Lesbók Morgunblaðsins - 16.02.2008, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 16.02.2008, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 16. FEBRÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is Á stráður Eysteinsson prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands er annar ritstjóra tveggja binda verks um módernisma sem komið er út hjá John Benjamins Publishing Company en á bak við útgáfuna standa al- þjóðleg samtök bókmenntafræðinga. Bækurnar tvær eru samtals rúmlega þúsund blaðsíður í stóru broti en 65 fræðimenn frá mörgum löndum rita greinar í þær að meðtöldum Ástráði og meðritstjóra hans Vivian Liska sem er prófessor í þýskum bók- menntum við háskólann í Antwerpen í Belgíu. Í bókinni eru 63 greinar auk formála og eftirmála og greinarhöf- undarnir 65 nálgast módernismann frá ýmsum hliðum. Skil- greining hugtaksins sjálfs er skoðuð, merking þess og notkun. Hvar liggja til dæmis mörk þess? Er hægt að tala um módern- ismann sem alþjóðlegan straum eða afmarkast hann við ákveðin lönd? Er evrópsk framúrstefna á fyrri hluta 20. aldar, t.d. þýski espressjónisminn, módernismi? Hver eru tengslin við póstmódern- ismann? Áhersla er lögð á módernisma í bók- menntum en jafnframt er hugtakið skoðað í tengslum við aðrar list- greinar og strauma og stefnur í menningu og fræðum, pólitík og vís- indum, svo að eitthvað sé nefnt. Fagurfræðileg afstaða En hvað er átt við með hugtakinu módernismi? Ástráður segir að í rit- inu séu skiptar skoðanir um það hvað eigi að telja til módernisma og hvað ekki. En vissulega megi draga álykt- anir út frá þeirri margþættu mynd sem lesanda birtist þegar farið er í gegnum bókina. „Þannig finnst mér til dæmis hæpið að skilgreina hugtakið fyrst og fremst út frá einhverju ákveðnu tímabili. Í Bandaríkjunum færist nú í vöxt að lit- ið sé á tímabilið frá u.þ.b. 1890 til síð- ari heimsstyrjaldar sem módernískt skeið og hugtakið látið ná til hvers konar bókmennta á því tímabili. Í Bretlandi er stundum talað um að þessu skeiði ljúki þegar um 1930. Slík- ur skilningur takmarkar mjög gildi og notkun hugtaksins. Broddurinn fer úr því en hann finnst mér vera fag- urfræðilegur, þótt hann sé óhjá- kvæmilega einnig hugmyndalegur. Módernismi var ekki síst ákveðin fag- urfræðileg afstaða og það er kannski fyrst og fremst hún sem enn er lifandi í umræðunni. Módernisminn gerði upp við vestræna menningu og hugs- un og hefð, sumir módernískir höf- undar unnu að vísu mikið með hefð- ina, drógu hana inn í verk sín, aðrir vildu sem minnst af henni vita. Og ég held að þær spurningar sem módern- isminn vakti um gildi hefðarinnar séu enn bráðlifandi í okkar samtíma þeg- ar mikið er talað um minnisleysi og menningarlega flatneskju. Er fag- urfræði hugsanleg sem hugmynda- fræðileg áskorun? Þetta er módernísk spurning og í fullu gildi. Á sama tíma er umræðan um póstmódernismann smám saman að fjara út.