Morgunblaðið - 09.03.2006, Side 49
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. MARS 2006 49
MINNINGAR
✝ GuðmundurJónsson fæddist
á Seyðisfirði hinn 6.
október 1925. Hann
lést á Landspítalan-
um í Reykjavík hinn
23. febrúar síðast-
liðinn. Foreldrar
hans voru Jón Árna-
son, skipstjóri á
Seyðisfirði, f. í Hlíð-
arhúsum í Reykja-
vík 15. september
1886, d. 21. ágúst
1972, og Guðbjörg
Guðmundsdóttir
húsfreyja, f. á Seyðisfirði 2. nóv-
ember 1898, d. 13. júní 1990.
Systkini Guðmundar eru Geir, f.
20. sept. 1919, Jakobína, f. 28. apr-
íl 1922, látin. Arnbjörg, f. 19 ágúst
1923, Bjarni, f. 4. des. 1928, látinn,
og Jónas, f. 31. janúar 1942.
Guðmundur kvæntist 24. ágúst
1947 Ingunni Erlu Stefánsdóttur
frá Minni-Borg í Grímsnesi, f. 3.
janúar 1925. Foreldrar hennar
voru Stefán Diðriksson, oddviti og
bóndi á Minni-Borg, f. í Vatnsholti
í Grímsnesi 15. desember 1892, d.
18. janúar 1957, og Ragnheiður
Böðvarsdóttir, póst- og símstöðv-
arstjóri, f. á Laugarvatni 7. nóv-
ember 1899, d. 10. september
2000. Börn þeirra Guðmundar og
Ingunnar Erlu eru: 1) Jón Örn, f.
4. nóv. 1949, var kvæntur Karen
Johansen, börn þeirra eru a) Ing-
unn Margrét, f. 19. nóv. 1973,
dóttir hennar Astrid, f. 26. nóv.
2003, og b) Jens Maríus, f. 1. apríl
1979. 2) Ragnheiður, f. 19. sep.
1953, maki Eiríkur Þorgeirsson, f.
20. mars 1953. Börn þeirra eru
Ása Margrét, f. 13. nóv. 1981, Ing-
unn Erla, f. 21. jan. 1984, Hrafn-
hildur Hekla, f. 5. maí 1988, Þor-
gerður Edda, f. 21. des. 1993, og
Eiríkur Ari, f. 7. maí 1996. 3) Guð-
björg Gróa, f. 21. apríl 1955. Dæt-
ur hennar og Harðar Kristjáns-
sonar, f. 6. júní
1951, eru a) Ágústa
Hera, f. 8. ágúst
1978, og b) Heba
Margrét, f. 29. ágúst
1980. Sonur þeirra
Ágústar Guðmunds-
sonar, f. 29. júlí
1947, er c) Guð-
mundur Ísar, f. 16.
okt. 1985, d. 27. des.
1998. Börn Guð-
bjargar og Kristjáns
Matthíassonar, f. 6.
júní 1961, eru d)
Ingunn Erla, f. 21.
maí 1994, og e) Matthías Már, f.
19. sept. 1997. Sambýlismaður
Guðbjargar er Sigurður Torfi
Jónsson, f. 5. sept. 1955. 4) Stefán
Már, f. 18. júlí 1961, var í sambúð
með Dagbjörtu Aradóttur, f. 1959.
5) Guðmundur Ingi, f. 28. ágúst
1963. Synir hans eru Theodór
Már, f. 11. júní 1994, móðir hans
er Vilborg Auðunsdóttir. Gaukur
Steinn, f. 7. jan 1997, móðir hans
er Rúna Hilmarsdóttir.
Guðmundur lauk námi frá Eiða-
skóla árið 1943, Iðnskólanum í
Reykjavík 1946, iðnnámi í járn-
smíðum í Reykjavík 1947, vél-
stjóraprófi frá Vélskólanum í
Reykjavík 1950 og rafmagnsdeild
1951. Hann var um tíma á togur-
um og flutningaskipum en var vél-
stjóri í Áburðarverksmiðju ríkis-
ins frá 1953–1993. Hann sat í
stjórn Vélstjórafélags Íslands
1946–49 og gegndi ýmsum nefnd-
arstörfum á vegum félagsins, í
varastjórn Farmanna- og fiski-
mannasambands Íslands (FFSÍ)
frá 1971 og aðalstjórn 1975–83.
