankanna leika laus- um hala og raunar að öllum líkindum skaðlegar. Á meðan bönkunum er gert að greiða hundruð milljóna

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.