Lesbók Morgunblaðsins - 16.02.2008, Síða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 16.02.2008, Síða 13
sig á því að Páll vísar ekki hér til kvenna al- mennt heldur segir hann konur „þeirra,“ þ.e.a.s. konur þeirra skurðgoðadýrkenda sem verið er að fjalla um í þessu samhengi. Þótt margir nútímaþýðendur hafi ekki áttað sig á mikilvægi eignarfornafnsins í þessu samhengi og einfaldlega sleppt að þýða það, á það ekki við um ritskýrendur fornkirkjunnar sem marg- ir hverjir skildu hvað Páll var að fara hér.7 Þau atriði sem einkenndu þjóðirnar notar Páll í orðræðu sinni til að skerpa muninn á ein- staklingum hins nýja samfélags og öðrum. Síð- ar urðu þessi atriði heimfærð á (syndugt) eðli mannsins. Í nýrri biblíuþýðingu er ljóst að ein- hver sem er betur að sér í ritum Ágústínusar kirkjuföður en ritum Páls hafi komið að loka- textanum þar sem maður rekst á orðasambönd eins og spillt eða syndugt eðli.8 Páll talar aldrei um eðli manna hvað þá um spillt eðli þeirra. Þegar hann notar gríska orðið fusis ber að skilja það með vísan til hefðar eða venju; eitt- hvað sem maður gerir samkvæmt eðlisboði sínu (Róm. 2.14) er það sem maður gerir sam- kvæmt hefð eða venju samkvæmt skilningi Páls. Og það dregur ekki úr ofangreindri sögu- fölsun að segja neðanmáls að orðrétt segi text- inn lifðum að holdsins hætti eða í holdi mínu. Eðlilegra hefði verið að þýða orðið sarx orðrétt með íslenska orðinu hold og skýra í neðanmáls- grein sérstaka notkun Páls á hinu gríska orði og reyna að koma til skila þeirri grundvall- arhugsun sem þar er að finna, nefnilega, að orðið sarx vísi til sjónarmiða sem eru andstæð þeim sem birtast í lífi í anda Krists. Spillt eðli (mannsins) kemur þar hvergi við sögu. Geldingar Fyrir utan konur og mjúka menn var það sér- staklega einn hópur manna sem ógnaði karl- mennskunni, þ.e. geldingar. Ég verð að segja að ég sakna geldinganna í nýju þýðingunni en orðfæri er tengist reynsluheimi þeirra birtist t.d. í Matteusarguðspjalli 19.11-12 (þýð. 2007): Jesús svaraði þeim: „Það er ekki á allra færi að skilja þennan boðskap heldur þeirra einna sem það er gefið. Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, suma hafa menn gert vanhæfa, sumir hafa sjálfir gert sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli sem höndlað fær.“ Sá boðskapur sem vísað er til hér er senni- lega fólginn í andsvari lærisveinanna við orðum Jesú þess efnis að sá sem skilji við konu sína, nema sakir hórdóms, og kvænist annarri drýgi hór: „Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast“ (v. 10). Þýðingin er túlkun á þeim skilningi. Gríski textinn notar orðið geldingar (eunouchoi) þrisvar og hafa menn leikið sér með ýmsa þýð- ingarmöguleika til að koma til skila ólíkum ástæðum fyrir þeirri stöðu manna.9 Burtséð frá því hvaða þýðingarmöguleiki varð fyrir valinu er ekki hægt að líta fram hjá því að síðasti hluti versins (… og til eru geldingar sem hafa vanað sjálfa sig vegna guðsríkis.) var notaður í frum- kristni til að draga fram mikilvægi einlífis og skírlífis og sumir tóku síðustu athugasemdina bókstaflega og létu vana sig vegna málstað- arins. Vegna áherslu kristinna kirkjudeilda