Vikan - 23.11.1939, Blaðsíða 4
4
VIK A N
Nr. 47, 1939
U M LOFTHERNAÐ:
Vígflugur og sprengjur.
Einhverjum lesendum VIKUNNAR
kann að þykja fróðleikur að kynnast
svolítið vígflugunni, hinu geigvæn-
lega vopni nútímahernaðar, sem nota má
með feikna árangri gegn allri alþýðu,
einkanlega í stórborgum.
I Danmörku eru nú gerðar allar hugsan-
legar ráðstafanir til að vernda líf og eignir
almennings, EF svo illa kynni að fara, að
ófrið bæri að garði, en þó í fullu trausti
þess, að svo verði ekki.
Á námskeiði í Kaupmannahöfn, kynntist
ég ýmsu aðlútandi lofthernaði, nánar en
venjulegt er að friðsömum borgurum gef-
ist kostur á í hlutlausu landi. Skal hér
reynt að gera grein fyrir nokkrum atrið-
um, sem telja má lítt kunn öllum þorra
manna á Islandi.
Þegar heimsstyrjöldin hófst árið 1914,
voru flugvélar enn á reynslualdri. Það þótti
afrek að setjast í slíkt galdratæki og hef ja
sig til flugs, enda voru flugtæki þeirra tíma
nokkuð óviss í gangi. I þeim löndum, er
þátt tóku í styrjöldinni miklu, voru í upp-
hafi stríðsins aðeins til um 400 flugvélar
alls, en ekki leið á löngu, áður en menn sáu,
að þær gætu orðið að afarmiklum notum í
hernaði.
Stórþjóðirnar tóku því að endurbæta vél-
amar, gera þær gangvissari, hraðskreið-
ari og styrkari, — og juku framleiðsluna
eins og unnt var. Að heimsstyrjöldinni lok-
inni, vom til í sömu löndum um 15000
flugvélar, þrátt fyrir það, að þúsundir
flugvéla hefðu eyðilagzt á stríðsámnum.
Þetta þótti afar mikið, — en nú er svo
komið, að England eitt framleiðir um 1000
flugvélar á mánuði, — og öll lönd auka
framleiðslu sína eftir mætti.
Vígflugur eru tvennskonar, og mun ég
nefna þær sprengjuflugur og varðflugur.
Sprengjuflugurnar eru stórar, þungar,
brynvarðar flugvélar, með miklu burðar-
magni. Þær eru hlaðnar sprengjum og ben-
zíni eftir vissu hlutfalli: — í stuttar ferðir
margar sprengjur, en minna af benzíni, en
öfugt, ef um langferð er að ræða. Flug-
hraði þessara dreka er nú orðinn 400 kíló-
metrar á klukkustund með fullfermi.
Auðvitað er gott, að hraðinn geti orðið
sem mestur, því þeim mun vandasamara
er fyrir varnarliðið að hitta þær, — en
hins vegar ber að athuga, að eftir því sem
flughraðinn eykst, verður meiri vandi fyrir
flugmennina að hæfa ákveðið mark með
sprengjum, vegna þess að um leið og
sprengjunni er varpað fyrir borð, þýtur
hún áfram með sama hraða og flugvél-
in. — Eftir því sem hraði flugdrekans
er meiri, þeim mun lengra þýtur sprengj-
an áfram, áður en hún fellur til jarðar.
Þannig má taka sem dæmi, að sprengju-
Eftir Gunnar Kaaber.
fluga, sem ætlaði sér t. d. að hæfa póst-
húsið í Reykjavík, en er í 2000 metra hæð,
og flughraði 400 km. á klst., yrði að sleppa
sprengjunni við Elliðaárnar.
Þess vegna gefur að skilja, að það þarf
meira en æfingu til að hæfa í mark, enda
geta loftstraumar aukið óvissuna. Til þess
að hægt sé að gera sér ákveðna von um
að hitta, verður því að varpa fleirum en
einni sprengju, en þar sem þær eru afar
dýrar, verður umfram allt að kosta kapps
um, að markið sé þess virði, að svona mikið
sé fyrir því haft, — því jafnvel í stríði,
þar sem milljónum er sóað daglega til
manndrápa og eyðilegginga, verður að
gæta sparnaðar. —
Sprengjurnar eru þrennskonar: tundur-
sprengjur, íkveikjusprengjur og eiturgas-
sprengjur, og skal þeim nú lýst nokkuð.
