Heima er bezt - 01.04.1985, Side 32
RAFN JÓNSSON:
PERLUR í MOLD
5. HLUTI
Bensi bauð Danna að vera hjá sér.
„Hún Ranka hefur svo gaman af að spjalla við gesti,“
sagði hann hlæjandi. „Svo er það nýja kaupakonan mín,
hún Sóley. Þér ætti ekki að leiðast.“
Daníel þekkti Ragnheiði í Klettakoti ekki mikið, rétt að
hann vissi, hver hún var, en einhvern veginn hafði það
komizt inn hjá honum, að hún væri skrýtin persóna. Nú sá
hann hins vegar, að þetta var vitleysa, rakin illgirni. Hún
var indælis kerling, hún Ranka, en nágrannakriturinn var
allajafnan fyrir hendi. Og í þessari sveit nálgaðist hann
fjandskap annað slagið. Ranka varð óþægilega fyrir
hnútukasti þessa fólks. Þess vegna var hún á verði gagnvart
þeim, er ókunnugir voru, enda fann hann það fyrst í stað.
En fljótlega breyttist þetta, og hún varð glaðleg og kát. Þau
fundu alltaf eitthvað til að ræða um, veðrið, atburði liðins
dags eða eitthvað, sem hafði skeð í fyrra, nú, eða árið þar
áður.
Sóley sat oft hjá þeim og hlustaði á tal þeirra. Hún var
alvörugefinn unglingur, fannst Danna, næstum því þung-
lyndisleg annað slagið.
„Átt þú engin systkini?" spurði hún eitt kvöldið.
„Jú. Ég á eina systur,“ ansaði hann.
„Er hún eldri en þú? — hafið þið alist upp sitt í hvoru
lagi? Þið þekkist kannski ekki mikið, á ég við.“
„Þetta er alveg rétt. Hvernig veistu þetta? sagði Ranka
þér það eða Bensi?“ spurði Daníel.
„Ég veit ekki, hvernig ég fór að því að vita þetta, en þau
hafa aldrei minnst einu orði á þig. I rauninni vissi ég ekki,
að þú værir til, fyrr en í vor, þegar ég kom að Hól.“
„Hvað voru þau að ræða um mig, blessað fólkið?“ spurði
hann.
Sóley brosti, og honum varð hálfhverft við. Það var eitt-
hvað honum áður óþekkt við þetta bros. Hann varð ekkert
uppvægur, honum leið ekki heldur neitt illa, en sérkennileg
kennd greip hann, eitthvað alveg framandi.
„Það minntist enginn á þig, en áttir þú ekki svartan hund
í fyrra, sem hvarf? Vissir þú nokkurn tíma, hvað varð af
honum?“ spurði hún.
Hann starði á hana og þagði.
„Nei. Ég veit ekkert, hvernig hann tapaðist, en einn
daginn var hann horfinn. Enginn hefur getað sagt mér neitt
um það.“
„Viltu lofa mér að segja engum frá því, ef ég segi þér
það?“spurði hún.
„Auðvitað. Það kemur engum við nema mér. Ég átti
hundinn,“ svaraði hann.
„Jú, Daníel. Það kemur fleiri við en þér einum. Svona
lagað kemur öllum við. Hann var lokaður inni í votheys-
gryfju og grýttur í hel.“
„Hver gerði það, ef ég mætti spyrja?“
„Þau.“
„Þau hver?“
„Systkinin á Hól. Barði skammaði þau, en það var of
seint, — næstum því ár liðið síðan.“
„Hvernig í ósköpunum gast þú komist að þessu? Ertu
kannski skyggn eða býrð yfir einhverjum sagnaranda?“
Sóley brosti enn, og honum varð einkennilega innan-
brjósts.
„Ég hef alltaf verið svona, man ekki eftir mér öðruvísi.
Ég er sögð skrýtin, ekki eins og fólk er flest, fáviti og allt þar
fram eftir götunum, en mér er að verða alveg sama um það,
því ég finn, að ég veit oft miklu meira en hitt fólkið. Þetta á
sínar eðlilegu orsakir. Sumum er gefið að sjá og heyra það,
sem öðrum er hulið, rétt eins og einhver er heimskur, en
annar góðum gáfum gæddur, eða þá að Pétur er ljóshærð-
ur, en Páll svarthærður.“
„Sérðu þá fyrir óorðna hluti“ spurði hann.
„Já, það kemur fyrir, en ég á svo bágt með að sætta mig
við það. Ég sá strax, að það var bjart yfir bænum, þar sem
þú átt heima. Það fylgir þér birta. Hún er ólík annarri birtu,
sem fylgir fólki. Hún er svo langt í burtu, — ég meina,
komin úr mikilli fjarlægð, og það stafar frá þér annar litur
en frá öðrum, er ég hef séð.“
-,,Já! Er ég þá ekki eitthvað skrýtinn?“ spurði Daníel
hlæjandi.
„Nei. Það eru hinir, þeir, sem telja sig eins og annað fólk.
144 Heima er bezl