Lesbók Morgunblaðsins - 22.09.2007, Síða 16
16 LAUGARDAGUR 22. SEPTEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Ástráð Eysteinsson
astra@hi.is
S
káldsaga um ljóðskáldið Kerim Alakusoglu, sem
kallar sig „Ka“ og hefur dvalið tólf kyrrlát ár í út-
legð í Frankfurt þegar móðir hans deyr og hann
snýr af þeim sökum aftur heim til Istanbúl. Þótt
sitthvað bendi til að hann eigi margt óuppgert á
æskuslóðum sínum, staldrar hann ekki lengi við,
heldur leggur á sig langt ferðalag til borgarinnar Kars austast í
Tyrklandi. Hann hefur gerst blaðamaður um sinn og hyggst
fjalla um aðvífandi kosningar þar í borg og það sjálfsvígsfár
sem virðist hafa gripið um sig meðal stúlkna á staðnum. Á
tveimur dögum umturnast líf hans – í borginni er kunningja-
kona frá námsárunum, Ipek, sem hann kolfellur fyrir og um leið
sogast hann inn í flókna atburðarás sem mótast í senn af tíma-
bundinni einangrun borgarinnar og pólitískum átökum innan
hennar.
Skáldsaga sem skilur lesendur eftir með heilmikla sögulega
veröld í fanginu, epíska í þjóðlegum jafnt sem einstaklings-
bundnum víddum; veröld sem lesendur eiga þó ekki gott með að
valda því að þeir eru ekki lausir við svima eftir rússíbanareið á
mörkum trúverðugleikans, þar sem margt gerist á lygilega
skömmum tíma og sumt á leiksviði, þótt umgerðin sé af frá-
sagnartoga, en innan hennar eiga ljóðlist og pólitík jafnframt
kynngimagnað stefnumót.
Skáldsaga um vettvang fjölmenningar í borg við ystu mörk
Evrópu – eða utan hennar? Á sviðinu eru: útlægur Tyrki,
Evrópusinnaðir Tyrkir og aðrir sem ýmist telja sig þjóðhollari
eða líta a.m.k. svo á að Tyrkland sé ekki hluti af Evrópu í raun;
sumir hylla veraldarvæðingu Kemals Atatürks, föður lýðveldis-
ins, og telja tryggast að samþykkja allar aðgerðir hersins. Aðr-
ir hallast að íslam og eru jafnvel róttækir múhameðstrúarmenn
sem fjandskapast út í allt „vestrænt“. Þá eru ótaldir Kúrdar,
sem eru fjölmennir á þessu svæði, og önnur þjóðarbrot, auk
þess sem landamæri Tyrklands og Armeníu eru skammt undan
en þetta er gamalt átakasvæði þessara tveggja þjóða; í borginni
hafa mikilvægar menningarminjar Armena orðið innlyksa en
raunar áttu síðan Rússar á sínum tíma stóran þátt í að hanna og
byggja borgina þegar þeir réðu þar lögum og lofum.
Skáldsaga um snjó. Um snjókomu, stórhríð og fannfergi. All-
ar leiðir til borgarinnar lokast og snjórinn leggst yfir allt; hann
umvefur sögusvið og atburðarás; snjór breytir áferð og lögun
þess sem fyrir er, sýn, lykt og hljóði. Skáldið Ka er gagntekinn
af snjónum og snjókorninu, þessum sexstrenda hverfula kristal,
sem í táknrænum skilningi Ka hverfist um þrjá ása: minningar,
ímyndun og rökvit.
Snjórinn og slæðan
Svona má gera tilraunir til að lýsa skáldsögunni Snjó eftir Or-
han Pamuk, einu metnaðarfyllsta verki þessa tyrkneska rithöf-
undar sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum í fyrra.
Skáldsagan, sem birtist fyrst árið 2002 en ég hef lesið í enskri
þýðingu Maureen Freely, heitir á frummálinu Kar, „snjór“ – en
borgin Kars dregur einnig nafn sitt af snjónum. Og söguhetjan
kallast Ka; er einhver leikur í gangi hér? Sé orðið enn stytt er
aðeins eftir „K“ – og þeim bókstaf bregður tvisvar fyrir í formi
blikkandi neonljóss á örlagastöðum Ka, þannig að Pamuk er
augljóslega að kinka kolli til K., en svo nefnist söguhetjan í
tveimur skáldsögum Franz Kafka, Réttarhöldunum og Höll-
inni. Í sögunni koma fram skýrar vísanir til lokakafla Réttar-
haldanna og í byrjun sögunnar heyrist endurómur af upphafi
Hallarinnar: „Það var áliðið kvölds þegar K. bar að garði. Þorp-
ið var á kafi í snjó. Ekkert sást í hallarhæðina, hún var umlukin
þoku og myrkri, ekki svo mikið sem ljósglæta gaf til kynna hvar
höllin stóra væri.“1
Áframhaldi þessarar samræðu geta þeir hlustað eftir sem
þekkja verk Kafka, en vitaskuld stendur saga Pamuk fyrir sínu
þótt lesandi rekji ekki slík eða önnur textatengsl. Þegar Íslend-
ingur les þessa sögu kemur reyndar í ljós að stundum geta í
lestri orðið til ótrúlega kröftugar samræður við eldri texta án
þess að minnstu líkur séu á að höfundur hafi þekkt til hans.
