Lesbók Morgunblaðsins - 14.01.2006, Síða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 14. janúar 2006 | 5
unum. En við þann þráð bætist stíllinn og
hugleiðingar söguhöfundar, sumpart sprottn-
ar af sögunni, sumpart ekki, í senn almennar
og djúpspekilegar og opnast manni í frásögn-
um af einföldum athöfnum:
Og um leið og þeir fóru nú inn, tók hann um
kertisskarið tveim fingrum. Ljósi er sýnd mest líkn
með því, að láta það ekki veslast upp til einskis
gagns.
Frá Blicher til Conrads
Stíll Aðventu er einskonar ævintýri. Gunnar
var stílisti, um það vitna bækur hans, og gat
brugðið sér í margskonar líki, margorður,
jafnvel flæðandi, eins og í Fjallkirkjunni,
harður og hrjúfur eins og í Brimhendu, en
hvergi eins látlaus og blátt áfram fallegur
eins og í Aðventu. Enginn er þó eyland í
skáldskap, maður rekst á stíl svipaðrar ættar
hjá ólíkum höfundum, ég veit ekki hversu
langt aftur er hægt að rekja hann, kannski til
hins danska Steen Steensen Blicher, sem
skrifaði á fyrrihluta 19. aldar og Gunnar
hreifst mjög af, þýddi meðal annars eina af
sögum hans, Vaðlaklerk. Þetta er sérstakur
stíll, ég veit ekki hvort maður þorir að segja
norrænn, en hann nær vissri fullkomnun hjá
Knut Hamsun, makalaus galdramaður sem
hafði áhrif á marga ólíka höfunda. Heming-
way dreymdi um að skrifa eins og Hamsun,
dálæti hans á stíl Norðmannsins gæti skotið
svo sem einni grannri stoð undir þá kenningu
að Aðventa hafi höfðað svo sterkt til hans að
gamall maður og haf varð til. En fleiri höf-
unda má nefna, Gunnar náttúrlega, Halldór
Laxness, William Heinesen, Martin A.
Hansen. En hvaðan kemur þessi stíll, hvers-
vegna laðast norrænir höfundar að honum, er
það sambland af veðráttu og birtu, löngum,
dimmum vetrum og sumarnóttum svo björt-
um að þær eira engu? Draumlynt raunsæi,
ljóðræn frásögn, hljóðlát í eðli sínu en rúmar
engu að síður ópið sem Munch fangaði á
strigann, æðruleysi sem er einskonar kæru-
leysi, líklega sprottið af þunglyndi; það ríkir
ekki myrkur í þessum stíl, en heldur ekki
birta, kannski húm.
Það er unaður að lesa Aðventu á dönsku,
frummálinu, og með ólíkindum hversu vel
Magnús Ásgeirsson nær að þýða stemn-
inguna sem svo erfitt er að lýsa, en svo auð-
velt að njóta. Ég ætla ekkert að flækja málin;
þýðing Magnúsar er betri en þýðing Gunnars
sjálfs, trúrri frumtextanum, hún er mýkri og
einfaldari, hér er bara rúm fyrir eitt lítið
dæmi, fyrst danskan:
Henover dem skrider Natten.
Þýðing Magnúsar:
Uppi yfir þeim heldur nóttin leiðar sinnar.
Gunnars:
Uppi yfir þeim halda reikihnettir líðandi stundar
að vanda leiðar sinnar.
Eitt af því sem situr sterkan svip á Að-
ventu, hér má sannarlega bæta Fjallkirkjunni
við, er lýsing Gunnars á veðurfari, ég man
varla eftir að hafa lesið jafn, hvað skal segja;
sterkar, sannferðugar lýsingar á óveðrum
eins og hjá Gunnari – nema hjá Joseph Con-
rad. Mér verður ósjaldan hugsað til Gunnars
þegar ég er staddur í bókum Conrads og
hann byrjar að lýsa ofsanum sem býr í veðr-
um úthafsins, og síðan hugsa ég til Conrads
þegar Gunnar upphefur lýsingar á veðrum
fjallanna. Báðir komast þeir svo nálægt
manni með þessum ofsafengnu náttúruöflum,
að maður hniprar sig ósjálfrátt saman, og það
eru kannski eðlislæg viðbrögð andspænis öfl-
um sem við ráðum ekki neitt við, eitthvað í
dýpstu afkimum minnisins skipar manni að
hnipra sig saman, gera sig lítinn, verða aftur
að litlu spendýri, hniprandi sig í holunni þeg-
ar eitthvað óviðráðanlega stórt nálgast, risa-
eðla eða loftsteinn. Er ekki skyldleiki með
Gunnari og Conrad, og ég á þá ekki bara við
einstaka hæfni þeirra í veðurlýsingum? Gunn-
ar er Íslendingur sem skrifar á dönsku, mál
sem hann lærir fyrst kominn yfir unglingsár;
Conrad Pólverji sem skrifar á ensku, mál sem
hann lærir fyrst kominn yfir unglingsár. Báð-
ir þekktir fyrir tök sín á málinu, fara þar
framúr flestum innfæddum höfundum, báðir
heimspekilega þenkjandi og leggja mikið upp-
úr byggingu sagna sinna, skáldsagnahöf-
undar par exelence. Gunnar hefur án efa
þekkt til Conrads, flestar bækur Pólverjans
komnar út í danskri þýðingu þegar Gunnar
stígur á land í Danmerku, hugsanlega til þess
að sigra heiminn.
