Heima er bezt - 01.04.1985, Síða 12
fatnaði og plöggum og hvarf með það
á brott. Nokkru síðar kom hún aftur,
ásamt Steina litla, og höfðu þau þá
meðferðis bakka með smurðu brauði
og heitu tevetni, ásamt laki og verum í
rúmið, sem konan bjó um mér til
næturhvíldar. Ég gerði því, sem fram
var reitt, góð skil, því svangur var ég
orðinn og kom vel heitur drykkurinn.
Stakk ég mér síðan í hvíluna, en þau
hurfu út úr herberginu með sitt dót.
Mér þótti nú furðu vel hafa skipast
um minn hag, hvað sem morgundag-
urinn bæri í skauti sínu, en mér leið
þarna vel eins og á stóð, sofnaði fljót-
lega og svaf vært og draumalaust til
morguns.
9
Botníu seinkar um 10
daga. Hugmyndin að
stofnun Framsóknar-
flokksins í fæðingu?
Ég var rétt nývaknaður, og skíma sást
í glugga, þegar Steini litli kom inn til
mín með ytri fötin mín, alveg þurr, og
klæddist ég þeim hið skjótasta. Eftir
litla stund kom hann aftur og hafði þá
meðferðis kaffi og brauð mér til
morgunverðar, sem ég neytti með
góðri lyst. Ég hafði kvöldið áður á
ferðalagi okkar Steina um Seyðis-
fjarðarbæ sagt honum, að ég ætti þar
á afgreiðslu e/s Sterlings farangur
minn, þar með rúmfatnað. Hann
sagði bezt að ná í þetta, því ég gæti
fengið að vera í þessu herbergi, með-
an ég biði eftir Botníu, en betur kæmi
sér, að ég notaði mín rúmföt, úr því ég
hefði þau handbær. Einnig sagði
hann, að óskað væri eftir, að ég gæti
fengið mér fæði annars staðar, og
mundi ekki ómögulegt, að það væri
fáanlegt á gistihúsinu, þó gistirúm
væri þar allt upptekið.
Steini litli náði nú einhvers staðar í
handkerru, og með hana héldum við
suður á Búðareyri að sækja farangur
minn, sem var koffort og rúmfatapoki
og gekk það fyrirstöðulaust, en búið
var að nema burt úr rúmstæðinu
rúmfötin, sem ég svaf við um nóttina,
svo ég gat strax gengið frá mínum þar.
Hafði ég svo herbergið fyrir mig þá tíu
daga, sem ég beið þarna eftir Botníu.
Ég fékk að vita það síðar hjá Steina
litla, að þetta var herbergi rosknu
konunnar, sem var systir Þorsteins
eldra og ráðskona hans, en móður-
systir Steina litla. Ekkert veit ég fyrir
víst, hvar konan hafðist við, meðan ég
svaf í herberginu hennar, enda spurði
ég ekki um það, en mig grunaði, að
hún hefði flutt í herbergið til Steina
litla. Ég sá hana aldrei þessa daga,
sem ég dvaldi þarna, frá fyrsta
morgninum, sem áður er frá sagt, til
kvöldsins, þegar ég fór um borð í
Botníu sem síðar verður getið.
Þegar við Steini litli sóttum farang-
urinn minn á afgreiðsluna, komum
Seyðisfiörður
1916
Myndin er tekin sama ár og
Hólmsteinn beið eftir Botníu á
Seyðisfirði í 10 daga.
Goðafoss leggst þarna að
Garðarsbryggju, en hann strand-
aði við Straumnes skömmu síðar.
Þetta var á heimsstyrjaldarárun-
um fyrri og fyrir neðan nafn
skipsins á hlið þess stendur stærri
stöfum: DANMARK.
við á gistihúsið Skaftfell, sem var í
leiðinni, og spurðum um fæði fyrir
mig. Það var fyrirstöðulaust að fá þar
keyptar lausar máltíðir að vild. Gekk
ég því þangað daglega til að matast,
en keypti sjaldan nema eina máltíð á
dag, af sparnaðarástæðum, en keypti
mjólk á bóndabýlinu Firði, sem var
stuttan spöl frá Öldunni, nær fjalls-
hlíðinni. Ég fór þangað daglega með
þriggja pela flösku og fékk mjólk á
hana, og kostaði það 15 aura í hvert
sinn, en brauð fékk ég í brauðgerðar-
húsi, ekki heldur langt í burtu. Kaffi
drakk ég ekki þessa daga, en fann
ekki, að ég saknaði þess.
Þarna á Skaftfelli, sem ég borðaði
miðdegisverð minn, var marga að
fæða um þessar mundir, miklu fleiri
en þar voru til gistingar. Þarna voru
m.a. nokkrir alþingismenn af Norð-
urlandi og Norður-Múlasýslu, og ekki
sátu menn þama þegjandi, en lítinn
þátt tók ég í þeim umræðum, sem þar
fóru fram.
Þorsteinn M. Jónsson telur, að
þarna hafi fæðzt hugmyndin að
stofnun Framsóknarflokksins, sem
varð að veruleika á þessum í hönd
farandi vetri, og má hann gerst um
það vita, þar sem hann var meðal
gestanna þarna, þá nýkjörinn al-
þingismaður á fyrstu ferð sinni til Al-
þingis, glæsilegur ungur maður, sem
dró að sér tilheyrendur. Ég kynntist
honum ekkert þá, enda tók ég lítinn
þátt í því, sem þarna var spjallað.
124 Heima erbezt