Heima er bezt - 01.07.1960, Blaðsíða 11
lúpulegir, og sögðust nú hættir við að fara. Þá hafði
þóf þetta gengið lengi dags.
Þetta sýnir vel, hversu laginn Stefán gat verið. Ég
þekkti þá báða svo vel, Boga og Magnús, og var búinn
að reyna svo mikið til að snúa þeim frá þessu, að ég
átti bágt með að trúa því, að Stefáni tækist að telja þeim
hughvarf. Það kom líka brátt í ljós, að hann hafði orðið
að lofa þeim sérstökum fríðindum. Hann hafði lofað
þeim sérstöku, litlu herbergi í húsi sínu, til þess að lesa
í á daginn, en það var herbergi Margrétar Jónsdóttur
frá Spónsgerði, sem þá var einkaþerna þeirra hjóna, og
gaf þetta fúslega eftir, svo að sættir tækjust.
Stefán hafði sagt þeim félögum, að þeir gætu nú vel
verið þrír þarna, þótt krubban væri lítil. Þeir tóku vel
í það, og buðu mér strax í félagið með sér. Það fór þá
svo, að ég bara græddi á þessum gorgeir þeirra. Þó er
það óvíst, því ég sofnaði oft í legubekknum þarna, sem
við hvíldumst í til skiptis, en einn las, þá fyrir alla.
Hinir gerðu það víst aldrei að sofna. Þeir voru líka á-
kveðnir í að lesa undir ágætiseinkunn, og náðu henni
báðir.
Þetta fór nú allt að óskum Stefáns, að lokum, og
báðir bekkir tóku próf þama um vorið. Neðribekkjar-
prófið var víst einum hálfum mánuði fyrr. Var þá enn
köld tíð, og mun hafís hafa rekið inn á Eyjafjörð um
það leyti.
Mig minnir að neðribekkingar yrðu að sitja við sitt
próf í leikhúsinu í yfirhöfnum með fingravettlinga, ef
til voru, svo var kuldinn þá mikill á sumarmálum. Þeir
stóðust allar þrautir enda var engin mysa í íslenzkri
sveitaæsku um þær mundir.
Þegar kom að okkar prófi efribekkinga, var tíð tek-
in að hlýna, enda komið fram í maí. Var þá engin
þraut að taka próf úti í leikhúsi fyrir kulda sakir. Samt
var Eyjafjörður fullur af hafís inn að Hjalteyri eða þar
um bil, að mig minnir, en þar fyrir innan var lagís inn
úr gegn. Man ég það, að ég fór ríðandi inn á Akureyri
í apríl seint, á jörpum hesti, sem Stefán gamli, faðir
Stefáns kennara, lánaði mér. Þá reið ég eftir firðinum
alla leið frá Glæsibæ.
Stefán gamli hafði beðið mig að fara vel með hest-
inn, eins og venja er. Samt gat ég ekki stillt mig um að
ríða vel liðugt út fjörðinn, og reyndar alla leið heim,
því að klárinn var þá heimfús, og ég víst eitthvað hress
af Drottins tárum. Ég bjóst nú við, er heim kom, að ég
mundi fá skömm í hattinn fyrir meðferðina á Jarp, því
að hann var kófsveittur. En gamli maðurinn sagði, að
hann væri prýðilega útlítandi. Sá ég þá, að Skagfirðing-
um blöskraði ekld allt. Annars verð ég að segja það, að
ég á einkar góðar og hlýjar minningar um þennan
bændaöldung frá Heiði í Gönguskörðum.
Strandferðaskipið Hólar kom inn á Eyjafjörð þetta
vor 1902, rétt á undan hafísnum, en komst ekld inn á
Akureyrarhöfn vegna lagíss. Það lá því í klemmu milli
hafíss og lagíss víst í einn hálfan mánuð. Skipið lá við
austurlandið í firðinum, ofurlítið utan en Möðruvellir,
að mig minnir, og vel sáum við það dag hvern þaðan
að heiman. Við óskuðum þess af alhug, austanmenn, að
það losnaði ekki fyrr en við hefðum lokið prófi, svo að
við gætum komizt með því heim. Skipið gekk þá milli
Akureyrar og Reykjavíkur austur um land. Þessi ósk
rættist. Síðasta prófdaginn okkar tók hafísinn að lóna
út, en þíða var, og Hólar tóku að saga sér rauf til Ak-
ureyrar, og komust þangað um kvöldið. Við urðum
því að leggja gangandi inn á Akureyri um kvöldið eða
öllu heldur nóttina, eftir að hafa setið við prófborðið
með sveittan skallann mestailan daginn.
Svo var eftir að kveðja allt heimilisfólkið, sem hafði
reynzt okkur alveg sérstaklega vel, einkum eftir hrak-
farir skólans.
Stefán sagðist nú hafa ætlað að hafa svolítinn glaðn-
ing við þessi skólaslit, en við austanmenn gátum alls
ekki beðið eftir því. Við urðum að fara strax, svo að
við misstum ekki af skipinu. Stefán gaf okkur nú samt
góða hressingu áður en við lögðum af stað, og árnaði
okkur allra heilla. Kvaðst hann skyldi senda okkur
prófskírteinin með fyrstu ferð.
Ég man það enn í dag, að síðast kvaddi ég þetta
kvöld á Möðruvöllum vinnukonu þar, sem kölluð var
Gunna nunna. Ég hafði nú víst ekki verið henni sérlega
góður, því að hún þótti ekki ungum sveinum aðlað-
andi um þær mundir og tekin að reskjast. En hún erfði
þetta ekki við mig, því að nú fór hún með mig inn
í búr og gaf mér mjólk að drekka eins og ég vildi. Þetta
kom mér mjög vel, og ég bið nú guð að launa henni.
En ég er ekki viss um, að ég hafi haft vit á því þá. Guðs-
trúin kemur með aldrinum, eða trú á æðri völd, ein-
hverja stjórn.
Ég vil enn bæta við þetta rabb smávegis minningum
um einstök atriði.
Þá er fyrst þess að geta, að Magnús Sigurðsson fór
inn á Akureyri á laugardaginn fyrir páska, þegar lokið
var þjarkinu við Stefán, og sættir höfðu tekizt. Hann
átti brýnt erindi, sem ég nú man ekki hvað var. Með
honum fór að minnsta kosti einn piltur úr neðri bekk,
sem ég man eftir. Það var Einar Björnsson úr Breiðdal,
áður nefndur. Þeir komust seint af stað, því að samn-
ingarnir tóku alllangan tíma. Þá var ekki siður að gista
innfrá, peningaráðin lítil. Þeir komu því ekki heim fyrr
en eftir háttatíma.
Ég vakna við það í flatsænginni á kirkjuloftinu, að
Olafur Davíðsson er að beygja sögnina að kala: ltala,
kól, kæli, kalið, en hann var íslenzku kennari okkar um
veturinn. Það hafði sem sé komið í ljós, er Magnús vildi
færa sig úr fötum hljóðlega, að sokkaplöggin voru fros-
in við fæturna og náðust ekki af.
Þeir höfðu tekið eftir því, er þeir komu, að ljós var
á skrifstofu Stefáns. þeim datt því í hug, að þeir Stefán
og Ólafur væru ef til vill á fótum enn. Einar tók það
ráð að leita til þeirra, og tjá þeim hvernig komið væri
fyrir Magnúsi. Ólafur var að minnsta kosti þarna, og
kom þegar út í kirkju, til að sækja Magnús. Þeir Einar
báru hann nú inn í borðstofu okkar. Kvaðst Ólafur
Heima er bezt 227