Þannig ómaði ljóð Jónasar Hallgrímssonar, „Alsnjóa“, bakatil í
kolli mér söguna á enda, líkt og hljóðfæri sem lék undir með
sögu Pamuks. „Eilífur snjór í augu mín, / út og suður og vestur
skín, /samur og samur út og austur. / Einstaklingur vertu nú
hraustur!“ Og síðan: „Dauðinn er hreinn og hvítur snjór“, en
hvað þá með hinn „þunga kross“ í þriðja erindinu í hinu torræða
ljóði þjóðskáldsins – hvað er ég að vilja með hann austur á lend-
ur Múhammeðs, varla á hann heima þar?
Nei, en á hinn bóginn er þetta saga um samskipti austurs og
vesturs, um átök ólíkra menningarheima, árekstur róttækrar
austrænnar trúarhyggju og vestrænnar upplýsingar (sem hef-
ur fyrir löngu tekið krossinn í sína þjónustu). Á þessum slóðum
talar sú kemalska veraldarvæðing, sem horfði upphaflega til
Evrópu, skýrustu máli með boðum og bönnum, og með vald-
beitingu hers og lögreglu. Pamuk rýnir í flóknustu þversagnir
kerfisins, sem í sögu hans birtast m.a. í því að stúlkum er mein-
aður aðgangur að menntastofnunum ef þær hylja hár sitt með
slæðu. Þótt sum sjálfsvíg stúlknanna, sem áður voru nefnd, eigi
rætur sínar að rekja til ofríkis sem einkennir hefðbundna mús-
limska siði, fyrirfara stúlkur sér einnig vegna þess að yfirvöld
ráðast á sjálfsmynd þeirra með slæðubanninu.
Þetta er stórmál í Tyrklandi samtímans, líkt og í ljós kom við
kjör forseta landsins nýverið. Nýi forsetinn, Abdullah Gül, er
heittrúaður múslimi og kona hans hylur hár sitt með slæðu.
Mun hún fá að mæta á mikilvæga opinbera staði með slæðuna?
Tæki hún slæðuna ofan yrði það afar dramatískur atburður í
landinu, en Pamuk sviðsetur einmitt slíkt „helgibrot“ í skáld-
sögunni. Talsmenn stjórnarskrárinnar telja á hinn bóginn að ef
slæðubanni verði aflétt opnist glufa sem geti á endanum orðið
opin gátt fyrir þá sem vilja breyta Tyrklandi í íslamskt trúar-
veldi. Og ljóst er að söguhöfundurinn í þessari skáldsögu er
ekki á bandi bókstafstrúar eða trúveldis.
Borgin og heimsmyndin
Þetta er því skáldsaga á pólitísku skjálftasvæði. Jafnframt er
þetta ein áleitnasta borgarsaga sem ég hef lengi lesið, saga sem
gerir borgina að svo lifandi sögusviði að það verður ígildi lykil-
persónu í verkinu. Athyglisvert er að Pamuk velur henni ekki
stað í heimaborg sinni Istanbúl sem hann gjörþekkir og hefur
nýlega skrifað um sérstaka bók (sjá grein Þrastar Helgasonar í
Lesbók 28. janúar 2006), heldur endurskapar þessa litlu borg
(með íbúafjölda á við Reykjavík) sem er alveg hinum megin í
landinu; í sögunni er hún kölluð „gleymd borg“ og „borg á
heimsenda“. Með því að láta snjóinn loka borginni getur Pamuk
í senn gert hana að „vinnustofu“ sinni og pólitísku sviði þar sem
hægt er að sýna hvernig ólíklegustu menn komast til valda við
tilteknar aðstæður – í þessu tilviki m.a. gamall leikstjóri sem nú
fær loks tækifæri til að sviðsetja í senn söguna og samtímann á
svo róttækan hátt að mörk skáldskapar, listar og veruleika
þurrkast út: í leikhúsinu er skotið raunverulegum byssukúlum.