“ Þið Vivian Liska haldið því einmitt fram í inngangi ritsins að módernism- inn sé enn bráðlifandi. Hvað eigið þið við með því? „Það má kannski segja að módern- isminn sé hinn nærtæki en jafnframt óljósi arfur okkar – hann er að sumu leyti orðinn hefð en er einnig óljós vegna þess að við getum ekki skilið á milli samtímans og hans, þótt ör- væntingarfullar tilraunir til þess hafi vissulega einkennt umræðuna um langt árabil. Þegar upp er staðið var umræðan um póstmódernismann að verulegu leyti umræða um menning- arástand og greining á því, en svo var einnig í vaxandi mæli tekið að nota póstmódernisma um fræðileg vinnu- brögð, þ.e. um fræðileg viðhorf og að- ferðir sem fyrst voru kennd við póst- strúktúralisma. Það er ekkert skrítið að þetta hafi ruglað fólk í ríminu og óbeint leitt til þess að í munni margra er „póstmódernismi“ nú innantómt skammaryrði. En hin fagurfræðilega hefð módernismans skilaði sér í gegn- um þetta umbrotatímabil, ekki óbreytt en endurnýjuð, og raunar hefur hún einnig sett mjög svip sinn á póststrúktúralíska fræðimennsku og túlkunarvísindi.“ Uppgjör við bresk- bandarískan skilning Ástráður segir að lagt hafi verið upp með að ritið yrði ákveðið uppgjör við hinn ráðandi bresk-bandaríska skiln- ing á módernismanum sem hefur haft áhrif á skilgreiningu hans á öðrum málsvæðum. Bretar og Bandaríkja- menn hafa lagt mikla áherslu á Joyce, Eliot og Pound og stundum hefur Faulkner fengið að fljóta með. Sam- kvæmt þessum skilningi hefur mód- ernisminn verið bundinn við tímabilið þegar þessir menn voru að skapa sín helstu verk og raunar oft við ákveð- inn fræðaskilning á verkum þessara höfunda. „Við vildum sprengja þennan sjón- deildarhring og fá fræðimenn til þess að spyrja hvað væri módernismi í hol- lenskum bókmenntum, rússneskum, spænskum, ítölskum o.s.frv. Og þá kemur margbreytileiki módernism- ans í ljós, hann er mismunandi eftir tungumálum og löndum. Hann hefur mismunandi hlutverk. Á sumum stöð- um er hann sterk alþjóðleg áskorun en í öðrum er hann ný vakning þjóð- legrar tjáningar, til dæmis í Brasilíu og á sinn hátt einnig í Rússlandi áður en hann var barinn niður þar. Ef módernisminn er eins mikilvægt hug- tak og hann virðist vera - og það er augljóst að hann er mjög „verðmætt“ hugtak og gildishlaðið - þá hlýtur hann að ná út fyrir hinn enskumæl- andi heim. Það ætti jafnvel að vera hægt að sjá móta fyrir módernisma þar sem andstaða gegn honum, eða hugtakinu sjálfu, hefur verið mjög mikil, eins og í Frakklandi. Við ætt- um að geta talað um franskan mód- ernisma án þess að einblína á hin bresk-bandarísku viðmið.“ Norrænn módernismi Og segja má að þetta hafi tekist í rit- inu. Stærsti og jafnframt síðasti hluti þess er umfjöllun um módernisma á mismunandi menningarsvæðum þar sem „evrópsk“ tungumál eru töluð en verkið er hluti ritraðar um sögu bók- mennta á evrópskum tungumálum (sem takmarkast auðvitað ekki við Evrópu). Þarna er til dæmis í sex greinum fjallað um módernisma í norrænum bókmenntum, sænskum, finnskum, dönskum, norskum, ís- lenskum og færeyskum. „Í þessum greinum kemur glöggt fram að hinn norræni módernismi sprengir tímarammann sem oft er miðað við í bresk-bandarískri umfjöll- un,“ segir Ástráður. „Þetta vekur auðvitað ýmsar spurningar. Er mód- ernismi sem kemur fram á sjötta og sjöunda áratugnum, og raunar einnig síðar, endurómur af eldri módern- isma eða er hann kannski einmitt dæmi um það hvernig módernisminn endurnýjar sig? Þetta á eftir að rann- saka betur. Við getum tekið sem dæmi íslenskan módernisma hjá höf- undum eins og Thor Vilhjálmssyni, Steinari