Um djúprættan kunnugleika
Benedikt á ferð með hundi og hrút, það eru
hans félagar. Frásögn þar sem maður er ein-
samall á ferð, síðu eftir síðu, og í ofan á lag
ekki með hugann fullan af visku fornalda,
eins og Aschenbach í Dauðanum í Feneyjum,
viska sem reynist að sjálfsögðu haldlítil and-
spænis ofbeldi tilfinningana, heldur maður
eins og Benedikt sem veit fátt um gríska
guði, sýnu minna um þýska heimspekinga,
hefur þó sannarlega lent í ofbeldi tilfinninga
eins og Aschenbach, en unnið sinn sigur; höf-
undur með slíkan karekter þarf að leysa ýmis
tæknileg vandamál. Því hvernig, ef söguhöf-
undur vill ekki sífelt vera sjálfur með orðið, á
að fylla síðurnar af orðum og atvikum, með
hvaða hætti á að skapa hreyfingu og líf kring-
um Benedikt sem þrammar, fyrst upp úr
sveitinni, síðan einsamall um öræfin, stundum
mannhatursfull? Fátt er jafn djöfullegt fyrir
höfunda, og fátt er jafn gott, og vandamál,
þau gefa þeim tækifæri að koma með snjalla
lausn, því eitt er að hafa hund og hrút í föru-
neyti, allt annað að gefa þeim jafn skýr, per-
sónuleg einkenni og Leó og Eitill hafa. Maður
gleymir því yfirleitt að þarna eru maður og
dýr á ferð, í huga manns eru þeir þrír félagar,
ekki maður og dýr. Eitill alvarlegur, með
þungt skap, en traustur, harður, Leó hálf-
gerður gosi en ómissandi þegar á reynir. Leó
er eiginlega senuþjófur bókarinnar, Gunnar
skýtur inn hálfri setningu hér og þar, einfald-
ar athugasemdir um hund en samt ein-
hvernveginn þannig að lesandinn skælbrosir
og finnst um stund að veröldin sé býsna
skemmtileg. Gunnar tekur raunar í bláupp-
hafi sögunnar allan vafa af að þeir séu fyrst
og síðast félagar, ekki maður og dýr, og gerir
það á þann hátt að maður skynjar til botns að
milli þeirra þriggja liggja þesskonar þræðir
sem gerir lífið dýrmætt, heiminn að stað sem
vert er að búa í:
Þessir þrír höfðu nú um nokkurt árabil verið óað-
skiljanlegir, þegar um slíka leiðangra var að ræða,
og þekktu nú orðið hver annan út í æsar, með
þeim djúprætta kunnugleika, sem ef til vill tekst
aðeins milli alveg fjarskyldra dýrategunda, þar
sem enginn skuggi eigin sjálfsveru, eigin blóðs,
eigin óska eða fýsna, villir um né veldur myrkvun.
Þessi lýsing á sambandi Benedikts, Leó og
Eitils er jafnframt ágætis dæmi um hvernig
Gunnar víkkar út heim bókarinnar, einfaldir
hlutir fá almenna, mér liggur við að segja al-
tæka skrírskotun, við erum ekki bara með
frásögn af atvikum, atburðum, heldur líka
vangaveltur um lífið sjálft, um innsta eðlið.
Hér er svo annað dæmi, Benedikt er kominn
að Botni á sínum fyrsta degi, öll ferðin eftir.
Botn er efsti bærinn, sveitin fyrir neðan, sjálf
öræfin fyrir ofan, hann er því á einskonar
landamærum, og í þessu stutta broti rúmast
ekki bara ljóðræn heimspeki, heldur líka hár-
fín og dramatísk lýsing á þeim reginmun að
vera á meðal manna og uppi á öræfum; les-
andinn skynjar hvað bíður Benedikts:
Menn, sem eru á gangi í myrkri, missa svo und-
arlega hver af öðrum. Þó er einvera manns í
myrkri frábrugðin einveru á fjöllum, hérna niðri í
byggðinni, er hún ekki eins alger; maður heyrir
ennþá aðrar raddir en sína eigin, finnur and-
ardrætti í nánd, hinn djúpa tómleika utan úr
geimnum og neðan frá grunni grjótsins leggur
ekki ennþá eins og ískulda um hársræturnar.
Frjósemin í höfði lesandans
Aðventa hefur verið túlkuð á ýmsa vegu.
