Morgunblaðið - 09.03.2006, Page 44
44 FIMMTUDAGUR 9. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Guðrún Jóns-dóttir fæddist í
Reykjavík hinn 4.
mars 1987. Hún lést
af slysförum hinn 28.
febrúar síðastliðinn.
Foreldrar hennar
eru Elísabet Björns-
dóttir, f. í Álaborg í
Danmörku 16. des-
ember 1965 og Jón
Pálmason, f. í
Reykjavík 3. ágúst
1959. Systkini Guð-
rúnar eru: 1) Pálmi,
f. 5. apríl 1979, sam-
býliskona Helena Pétursdóttir.
Sonur Pálma er Benedikt Frank, f.
30. apríl 2001, 2) Jónína Bríet, f. 24.
maí 1990 og 3) Snæfríður, f. 6. maí
1998. Foreldrar Elísabetar eru
Guðrún Jóhannesdóttir, f. 11. nóv-
ember 1944 og Björn Jóhannsson,
f. 19. maí 1943. Fóst-
urfaðir Elísabetar er
Aðalsteinn Þórðar-
son, f. 18. október
1945. Foreldrar Jóns
eru Pálmi Jónsson, f.
3. júní 1923, d. 4.
apríl 1991, og Jónína
Sigríður Gísladóttir,
f. 8. desember 1921.
Guðrún ólst upp í
Garðabæ en hún
stundaði grunn-
skólanám við Ísaks-
skóla, Flataskóla,
Garðaskóla og
Tjarnarskóla. Hún stundaði fram-
haldsskólanám við Fjölbrautaskól-
ann í Garðabæ og Verslunarskóla
Íslands.
Útför Guðrúnar verður gerð í
Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og
hefst athöfnin klukkan 15.
Pabbi hringdi í mig 4. mars 1987
og tjáði mér það að ég væri orðinn
bróðir. Daginn eftir fékk ég að fara
með pabba og sjá engilinn. Átta ára
gamall og alveg hrikalega stoltur
bróðir gekk í eftirvæntingu upp á
Lansa til að líta augum prinsessuna
sem átti eftir að gleðja hjarta mitt sí
og æ í framtíðinni með sínu ynd-
islega brosi og endalausum prakk-
arastrikum. Hennar uppáhalds-
áhugamál á fyrri árum var að ögra
foreldrum sínum og öðrum sem
reyndu að hefta hennar frelsi. Svo
þegar orka hennar var búin að setja
allt á annan endann kom litla hjart-
að til mín og fannst þetta svo ósann-
gjarnt allt saman og vildi ekkert
heitar en að einhver stæði með
henni.
Að sjálfsögðu sem eldri bróðir
reyndi maður að standa með litlu
systur en um leið með gömlu hjón-
unum, sem skildu ekkert í viljastyrk
og dirfsku þessarar litlu skottu.
Hún elskaði adrenalín, hún var
sjálfstæðari en allt sem getur staðið
eitt, hún elskaði lífið og hvar sem
hún kom við í lífinu passaði hún sig á
því að skilja eftir ummerki, þannig
að hver sem á vegi hennar varð
myndi muna eftir þessum engli. Í
fyrra fórum við í flúðasiglingu sam-
an ásamt fleiri vinum og fannst
henni þetta ekkert fútt þar sem ekk-
ert hættulegt var búið að gerast. Því
hún var sko ákveðin og svo stór-
huga! En svo datt litli engillinn út í
ána og þá varð henni kalt og svo lítil
í sér. Ekki tók hana þó langan tíma
að jafna sig og næst á dagskrá var
að hoppa af 10 metra kletti. Ekki
þurfti að hvetja Guðrúnu í það frek-
ar en annað og var hún eina stelpan í
ferðinni sem lét sig flakka og á und-
an flestum strákunum. Já, hún var
stórhuga, orkubolti og hvar sem hún
var var stuð! En nokkuð eins lítið,
ljúft, brosmilt, umhyggjusamt og
fallegt er ekki til og það hafa verið
forréttindi að fá að vera þess aðnjót-
andi að vera bróðir hennar Guðrún-
ar, sem nú vakir yfir okkur sem
stóra systir og lifir að eilífu í hjört-
um okkar.
Hugsandi um engla ég hugsa til þín.
Með hárið þitt eldrautt og heilbrigða sýn.
Er lát þitt ég frétti brást lífstrúin mín.
Hugsandi um engla ég hugsa til þín.
Guð fylgi þér engill þá ferð sem þér ber.