Guðmundur var stofnandi Seyð-
firðingafélagsins í Reykjavík, sat í
stjórn þess í mörg ár og var heið-
ursfélagi þess síðustu árin.
Útför Guðmundar verður gerð
frá Bústaðakirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.
Elsku afi minn, ég sakna þín sárt
og finnst skrýtið að sjá þig ekki sitja
í stofunni heima hjá þér og ömmu og
brosa. Það er svo sárt að hafa þig
ekki lengur til staðar, því hjá þér
mátti alltaf búast við hlýjum mót-
tökum, þú hlustaðir og skildir og
varst jafnframt svo kátur og frá-
sagnaglaður. Heill heimur er horfinn
með fráfalli þínu en ég mun ávallt
hugsa hlýlega til þín og nota ráðlegg-
ingar frá þér sem veganesti á lífsleið-
inni.
Elskulegi afi minn, veröldin er
skrýtin án þín. Mig hefði aldrei grun-
að að tíminn væri kominn, varla á
næsta leiti. Nú ert þú horfinn og að-
eins minningar um frábæran afa til
að fylla upp í tómarúmið. Minning-
arnar eru margar, allt frá því ég var
lítil afastelpa. Við systkinin vorum
alltaf meira en velkomin á heimilið
ykkar ömmu, sátum í fanginu á þér
og þú sagðir okkur sögur. Þú varst
líka svolítill stríðnispúki og sagðir
oft: „ekki ég!“ Þegar ég kom í heim-
sókn á seinni árum sagðir þú alltaf
„komdu sem oftast“ að kveðju. Þú
hefur verið svo góður við mig öll
þessi ár, gafst svo mikið af þér og
sýndir mér mikla væntumþykju og
alúð. Þú gafst mér bílinn þinn í fyrra,
sagðir mér að hann væri algjört
lukkutröll og varst nýbúinn að
spyrja mig hvernig bíllinn hefði það.
Þið amma hafið svo sannarlega stutt
mig eftir ykkar bestu getu, en fyrir
það eigið þið skilið mikið hrós. Ný-
lega sást þú kött sem amma var
nýbúin að prjóna og sagðir „Þetta
get ég nú alveg, kannski ætti ég bara
að prjóna einn svona kött!“ Ég og
amma tókum þig á orðinu, amma dró
fram prjónana og fitjaði upp og þú
tókst síðan við prjónunum og byrj-
aðir að prjóna. Og mikið var hlegið
að prjónaskapnum.
Afi minn, ég mun aldrei skilja við
þig á nokkurn hátt, þú verður alltaf
með mér. Gott er að hafa engil eins
og þig til staðar. „Blað skilur bakka
og egg, en anda sem unnast fær aldr-
egi eilífð að skilið.“ Afi minn, ég mun
ávallt sakna þín meðan ég lifi. Megi
minningin um þig lifa. Blessuð sé
minning þín. Ég bið guð að vera með
ömmu og þér á þessum sorgardegi.
Þín afastelpa,
Heba.
Elsku besti afi er farinn, söknuð-
urinn er mikill en við vitum að hann
er kominn á betri stað. Afi hafði
ánægju af því að segja frá og hafa
hlustendur og fengum við því oft að
heyra skemmtilegar sögur frá því
þegar hann var ungur eða af framtíð-
arplönunum. Afi var rosalega sterk-
ur og gat allt, fannst manni; smíðaði
sumarhúsið sitt og ömmu á Minni
Borg nær alveg frá grunni og var bú-
inn að búa til alls kyns skemmtilega
fylgihluti, s.s. nákvæma eftirlíkingu
af gömlu Minni Borg sem stendur í
bæjarhlaðinu. Hann var vinnusamur
og mikill listasmiður og smíðaði
marga kertastjaka og aðra skúlptúra
úr járni. Við erum svo lánsamar syst-
urnar að eiga kertastjaka eftir hann
sem við höldum mikið upp á og munu
halda minningunni á lofti. Seinna
færði hann sig yfir í að skera út í tré
og búa til útskornar klukkur.