Sigurjónssyni, Svövu Jak- obsdóttur og Guðbergi Bergssyni. Þau eru ekki bara með Joyce, Eliot, Faulkner og Virginu Woolf í fartesk- inu, heldur líka Beckett, Borges og Grass. Það er heilmikil módernísk saga á bak við þessa höfunda sem þeir vinna úr um leið og þeir brjóta múra hér á landi. En viðtökurnar hafa stundum verið blendnar, snemma heyrðust raddir um að þess- ir íslensku höfundar væru langt á eft- ir, Joyce hafi gert þetta allt löngu áð- ur. Þessi viðhorf lýsa ótta sem ég held að sé ástæðulaus. Við ættum frekar að spyrja hvernig módernisminn er endurnýjaður í íslensku samhengi og hvernig hann verður einmitt öðruvísi í nýju sögulegu samhengi – með þessa sögu á bak við sig.“ Módernismi eða póstmódernismi? En er þessi íslenski módernismi, sem er einhvers konar úrvinnsla á alþjóð- legum módernisma, kannski frekar póstmódernismi? Það hugtak, svo aft- ur sé vikið að því, hefur meðal annars verið skilgreint sem eins konar úr- vinnsla eða viðbragð við módernisma. „Hið sögulega samhengi íslenska módernismans má kalla póstmódern- ískt,“ segir Ástráður. „Hann sogar í sig ýmislegt úr hinu póstmóderníska ástandi um leið og hann nýtir sér og vinnur úr fagurfræðilegum arfi mód- ernismans. Stundum getur verið erf- itt að skilja á milli módernisma og póstmódernisma. Sérstaklega þegar fagurfræðilegar spurningar eru ann- ars vegar. Mikil áhersla hefur verið lögð á sjálfhverfni póstmódernískra bókmennta, að þetta séu bókmenntir sem fjalla um bókmenntir, en þetta einkenni var strax mjög áberandi í módernískum verkum á fyrri hluta tuttugustu aldar.“ En hver eru þá skilin á milli mód- ernisma og póstmódernisma? Þú tal- aðir um að síðarnefnda hugtakið lýsi fyrst og fremst menningarástandi. „Já, ég held að póstmódernismi sem hugtak sé viðbragð við ákveðnu menningarsamhengi sem breytist nokkuð ört frá 1960 með gríðarlegum vexti í fjölmiðlun, nýrri sam- skiptatækni, auknu framboði af af- þreyingarmenningu og sífellt óljósari mörkum á milli menningar og mark- aðar. En það er merkilegt að einmitt í þessu nýja fjölmiðlaumhverfi verða ýmsar spurningar módernismans mjög aðkallandi. Gagnvirkni Netsins kallar til dæmis að margra mati á virkan og skapandi lestur, en er þetta hin virka staða lesandans og áhorf- andans sem Adorno og félagar í Frankfurtarskólanum töluðu um frá og með fjórða áratugnum og fundu gjarnan í módernískri list? Módern- isminn er því lifandi hugtak á póst- módernískum tímum, margar lyk- ilspurningar hans endurnýjast í breyttu samhengi. Þar með er ég hins vegar ekki að segja að módernisminn hafi þurrkað út aðrar stefnur eða hefðir. Þó að módernisminn hafi snú- ist gegn raunsæishefðinni varð hún ekki úrelt; realisminn hefur lifað og endurnýjast fram til þessa dags. Við þurfum að varast að skoða módern- ismann sem tímabil einhvers konar útþurrkunar annarra hræringa, hann er miklu frekar margvísleg fag- urfræðileg afstaða sem löngum hefur þótt ögrandi.