Þótt farin þú sért, þá veistu sem er.
Að sorg okkar hjörtu nístir og sker.
Við sjáumst á ný þegar kemur að mér.
(KK – þýð. ÓGK.)
Elsku besta Guðrún mín, ég veit
eiginlega ekkert hvað ég er að
skrifa, ég bara græt og græt, þú
varst alltaf svo falleg og brosmild að
það bræddi hjartað mitt í hvert
skipti sem ég sá þig. Þú varst sönn
orka og svo undurfagurt ljós sem nú
ég geymi í hjarta mér. Allar okkar
góðu stundir eru djásn sem ég nú
varðveiti og deili með þér í huga
mér. Þú hefur breyst úr engli í
verndarengil sem munt vaka yfir
okkur að eilífu og vísa okkur veginn
í myrkrinu með öllu þínu kærleiks-
ljósi. Ég elska þig, engillinn minn,
meira en allt og veit að næst þegar
við hittumst verður þú búin að und-
irbúa næstu prakkarastrik fyrir
okkur.
Pálmi bróðir.
Guðrún lítil 2ja ára hnáta ástfang-
in af gulum labradorhvolpi sem
hleypur emjandi undan ástríðufullu
knúsi hennar.
Guðrún 4ra ára stendur keik á
bleikum kjól syngjandi Maístjörn-
una hátt og snjallt og skýrmælt.
Guðrún nokkru síðar, í litla raf-
magnsbílnum sínum, stödd í kvart-
mílu á stéttinni fyrir utan heimili
sitt.
Guðrún orðin lítil dama, heldur
hátíðlega píanótónleika fyrir
spennta gesti í fjölskylduboði.
Guðrún 9 ára starandi forvitnum
augum á nýja kærastann minn.
Guðrún í hvítum blúndukjól með
slöngulokka í eldrauðu hárinu,
brúðarmær í brúðkaupinu mínu.
Guðrún 13 ára prakkarinn veldur
uppnámi í fjölskyldunni með því að
láta tattóvera eldspúandi dreka á
mjóbakið á sér.
Guðrún á spítalanum, bljúg og
undirleit, kappklædd í umbúðir á
höndum og andliti.
Guðrún feimin í dyragættinni
með pakka fyrir litlu frændsystkini
sín á aðfangadag.
Guðrún skælbrosandi og eins og
nýútsprungin rós á náttúrutónleik-
unum í janúar, ótrúlega falleg og
björt. Vá, hvað þú ert orðin sæt, segi
ég. „Ég ætla að fara að læra að
fljúga Lilja.“
Elsku Guðrún mín, síðan ég frétti
af þessu hörmulega slysi hafa þess-
ar litlu fallegu myndir frá því þú
varst lítil telpa, óþekkur unglingur
og glæsileg ung stúlka sótt á huga
minn. Það var alveg sama undir
hvaða kringumstæðum ég sá þig,
alltaf var stutt í fallega brosið þitt
og lífsgleðina.
Ég vildi ég hefði séð meira af þér.
Fljúgðu hátt og hratt, litla
frænka, nú ertu frjáls eins og fugl-
inn.
Lilja Pálmadóttir.
Síðustu dagar hafa verið undar-
legir, tómleiki og sorg hafa verið í
huga okkar. Spurningin sem brenn-
ur á vörum okkar er af hverju? Auð-
vitað er ekkert svar. Einn daginn
leikur lífið við þig, annan daginn er
það tekið frá þér.
Það fá því engin orð lýst hvernig
tilfinning það var að fá fregnir af
andláti Guðrúnar. Hún var fyrsta
stúlkan sem fæddist af systkina-
börnunum og kom eldrauðhærð í
heiminn, litur sem að einkenndi
hennar persónuleika að mörgu leyti.
Hún var ekki sparsöm á brosið sitt
sem ætíð náði út að eyrum, hún virt-
ist ljóma af lífsgleði, sama hvað
gekk á.
Þegar Guðrún fór að fullorðnast
fékk rauða hárið að víkja fyrir ljós-
um lit en stríðnisglampinn var alltaf
til staðar. Fullorðin manneskja var
að mótast, góð og falleg manneskja
sem geislaði af gleði og hreif aðra
með.
Við hittumst ekki oft síðustu árin
en þó voru þau skipti eftirminnileg
og dýrmæt. Hún mætti okkur með
útbreiddan faðminn og brosið, og
alltaf varð hún fallegri og þroskaðri
með árunum.