Afi hafði alltaf gaman af veiðum og
átti bát sem hann fór oft og fiskaði á
og amma bjó svo til æðislegar fiski-
bollur. Við eigum margar minning-
arnar um ferðirnar á Laugarvatn
þar sem farið var í bátsferðir með afa
og svo bökuð hverabrauð með
ömmu.
Afi var rólegur maður en með
lúmskan og skemmtilegan húmor. Í
minningunni sjáum við hann fyrir
okkur með axlabönd og hatt en það
voru meðal þeirra sérkenna sem ein-
kenndu hann. Afi var áhugasamur
um hvað við krakkarnir tókum okkur
fyrir hendur og fylgdist ævinlega
með árangri okkar í leik og starfi.
Hann átti úrklippubók og í hana
safnaði hann öllum blaðagreinum
sem viðkomu fjölskyldunni.
Hvíldu í friði, elsku afi, þú munt
ávallt eiga stað í hjörtum okkar.
Þínar afastelpur,
Ása, Inga og Hekla.
Það er komið að kveðjustund,
mágur minn Guðmundur Jónsson er
látinn.
Við gátum auðvitað búist við þessu
þá og þegar, og enginn ræður sínum
næturstað. Guðmundur var ekki
heill heilsu nú síðustu ár, en við erum
nú ekki alltaf að hugsa um hvenær
ævin tekur enda. Dauðinn er svo
fjarlægur hinu daglega lífi.
Margar minningar um Guðmund
koma í hugann. Sérstaklega eru mér
minnisstæð hin fyrstu kynni. Þetta
var fallegt sumarkvöld á Minniborg.
Inga systir í heimsókn með ungan og
myndarlegan mann, ljóshærðan með
liðað hár, ættaðan frá Seyðisfirði.
Ættir hans voru okkur ókunnar þá.
Við mamma stóðum við eldhúsglugg-
ann og horfðum forvitnar á þennan
unga mann sem lék listir sínar norð-
ur á túni. Hástökk og hlaup af öllum
gerðum.
Mikill vaskleikamaður er þetta,
hugsuðum við mamma. Guðmundur
Jónsson sigraði alla viðstadda.
Gummi Boggu var hann kallaður á
Seyðisfirði, dálítið sérstakt að þó
nokkrir menn voru kenndir við mæð-
ur sínar þar. Það átti fyrir okkur
fjórum systrum að liggja að menn
okkar urðu allir Austfirðingar. Að
sjálfsögðu ekki ákveðið fyrirfram.
Foreldrar Guðmundar voru sæmd-
arhjón, vel metin og hugþekk. Jón
Árnason skipstjóri og Guðbjörg
Guðmundsdóttir kona hans Þau
bjuggu lengst af í sama húsi og Guð-
mundur og Inga, eftir að þau fluttu
til Reykjavíkur. Það var orð að
sönnu að Guðmundur Jónsson var
vaskleikamaður og allt of langt yrði
að telja upp öll þau störf sem hann
vann á milli vakta. Aðalstarf Guð-
mundar var yfirvélstjóri í Áburðar-
verksmiðju ríkisins, Gufunesi í 40 ár.
Guðmundur og Inga eru margt og
mikið búin að afreka um dagana
hugsuðu stórt í íbúðabyggingum vin-
mörg og félagslynd bæði. Gestrisin
og góð heim að sækja. Þau bjuggu
lengst af í Austurgerði 10, stóru húsi
sem var með tvær íbúðir niðri. Þar
bjó Guðbjörg móðir Guðmundar með
Jónasi yngsta syni sínum eftir að
hún missti mann sinn.
