Vísbending


Vísbending - 03.04.2009, Blaðsíða 3

Vísbending - 03.04.2009, Blaðsíða 3
V í s b e n d i n g • 1 4 . t b l . 2 0 0 9 3 Á árunum 1959 til 1971 var ráðist í viðameiri umbætur á stjórn efnahagsmála á Íslandi en dæmi voru um hér á landi. Hér verður leitast við að greina helstu forsendur sem lágu til þess að í róttækar endurbætur var ráðist af meiri harðfylgni og með betri árangri en áður. Ekki áætlunin að segja sögu viðreisnar, þeirra margþættu umbóta sem gerðar voru á stjórn efnahagsmála í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á þessum árum. Ekki verða heldur rakin í einstökum atriðum þau áform sem uppi voru, framkvæmd þeirra og niðurstöður. Frelsi í stað verndar Það er stundum litið svo á að stefna frjálsræðis á innlendum mörkuðum og í viðskiptum landa á milli hafi komið til skjalanna í Evrópu þegar í styrjaldarlok. La deuxieme belle epoque, eins og sá tími hefur verið nefndur, hafi sprottið fram úr styrjöldinni eins og Aþena úr höfði Seifs. En þetta var ekki svo. Þvert á móti má telja að þær fyrirætlanir sem mótuðust á styrjaldarárunum og í styrjaldarlokin hafi í flestum eða öllum löndum Vestur- Evrópu borið blæ þeirra hugmynda um afskiptasama opinbera stjórn efnahagsmála sem fram höfðu komið á kreppuárunum fyrir styrjöldina. Þar við bættist að víðtæk og bein opinber stjórnun í flestum greinum, sem tíðkast hafði á meðan á styrjöldinni stóð, var ekki felld niður í einu vetfangi heldur hélst víðast hvar í veigamiklum atriðum út fimmta áratuginn og jafnvel fram á þann sjötta. Opin og mikil viðskipti á milli landa voru ekki áhersluatriði í Vestur-Evrópu í styrjaldarlok. Í raun fékkst hvert land um sig við að móta áætlanir um fulla atvinnu og aukna velferð án ráðagerða um frjáls og aukin viðskipti sín á milli. Það er ekki fyrr en Marshall-áætlun Bandaríkjanna kemur til sögunnar sem þessi viðhorf breytast með róttækum hætti, en um sama leyti koma hugmyndir Ludvigs Erhards um félagslegan markaðsbúskap til framkvæmda í Þýskalandi og fyrstu drögin eru lögð að þeirri samvinnu helstu meginlandsríkjanna sem leiddu til Rómarsamningsins. Forsendur viðreisnar - Fyrri hluti - Jónas H. Haralz hagfræðingur Ísland fylgdi ekki straumnum Þær hugmyndir um nýsköpun atvinnulífsins á grundvelli beinna opinberra aðgerða sem urðu til hér á landi á styrjaldarárunum, og þær tillögur um víðtæk opinber afskipti til að framkvæma þær fyrirætlanir sem hagfræðinganefndin svokallaða lagði til árið 1946, voru ekki í ósamræmi við það sem efst var í baugi í nágrannalöndum okkar um sama leyti. Þegar til veðrabrigðanna kemur erlendis, fylgja Íslendingar hins vegar ekki með straumnum Þeir koma sér undan því að hlíta skilyrðum Marshallaðstoðarinnar um frjálsa verslun og láta kröfur um rétta gengisskráningu sem þátttaka í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum byggðist á sig engu skipta. Þáttaskil verða ekki hér á landi fyrr en með heimsókn Benjamíns Eiríkssonar 1949, en þá sannfærðust leiðtogar Sjálfstæðisflokksins, þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson, um gildi hinna nýju viðhorfa, sem raunar voru í góðu samræmi við upphaflega stefnu flokks þeirra. Jafnframt