Sársaukinn er mikill, oft óbæri-
legur, og maður finnur vanmátt sinn
gagnvart öflum sem æðri eru mann-
inum.
Guð minn, ó, græddu mín
geigvænu sár,
huggaðu hjartað hrellt,
heftu mín tár.
Hjá þér ég huggun finn,
himneski faðir minn,
þar mýkist sérhvert sinn
söknuðurinn.
(Guðrún Jóhannsdóttir.)
Elsku Elísabet, Nonni, Pálmi,
Jónína og Snæfríður. Þið hafið misst
svo mikið. Fallega dóttur og lífs-
glaðan samferðamann. Við biðjum
Guð að vera með ykkur og megi
minningarnar um einstaka og fal-
lega stúlku líkna í sorginni og reyn-
ast okkur sem eftir lifum dýrmætt
leiðarljós.
Okkar innilegustu samúðarkveðj-
ur
Ingibjörg, Jón Ásgeir, Sigurður
Pálmi, Sól og Melkorka.
Elsku frænka, það verður erfitt
að venjast þessari nýju mynd sem
lífið hefur tekið á sig eftir fráfall
þitt. Þú áttir ávallt stóran stað í
hjörtum okkar og munt áfram eiga.
Ég minnist sérstaklega 5. nóvem-
bers 2005, dagsins eftir afmælið
mitt, þegar þið Sóley buðuð mér í
heimsókn á Bakkaflötina. Þú komst
mér heldur betur á óvart, tókst á
móti mér með glæsilegri afmælis-
köku með logandi kertum, afmæl-
isgöf, hjarta fullu af kærleika og ein-
staka brosinu þínu sem enginn gat
staðist.
Þú varst alltaf óhrædd, á alla
vegu. Hvort það var að segja skoðun
þína eða bruna niður bröttustu
skíðabrekkur Norður-Ameríku
skipti ekki máli, þú tókst á við öll
verkefni af sömu bjartsýni og lést
ekkert stöðva þig.
Það var alltaf jafngaman að sjá
hvernig þú notaðir sannfæringar-
kraft þinn til þess að fá ólíklegasta
fólk til að gera ótrúlegustu hluti. Þú
gast gert menn orðlausa, bókstaf-
lega kjaftstopp.
Á augnabliki sem þessu missir allt
tilgang. Heimurinn nemur staðar.
Allt verður hégómlegt, við blasir
endalaust hyldýpi sorgarinnar. En
við getum fyllt í tómið með góðum
minningum og þakklæti fyrir spöl-
inn sem við gengum með Guðrúnu.
Nú ertu komin úr okkar höndum,
úr þessum heimi sem er fullur af
hættum, og treystum við því Guði
almáttugum fyrir eilífri velferð
þinni.
Elsku Jón og Elísabet, Pálmi,
Jónína og Snæfríður, guð gefi ykkur
styrk kærleikans. Megi birta lífsins
ná yfirhöndinni á ný.
Jón Felix og fjölskyldan Ásenda.
Engin orð fá því lýst hve mikil
sorg býr í hjarta mínu í dag – það
situr stór svart tómarúm innra með
mér þar sem áður var ljós – ljós sem
hefur fylgt mér frá 3 ára aldri, hlæj-
andi, skríkjandi og brosandi. Ljós
sem mun fylgja mér alla tíð en nú
aðeins sem fögur minning og sár
söknuður.
Veruleikinn er að Guðrún er far-
in. – Sársaukinn nístir og það er erf-
itt að anda – klukkustundin er pína
og dagurinn heil eilífð að líða. Það
eru fáir í mínu lífi sem stóðu mér
jafn nærri og Guðrún. Enda var hún
ekki aðeins litla frænka mín og
besta vinkona, heldur vorum við
nánast eins og uppeldissystur. Guð-
rún var einstök sál og lýsti upp til-
veru allra í kringum sig. Hún var
ung en lífsreynd og af fáum þekki ég
jafn margar prakkara- og skemmti-
sögur og af henni. Hún var lífsglöð
sál sem vildi öllum vel, vildi elska
alla og vera elskuð.
Minningarnar streyma fram eins
og flóðbylgja, rautt, svart, ljóst hár,
hvort heldur er pinnahælar og
brúnkukrem framkalla tár. En
minningin er kær því góðvild henn-
ar hefur mótað þær allar.