Það skiptast á skin og skúrir hjá
fólki sem lifað hefur langa ævi. Sárt
var fyrir þau hjón og fjölskylduna
alla að missa bráðefnilegan dóttur-
son og nafna Guðmund Ísar af
slysförum aðeins 13 ára. En gott er
líka að eiga ekkert nema fallegar og
góðar minningar um hann. Við eig-
um líka góðar og skemmtilegar
minningar um Guðmund. Oft var
glatt á hjalla heima hjá honum við
hátíðleg tækifæri, ekki síst þegar
vinur þeirra hjóna var mættur með
harmónikkuna, eða þrjár dætur
Ragnheiðar dóttur þeirra sem allar
spila á harmónikku. Mörg önnur
barnabörn þeirra spila á hin ýmsu
hljóðfæri. Við systur allar sem vor-
um 6 og menn okkar höfum alltaf
haft mjög gaman af að dansa, fórum
á Borgarböllin næstum því um leið
og við gátum gengið. Foreldrum
okkar fannst það alveg sjálfsagt. Það
tilheyrði á þeim árum. Ungir og
gamlir skemmtu sér saman. Guð-
mundur gat verið gamansamur og
var oft með skemmtilegar frásagnir
af ýmsum frá Seyðisfirði, Það kom
fyrir að honum fannst að við Minni-
borgarsystur gætum aldrei hlustað
og það verður að viðurkennast að oft
gerðist það að við urðum að grípa til
reglu sem var á Minniborg á upp-
vaxtarárunum, að við æfðum okkur í
að vita hver gæti þagað lengst. Við
tókum upp þessa reglu og hlustuðum
á Guðmund segja frá fyrri dögum og
minningum frá Seyðisfirði. Allt var
þetta í góðu gamni, og allar konur
hafa gott af því að lofa mönnum sín-
um að komast að, en að sjálfsögðu
ekki of oft.
Guðmundur og Inga keyptu minna
húsnæði að Dalbraut 20 í fyrrahaust,
ákjósanlegan stað þar sem Guð-
mundur var sérstaklega sáttur og
ánægður með. En eins og áður er
sagt enginn ræður sínum næturstað,
ekki reyndist það langur tími sem
hann bjó þar.
Við Einar þökkum Guðmundi
tryggð og vináttu sem aldrei bar
skugga á og vottum Ingu systur
minni og fjölskyldunni allri innilegar
samúðarkveðjur.
Ólöf Stefánsdóttir.
Kveðja frá Seyðfirðinga-
félaginu í Reykjavík
Guðmundur Jónsson vélstjóri er
látinn. Guðmundur fæddist á Seyð-
isfirði 6. október 1925.
Það voru æskufélagarnir, þau
Guðmundur Jónsson, Ingólfur A.
Þorkelsson og Bryndís Jónsdóttir,
sem stóðu fyrir fyrsta Sólarkaffi
Seyðfirðinga, sem haldið var í félags-
heimili Fóstbræðra í Reykjavík hinn
15. febrúar 1980. Það leiddi svo af
sér stofnun Seyðfirðingafélagsins í
Reykjavík hinn 15. nóvember 1981.
Guðmundur var kjörinn í fyrstu
stjórn félagsins og var í stjórn þess
fram til ársins 1996.
Guðmundur var ákaflega virkur
félagsmaður. Þegar félagið festi
kaup á húsi á Seyðisfirði 1987, til út-
leigu fyrir félagsmenn, þurfti að ráð-
ast í talsverðar endurbætur á því. Þá
var það Guðmundur sem fór austur
og eyddi sumarfríi sínu í að hreinsa
út úr húsinu gamlar innréttingar og
fleira og hófst handa við uppbygg-
ingu hússins, hann sá síðan um út-
leigu þess á meðan hann var í stjórn
félagsins. Guðmundur var alltaf boð-
inn og búinn til starfa fyrir félagið,
þar á meðal til þátttöku í skemmti-
atriðum á samkomum þess.
Fyrir störf sín í þágu Seyðfirð-
ingafélagsins var Guðmundur gerð-
ur að heiðursfélaga þess í nóvember
2001, á 20 ára afmæli Seyðfirðinga-
félagsins.
