Morgunblaðið - 09.03.2006, Qupperneq 33
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. MARS 2006 33
UMRÆÐAN
ÞAÐ er með ólíkindum hvernig
einum manni tekst að hræra sam-
an mörgum ólíkum málum og
óskyldum efnisatriðum í einn grút-
argraut eins og prestur Fríkirkj-
unnar í Reykjavík gerir í Morg-
unblaðsgrein. Kinnroðalaust veður
hann elginn án nokkurs samhengis
eða sjálfsgagnrýni. Hann skrifar
grein í þeim tilgangi einum að
rugla bara nógu mikið og staðhæfa
það sem fær ekki staðist. Þannig
opinberar hann óvart hugsýki sína
og blandar nokkuð listilega saman
málefnum samkynhneigðra, hags-
munamálum Fríkirkjunnar, kyn-
ferðisafbrotamálum, almennum
mannréttindum, eigin hagsmunum,
frelsisstríði, þrælahaldi, kúgun
kvenna, bókstafstrú, mannfjölgun í
heiminum, misskiptingu auðsins,
hungursneyð, alnæmisvandanum,
Ku Klux Klan, barneignum, stöðu
þjóðkirkjunnar, sakramentisskiln-
ingi Katólsku kirkjunnar, hjóna-
bandi, ættleiðingum, forræðis-
hyggju, staðfestri samvist, mis-
munun kynþáttanna, getnaðar-
vörnum, hryðjuverkamönnum,
sérsveitum lögreglu, fjölkvæni og
kærleiksboði Guðs.
Þetta flokkast eiginlega undir
svo óbærilegan léttleika að það er
ekki einu sinni fáránlegt aðhláturs-
efni. Síðast þegar ég las svona
grein var það grein eftir mann
sem var greinilega haldinn ofsókn-
aræði. Allir voru á móti honum.
Það sem hrekur mig til þeirrar
niðurstöðu er ekki síst klifun frí-
kirkjuprestsins í Reykjavík á orð-
um eins og „stofnun“ og „kirkju-
stofnunin“. Það einkennir skrif sr.
Hjartar að allir virðast vera að
leggjast á eitt við að kæfa það ljós
sem hann heldur á lofti í nafni bar-
áttu fyrir frelsi. Hann gæti allt
eins sagt að „þeir“ séu allir á móti
sér án þess að geta nefnt sjáanlegt
tilefni. Því miður get ég ekki varist
þeirri hugsun að bera þessa bar-
áttu saman við sögu Cervantes,
Don Kíkóti.
Það er dapurlegt að sjá það aft-
ur og aftur af málflutningi frí-
kirkjuprestsins að hjónabands-
skilningur hans er í molum. Hann
hefur borist óraveg frá kenning-
arlegum grunni hinnar evangelísku
lútersku kirkju sem Fríkirkjan var
reist á og hefur starfað eftir allt til
þessa. Það er hinn sami kenning-
arlegi grunnur og Þjóðkirkjan
þjónar eftir enda var Fríkirkjan
stofnuð af fólki úr þjóðkirkjunni,
sem ekki ætlaði að breyta trúar-
skilningi sínum þrátt fyrir að
breyting yrði á kirkjunni sem
stofnun. Hann hefur ekki síður
skorið upp herör gegn hinni eilífu
alþjóðlegu kirkju með því að kenna
hana við fáfræði, afturhald og kúg-
un á liðnum öldum, en einnig með
því að setja sig í hatrama baráttu
gegn kristinni trúfræði, þjóðkirkj-
unni á Íslandi, kristnum mönnum í
Bandaríkjunum (Suðurríkjunum),
rómversk-katólsku kirkjunni, kat-
ólskum rétttrúnaði og bókstafs-
trúarhreyfingum í heild sinni. Það
er ekki annað að sjá en orðið
„kirkjustofnunin“, sem eru „þeir“ í
hans augum, valdi dauðastefnu, en
unni ekki lífi og frelsi. Ég bið þess
innilega að Drottinn leiði Fríkirkj-
una út úr þessu myrkri til að sjá
aftur ljósið af Orði Guðs.
Grein sr. Hjartar lýkur svo eðli-
lega á því útspili að þótt allir séu
svona óguðlega vondir, illir og
fylgjandi dauðastefnu og forræð-
ishyggju, þá er þó einn maður góð-
ur í þessari veröld. Það er hann
sjálfur. Hann vinnur að hinni góðu
þjónustu þótt þjónusta allra ann-
arra presta sé vond. Hann hefur
gefið saman hjón þeim til mikillar
blessunar og stutt þau í fjöl-
skylduerfiðleikum og hjúskap-
armálum. Hann er ólíkur þeim
prestum sem fjötra hjónabandið í
fortíðar- og lögmálshyggju aft-
urhaldssamra stofnana. Hann er
góður þótt við séum allir ömurlegir
og biskupinn okkar
verstur, nema ef vera
skyldi prófessorinn
okkar beggja í trú-
fræði. Það er dap-
urlegt að sjá hvernig
hann þverbrýtur siða-
reglur presta með
þessum orðum sínum.
Það fáránlegasta í
málflutningi hans er
þó sú hæðni og lítils-
virðing sem hann sýnir
hjónabandi karls og
konu. Það er engu lík-
ara en að hann útiloki að kær-
leikur og ást geti átt sér farveg í
hjónabandi karls og konu. Orðin
kærleikur og ást eiga
aðeins við um stað-
festa samvist í þess-
um nöturlegu blaða-
skrifum. Þetta verður
ekki misskilið því það
hefur áður komið
fram í málflutningi
hans. Á þessu bygg-
ist hjónabandsskiln-
ingur Fríkirkjunnar í
Reykjavík, þessarar
gömlu og virðulegu
stofnunar á okkar
dögum. En það virð-
ist ekki vera hægt að finna þessum
skilningi hans stað í kenningu Jesú
Krists, eða í Orði Guðs. Allir þeir
staðir í Biblíunni, sem hann vitnar
til eru að hans mati til vitnis um
hroðalega framgöngu kirkjunnar í
heiminum.
Ég tel það frekar vera í anda
kærleika Guðs að helga sig sann-
leikanum og bera virðingu fyrir
manngildinu og ástinni. Fríkirkju-
presturinn í Reykjavík getur ekki
upphafið sjálfan sig svo bókstaf-
lega og ofstækisfullt á kostnað
annarra presta í heiminum. Með
niðrandi tali um hjónavígslur í há-
loftunum freistar hann þess að
setja horn í síðu þess prests á höf-
uðborgarsvæðinu, sem hann lítur
trúlega á sem einn skæðasta
keppinaut sinn á markaðnum. Með
þessum blaðaskrifum hefur hann
unnið málefnum staðfestrar sam-
vistar óbætanlegt tjón. Með niðr-
andi skrifum hefur hann lítil-
lækkað hjónaband karls og konu.
Guð hjálpi fríkirkjuprestinum ef
hann telur það verða til vinsælda
og fjölgunar í söfnuði sínum að
halda á lofti slíkum málflutningi og
afflytja kenningar kirkjunnar.
Verði ljós í Fríkirkjunni í Reykja-
vík.
Verði ljós í Fríkirkjunni
Kristján Björnsson
svarar grein Hjartar
Magna Jóhannssonar
’Fríkirkjupresturinn íReykjavík getur ekki
upphafið sjálfan sig svo
bókstaflega og ofstæk-
isfullt á kostnað annarra
presta í heiminum.‘
Kristján Björnsson
Höfundur er sóknarprestur í
Vestmannaeyjum.