Spegillinn - 01.02.1949, Blaðsíða 4

Spegillinn - 01.02.1949, Blaðsíða 4
1B S PEG I LLI N N PÁFASTÓLLINN í Róm hefur borið það upp á rúmensku lögregluna, að hún hafi skotið prest einn til bana milli pistils og guðspjalls, og sé þetta satt, er páfastóllinn orðinn einskonar kjaftastóll. Þetta átti að hafa skeð áður en séra Jakob hélt ræðu sína, en þó vitum vér eigi, hvort hann hefur verið búinn að frétta þessar ófarir kollega síns, en það getur gert fjandans mismun uppá hugrekkið til að gera. Hvað sem því ann- ars líður, var hann eigi tekinn eins hátíðlega og sá i Rúmeníu, enda er Hallgrímssöfnuður sennilega ekki eins blóðheitur og hinir þar eystra. ÞINGBÓKASAFNIÐ í Washington á meðal annars alla biblíuna tekna upp á plötur, til af- nota fyrir blint fólk, og telst fróðum mönnum svo til, að það taki 85 klukkustundir að spila hana frá upphafi til enda, en þá eru víst apó- krýfisku bækurnar teknar með. Er þetta hagræði mjög notað af þing- mönnum, sem hafa fengið sér svo marga gráa, að þeir geta ekki lengur lesið, en þurfa hins vegar að slá um sig með ritningarstöðum. Er jafn- vel í ráði að búa til expressútgáfu, sem ekki tekur svo langan tíma að spila, handa þeim, sem hafa nauman tíma. TVEIR PÓLSKIR efnafræðingar hafa fundið upp að búa til nylonsokka úr torfi. Segir blaðið, sem vér höfum þennan fróðleik úr, að þeim hafi af hendingu tekizt að búa til karbólsýru úr torfinu, og leiðir þá einhvernhvem- veginn af sjálfu sér, að það sé einnig hæft til sokkagerðar. Ekki er þess getið í blaðinu — sem þó væri nauðsynlegt, hvort hér er átt við heytorf eða grasmerar — eða þá bara venjuleg vísindarit. STÚKAN JÖKULBLÓM í Ólafsvik hefur nýlega verið endurreist, og er þetta sjaldgæft, að heilar stúkur séu svo einhuga, að þær þurfi endurreisnar við, en hefur þó skeð áður. Sennilegt er, að meðlimirnir sleppi með eitthvað væg- ari kárínur, þegar þeir eru endumeistir þannig í heildsölu. ÍSLENZKIR skíðamenn eru nú sem óðast að fá boð um þátttöku í skiðamótum utan úr hinum stóra heimi. Mun það vera frammistaða þeirra ú Ólym- píuleikunum, sem gefur framandi þjóðum von um, að þeir geti hresst eitthvað upp á húmörið á væntanlegum skíðamótum, en sem kunnugt er lengir hláturinn lífið, og það hyggjast þjóðirnar færa sér í nyt á þennan hátt. í TÍMANUM lesum vér, að sæðingarstöðin á Hvanneyri sé nú tekin til starfa með fullum krafti og skilst oss, að í bili séu það einkum kýrnar, sem njóta góðs af. Segir i blaðinu, að tekið sé við pöntunum í síma alla virka daga. Þetta hefði forfeðrum vorum þótt galdur, en þeir þekktu heldur ekki spakmælið : „Bara hringja, svo kemur það!“ TRUMAN FORSETI hætti um sl. áramót að hafa sérstakan hermálaráðgjafa. Hafði hann erft einn, gamlan og aflóga, eftir Roosevelt, og varð reynslan af hon- um ekki betri en svo, að hann fleygði honum klukkan tólf á nýársnótt Og gaf Marsjall kaupið hans til að hjálpa einhverjum með. GIBSON, fyrrverandi foi’stjóri Englandsbanka, hefur sagt af sér því embætti og seinna öðru í viðbót, vegna þess, að það kom fram við rannsókn á mútumáli einu, að hann hefur látið júða einn gefa sér föt, og það skömmtunarmiðalaust (þar eð júðinn útti engan stofnauka 13). Oss finnst þetta nú ekki mikið. Mörg söguleg dæmi munu þess hér á landi, að embættismenn hafi þegið pelsa og ekki verið mikið að segja af sér fyrir það. Sýnir þetta hvað vér erum miklu meiri höfðingjar en Bretar. ÞRÍR KAUPSTAÐIR vorir, eða nánar tiltekið Akureyri, ísafjörður og Siglufjörður, hafa nýskeð gengið í svonefnt vináttusamband við tilsvarandi bæi, einn i hverju hinna Norðurlandanna, að Færeyjum undanteknum. Ætla þeir að nota til þess arna vináttu þá, er þeir hafa í mörg ár sparað heima fyrir, en svo langt hefur sá sparnaður gengið, að menn hafa ógjarna heilsað pólitískum andstæðingum. Ekki vitum vér, hvort það gerir nokkurt stryk í reikninginn, að ekki tókst samkomulag um varnar- bandalag Norðurlanda, en að minnsta kosti ættu þessir bæir að verða seinastir til með stríðsyfirlýsingar sínar, þegar þar að kemur. BEITUNEFND heitir ein ríkisnefnd, sem búin er að starfa nokkur ár, en enginn hefur heyrt getið um fyrr en nú, að landið er orðið beitulaust. Ætlar nefndin að sigla á fund frænda vorra Norðmanna og fala af þeim síld til að egna fyrir þorskinn með, þangað til H.f. Bæjarúlfur er kominn í stand til að anna eftirspurninni. ÁTTA MENN hafa verið dómkvaddir til að upplýsa menn, sem kaupa og selja bíla, um svartamarkaðsverðið á þessum ágætu farartækjum. Fær hver þeirra 50 kall fyrir þessar upplýsingar, en sem betur fer komast ekki nema tveir að hverjum bíl, nema ef strætó eiga í hlut, þá mun víst ekki veita af öllum átta. VÍSINDAMENN í útlandinu hafa komizt að þeirri niðurstöðu, eftir langvarandi rannsóknir, að hávaxnir menn séu greindari en lágvaxnir. Vér höfum borið þetta undir Hjörvar, og kveður hann það vel mega rétt vera, og séu að minnsta kosti nægar undantekningar til að sanna regluna. ÍSLENZKA RÍKIÐ hefur nýskeð gefið 20 amerískum háskólum um 25 tegundir steina og bergtegunda íslenzkra. Margir hafa brotið heilann um ástæðuna til þessa höfðingsskapar, en vér hyggjum, að leikurinn sé gerður til þess að ekki verði hægt að segja eftir á, að vér höfum selt allt landið, en það er ekki hægt, ef vér höfum sannanlega gefið nokkuð af því. S. í. B. S. hefur fengið frumvarp inn á Alþingi, að því skuli leyft að stofna vöruhappdrætti, með einkaleyfi til 10 ára. Virðast happdrætti ætla að fara að verða aðalatvinnuvegur landsmanna og ríkissjóðs, og er vel farið, þegar allir aðrir bregðast. Rekur brátt að því, að landsmenn fari að lifa hver á öðrum, en fyrir hálfum mannsaldri voru það aðeins Borgnesingar, er það gerðu.

x

Spegillinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spegillinn
https://timarit.is/publication/349

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.