Morgunblaðið - 17.07.2007, Blaðsíða 6
6 ÞRIÐJUDAGUR 17. JÚLÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Gunnhildi Finnsdóttur
gunnhildur@mbl.is
DYR á farþegavél Icelandair opnuðust stuttu eftir
flugtak í janúar síðastliðnum með þeim afleiðing-
um að neyðarrenna féll út og slitnaði frá flugvél-
inni. Átta manna áhöfn og 144 farþegar voru um
borð í vélinni sem skemmdist nokkuð við óhappið.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá rannsókn-
arnefnd flugslysa í Danmörku.
Héldu að viðvörunarljósið væri bilað
Vélin, sem er af gerðinni Boeing 757-200, var ný-
lega komin úr skoðun þar sem dyrunum að neyð-
arrennunni hafði ekki verið lokað almennilega fyr-
ir misgáning. Sextán mínútum eftir flugtak á
Keflavíkurflugvelli opnuðust dyrnar og viðvörun-
arljós kviknaði í flugstjórnarklefanum. Þar sem
flugmenn fundu hins vegar ekki neitt athugavert
gerðu þeir ráð fyrir því að um bilun í ljósinu væri
að ræða og héldu áfram leið sinni til Kaupmanna-
hafnar.
Stuttu eftir að vélin lækkaði flugið við strönd
Danmerkur féll neyðarrennan út og rifnaði frá.
Farþegar sem sátu í grennd við vinstri væng vél-
arinnar segjast hafa heyrt skell, eins og eitthvað
hafi rekist á vélina, og síðan sprengingu strax í
kjölfarið.
Engin vandræði urðu það sem eftir lifði flugsins
og ekki kom í ljós hvað gerst hafði fyrr en flugvélin
var lent á Kastrup. Umgjörð dyranna var verulega
skemmd og sömuleiðis vinstri stélflötur, auk þess
sem minniháttar skemmdir urðu á vinstri væng
vélarinnar.
Rannsóknarnefndin beinir þeim tilmælum í
framhaldinu til Flugöryggisstofnunar Evrópu að
hún tryggi það að framleiðandi flugvélarinnar
bregðist með ýmsum hætti við þessu óhappi.
Nefndin mælir þannig með því að sett verði fyr-
irmæli í handbók vélarinnar um að áhöfn skuli
bregðast tafarlaust við því ef ljós kviknar sem gef-
ur til kynna að dyr hafi opnast. Jafnframt bendir
hún á að það þurfi að endurskoða leiðbeiningar svo
að þessum dyrum sé ávallt tryggilega lokað og það
þurfi að vera vel sýnilegt hvort svo sé.
Flugmenn brugðust rétt við
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Ice-
landair, segir að flugmenn félagsins hafi brugðist
við í samræmi við leiðbeiningar. Mannleg mistök
hafi verið gerð við skoðun vélarinnar í tæknistöð-
inni á Keflavíkurflugvelli og það sé skýringin á
óhappinu. „Í tæknistöðinni fara menn í samvinnu
við rannsóknarstofnanir yfir atburðarásina til þess
að læra af þeim mistökum sem þarna urðu og koma
í veg fyrir að þau endurtaki sig,“ segir Guðjón.
Neyðarrenna rifnaði af farþegavél
Icelandair í ellefu kílómetra hæð
Lás Búnaður til að læsa dyrum þótti ekki sýna
nógu skýrt hvort dyrnar væru læstar.
SÍMINN hefur ákveðið að hefja út-
sendingar á háskerpusjón-
varpsmerki (HDTV) í haust. Um er
að ræða tvær innlendar eða erlend-
ar rásir sem dreift verður um
ADSL-kerfi Símans sem nær til 83%
heimila á Íslandi. Flest af þessum
83% heimila munu geta tekið á móti
háskerpusjónvarpsmerkinu en í
dag eru um 30 þúsund heimili með
myndlykil fyrir ADSL-sjónvarps-
þjónustu Símans, segir í frétt frá
fyrirtækinu.
Segir þar að Síminn muni í sam-
vinnu við innflutningsaðila á sjón-
vörpum taka saman lista yfir þau
tæki sem geta tekið við háskerpu-
sjónvarpsmerki og birta hann á
heimasíðu Símans.
Haft er eftir Katrínu Olgu Jó-
hannesdóttur, framkvæmdastjóra
hjá fyrirtækinu, að háskerpu-
sjónvarp verði mesta breyting í
sjónvarpsmálum Íslendinga frá því
litasjónvarpstækin komu fram.
Síminn boð-
ar háskerpu-
sjónvarp
TINDUR Snæfellsjökuls teygir sig tign-
arlega upp fyrir snjóalagið um þessar
mundir og gnæfir yfir Vesturlandið, þar
sem hann sést víða vel. Tindurinn er jafnan
brynjaður af hrími langt fram eftir sumri
og kemur fyrir að hann sést ekki heilu
sumrin. Þar sem veður hefur verið afar gott
að undanförnu mátti hins vegar vel búast
við því að snjóa leysti frá honum.