Fyrir hönd Seyðfirðingafélagsins í
Reykjavík vill stjórn félagsins votta
honum virðingu sína og þakka hon-
um samfylgdina og ánægjulegt sam-
starf.
Við viljum einnig votta eftirlifandi
eiginkonu hans, Ingunni E. Stefáns-
dóttur og afkomendum öllum, okkar
dýpstu samúð.
Edda Lýðsdóttir formaður.
Látinn er í Reykjavík Guðmundur
Jónsson vélfræðingur, rúmlega átt-
ræður að aldri. Guðmundur var einn
af fyrstu starfsmönnum Áburðar-
verksmiðjunnar, réðst þar til starfa
árið 1953 er verið var að byggja
verksmiðjuna. Varð hann verkstjóri
við uppsetningu véla í tvær deildir
verksmiðjunnar og nutu menntun
hans og forystuhæfileikar sín vel við
þau störf.
Er rekstur verksmiðjunnar hófst
fyrrihluta árs 1954 varð Guðmundur
vaktstjóri á einni vaktinni sem sett
var á við framleiðsluna, en áburður
var framleiddur allan sólarhringinn,
alla daga ársins. Kom í hlut Guð-
mundar að sjá um rekstur fjögurra
af fimm verksmiðjum fyrirtækisins á
sinni vakt og varð svo allan hans
starfsferil þar til hann lét af störfum
sökum aldurs. Guðmundur var ákaf-
lega farsæll og traustur í öllum störf-
um sínum fyrir Áburðarverksmiðj-
una og það var mönnum eins og
Guðmundi að þakka að rekstur verk-
smiðjunnar gekk eins vel og raunin
varð. Guðmundur var þéttur á velli
og traustur forystumaður sem und-
irmenn hans virtu og þótti gott að
vinna með.
Að leiðarlokum minnist undirrit-
aður með þakklæti góðra stunda í
leik og starfi. Guðmundur Jónsson
skilur eftir sig góðar og ánægjulegar
minningar.
Ingunni og fjölskyldunni allri eru
sendar innilegustu samúðarkveðjur.
Runólfur Þórðarson.
Þeir falla líka sterkustu stofnarn-
ir. Mikill öndvegismaður, kær mér
og mínu fólki, Guðmundur Jónsson,
hefur kvatt þetta líf. Hann var um 35
ára skeið samstarfsmaður föður
míns í Áburðarverksmiðjunni, báðir
vélstjórar með vaktstjórn á öðru
verksmiðjusvæðinu. Sjálfur vann ég
þar mörg sumur og var iðulega á
vakt hjá Guðmundi, en hef þekkt
hann sem fjölskylduvin í miklu
lengri tíma. Rétt eins og hann sjálfur
kom oft til okkar, var ég um langt
árabil heimagangur hjá þeim Ing-
unni og börnunum í Rauðagerði og
Austurgerði, enda urðum við Jón
Örn, sonur þeirra, miklir vinir strax
á æskuárum. En í Gufunesi byrjuðu
tengslin. Þaðan eiga fyrrverandi
starfsmenn góðar minningar. Guð-
mundur verður ávallt minnisstæður
af þeim vettvangi, svipmikill maður
og drífandi, einarður, en léttur í
lund, þægilegur í öllum samskiptum
og naut óskiptrar virðingar og vel-
vildar allra sem með honum unnu.
Mér er tjáð, að Áburðarverk-
smiðjan sé ekki nema svipur hjá
sjón, eftir að framleiðsla hætti þar.
Hún er því að kalla horfinn heimur,
en þar kynntust menn tæknifram-
förum og flókinni, stórtækri efna-
vinnslu sem var sífellt í gangi hvern
sólarhring ársins. Þar var þörf
snjallra vélfræðinga, um tíu talsins,
þriggja verkfræðinga og tæknifræð-
inga til að allt gengi sem skilvirkast
fyrir sig, enda mikil verðmæti í húfi.