Í sviðsetningu skáldsögunnar er þessi borg þó jafnframt ann-
að og meira, hún er Tyrkland í smækkaðri mynd og hún er viss
heimsmynd sem tvær aðrar borgir eiga þátt í að skapa. Annars-
vegar áðurnefnd Istanbúl, því að dvölin stutta í Kars vekur
stöðugt upp minningar Ka frá bernsku og námsárum, og hins-
vegar Frankfurt am Main, þar sem hefur myndast umtalsverð
tyrknesk „nýlenda“ eins og í fleiri borgum Þýskalands (þótt Ka
virðist einnig að mestu vera í útlegð frá því tyrkneska sam-
félagi). Ljóst er að Þýskaland er einskonar hlið að Evrópu í
hugum margra persóna í sögunni. Pamuk beitir einnig írón-
ískum brögðum til að sýna að heimsmyndin í Kars er ekki eins
staðbundin og lokuð og ætla mætti. Myndir af Feneyjum og
svissneskum Ölpum blasa við á veggjum tehúsa og á vissum
tíma dags setjast margir íbúar við sjónvarpið til að horfa á
mexíkóska þáttaröð, nefnilega spennu- og ástarsápuna Mari-
anna.
Einstakt snjókorn og glötuð ljóð
Þó er það öðru fremur skáldið Ka sem verður „fulltrúi“ hins
ytri heims í sögunni. Hann er aðlagaður Vesturlandabúi sem
kemur líkt og heim til síns eigin en þó ókunna lands. Hann
minnir um sumt á Umba í Kristnihaldi Laxness og ýmsir vilja
nýta sér heimsmennsku hans og sakleysi (allt eftir aðstæðum).
Hann er að ýmsu leyti týndur maður í þessum nýja heimi, sem
korktappi í snjóflóði andspænis þeim skoðanaföstu mönnum
sem standa á bjargi trúarinnar og gagnrýna vestrænt samfélag
í fjötrum veraldlegrar efnishyggju.
Ka lætur að nokkru leyti berast með straumnum, er talhlýð-
inn þar sem við á, en hann á sér sín markmið. Honum finnst
tími til kominn að hann öðlist hamingju og hennar leitar hann í
faðmi hinnar fögru Ipek sem hann sannfærir á tveimur dögum
um ást sína uns hún fellst á að fara með honum til Frankfurt.
Þessum ástamálum verður þó ekki sinnt án þess að lenda í ýms-
um vafningum öðrum og fyrr en varir er Ka einnig orðinn í senn
leikstjóri og leikari í pólitískri atburðarás. Allt er réttmætt í
ástum og stríði, segir á vísum stað, en ekki er þó víst að það eigi
við hér.
Seint verður sagt að Ka sé beinlínis jákvæð persóna. Sérhver
hugsun hans og tilfinning virðist hverful og óstöðug eins og
snjókorn sem bráðnar. Ekki er dregin dul á það að skyndileg og
hamslaus ást hans á Ipek byggist í senn á grunni móðurmissis
og kvenmyndar sem hann hefur sótt sér í klámiðnaðinn. Hann
er veiklundaður hæfileikamaður, einfari sem þráir hamingju.
Þegar hann lætur loks eftir sér að leita hennar fær hann ekki
skilið að hún kemur aldrei í fyrirframmótuðum, fullkomnum
einingum.
En Pamuk – sem leikur sér að því að troða upp í gervi sögu-
manns er kveðst vera gamall vinur Ka – tryggir samt að les-
endur deila ævintýri með þessum breyska einstaklingi sem
reynir að hefja nýtt líf eftir komuna til Kars. Þetta nýja líf tjáir
hann í ljóðum sem streyma til hans við faðmlög og fjarlægt vél-
byssugelt, í samræðum og á gönguferðum um borgina. Þessi
ljóð glatast og sögumaður leitar þeirra ákaft, en Pamuk hefur
skrifað þau á ósýnilegan hátt inn í söguna um leið og hann birtir
mynd af manni sem er einstakur líkt og sérhver snjókristall.
Þessi ósýnilegu ljóð eru svör við spurningu sem sögumaður
varpar fram á einum stað: „Hversu mikið getum við nokkurn-
tíma vitað um ástina og sársaukann í hjarta annarrar mann-
eskju?“
1 Franz Kafka: „Höllin [upphaf]“, þýð. Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þor-
valdsson, í: Engill tímans. Til minningar um Matthías Viðar Sæmundsson, ritstj.
Eiríkur Guðmundsson og Þröstur Helgason, Reykjavík: JPV-útgáfa 2004, bls. 183-
186.
Reuters
Orhan Pamuk „Pamuk rýnir í flóknustu þversagnir kerfisins, sem í sögu hans birtast m.a. í því að stúlkum er meinaður aðgangur að menntastofnunum ef þær hylja hár sitt með slæðu.“
Alsnjóa í Kars
Um skáldsögu (og ósýnileg ljóð) eftir Orhan Pamuk
Höfundur er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.