Ég mun aldrei komast yfir þetta
en ég mun læra lifa með þessu –
Guðrún, til þín vil ég segja okkar
bæn: Góða nótt og sofðu rótt í alla
nótt og dreymi þig vel, svo guð og
englarnir varðveiti þig, vaki yfir þér
og verndi þig svo þú verðir alltaf
frísk og hamingjusöm.
Þín,
Fjóla Ósk.
Elsku Guðrún frænka.
Nú ertu farin frá okkur en örugg-
lega komin á betri stað. Við erum
vissar um að afi Pálmi hafi tekið vel
á móti þér og þið passið vel upp á
hvort annað.
Takk fyrir allar góðu stundirnar
sem við áttum saman, það er búið að
vera frábært að kynnast þér og við
eigum eftir að sakna þín mjög, mjög
mikið.
Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá
sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.
Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldr-
ei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“
(Jóhannes 11:25-26.)
Elsku Guðrún, takk fyrir allt.
Þínar
Stella og Melkorka.
Kveðja frá
Fjölbrautaskólanum í Garðabæ
Djúpur söknuður og mikil sorg
hvílir yfir. Með stuttu millibili hafa
tvær ungar stúlkur úr Garðabæ lát-
ist í umferðarslysum.
Í dag kveðjum við Guðrúnu Jóns-
dóttur sem féll frá á því æviskeiði
sem er upphaf afls og atorku.
Harmafregnin kom óvænt, atburða-
rásin var óskiljanleg og treginn af
þeim sökum mjög sár. Það var erfið
morgunstund fyrir okkur starfs-
menn og nemendur skólans þegar
tilkynnt var hvað gerst hefði
snemma nætur. Um kvöldið sama
dag komu margir saman til bæna-
stundar í Vídalínskirkju. Þar var
samúð og vinátta í fyrirrúmi.
Ég votta foreldrum Guðrúnar,
systkinum og öðrum ástvinum
hennar innilega samúð mína og ég
flyt þeim kveðjur frá nemendum,
kennurum og öðru starfsfólki Fjöl-
brautaskólans í Garðabæ.
Blessuð sé minning Guðrúnar
Jónsdóttur.
Þorsteinn Þorsteinsson.
Harmafregn, sviplegt fráfall Guð-
rúnar elstu dóttur vinahjóna okkar
kallar fram fallegar hugskotsmynd-
ir af yndislegri, glaðbeittri, ungri
stúlku, sem átti framtíðina fyrir sér.
Við hjónin kynntumst Guðrúnu
náið í siglingu sumarið 1998, þegar
fjölskyldur okkar leigðu saman
skútu á Grikklandi. Þetta var sann-
kölluð ævintýraferð. Aðeins einn úr
hópnum hafði reynslu af slíkri sigl-
ingu en um leið og leystar voru land-
festar braust fram víkingurinn í
okkur öllum.
Skipsfjölin skelfdi ekki Guðrúnu.
Hún fylgdist með hverju handtaki
um borð af áhuga, vék varla frá
stýrimanninum og gerði öllum í
áhöfninni ljóst að þótt hún væri ekki
nema 11 ára ætlaði hún að vera full-
ur þátttakandi í siglingunni en ekki
einungis áhorfandi. Andlitið ljómaði
af lífsgleði og fjöri, eins og speg-
ilmynd af andliti móður sinnar, ein-
lægt og fallegt bros. Vakti aðdáun
hversu fljótt Guðrún náði góðum
tökum á skútunni, var óhrædd við
náttúruöflin en næm fyrir öldu og
vindum. Þannig var hún í flestu,
bæði á sjó og landi, tók vindinn í
fangið án þess að hika og vildi njóta
þess að vera til. Við áttum ógleym-
anlegar stundir saman í þessu fríi og
endurtókum leikinn síðar út af
ströndum Tyrklands.
Guðrún gerði allt vel sem hún tók
sér fyrir hendur. Fór þá saman hug-
ur og hönd og þessi innri taktur sem
var svo auðsær.
Hún var sannkallaður víkingur,
broshýr og bjartleit. Guðrún skilur
eftir skarð í huga og hjarta sem ekki
verður fyllt en við þökkum fyrir
margar ógleymanlegar stundir. Þær
ylja um ókomin ár.
Lífið er fjölþætt en dauðinn er
einn. Samt er lífið okkar allra.
Kæru vinir, Jón og Elísabet, Jón-
ína, Snæfríður og Pálmi. Við hjónin
og dætur okkar, Kristín og Elísabet,
vottum ykkur innilegustu samúð.
Ágúst Arnbjörnsson,
Bertha Traustadóttir.