Vegfarendur sem farið hafa um jökulinn
að undanförnu hafa nokkrir hverjir talið
óeðlilegt að tindurinn væri jafn ber og raun
ber vitni. Hins vegar er hægt að fullvissa þá
um að slíkt er alvanalegt. „Það gerist á
hverjum vetri að tindurinn brynjast af
hrími, og það stendur lengi fram eftir vori
og jafnvel fram á sumar að brynjan sitji á,“
segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur hjá
Orkustofnun. „Ég veit ekki hvenær það hef-
ur hrunið af tindinum en það gerist venju-
lega smám saman yfir sumartímann. Sólin
nær að hita klettinn undir þannig að brynj-
an hrynur af. Þetta er skemmtilegt fyr-
irbrigði, klettar og hvaðeina sem stendur
upp úr jöklum, þ.e. jökulsker, það hrím-
brynjast svona.“
Oddur segir það breytilegt eftir árferði
hversu stór og mikil brynjan verður og því
einnig hversu lengi hún situr. „Hins vegar
þegar fólk sér mun á jöklinum frá ári til
árs, þá er það oftast nær ávallt að tala um
snjóinn. Það er vegna þess að það er ekki
fyrr en talsvert líður á sumarið að jökullinn
kemur upp undan snjónum, ef svo má segja.
Snjóinn leysir misjafnlega snemma og sum
sumur eru svo köld að það nær ekki að
leysa, þá sýnist manni jökullinn vera að
stækka.“
Lítt sýnilegar breytingar á jöklinum
Snæfellsjökull er um 1.446 metra hár en
hefur hin síðustu ár verið að dragast saman
til jaðranna vegna hlýnandi loftslags. Jök-
ullinn er um 11–12 ferkílómetrar að stærð
og hefur minnkað töluvert frá því að hann
var hvað stærstur, þ.e. fyrir um það bil
einni öld. „Þetta eru þó svo litlar breytingar
á jöklinum að þær eru lítt sýnilegar, þetta
skiptir nokkrum metrum á ári á helstu út-
köntum hans,“ segir Oddur en minnist þess
að fyrir þremur, fjórum árum hafi hann
hins vegar minnkað umtalsvert. „Þá slitnaði
stórt stykki úr sambandi við jökulinn og
hann minnkaði skyndilega. Það stykki skipti
hekturum.“
Spurður um minnkun jökla á Íslandi al-
mennt segir Oddur hana vera staðreynd.
„Að meðaltali virðist mér eins og jöklarnir
minnki um svona 0,3% að flatarmáli á ári
hverju, um þessar mundir.“
Verið mörgum yrkisefni
Snæfellsjökull er virk eldkeila sem hlaðist
hefur upp í mörgum hraun- og sprengi-
gosum á síðustu 700–800 þúsund árum.
Toppgígurinn er um 200 metra djúpur, full-
ur af ís og girtur íshömrum. Talið er að síð-
ast hafi gosið í jöklinum fyrir um 1.800 ár-
um og var það stórgos.
Jökullinn hefur orðið mörgum yrkisefni
og lengi verið rætt um kraft jökulsins – sem
margir telja sig finna af því að dvelja í
nánd við hann – og hann oft nefndur sem
einn af sjö orkustöðvum heims. Jafnframt
er vert að minnast á fjölmenna samkomu
sem haldin var við rætur jökulsins fyrir
þrettán árum, til heiðurs verum sem hingað
voru væntanlegar.
Mikill munur á tindi Snæfellsjökuls að vori og hásumri – þegar hrímbrynjan er fallin af
Minnkar um
0,3% að flatar-
máli ár hvert
Jöklar landsins halda áfram að minnka þó að
sýnilegar breytingar séu ekki miklar á milli ára
Í HNOTSKURN
»Snæfellsjökull er 1.446 metrar aðhæð og á toppi jökulsins eru þrír
tindar eða þúfur, á brún gígskálarinnar,
kallaðar jökulþúfur.
»Toppgígurinn er um 200 metradjúpur, fullur af ís og girtur íshömr-
um. Síðast gaus í jöklinum fyrir 1.800
árum og var það stórgos.
»Ekki er óvanalegt að sjá tinda jök-ulsins bera seint að sumri en það fer
þó eftir árferði hvenær hrímbrynjan
hrynur af þeim.
»Jökullinn hefur, líkt og aðrir jöklarhér á landi, minnkað á umliðnum ár-
um. Talið er að hann verði orðinn frem-
ur lítilfjörlegur eftir eina öld, þó svo að
hann muni eflaust standa lengi enn.
Morgunblaðið/RAX
Hrímbrynjan farin af Svona lítur tindur Snæfellsjökuls út núna.
Morgunblaðið/RAX
Töluvert annað var að sjá tind Snæfellsjökuls í apríl á síðasta ári. Oddur Sigurðsson jarðfræð-
ingur fór þar um í júní í fyrra og var brynjan þá enn til staðar.