Þessir menn voru sjálfur heilinn í
starfseminni og lögðu fjölda vakt-
manna grunnreglur í meðförum fín-
stilltra véla og framleiðslutækja af
stærstu gerð í Vetnis-, Ammoníaks-,
Sýru- og NPK-verksmiðjunum. Þá
voru þar tugir dagvinnumanna sem
sáu um frágang og afgreiðslu áburð-
ar í skip og á bíla, viðhald og við-
gerðir, byggingarvinnu o.fl., einnig
rafvirkjar og bifvélavirkjar á stórum
verkstæðum, efnafræðingar á sinni
spennandi rannsóknarstofu, auk
skrifstofu- og mötuneytisfólks í sam-
eiginlegri byggingu. Var verksmiðj-
an einn stærsti vinnustaður landsins,
með hátt á annað hundrað starfs-
manna. Fyrstu áratugina var sölu-
varan nær eingöngu Kjarni, fyrir ut-
an súrefni og ammoníak. Sívaxandi
samkeppniskröfur kölluðu síðar á
aukinn metnað sem birtist í fram-
leiðslu fleiri áburðartegunda fyrir ís-
lenzkan markað, sem og í aukinni
sjálfvirkni sem leiddi til fækkunar
starfsmanna.
Á sínum tíma var þetta mikið sam-
félag. Menn hristust saman í mötu-
neytinu og hverjum verkstað, áttu
sínar rabbstundir í rútunni á leiðinni
til og frá vinnustað, en verksmiðjan
var þá kippkorn fyrir utan bæinn og
flestir keyrðir heim. Samheldni
manna var mikil, ekki aðeins daglega
og í Starfsmannafélaginu (SÁV),
sem stóð undir myndarlegum sum-
arbústaðarekstri, heldur liðsinntu
þeir hver öðrum, og minnist ég Guð-
mundar sem eins hjálparmanna föð-
ur míns við að steypa upp hús hans.
Fengum við krakkarnir fljótt nasa-
þef af hálf-háskalegu verksmiðju-
svæðinu.
Árlega var okkur boðið til veglegr-
ar jólaskemmtunar, þar sem Sverrir
Guðjónsson gekk einhver sín fyrstu
söngvaraspor.
Síðar áttum við innhlaup í fjöl-
breytta, vel launaða sumarvinnu á
staðnum, í kófryki í skemmunum
jafnt sem hafblænum á bryggjunni,
á lyfturum og í sekkjun og aflraun-
um við tvo til þrjá áburðarpoka í
einu.
Þetta getum við þakkað nú, en
dýrmætari er sá hlýhugur sem eftir
varir í garð traustra, hressilegra
sálufélaga. Í vélgæzlunni vorum við
oft einangraðir í stórum húsum og
hávaða; þá lífgaði mann vitjun vél-
stjórans og gjarnan tekið gott spjall
á staðnum.
Þar var sá maður, sem nú er til
grafar borinn, jafnan aufúsugestur,
hlýr og leiðbeinandi og sjálfum mér
föðurlegur.
Guðmundur var vel ættaður, bæði
austan og vestan af fjörðum, í beinan
legg af Kristjáni sterka á Borg í Arn-
arfirði.
Var faðir hans, áður skipstjóri,
seglasaumari verksmiðjunnar á mín-
um fyrstu árum þar. Sem fleiri af
ættinni var Guðmundur kraftamað-
ur, þótt hann léti lítt á því bera. Há-
vaxinn var hann og glæsilegur, ljós á
hár og með hýrri brá, átti sjálfur
föngulega dugnaðarkonu og bar
mikla umhyggju fyrir börnum sínum
og fjölskyldu.
Hann var stórhuga og hafði mik-
inn metnað fyrir heimili sitt, sem
birtist í glæsilegum húsakynnum
sem hýstu m.a. ekkjurnar, móður
hans og tengdamóður, á efri árum
þeirra.
Ég vil með þessum fátæklegu orð-
um þakka fyrir dýrmæta, órofa vin-
áttu Guðmundar við föður minn, sem
nú er látinn.
Ingunni ekkju hans, börnum og
barnabörnum sendir móðir mín og
við systkinin öll okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Jón Valur Jensson.
GUÐMUNDUR
JÓNSSON