Morgunblaðið - 09.03.2006, Side 48
48 FIMMTUDAGUR 9. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ RannveigÁgústína Sig-
urðardóttir fæddist
á Akureyri 10. júní
1935. Hún lést á
líknardeild Landa-
kots 24. febrúar síð-
astliðinn. Hún var
dóttir hjónanna Sig-
urðar Olgeirs Rós-
mundssonar, f. 5.
maí 1905, d. 23. júní
1986 og Stefaníu
Sigurðardóttur, f. 4.
júní 1906, d. 18.
ágúst 1983. Systkini
Rannveigar eru Sigurður Bárðar-
son, kvæntur Sigríði Einarsdótt-
ur, Haukur Sigurðsson, ekkill eft-
ir Þyrí Jónsdóttur, og Kolbrún
Sigurðardóttir, gift Skarphéðni
Gunnarssyni.
Rannveig giftist 19. janúar 1958
Herði Sigtryggssyni, f. 14. sept.
1929, d. 5. febrúar 2003. Hann er
sonur Áslaugar Bjargar Árna-
dóttur, f. 4. janúar 1909 og Sig-
tryggs Árnasonar, f. 6. desember
1902, d. 21. ágúst
1933, fósturfaðir
Steingrímur M.
Guðmundsson, f. 22.
apríl 1907, d. 25.
nóvember 1992.
Börn Rannveigar og
Harðar eru: a) Ás-
laug Björg, f. 24.
mars 1958, gift
Sverri S. Björns-
syni, f. 13. mars
1958, dætur þeirra
eru Hrefna Björk, í
sambúð með Bjarna
Sigurðssyni og
Sunneva. b) Sigurður Haukur, f.
13. nóvember 1959, kvæntur
Selmu Baldvinsdóttur, f. 10. apríl
1958, börn þeirra eru Rakel Ýr,
Íris Dögg og Hörður Freyr og c)
Daði, f. 23. apríl 1969, sambýlis-
kona Maríanna Brynhildardóttir,
f. 21. maí 1968, börn þeirra eru
Viktor, Nína Rannveig og Diljá.
Útför Rannveigar fer fram frá
Vídalínskirkju í Garðabæ í dag og
hefst athöfnin klukkan 13.
Rannveig Sigurðardóttir lést að
morgni 24. febrúar á líknardeild
Landakotsspítala með börnin sín
þrjú, Áslaugu, Sigurð og Daða og
tengdadótturina Selmu við dánar-
beð sitt. Friðsæl stund á fallegum
degi, Landakotskirkja böðuð sól-
skini í vetrarstillunni fyrir utan
gluggann á fimmtu hæðinni. Þar
með lauk veikindum sem Rannveig
hafði átt við að stríða um nokkurra
ára skeið. Hún var með fádæmum
æðrulaus kona og í gegnum veik-
indi og slys sem gerðu síðustu ár
hennar erfið, heyrðist hún aldrei
barma sér eða harma hlutskipti sitt.
Sjálfsvorkunn og barlómur var
aldrei á dagskrá, hún var ekki
þannig týpa. Systkinin stóðu þétt
að baki móður sinni í veikindum
hennar og gerðu það sem í þeirra
valdi stóð til að létta henni lífið og
lét Selma tengdadóttir hennar
sannarlega ekki sitt eftir liggja.
Veikindi einkenndu síðustu æviár
Rannveigar því að eiginmaður
hennar, Hörður Sigtryggsson, lést
árið 2003 eftir langvarandi veikindi.
Í þeim erfiðu veikindum Harðar
stóð Rannveig vaktina af árvekni.
Rannveig var ekki manneskja
sem flíkaði tilfinningum sínum, hún
var jafnlynd og tók lífinu eins og
það er með einstöku jafnaðargeði.
Rannveig var samt engin gufa og
hafði skoðanir á öllu milli himins og
jarðar. Hún fylgdist einstaklega vel
með því sem var að gerast, las öll
blöðin í þaula daglega og var stál-
minnug. Það var sérstaklega
skemmtilegt að ræða við hana póli-
tíkina og heimsmálin, hún var rétt-
sýn og sanngjörn í skoðunum. Eins
og margar góðar manneskjur, hafði
Rannveig hjartað á réttum stað –
vinstra megin.
