Heima er bezt - 01.04.1963, Page 26
FJÓRTÁNDI HLUTI
„Ég man ekki, hvað ég var marga daga á leiðinni, ég
man það ekki, hvernig á ég að muna það, ha? Ég man
bara eftir því, að allt í einu var ég staddur í birtu, ja
— hvar? Já, hvar var ég staddur? Hvernig á ég að vita
það fyrir víst? Ég hafði legið úti um nóttina og þá var
hvassviðri. En í birtingu var ég staddur, ég held helzt
það hafi verið undir Stapa, já, undir Arnarstapa, segi
ég. Og það var í birtingu, áreiðanlega í birtingu, og
farið að lygna, ha? Og hvað sá ég þá? Já, veiztu hvað
ég sá? Ég sá skip í vari, rétt hjá landi, kolaskipið, heyr-
irðu, kolaskipið, það var þarna, eins og það væri komið
til að sækja mig. Ég var ekki svo mjög hissa á því, stund-
um er maður heppinn, ha? Ég vissi, að það var sarna
skipið og kom sumarið áður, svo ég þekkti það. Ég var
sannfærður um, að það væri á leið til Reykjavíkur og
vildi fyrir hvem mun nota tækifærið og fara með því.
Já. Það verður gaman að sjá hana Möngu, þegar hún
sér mig koma með skipinu, sagði ég við sjálfan mig, ha?
Það sagði ég. Ójá. Svo fór ég að gala í skipið og veifa.
Það anzaði enginn, þó var það ekki nema nokkra faðma
frá landi og orðið nokkuð bjart. En ég hætti ekki, ónei,
ég hætti ekki. Ég kallaði og kallaði og veifaði kúmum.
Einhver var að ganga um dekkið, svo ég herti á köll-
unum. Loksins reri maður í land til mín. Hann ætlaði
ekki að vilja fara með mig um borð, en ég lét ekki und-
an, ha? ég lét ekki undan, segi ég, ríghélt í bátinn. Við
skildum hvorugur það, sem hinn sagði. Skipherrinn,
sagði ég svo, skipherrinn, já, skipherrinn. Þá þorði dón-
inn ekki annað en gefa sig, eða var það kannske af því,
að ég lét hann hafa spesíu, ha? Nema þegar ég var kom-
inn um borð, þá fór ég ekki til skipherrans, skilurðu,
nei, ég fór ekki til skipherrans. Hann var heldur ekki
kominn á fæmr, ekki kominn á fætur. Ónei. Og nú ætl-
aði ég að vera klókur, já. Ég læddist aftur á skip svo
lítið bar á og leitaði mér að góðum felustað. Ég óttað-
ist, að yfirmennirnir myndu ckki vilja leyfa mér að
fara með skipinu til Reykjavíkur. Svo ég ætlaði að fela
mig og ekki gefa mig fram, fyrr en við værum komnir
hálfa leið. Þá vissi ég, að þeir myndu ekki henda mér
út. Og ég fann góðan felustað, tróð mér undir segl. Mér
fannst það bara notalegt. Ég fékk mér góðan sopa úr
kútnum og breiddi ofan á mig. Mér leið bara vel, ójá.
Svo sofnaði ég.“
Nú nam Páll staðar í frásögunni og tók upp pyttlu
sína og saup vel á, velti henni fyrir sér og athugaði lögg-
ina, sem eftir var. Lét hana svo aftur í vasann og hélt
áfram með söguna:
„Ég veit ekki, hvað ég var búinn að sofa lengi, þegar
ég vaknaði við það, að það var rifið ofan af mér. Mér
varð ónotalega bilt við í svefnrofunum, ójá, en þeim
varð þó enn biltara. Einn þeirra varð svo hræddur, að
hann æpti, ha? Ég áttaði mig ekki strax á, hvað um var
að vera eða hvar ég var, ónei, ekki strax. Svo sagði ég:
„Ég er mann, mann, ójá, ekki draugur.“ ........ Þeir
gláptu á mig. Ég brölti á fætur, ég var alveg að drep-
ast úr kulda. Ég skalf og hristist, það glömruðu í mér
tennurnar. Ekki að orðlengja það. Mér var gefið heitt
að drekka og færður úr blautu, látinn upp í rúm. Ég
sá að skipið var komið út á rúmsjó, sást hvergi til lands.
Gat ekki hugsað urn það. Svo sofnaði ég og svaf lengi,
ójá, ég veit ekki hvað lengi. Nema þegar ég vaknaði,
var ég kominn út í hafsauga. Hvað átti ég að gera?
Ekki gat ég snúið við skipinu. Ég sá nokkuð seint, að
það var á leið til útlandsins, en ekki til Reykjavíkur.
Svo ég varð að gera lykkju á leið mína, þýddi ekkert
að mótmæla, ha? Svo var ég kallaður fyrir skipherrann.
Eftir langa mæðu skildist mér hann vera að spurja mig,
hvernig ég hefði komizt um borð. Ég sagði eins og var.
142 Heima er bezt