á hjónabandið hafa margar þýðingar dregið úr gildi einlífis og gjaldfellt stöðu geldinga sem gegndu mikilvægu hlutverki í menningu upp- hafsalda kristni. Það er óþarfi að fela jákvætt hlutverk geldinga eða afmá þá í þýðingum eins og gert er í Post. 8.26-40. Hugsanlega hafa menn ekki getað ímyndað sér að geldingar gætu gegnt svo mikilvægu hlutverki eins og fram kemur í textanum. Það er einfaldlega rangt og óþarfa tepruskapur í upphafi 21. aldar að fela hið mikilvæga hlutverk geldinga í ólík- um trúarbrögðum. Páll vísar eingöngu til geldingar í Galatabréf- inu þar sem umræðan snýst um umskurn. Orð sem tengjast líkömum karla, s.s. forhúð, um- skurn og aðaltákni karlmennskunnar, þ.e.a.s. sæði, koma oft fyrir í bréfinu. Páll tengir um- ræðuefnið boðskap sínum er hann aðgreinir fagnaðarerindi forhúðarinnar frá fagnaðar- erindi umskurnarinnar! (Gal. 2.7). Páll hafnar því að hann sé enn að prédika umskurn. Gegn þeirri ásökun segir hann að þeir sem haldi slíku fram eigi að láta gelda sig! (Gal. 5.12). Karlarnir í Galatíu sem Páll átti í útistöðum við hafa án efa skilið broddinn í athugasemd hans. Að láta gelda sig gerði sérstöðu þeirra sem karlmanna að engu. Ekki er hægt að skilja Galatabréfið nema menn átti sig á því að Páll er eingöngu að tala um karlmenn við karlmenn! Bræður, systur og systkin Þessar hugleiðingar gefa tilefni til at- hugasemda um þýðingu gríska orðsins adelfos eða bróðir. Guðrún Kvaran segir að þýðing- arnefnd Nýja testamentisins hafi víðast hvar systkin, trúsystkin eða bræður og systur í stað bræður í ljósi samþykktar HíB frá í júní 2004: „Leitast verði við að koma til móts við kröfur um mál beggja kynja. Jafnframt verði á engan hátt raskað grundvallaratriðum íslenskrar mál- fræði og hefðar. Þannig verði orðið „systkin“ í stað „bræður“ í ávarpi bréfa Nýja testament- isins og annars staðar þar sem gera má ráð fyr- ir að konur séu meðal lesenda eða áheyrenda.“10 Ég geri ráð fyrir því að stjórn HíB hafi haft í huga raunverulega lesendur eða áheyrendur í ofangreindri samþykkt. En málið er vand- meðfarið þar sem sjaldnast er mikið vitað um þá. Meira er vitað um þá lesendur sem nefndir hafa verið innbyggðir lesendur textans, þ.e.a.s. þá lesendur sem textinn eða höfundur/ar hans geri ráð fyrir í röksemdafærslu sinni. Gera má ráð fyrir því að konur hafi á einhverju stigi heyrt textann lesinn og því sé ekki óeðlilegt að notast við orðasambandið bræður og systur eða (trú)systkin. En það eru undantekningar frá þessu sem mikilvægt er að taka mið af og þýða orðið adelfos stundum eingöngu með orðinu bróðir. Þannig er alveg ljóst að bréf Páls til Ga- latamanna er stílað á karlmenn og ýmsar at- hugasemdir í bréfinu skiljast ekki nema með hliðsjón af reynsluheimi karla.11 Því hefði ég talið eðlilegast að þýða adelfos með bræður á þeim þrettán stöðum sem það er notað í bréf- inu. Benda mætti á aðra texta þar sem eingöngu karlmenn eiga hlut að máli, s.s. 1. Þess. 4.1-9. Það er t.a.m. alveg út í hött að þýða orða- sambandið bróðir sinn í 1. Þess. 4.6 með bróður og systur þar sem beinlínis er verið að fjalla um karlmenn sem girnast eiginkonur sínar sem og konur annarra karla (þýð. 2007: „Og enginn skyldi ganga á hlut eða blekkja nokkurn bróður eða systur í slíkum sökum.