Rannveig hafði yndi af að ferðast
og gaf sér tíma til að fara nokkrum
sinnum utan eftir að Hörður veikt-
ist og hún hafði enn heilsu til og fór
þá til dæmis að skoða menninguna í
hinni sólbökuðu Madridarborg. Eft-
ir að barnabörnin fóru að tínast í
heiminn hafði Rannveig gott sam-
neyti við þau og var alltaf til í að fá
þau í heimsókn í Lautarsmárann
þar sem hún bjó og var þá gerður
margur happasæll leiðangurinn yfir
götuna í Smáralindina.
Lengst bjó Rannveig á Lindarflöt
18 í fallegu einbýlishúsi. Skjólgóður
og sólríkur staður þar sem læk-
urinn liðast niður framan við hraun-
ið. Rannveig var heimakær og undi
sér vel á þessum fallega stað. Þar
hitti ég Rannsý fyrst, þegar við Ás-
laug vorum að skjóta okkur saman.
Okkur varð strax vel til vina og féll
aldrei skuggi á þá vináttu. Þannig
var ég ekki aðeins einstaklega
heppinn með konu heldur líka
heppinn með tengdamömmu. Hún
og Hörður voru mjög hjálpleg börn-
um sínum og veittu þeim aðstoð við
að koma sér fyrir. Ráðdeild var
þeim í blóð borin og fóru þau líkt
og margur sem hefur byggt sig upp
af eigin afli vel með fjármuni. Þau
voru örlát í stuðningi sínum við
börnin sem þau ólu upp við ráðdeild
og vinnusemi, góður skóli sem
börnin búa ennþá að. Við Áslaug
nutum hjálpar þeirra þegar við vor-
um að byggja í Garðabænum og var
á tíma nokkur skuld á viðskipta-
reikningi okkar við þau en einmitt
þá gafst okkur kostur á að kaupa
notað litasjónvarp. Þetta var rætt
við Rannsý sem sýndi því mikinn
skilning að listaskólanemandi yrði
að sjá heiminn í lit, en taldi um leið
óráðlegt að Hörður frétti af svo
léttúðugri fjárfestingu í miðjum
byggingaskuldahala ungu hjónanna.
Því var það svo um nokkurra ára
skeið að áður en Rannsý og Hörður
komu í heimsókn lét hún okkur
ávallt vita svo við gætum skrúfað
niður litinn í sjónvarpstækinu.
Rannveig vann um margra ára
skeið við að keyra út Sómasam-
lokur og þar áður Brauðbæjarsam-
lokur ásamt Herði. Þar var alltaf
mætt og alltaf stóð allt upp á punkt
og kommu. Ég naut góðs af því að
fá far í bæinn með henni á hverjum
morgni þegar ég var í Myndlista-
skólanum. Það var hægt að stilla
klukkuna eftir tímanum sem hún
kom á, síðan keyrðum við Hrefnu í
leikskólann og héldum svo í bæinn.
Þetta voru skemmtilegar ferðir því
Rannsý var viðræðugóð og málefni
stundarinnar alltaf á dagskrá á leið-
inni. Einu sinni vorum við svo
heppin að lenda í stórhríð um leið
og við beygðum út á Hafnarfjarð-
arveginn og vorum við sex tíma á
leiðinni í bæinn. Það var gaman að
vera veðurtepptur með Rannsý því
hún var ræðin, vel lesin og
skemmtileg. Hún hafði þessa fornu
íslensku kímnigáfu þar sem hrak-
farir og óhöpp eru uppspretta gam-
anmála en þó var fjarri henni ill-
kvittni í garð annarra. Ég held ég
hafi mætt betur en nokkur nemandi
í Listaskólanum síðan Erró svaf
þar á næturnar, þökk sé Rannsý
sem ekki aðeins keyrði mig, heldur
hvatti mig áfram. Kann ég henni
miklar þakkir fyrir það og ekki síð-
ur góðan hug í gegnum árin.