“ Endurmat En hvernig er verið að rannsaka módernisma núna? Kaflaskipting ritsins gæti varpað ljósi á það. „Já, bókin skiptist í ellefu kafla og líklega of langt mál að tíunda þá. Ég held að okkur Vivian hafi tekist að velja býsna breiða og fjölhæfa sveit fræðimanna í þessa vinnu. Þarna eru margir þaulreyndir og alþjóðlega kunnir fræðimenn sem hafa lengi fylgst með og tekið þátt í módern- ismaumræðunni, en við leituðum einnig uppi yngri fræðimenn, m.a. til að tryggja sem fjölbreytilegust rann- sóknaviðhorf á þessu sviði. Í sumum greinanna er hugtakið módernismi sjálft endurmetið í ljósi fræðilegra hræringa á síðustu árum og áratug- um. Þá er einnig litið til landamæra módernisma og annarra mikilvægra hugtaka: hefðarinnar, framúrstefnu, póstmódernisma. Bókin einkennist m.a. af því að í stað þess að rembast við að „loka“ hugtakinu, m.a. með því að setja sögulegan endapunkt við það, eins og oft hefur verið reynt að gera í nafni póstmódernismans, þá leitast höfundar við að kanna hið margvíslega samhengi módernism- ans og jafnframt samræðu hans við þann menningarheim sem við búum að flestu leyti ennþá í. Þarna eru t.d. greinar um rýmiskennd í módern- ískum sögum, um borgina í módern- ískum verkum, um birtingarmyndir bernskunnar, sköpunar, vitundar og líkama; um módernískar aðferðir til að tjá mikil áföll („tráma“), um við- brögð módernismans við nýrri heims- mynd vísinda, sálfræði, tækni, fjöl- miðla og afþreyingar. Á hinn bóginn er einnig fjallað um þátt módernism- ans í áhuga 20. aldar manna á „frum- stæðri“ menningu, goðsagnaarfi og öðrum helgum teiknum í okkar ver- aldlega samhengi. Enn aðrir höf- undar fjalla um módernisma og vist- fræði, kynþáttamál, kynjaviðhorf, lífsreynslu útlaga og stjórn- málaafstöðu (m.a. fasisma, en nokkrir þekktir módernistar voru hallir undir hann). Þá eru ótaldar greinar um tengsl bókmennta við aðrar list- greinar í ljósi þessa hugtaks: bygg- ingarlist, tónlist, leikhús og ýmiss konar sjónlistir. Ellefti og stærsti kaflinn hefur að geyma greinar um módernisma á ýmsum tungumálum og menningarsvæðum, svo sem áður var getið. Við reyndum ekki að þenja okkur yfir öll þau lönd sem til greina komu, heldur lögðum áherslu á fjöl- breytileika. Fræðikonurnar þrjár sem fjalla um ástralskan, franskan og grískan módernisma fara t.d. mjög ólíkar leiðir að efninu. Og þótt þarna sé grein um spænskan módernisma, þá er önnur sérstaklega um módern- isma í Katalóníu þar sem dregnir eru fram aðrir þræðir. Með þessu vildum við tryggja að fram kæmi margbreytileg mynd af módernism- anum sem gæti örvað fjölmenning- arlegan skilning á honum og jafn- framt orðið uppspretta og hvatning til enn frekari rannsókna,“ segir Ást- ráður. Módernisminn er bráðlifandi Hvað er módernismi? Er hann lif- andi enn? Hvernig skyldi rann- sóknum vera háttað á þessu hug- taki nú á nýrri öld? Og hvað varð um póstmódernismann? Hér er rætt við Ástráð Eysteinsson sem er annar ritstjóri ríflega þúsund blað- síðna greinasafns um módernisma. Árvakur/RAX Ástráður Bækurnar tvær eru samtals rúmlega þúsund blaðsíður í stóru broti en 65 fræðimenn frá mörgum löndum rita greinar í þær að meðtöldum Ástráði og meðritstjóra hans Vivian Liska. » Það má kannski segja að módernisminn sé hinn nærtæki en jafnframt óljósi arfur okkar – hann er að sumu leyti orðinn hefð en er einnig óljós vegna þess að við getum ekki skilið á milli samtímans og hans, þótt örvæntingarfullar tilraunir til þess hafi vissulega ein- kennt umræðuna um langt árabil.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.