Tundursprengjur eru af mörgum stærð-
um. Þeim er raðað eftir þunga. Þær
minnstu eru um 5 kg., en þær stærsu um
500 kg. — Þegar gera skal árás á vígi eru
flugvélarnar hlaðnar fáum, en þungum
sprengjum. En ef um óvarðar borgir er að
ræða, eru venjulega hafðar margar minni.
Sprengjurnar eru flatbotnaðar og
mjókka fram eftir. Hylkið er afar þykkt,
og fyllt sprengiefnum, en í oddinum er
tundrið. Við sprenginguna mölbrotnar
hylkið, og molarnir þeytast með ofurafli,
en þeir eru úr sögunni, ef þeir hitta sterk-
an vegg eða annað.
Tundursprengjur geta valdið voðatjóni á
húsum og mönnum. — Þó er það, sem
betur fer svo, að tiltölulega fáar mann-
eskjur verða fyrir þeim og bíða af bana.
T. d. hefir fróður maður talið, að í
umsátrinu um Madrid á dögunum, hafi
ekki fleiri dáið af völdum tundursprengja
en áður dóu af umferðaslysum í borginni.
Ikveikjusprengjur eru litlar og léttar, en
aftan í þeim er stýri, sem heldur þeim á
réttum kili. Þær þjóta því sem næst há-
vaðalaust gegnum húsþök, og lenda venju-
lega á gólfi efstu hæðar húsanna og kvikn-
ar þar í þeim. Brenna þær þá upp til agna,
því þær eru gerðar úr eldfimum málmi.
Hitinn frá þeim kemst upp í 2000—3000
stig, en það er nóg til þess að kveikja í
öllu, sem brunnið getur.
Það er tiltölulega lítill vandi að verjast
bruna af þessum sprengjum, ef strax eru
gerðar ráðstafanir til þess, eins og síðar
skal sagt frá.
Eitursprengjur líkjast mjög tundur-
sprengjum að útliti, en eru minni. Hylki
þeirra er úr þunnum málmi, og tundrið
er fyllt eiturefnum, er losna úr læðingi við
sprenginguna og verða að þokumekki eða
ósýnilegri gufu, sem er að meiru eða minna
leyti banvæn öllu lifandi, ef eiturefnið fær
notið sín að fullu, — en það er ekki ætíð.
Eitursprengjur eru þeirrar náttúru, að
með þeim má bókstaflega „skjóta fyrir
horn“, — því þegar mökkurinn rekst á
vegg eða annað, sem tálmar hann, breyt-
ir hann stefnu og heldur áfram nýja leið.
Eiturgas er í sjálfu sér svo markvert fyrir-
brigði, að um það má mikið rita. — Ég
mun síðar reyna að skýra lítilsháttar frá
ýmsum tegundum þess og eiginleikum. —
Og svo eru það varðflugumar. Þær eiga
að elta uppi sprengjuflugurnar, ráðast á
þær með skothríðum á alla vegu, til þess
að ráða niðurlögum þeirra, eða gera þær
afturreka. Varðflugurnar verða því að vera
léttari á sér en sprengjuflugurnar, og fljót-
ari í snúningum, enda er hraði þeirra enn
meiri en hinna, — þær fara með 450 km.
hraða á klst., og eru þær vopnaðar vél-
byssum og léttum fallbyssum, auk annars
útbúnaðar.
Loftvarnabyssur eru notaðar á jörðu til
að skjóta niður vígflugurnar. Árið 1914
var talið, að til þess að hitta vígflugu
hættulega, þyrfti að meðaltali um 1000
skot, en nú hafa þessi vopn verið bætt svo
mikið, að talið er, að tíunda hvert skot
hitti í mark. — Þegar óvinafluga nálgast,
er með sérstökum tækjum mældur hraði
hennar og flughæð, — byssunni miðað í
áttina til hennar, — og svo fylgir byssu-
hlaupið vígflugunni nákvæmlega eftir, um
leið og hún spýr skotum, án þess að við
henni sé hreyft með mannahöndum. —
Það er hörmuleg tilhugsun, að stórþjóð-
irnar leggja sig allar fram til þess að drepa
og eyðileggja; mestu hugvitsmenn heims-
ins fullkomna tæknina, og vísindin eru
tekin til hjálpar, milljörðum kastað á glæ,
—til að drepa. — En þó koma fyrr eða
síðar friðartímar, og þá munu menn eins
og fyrr notfæra sér margt af því, sem
upp var fundið til niðurrifs og manndrápa,
í þjónustu nýrra framfara í þágu mann-
kynsins.