Þau hjónin ferðuðust mikið miðað
við hvað tíðkaðist áður en sólar-
landaferðir urðu almenningsafþrey-
ing. Hörður vann lengi hjá Útsýn
og skapaði það þeim hjónum tæki-
færi til að fara oft utan, í siglingar
eins og sagt var þá. Nutu þau þess
að fara ein og sér og með börn sín í
sólarlandaferðir til margra landa
við Miðjarðarhaf og allt til Mexíkó.
Sólskin og suðrænir vindar áttu vel
við Rannsý. Þó hún gerði ekki mik-
ið af því, fannst henni gaman að
skemmta sér á góðri stund og eru
góðir og gamlir sving-smellir í
plötusafninu eins og Herb Albert
og Patti Page og Útsýnarböll voru
fastur liður í samkvæmislífinu um
árabil. Rannsý var smekkvís og
hafði gaman af því að eiga fallega
hluti eins og silfurgljáandi Audi-inn
og fleiri bíla sem Daði sá um að
væru alltaf skínandi eins og ný-
komnir úr kassanum.
Rannsý og Hörður voru frumbýl-
ingar á Flötunum. Þegar þau voru
að koma sér upp húsinu var hafta-
tími og þurfti mikla útsjónarsemi til
að ná í byggingarefni, innréttingar
og tæki. Fólk flutti inn um leið og
húsin voru rúmlega fokheld og bjó í
glampandi skini áleinangrunar í
nokkur ár á meðan klárað var að
innrétta. Flatirnar voru eitt mold-
arflag og ekkert rennandi vatn svo
kúnst var að þrífa ungana sem birt-
ust alsælir en moldugir upp fyrir
haus í útidyrunum eftir viðburða-
ríka daga við leiki í læknum, í hús-
grunnum og moldarbingjum. Siggi
var sérstaklega duglegur garfari og
kom inn vaskahúsmegin árum sam-
an segja mér nú uppkomnir pollar.
Áður en hægt var að flytja inn á
Lindarflötina bjuggu þau á Rauða-
læknum í nábýli við Kiddý systur
Harðar, hennar mann Jón í
Straumnesi og þeirra barnaskara.
Fyrsta bú sitt settu þau saman á
Lynghaganum skömmu eftir að
brilljantíngreiddi töffarinn á gos-
bílnum féll fyrir hinni norðlensku
mey sem hafði komið til höfuðborg-
arinnar ásamt Lillu æskuvinkonu
sinni frá Akureyri að leita að lífinu.
Þær stöllur bjuggu í litlu þakher-
bergi á elliheimilinu Grund þar sem
þær unnu. Rannsý líkuðu umönn-
unarstörfin vel og Haukur bróðir
hennar sagði mér að yfirlæknirinn
á Grund hefði boðist til að greiða
götu hennar til hjúkrunarnáms í
Osló, en af ókunnum orsökum varð
ekkert af því. Rannsý var ekki mik-
ið fyrir að tala um líf sitt eða sig yf-
irleitt og var ekki haldin sjálfhverf-
unni sem nú einkennir tímana.
Áður en hún fór suður vann hún í
heimabæ sínum Akureyri í verk-
smiðjunni Gefjun.
Rannsý lauk fullri skólaskyldu 12
ára gömul frá Barnaskóla Íslands á
Akureyri. Hún og systkini hennar,
Sigurður, Haukur og Kolbrún, ólust
upp á Laxagötu, reisulegu húsi efst
á eyrinni og hafa systkinin verið í
góðu sambandi alla ævi. Á sumrin
fór hún í sveit inn í Hörgárdal og
undi sér vel í hlýju sólskini norð-
lensks sumars. Sigurður Rós-
mundsson faðir Rannveigar og
Stefanía Sigurðardóttir móðir henn-
ar voru aldamótabörn borin á þeim
tíma er handafl og hestafl knúðu at-
vinnulífið. Þegar Rannsý var að
slíta barnsskónum var gaman að
vera barn á Akureyri, mikið af
krökkum í stórum leikjum og æv-
intýrin biðu allt frá fjörunni til
fjallsins. Þar fæddist Rannveig 10.
júní 1935 í fallegri stillu í glamp-
andi sólskini, því eins og Rannsý
sagði oft með glampa í auga og
bros á vör: „Það er alltaf sólskin á
Akureyri.“
Sverrir Björnsson.