“ Sjá þýðingu mína hér að framan á 1. Þess. 4.3-5) Vissulega getur adelfos, bæði í eintölu og í fleirtölu (adelfoi), vísað til beggja kynja en þó alls ekki alltaf (Matt. 12.46; Mark. 3.31; Jóh. 2.12; 7.3, 5; Post. 1.14). Þá er spurningin hvort ekki hefði verið eðlilegt að hafa neðanmálsgrein þar sem Páll notar á grísku orðasambandið bróðir og systir þannig að lesendur hefðu áttað sig á að þar víki hann frá hefðbundnum ávörp- um og tali til eða tilgreini bæði kynin, eins og t.a.m. í 1. Kor. 7.15. Þá notar Páll tvisvar orðið falsbræður (í ft. Gal. 2.4; 2 Kor. 11.26) en ein- hverra hluta vegna taldi þýðingarnefndin að orðið gæti ekki átt við um konur! Þá er orðið adelfoi stundum eingöngu þýtt með bræður, eins og t.a.m. 1. Kor. 7.24 þar sem verið er að fjalla um þræla og leysingja. Þar hefði vissu- lega verið eðlilegt að þýða orðið með bræður og systur þar sem Páll hafði ávarpað bæði kynin fyrr í kaflanum og vissulega voru konur einnig stundum þrælar. Sjónarhornið breytist í 1.Kor. 7.25 þar sem Páll víkur að fyrrnefndum heit- meyjum og ávarpar nú eingöngu karlmenn. Þannig stingur það vissulega í stúf þegar þýð- ingin systkin skýtur upp kollinum nokkrum versum seinna (1. Kor. 7.29) algjörlega að til- efnislausu! Af þessu stutta yfirliti er ljóst að ósamræmis gætir í þýðingu orðsins adelfos; jafnframt er ljóst að þýðingarnefndin hefur ekki unnið þá grunnvinnu sem nauðsynleg hefði verið til að geta tekið mið af ofannefndri samþykkt HíB um að þýða eigi/megi adelfos með orðinu systk- in í stað bræður í ávarpi bréfa Nýja testament- isins og annars staðar þar sem gera má ráð fyr- ir að konur séu meðal lesenda eða áheyrenda. Sjálfum hefði mér þótt eðlilegt að bæta við í þá samþykkt eftirfarandi setningu: Þýða skal orð- ið adelfos/adelfoi með bróðir/bræður þar sem gera má ráð fyrir að Páll ávarpi eingöngu karl- menn! Ljóst er að það hefði verið gagnlegt ef HíB hefði fengið sérfræðiráðgjöf við þýðingu Páls- bréfa. Í dag eru tveir Íslendingar með dokt- orspróf í ritum Páls postula. Báðir hefðu verið tilbúnir að veita sérfræðiráðgjöf ef eftir henni hefði verið leitað en það var aldrei gert. Ímynd og veruleiki: Ný þýðing Biblíunnar? Föstudaginn 19. október 2007 var ný þýðing Biblíunnar kynnt með viðhöfn í Þjóðarbókhlöð- unni. Þar lá frammi bæklingurinn „Heilög ritn- ing – orð Guðs og móðurmálið.“ Í grein Guð- rúnar Kvaran „Ný þýðing Biblíunnar“ vöktu athygli mína myndir á bls. 7 af Jóni Svein- björnssyni en aftan við nafn hans stóð „þýðandi Nýja testamentisins“. Í lok greinarinnar var mun stærri mynd af Guðrúnu Kvaran og Einari Sigurbjörnssyni „að störfum í þýðingarnefnd Nýja testamentisins“ (bls. 12). Við athöfnina var ýmsum þakkað vel unnin störf og þeim af- hent eintök að nýrri þýðingu. Þar voru hvorki þýðandi Nýja testamentisins né þýðandi Gamla testamentisins, Sigurður Örn Steingrímsson (bls. 6) og hvorugum var þakkað sérstaklega fyrir aðild sína að þýðingunni! Að athöfn lokinni spurði ég m.a. Guðrúnu Kvaran og Sigurbjörn Einarsson biskup um fjarveru þýðenda. Svar beggja var skýrt. Báðir þýðendurnir voru ósátt- ir við þá þýðingu sem verið var að kynna! Ég hef flutt tvö erindi um hina nýja bibl- íuþýðingu, á málþingi í Skálholti 16.