Samvinnan


Samvinnan - 01.03.1939, Blaðsíða 5

Samvinnan - 01.03.1939, Blaðsíða 5
3. HEFTI SAMVINNAN Kortabókin Eftir Gustav Sandgren Uppboðshaldarinn snýtti sér svo hvein í, og hélt svo áfram að kalla upp munina, þótt aðeins væri nú eftir smáskran. „Hér er til dæmis stór kortabók," hrópaði hann. „Það er nokkurs konar landabréfasafn, því hún er eins og meðal saumaborð. Hvað bjóðið þið í svona fallega bók með stífum spjöldum?“ „Fimm krónur,“ kallaði áköf og eftirvæntingarfull rödd utarlega í mannþyrpingunni. Allra augu litu þangað. Hvaða afglapi var þetta, sem bauð svona hátt i það, sem hann gat fengið fyrir sjötíu og fimm aura? Menn hvísluðu og glottu, þegar þeir sáu hæstbjóð- andann. Það var Linus smiður. Þarna stóð hann og teygði fram litla höfuðið með stóru eyrunum, blóð- rauður í framan af eftirvæntingu og innri óróleika, sem enginn skildi, nema hann sjálfur. „Fimm krónur eru boðnar. Mjög myndarlegt boð. Býður nokkur betur? Ekki það. — Fimm krónur — fyrsta — annað — og þriðja sinn.“ „Linus smiður. Þú átt boðið. Hér er bókin.“ Linus tróð sér fram, borgaði bókina og tók varlega á móti henni. Hún var svo stór, að litli maðurinn hvarf bak við hana. Uppboðshaldarinn hélt áfram og athygli manna dróst nú frá litla manninum með stóru bókina og Linus gat í ró og næði látið hana í poka og þramm- aði svo heim á mannbroddunum sínum eftir hálum veginum. Hjarta hans barðist af fögnuði. Nú átti hann hana. Honum hafði tekizt ásetningur sinn. Strax þegar hann heyrði, að það átti að halda uppboð á eigum gamla kennarans, hafði hann farið að hugsa um þessa stóru kortabók, sem hann hafði séð nokkrum sinnum inni hjá kennaranum, þegar hann kom með nokkrar hillur, sem hann hafði smíðað. Hann hafði nurlað saman ofurlitlum aurum, og allt að þrjátíu krónum hafði hann ákveðið að fórna til þess að eignast kortabókina. Þetta var þó merkileg kortabók, prentuð í Þýzka- landi, og hún hafði áreiðanlega verið mjög dýr á sínum tíma. Fólkið hló að Linusi og landafræðiáhuga hans. En það er nú svo, að lítill og renglulegur pipar- sveinn hefur ekki efni á því að gera lífsdraum sinn að veruleika, jafnvel þótt hann sé fær í sínu starfi. Það var dýrt að ferðast. Línus var ferðalangur, sem aldrei hafði komið út fyrir sóknina. Allt frá æsku hafði hann verið að safna til þess að geta siglt, langt, langt í burt, en alltaf hafði eitthvað komið fyrir, svo að aldrei varð neitt úr ferðalaginu. Þar var svo margt, sem þurfti að taka tillit til, og hann var enginn ævintýramaður. Nei, hann vildi ekki flana út í neina óvissu. Fyrst og fremst varð hann að hafa næga peninga til þess að þurfa ekki að leita á náðir manna í ókunnu landi, og það var ekki svo auðvelt fyrir venjulegan smið eins og hann að fá þessa peninga. Svo þurfti hann að hafa einhvern stað til þess að geta komið til, þegar hann kæmi aftur, ef að eitthvað gengi illa þarna úti, eða ef peningarnir gengu til þurrðar. Svo var tryggara, að allt væri með ró og spekt í stjórnmálaheiminum til að eiga ekki á hættu að lenda í uppreist og verða skotinn af misgáningi eða settur í fangelsi og gleymast svo þar. Það var margt og margt fleira, sem þurfti að lag- ast, áður en hægt var að leggja upp, — og svo fékk Línus að sitja heima. Það var að minnsta kosti þannig, að honum brást kjarkur til að stíga lokasporið — vera kann að draumur hans hafi ráðið nokkru þar um — þótt hann ekki vildi viðurkenna það. Þess vegna undirbjó hann sig enn þá undir siglinguna, þótt hann væri að verða sextugur, og allir, sem spurðu, hvenær hann myndi leggja af stað, fengu greið og ákveðin svör. En í raun og veru ferðaðist hann með hjálp landa- bréfanna sinna á kvöldin, þegar dagsverkinu var lokið, og hann búinn að borða og búa um rúmið. Þá átti hann sínar mestu ánægjustundir, þegar hann glaður og í ró og næði lét hugann fljúga frjálsan yfir höf og lönd, frumskóga og fljót. Þegar hann kom heim með nýju kortabókina, sett- ist hann samstundis með hana eins og glaður skóla- drengur. — Áður hafði hann aðeins haft venjulega litla kortabók. Skólakennarinn hafði verið lærður maður og haft áhuga fyrir mörgu. Linus opnaði bókina af handahófi. Nú blöstu við honum djúpbláir flekkir, það var hafið umhverfis Ástralíu, hálfur hnötturinn, næstum óslitinn sjór. Hann sat lengi og starði í blámann. Herbergið var orðið blátt umhverfis hann, og í einu vetfangi voru hringrif Suðurhafsins með pálmaviðum og brimhljóði 37

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.