Þrátt fyrir mikla sorg get ég ekki
annað en brosað í gegnum tárin og
hugsað um hvað ég er heppin. Í 6 ár
hlotnaðist mér sá heiður að vera
hluti af lífi Guðrúnar og á 19 ára ævi
er það mikið. Guðrún var einstök, ég
hef aldrei kynnst neinni manneskju
í líkingu við hana og á aldrei eftir að
gera. Við gengum í gegnum ýmis-
legt saman, t.d. gelgjuna og á því
tímabili datt okkur endalaust af
hlutum í hug sem við gátum pirrað
foreldra okkar með, eins og að læð-
ast út á nóttunni. En alveg sama
hvað við gerðum af okkur, alltaf var
Guðrúnu kennt um – þessari litlu
sakleysislegu manneskju. En líkt og
með annað mótlæti í lífinu lét hún
það ekki á sig fá, heldur hélt alltaf
áfram að brosa, jafnvel breiðar en
áður. Þetta fallega bros einkenndi
hana og ég gleymi því aldrei.
Það sem einkenndi Guðrúnu hvað
mest var hversu samkvæm sjálfri
sér hún var. Hún fór aldrei hefð-
bundnar leiðir í lífinu eða gerði það
sem ætlast var til. Í staðinn lét hún
hjartað ráða för og gerði það sem
hana langaði og þess vegna, þrátt
fyrir stutta ævi hafði hún gert meira
en margir gera á helmingi lengri
ævi.
Ég sakna hennar meira en orð fá
lýst og mun elska hana að eilífu.
Hún á alltaf eftir að fylgja mér í
hjartanu og þrátt fyrir söknuð mun
ég alltaf hugsa til hennar með gleði
vegna þess að Guðrún var frábær.
Sóley María.
Elsku Guðrún mín.
Ég trúði ekki mínum eigin eyrum
þegar ég frétti af slysinu, get ekki
ennþá trúað þessu. Þú sem áttir allt
lífið framundan og skemmtir þér
alltaf svo vel. Ég skil ekki af hverju
Guð ákvað að taka þig til sín svona
unga og nokkrum dögum fyrir af-
mælið þitt en eins og sagt er þá tek-
ur Guð þá til sín sem honum þykir
mest vænt um. Ég man eftir þessum
fáránlegu rifrildum okkar þegar þú
varst í 7. bekk og ég í 9. bekk, hvað
við vorum klikkaðar. En sem betur
fer náðum við að sættast og kynnast
og komst ég þá að því hversu frábær
stelpa þú varst. Þú varst alltaf svo
hress og það var alltaf gaman að
hitta þig. Ég man best eftir tíman-
um í FG þegar ég, þú og Sóley vor-
um alltaf saman. Við gerðum svo
margt saman, sumarbústaðaferð-
irnar, fórum á hestbak, öll djömmin
okkar saman, þú varst alltaf að
knúsa mann og kyssa, þú varst alltaf
svo ánægð. Þetta voru mjög góðir
tímar. Man sérstaklega eftir sum-
arbústaðaferðinni sem ég, þú, Sóley
og Þóra fórum í, þetta var snilldar
ferð og þar fórst þú á kostum. Áttir
þín „ljóskumoment“ og þegar þú
söngst Barbie girl-lagið, það var
bara snilld, rosalega gátum við hleg-
ið að þér. Ég þakka guði fyrir það að
hafa hitt þig fyrir 3 vikum og náð að
tala við þig, ég man að þú komst til
mín á Hressó og talaðir við mig og
við sættumst enn á ný, mér leið
rosalega vel eftir það. Ég man að ég
hugsaði til þín þriðjudagsmorgun-
inn þegar ég var í tíma áður en ég
frétti af slysinu, ég ætlaði að athuga
hvort þú værir á msn þegar ég kæmi
heim og ætlaði að tala við þig og
endurnýja vinskap okkar. Ég kveð
þig með miklum söknuði og þú munt
ávallt eiga stað í hjarta mínu. Mér
þykir rosalega vænt um þig. Blessuð
sé minning þín.
Elsku Jón, Elísabet, Pálmi, Jón-
ína, Snæfríður og aðrir ættingjar og
vinir, ég votta ykkur mína dýpstu
samúð og sendi hlýjar kveðjur á
þessum erfiða tíma. Megi guð vera
með ykkur.
Þín vinkona
Kristín Erla.
Ég trúi því ekki að ég sitji hérna
núna og sé að skrifa minningargrein
GUÐRÚN
JÓNSDÓTTIR