-17. nóv. 2007 og í Neskirkju 5. des. 2007 á vegum Guð- fræðistofnunar HÍ. Fyrir málþingið í Skálholti hringdi ég í Jón Sveinbjörnsson og bauð honum að sitja þingið. Ég gat ekki skilið svar hans öðruvísi en svo að hann taldi sig enga ábyrgð bera á hinni nýju þýðingu. Guðrún Kvaran sat málþingið og flutti þar erindi ásamt öðrum. Að sögn var mönnum heitt í hamsi og umrætt mál- þing rataði á forsíðu Morgunblaðsins 19. nóv. 2007. Er ég flutti erindið í Neskirkju sá enginn sem hlut hafði átt að þýðingunni sér fært að mæta. Mig fór að gruna að þeir sem áttu þátt í lokagerð þýðingarinnar hafi reynt að sniðganga gagnrýna umræðu um hana. Í kynningu á nýrri útgáfu Bilíunnar hefur stjórn HíB lagt áherslu á að um sé að ræða fyrstu nýju þýðinguna á allri Biblíunni frá út- gáfunni 1912. Sem fyrr segir fæ ég ekki séð hvernig það fái staðist ef litið er á bréf Páls postula. Í áðurnefndri lesbókargrein þýðanda Nýja testamentisins í Mbl. 13. okt. 2007, er vís- að til ákvörðunar Hins íslenska Biblíufélags 9. október 2001 um að ráðast í að endurskoða þýð- inguna á bréfunum frá 1981. Í greininni segir þýðandi farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við stjórn HíB og aðra í þýðingarnefnd Nýja testamentisins. Þar er jafnframt vísað til bréfs biskups til þýðanda í maí 2005 með eft- irfarandi bókun frá stjórnarfundi Hins íslenska Biblíufélags: „Biskup … greindi frá því að náðst hefði sátt um verklag við þýðingarvinnuna sem felist í því að þau dr. Guðrún Kvaran og dr. Ein- ar Sigurbjörnsson … geri tillögur um end- anlegan texta sem síðan verði ræddur við dr. Jón Sveinbjörnsson á fundi. Stjórn HíB sam- þykkti þessa tilhögun og áréttar að hún líti svo á að stjórnin ráði úrslitum um endanlega gerð textans.“ Þessi samþykkt var óásættanleg að sögn þýð- anda og var afskiptum hans af þýðingunni þar með endanlega lokið. Af samhenginu að dæma lauk afskiptum hans af verkinu einhvern tím- ann milli miðbiks maímánaðar og ágústmán- aðar árið 2005. Jón segir sjálfur frá því að hann hafi fengið texta Rómverjabréfsins frá Einari í ágústmánuði 2005 „sem faðir hans hafi farið yfir en engar athugasemdir eða tillögur annarra les- enda fylgdu með“. Fyrir sagnfræðinga framtíð- arinnar er stóra spurningin þessi: Hvaða breyt- ingar voru gerðar á þýðingunni eftir að grískumaðurinn í nefndinni sagði sig frá verk- inu sumarið 2005 og þar til endanleg þýðing lá fyrir í útgáfunni 2007 og hverjir breyttu texta þýðanda og hvers vegna? Áhugavert væri að fá upplýsingar um það frá þeim sem virðast hafa borið ábyrgð á endanlegri gerð texta Nýja testamentisins. Kannski munu Guðrún Kvaran og Einar Sigurbjörnsson birta grein í Lesbók Mbl þar sem þau gera grein fyrir framvindu mála við endanlegan frágang á texta hinnar nýju Biblíuþýðingar.  1 Þar sem ítarlegri útgáfa af þessi grein mun birtast í 5. árg. Glímunnar hef ég ákveðið að takmarka mjög tilvitnanir í fag- rit máli mínu til stuðnings. Í greinum mínum „1. Kor. 6.9-11“, „Róm. 1.24-27“ og „Matteusarguðspjall 19.3-15“ (sjá www.kirkjan.is: samkynhneigð og kirkja) er að finna ýmis rök fyrir þeim skoðunum sem fram koma í greininni. 