Okkur langar til að minnast
ömmu okkar í nokkrum orðum.
Amma Rannsý var okkur mjög
kær. Það var gott að koma til henn-
ar og afa á Lindarflötina og alltaf
var tekið vel á móti okkur, hvort
sem það var þegar við komum til að
vera hjá þeim eftir skóla eða til að
gista. Amma var best í að elda
lambalæri og var dugleg að hafa
það þegar við vorum í mat hjá
þeim. Stundum fengum við líka
Kentucky og er okkur minnisstætt
þegar afi kom heim með „risastóra“
fötu fulla af kjúklingi. Alltaf fattaði
amma þegar minnst var á þessa
fötu að þá var áhugi fyrir að fá
kjúkling í matinn. Aldrei var frysti-
rinn hennar ömmu án íss og var
Hörður Freyr duglegur að hjálpa
henni við að klára hann. Amma var
alltaf tilbúin að hjálpa okkur og
gott var að leita til hennar eins og
þegar strætisvagnabílstjórar voru í
verkfalli eitt sumarið og mamma og
pabbi erlendis þá kom amma á
hverjum degi og keyrði okkur í og
úr vinnu. Þegar horft var á íþrótta-
leiki í sjónvarpinu var amma vön að
halda bara með þeim sem voru und-
ir í leiknum því hún var ekki mikið
að fylgjast með í íþróttum en bar-
áttan var meiri ef haldið var með
tapliðinu.
Það var skrýtin tilfinning þegar
var farið að tala um að amma væri
að flytja af Lindarflötinni og yfir í
Smárann því við áttum svo margar
góðar minningar þaðan. Í Lauta-
smárann var ekki síður gott að
koma og þar var lambalærið ekkert
verra þó svo að kjúklingur væri þar
frekar á borðum.
Okkur þykir mjög vænt um það
sem amma gaf okkur þegar við urð-
um stúdentar. Hún fór þá ein út í
Smáralind og keypti þríkrossinn og
færði okkur og höfum við borið
hann nær daglega síðan.
Elsku amma takk fyrir allt sem
þú gerðir fyrir okkur, við munum
alltaf sakna þín.
Rakel Ýr og Íris Dögg.
Smá kveðja til ömmu minnar.
Lítill drengur lófa strýkur
létt um vota móðurkinn,
– augun spyrja eins og myrkvuð
ótta og grun í fyrsta sinn:
Hvar er amma, hvar er amma,
hún sem gaf mér brosið sitt
yndislega og alltaf skildi
ófullkomna hjalið mitt?
Lítill sveinn á leyndardómum
lífs og dauða kann ei skil:
hann vill bara eins og áður
ömmu sinnar komast til,
hann vill fá að hjúfra sig að
hennar brjósti sætt og rótt.
Amma er dáin – amma finnur
augasteininn sinn í nótt.
Lítill drengur leggst á koddann
– lokar sinni þreyttu brá
uns í draumi er hann staddur
ömmu sinni góðu hjá.
Amma brosir – amma kyssir
undurblítt á kollinn hans.
breiðist ást af öðrum heimi
yfir beð hins litla manns.
(Jóhannes úr Kötlum.)
Takk fyrir allt, amma mín.
Þinn sonarsonur
Hörður Freyr.
Fyrstu kynni mín af Rannsý
frænku minni voru sumar eitt fyrir
um það bil 60 árum. Ég var í sum-
ardvöl hjá afa okkar og ömmu sem
bjuggu í Brekkugötu á Akureyri. Í
minningunni var þetta sumar sólar
og gleði. Við Rannsý léttklæddar í
stuttum sumarkjólum með sveifl-
andi fléttur langt niður á bak. Árin
liðu og Rannsý fluttist til Reykja-
víkur og þar endurnýjuðum við
kynni okkar sem hafa haldist órofin
síðan. Ég minnist ljúfra stunda á
Lindarflötinni og Hrauntungunni
og ógleymanlegar utanlandsferðir
sem við fórum saman í.
