Samvinnan - 01.04.1960, Blaðsíða 22
Sveinn Víkirigur
Krotað
á
spássíu
TÓMSTUNDIR
Það er ekki langt síðan, að þjóðin þekkti varla þetta orð, tómstundir, nema
þá a£ afspurn. Ef vinnukona í sveit hefði fyrir svo sem 30 árum sagt við
húsbændurna, að auðvitað ætlaði hún ekki að snerta handarvik um helgar
og vildi auk þess hafa einn dag fi'ían í miðri vikunni, þá hefði liðið fyrst
yfir liúsfreyjuna og síðan yfir húsbóndann líka. Og höfðu menn þó sterk-
ari taugar í þá daga en nú.
Sannleikurinn er sá, að þjóðin hefur um aldir orðið að vinna baki brotnu
myrkranna á milli og meira en það alla daga ársins og þó varla haft til
hnífs og skeiðar. Svo harðbýlt var þetta harðbýla land, svo vægðarlausar
kröfur gerði það til barna sinna frá því þau komust fyrst á legg og fram
í gráa elli. Og þó „á landið ærinn auð, ef menn kunna að nota hann“. Það
hefur sýnt sig á hinum síðustu áratugum. Þjóðin hefur lært að liagnýta
sér auð hafs og lands. Hún hefur margfaldað afl sitt og æsku við tilkomu
véla og rafmagns og hún er á fáum árum orðin tiltölulega auðug þjóð.
Áður notuðu menn hinar fáu og stopulu tómstundir til þess að halla sér
út af og hvíla sig. Og veitti ekki af því. Nú hefur allur fjöldinn aftur á móti
svo miklar og margar tómstundir, að hann veit bókstaflega ekkert hvað
hann á við þær að gera. Áður var stritið og þreytan aðal áhyggjuefnið. Nú
eru það tómstundirnar, sem menn eru í ráðaleysi með. Og það eru þær,
sem nú eru að verða alþjóðlegt áhyggjuefni og eiga eftir að verða það í enn
ríkara mæli í náinni framtíð.
„Guði sé lof, að nú veit ég þó, hvar hann er á nóttunni", sagði sorgbitin
ekkja, sem oft hafði verið hrædd um manninn sinn, þegar hann var
einhversstaðar úti í bæ fram eftir öllum kvöldum. Og eru þeir foreldrar
ekki orðnir harla margir nú, ekki sízt í bæjum og kaupstöðum, sem hafa
þungar áhyggjur út af börnum sínum, sem þau vita ekkert um, hvar niður
eru komin og ekki koma heim fyrr en einhvern tima seint á nóttu?
Það er sagt, að þroska þjóðar megi allmjög marka á því, hvernig hún ver
tómstundum sínum. Þá er hver sinn eiginn húsbóndi og ver tíma sínum
eins og hann sjálfur girnist. Ég er, því miður, hræddur um, að við mund-
um ekki fá mjög háa þroskaeinkunn eða glæsilegan vitnisburð, ef fram
færi nákvæm rannsókn á því, hvernig við verjum tómstundunum svona
yfirleitt. Við kunnum ekki ennþá með þær að fara, og það er varla von. Það
er svo skammt síðan að við fórum að eignast þær að nokkru ráði. Hins
vegar hafa séðir fésýslumenn og jafnvel ríkið sjálft, haft bæði hug og vilja
á að notfæra sér frístundir annarra í gróðaskyni. Ríkið býður fram
brennivínið til þess að fylla bæði tómstundirnar og fólkið með þeim ár-
angri að raka saman rúmlega 100 milljónum króna árlega í hreinan ágóða.
Aðrir freista tómstundafólksins með skröllum og kaffihúsalífi og næla af
því aðrar 100 milljónirnar að minnsta kosti í hreinan gróða. Enn eru til
þeir, sem sóa tómstundum sínum í klára iðjuleysi og slæping, sem enginn
hefur nokkurn skapaðan hlut upp úr, heldur miklu fremur hið gagnstæða.
Frístundirnar eru að verða alvarlegt vandamál, sem hlýtur að fara vaxandi
um víða veröld á næstu árum, eftir því, sem tæknin vex og vinnutíminn
styttist. Þess vegna er það orðið fyllilega tímabært að hugleiða þessi mál og
freista að finna Iiagkvæmar og æskilegar leiðir til þess, að kenna fólkinu
að nota frístundir sínar sér til gagns, þroska, og hollra skemmtana og hjálpa
mönnum til þess að finna og rækja tómstundaiðju, sem er þeim allt í senn,
Iioll, gagnleg og skemmtileg.
Ég held að ríkisstjórnin hafi oft skipað óþarfari nefndir en þó hún tæki
nú rögg á sig og skipaði nú einu sinni ópólitíska úrvalsnefnd til þess að
athuga og gera tillögur til úrbóta um þessi mál.
22 SAMVINNAN