2 Heilög ritning – orð Guðs og móðurmálið. Sýning og málþing í Þjóðarbókhlöðu 2007, bls. 3 (mín leturbreyting). 3 Fyrsta skipti sem tekin er upp tölumerkt versaskipting í ís- lenskri Biblíuþýðingu er í Þorláksbiblíu 1644. 4 Einnig mætti nefna tvo texta er vísa báðir í sama vers í 1. Mós. 2.24 en þýðingin er ólík, þ.e. 1. Kor. 6.16 („Þau tvö munu verða einn líkami“) og Matt. 19.5 („Þau skulu verða einn maður.“ Neðanmálsgrein segir: Orðrétt: Eitt hold, sem þýðir einn maður, eind). 5 Sjá t.d. 1. Kor. 7.4 þar sem lögð er áhersla á gagnkvæmi í hjónabandi: „Gift kona hefur ekki fullan yfirráðarétt yfir eigin líkama, því eiginmaður hennar á einnig tilkall til hans. Á sama hátt hefur kvæntur karlmaður ekki fullan yfirráðarétt yf- ir líkama sínum, því eiginkona hans á einnig tilkall til hans.“ 6 „Það er vilji Guðs að þið verðið heilög. Hann vill að þið hald- ið ykkur frá óskírlífi, 4 að sérhvert ykkar temji sér að halda lík- ama sínum í helgun og heiðri (í neðanmálsgrein segir: Eða: að sérhver ykkar láti sér lærast að lifa hjúskaparlífi við konu sína í heilagleika og heiðri.) 5 en ekki í losta eins og heiðingj- arnir er ekki þekkja Guð. 6 Og enginn skyldi ganga á hlut eða blekkja nokkurn bróður eða systur í slíkum sökum. … “ (1. Þess. 4.3-6; þýð. 2007). 7 Eldri íslenskar þýðingar hafa þó eignarfornafnið, s.s. þýðing- arnar 1859, 1866 og 1912. 8 Róm. 7.5, 18, þegar við lutum okkar spillta eðli, og hins veg- ar Ég veit að ekki býr neitt gott í mér, það er í spilltu eðli mínu. Sbr. Kól. 2.11-12. 9 Í versinu er að finna lýsingu á þremur ástæðum fyrir því hvers vegna menn eru geldingar. Því mætti þýða textann á eft- irfarandi hátt: „Til eru þrjár tegundir geldinga: Þeir sem eru fæddir slíkir frá móðurkviði, þeir sem hafa verið geltir af mönnum og þeir sem hafa vanað sjálfa sig vegna himnaríkis.“ 10 Heilög ritning – orð Guðs og móðurmálið. Sýning og mál- þing í Þjóðarbókhlöðu 2007, bls. 8 (mín leturbreyting). 11 Sjá t.d. Gal. 5.2 („Takið eftir því sem ég, Páll, segi ykkur: Ef þið látið umskerast, þá gagnar Kristur ykkur ekkert.“ Þýð. 2007), Gal. 5.12 („Vel mættu þeir sem koma ykkur í uppnám láta gelda sig.“ Mín þýð.) og Gal. 6.12-13 („Þeir sem eru að þröngva ykkur (viðtakendur bréfsins) til að láta umskerast gera það til að sýnast, … Því að ekki halda einu sinni sjálfir umskurnarmennirnir lögmálið heldur vilja þeir að þið látið umskerast til þess að þeir hafi eitthvað sýnilegt að stæra sig af.“ Þýð. 2007). Árvakur/Árni Sæberg Skortir rýni Þýðendur Nýja testamentisins hefðu þurft að rýna betur í textann, segir greinarhöfundur, og hugsanlega leita sérfræðiálits. » Ljóst er að það hefði verið gagnlegt ef HíB hefði fengið sérfræðiráðgjöf við þýðingu Pálsbréfa. Í dag eru tveir Íslendingar með doktorspróf í ritum Páls postula. Báðir hefðu verið tilbúnir að veita sérfræðiráðgjöf ef eftir henni hefði verið leitað en það var aldrei gert. Höfundur er doktor í nýjatestamentisfræðum og sögu frumkristni. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 16. FEBRÚAR 2008 13

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.