Rannsý kynntist eiginmanni sín-
um, Herði Sigtryggssyni, ung að
árum. Þau voru ein af þeim mörgu
sem byggðu sér hús í Garðabæ og
bjuggu þar ásamt börnum sínum
meðan Hörður lifði. Hún frænka
mín var vel gefin og hafði sterkar
skoðanir á litrófi lífsins. Hún var
sérlega smekkleg og báru heimili
hennar þess einkenni.
Síðustu árin voru Rannsý erfið
vegna endurtekinna veikinda. Viku
fyrir andlátið heimsótti ég hana á
sjúkrahúsið og varð mér þá ljóst að
hún átti ekki langt eftir ólifað.
Kæra frænka mín, ég þakka þér
samfylgdina á lífsins braut. Guð
vaki yfir þér. Börnum Rannsýjar og
fjölskyldum votta ég samúð mína
og bið góðan guð að styrkja ykkur.
Sigrún Óskarsdóttir.
Elskulega frænka okkar, Rann-
veig Sigurðardóttir, eða Rannsý
eins og við krakkarnir kölluðum
hana alltaf, er nú farin yfir móðuna
miklu. Minningar okkar systkin-
anna af Rannsý og Herði eru flest-
ar samofnar þeirra ljúfa heimili í
Garðabænum, og einkennast af ró,
öryggi og væntumþykju. Móðir
okkar og Rannsý voru nánar systur
og oft hljóp Rannsý í skarðið þegar
þurfti á pössun að halda. Hrund
systir á margar góðar minningar
frá Garðabænum þar sem hún var
oft í pössun hjá Rannsý.
Ég man þegar ég fór oft með
móður minni í heimsóknir í Garða-
bæinn, yfir sumarið var þar alltaf
þvílíkur hiti og veröndin einsog
suðupottur. Ég man líka hvað mér
þótti alltaf gaman að koma í heim-
sókn á sunnudögum því í Garða-
bænum gat ég horft á ítalska bolt-
ann, sem ég áleit mikinn lúxus.
Meðan systurnar drukku sitt kaffi
og spjölluðu gat maður alltaf fundið
sér eitthvað að gera hjá Rannsý,
sjaldan kom maður að tómum kof-
unum.
En nú er svo komið sem kemur
fyrir okkur öll, leiðin er á enda fyr-
ir yndislega manneskju og maður
getur ekkert gert nema látið hug-
ann reika aftur í tímann. Þar í
minningunni lifir Rannsý enn og
mun alltaf gera. Við viljum þakka
þér elsku frænka fyrir allan þann
hlýhug og væntumþykju sem þú
hefur gefið okkur, megi minning
þín lifa.
Að kvöldi dags er kveikt á öllum stjörn-
um,
og kyrrðin er þeim mild, sem vin sinn
tregar,
og stundum skýla jöklar jarðarbörnum,
og jafnvel nóttin lýsir þeim til vegar.
(Davíð Stefánsson.)
Heimir Skarphéðinsson, Hrund
Skarphéðinsdóttir, Tjörvi
Skarphéðinsson.
RANNVEIG
SIGURÐARDÓTTIR
Faðir okkar og tengdafaðir,
ÞORBERGUR JÓNSSON
fyrrum bóndi
í Prestsbakkakoti á Síðu,
lést á hjúkrunarheimilinu Klausturhólum
22. febrúar síðastliðinn.
Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins
látna.
Steinunn Þorbergsdóttir, Tómas J. Pálsson,
Helga Guðrún Þorbergsdóttir, Jónatan Á. Líndal,
Jón Þorbergsson, Sólveig Pálsdóttir
og fjölskyldur.
GUÐMUNDUR P. BJARNASON
frá Sýruparti,
dvalarheimilinu Höfða,
Akranesi,
andaðist laugardaginn 25. febrúar sl.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Aðstandendur.