„Þetta er stórkostlegt vetrarljóð“, skrifaði
Jakob Jóh. Smári í ritdómi árið 1938, og held-
ur „athyglinni vakandi, þó að efnið sé í raun
og veru ekki mikið“. Matthías Johannessen
segir að rauði þráðurinn í verkum Gunnars
hafi verið staða mannsins í tilverunni, að
„vera ábyrgur, leita sannleikans og kjarna til-
verunnar, reyna að skilja stöðu mannsins –
þá glímu hefur Gunnar Gunnarsson háð í öll-
um verkum sínum...“ Það skal játað að stund-
um hefur mér þótt að sú glíma hafi gert
skáldskapinn óþarflega þungan í vöfum, jafn-
vel heft Gunnar sem skapandi höfund, varnað
honum þess að leita nýrra leiða í forminu,
eins og hann hafi gleymt því að leitin að
skáldskapnum og leitin að sannleikanum sé
eitt og hið sama, ef ekki sami handleggur, þá
sami líkami. Eða eins og stendur á einum
stað: „það er ekki hollt fyrir höfund að hugsa
of mikið, látum heimspekingum það eftir.“
Þetta á að sjálfsögðu ekki við hans bestu
verk, Svartfugl prýðis dæmi þar um, dimm og
alvarleg bók, hin þunga leit að sannleikanum
hrífur mann með sér, eins og dimmt fljót.
Svartfugl hefur lengi verið lesin í skólakerf-
inu, jafnvel þótt hún sé ekki hentugur inn-
gangur að verkum Gunnars fyrir ómótaða
lesendur, eða hversvegna lesa framhalds-
skólanemar ekki upphafið að Fjallkirkjunni;
fyrsta eða annan hlutann af Skipi heiðríkj-
unnar, stórkostlegt verk þar sem saman fer
leikur og sársauki - ljóðrænn frásagnar-
flaumur sem Halldór Laxness þýddi svo af-
bragðsvel fyrir okkur?
Það býr margt í verkum Gunnars, þau eru
djúp og leita á mann við ólíkustu tækifæri, til-
svör og persónur, jafnvel heilu bækurnar; ný-
verið talaði ég við skáld sem sagðist iðulega
vera hugsað til Sælir eru einfaldir þegar
fuglaflensu ber á góma, eins og sú hugstæða
bók væri hreinlega lýsing á þeim heimsfar-
aldri sem hugsanlega biði okkar. Margræður
er Gunnar, og Aðventa hefur líka verið lesið á
ýmsa vegu, sumir hafa gengið og fullyrt að
Gunnar hafi markvisst ofið ævi og boðskap
Krists inn í söguna, að líta eigi á för Bene-
dikts sem sviðsetningu á ævi og boðskap
Krists. Það eru engin ný sannindi að Gunnar
Gunnarsson hafi talsvert hugsað um Krist og
biblíuna; Sælir eru einfaldir gerist á sjö dög-
um og vísar það auðvitað í sköpunarsöguna,
„söguhetjur kreppusagnanna bera mörg
Kristseinkenni,“ skrifaði Matthías Viðar, en
Sælir eru einfaldir telst til þeirra, og vissu-
lega verður manni hugsað til Krists og hans
boðskapar við lestur á Aðventu. Benedikt er
fábrotinn alþýðumaður, en það er nú eitt að
vera fábrotinn, allt annað að vera einfaldur;
sumir myndu segja að Benedikt væri með
háa náttúru -og tilfinningagreind, afskaplega
næmur á náttúruna, dýrin, þekkir stráið í
sumarmóanum jafnvel og vetrarofsann uppi á
öræfum, manneskja sem af innsta eðli skilur
kjarnann í boðskap Krists. Benedikt hefur
þann sjaldgæfa eiginleika að þekkja tæpast
hismið, veit hreinlega ekki af því, kjarninn í
boðskapnum blasir einfaldlega við honum.
Það fara aftur á móti viðvörunarbjöllur af
stað í kollinum mínum þegar Benedikt er lýst
sem Kristgervingi, og að Aðventa sé helgi-
sögn. Ég skil vel að sumum þyki freistandi að
túlka hana þannig, Gunnar vísar ósjaldan,
beint eða óbeint, í biblíuna, enda er hún
Benedikt töm, hans húslestur, hvað þá á þess-
um árstíma, sjálfri aðventunni, en það er
mjög vafasamt að gera þær vísanir að höfuð-
atriði, útgangspunkti sögunnar. Bók sem fær
það orð á sig að vera nútíma helgisögn, svið-
setning á ævi Krists, á það á hættu að stirðna
í hugum lesenda, það er girt fyrir aðrar túlk-
unarleiðir og sem verra er: bókin verður ekki
lengur lesin á sínum forsendum, forsendum
skáldskaparins. Lesendinn klæðir sig í
kirkjuföt og les af auðmýkt þiggjandans, en
þannig má aldrei umgangast skáldsakap sem
byggir framhaldslíf sitt á frjóseminni í höfði
lesandans.
Gunnar Gunnarsson „Og með tímanum komst sú
mýta á flot að allir íslenskir höfundar stæðu í
skugga Halldórs, líka Gunnar og Þórbergur, þótt
skugginn sá hafi hvergi verið til nema í höfði
þeirra sem svo mæltu.“ Myndin var tekin þegar
höggmynd Sigurjóns Ólafssonar í anddyri Árna-
stofnunar var afhjúpuð.
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Höfundur er rithöfundur.