verður Ólafur Björnsson, prófessor, samstarfsmaður Benjamíns við athuganir og tillögur um efnahagsmál og eindreginn talsmaður nýrrar stefnu, en slíka afstöðu hafði hann ekki talið tímabæra er hann átti sæti í hagfræðinganefndinni nokkrum árum áður. En sinnaskiptin urðu að ná lengra en til borgaralegra stjórnmálaflokka og samtaka vinnuveitenda, ef að gagni áttu að koma. Þau þurftu að ná til stjórnmálaflokka á vinstri vængnum og, að minnsta kosti að einhverju leyti, til samtaka verkalýðs og annars launafólks. Þetta tók hins vegar sinn tíma. Gylfa snýst hugur Í bók sinni Viðreisnarárin segir Gylfi Þ. Gíslason að um miðjan sjötta áratuginn hefðu ný sjónarmið tekið að festa rætur innan Alþýðuflokksins í kjölfar þeirrar þróunar sem átt hafði sér stað í nágrannalöndum okkar. Flokkar jafnaðarmanna hefðu þá verið farnir að líta öðrum augum á gildi markaðsbúskapar og frjálsra viðskipta sem og á hlutverk ríkisins í efnahagsmálum en áður hafði verið gert. Það má fara nærri um að tengsl Alþýðuflokksins við bræðraflokkana á Norðurlöndum og samskipti við forráðamenn þeirra flokka hafi stuðlað að þessari breytingu. En einnig skipti það miklu að Gylfi Þ. Gíslason, sá ráðherra í stjórn Hermanns Jónassonar er annaðist málefni OEEC, komst í nána snertingu við þær viðræður sem fram fóru í París um sameiginlegt viðskiptasvið álfunnar og var annt um að Ísland yrði ekki utangarðs í þeim fyrirætlunum. Um þetta segir Gylfi í fyrrnefndri bók sinni: „Ég gerði mér ljóst að haftabúskapurinn hér heima myndi valda einangrun landsins frá Evrópu og skaða hagsmuni Íslands, þegar til lengri tíma væri litið. Þetta stuðlaði að því, að ég varð fylgismaður algjörrar stefnubreytingar.“ Þessi breyting á viðhorfum Alþýðuflokksins náði þó fyrst og fremst til stjórnmálaleiðtoga flokksins en síður til forustumanna í verkalýðshreyfingunni. Þeir síðarnefndu stóðu í harðri baráttu við sósíalista innan hreyfingarinnar og áttu erfitt með að taka aðra afstöðu en hefðbundin var innan samtakanna. Eigi að síður var það þessi breyting á viðhorfum Alþýðuflokksins sem varð ein helsta forsenda viðreisnar. Margfalt gengi Næsta forsenda sem ég vil draga fram í dagsljósið er þróun sjálfs uppbóta- og gjaldakerfisins, hinnar svokölluðu millifærsluleiðar, sem fylgt hafði verið allt frá stríðslokum. Þessi leið hafði fyrst komið til umræðu hér á landi upp úr 1930, snemma í heimskreppunni, og sú umræða átt upptök sín á jafnólíklegum stað og Verslunarráði Íslands, sem nú nefnist Viðskiptaráð, en þau samtök voru þá mjög andsnúin lækkun gengisins. Þessum hugmyndum var þá hafnað með góðum og gildum rökum af hálfu bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og gengi krónunnar að lokum lækkað árið 1939. Í stríðslok, þegar erfiðleikar blöstu við á erlendum mörkuðum, kom til skjalanna ríkisábyrgð á fiskverði, auk annarrar aðstoðar við útveginn, og von bráðar sérstakar ívilnanir um sölu gjaldeyris til innflutnings munaðarvöru, hinir svokölluðu gotupeningar eða bátagjaldeyrir. Þetta fyrirkomulag hvarf úr sögunni með gengislækkuninni árið 1950, en innlendar kostnaðarhækkanir leiddu fyrr en varði til þess að bátagjaldeyrir var tekinn upp að nýju. Upp úr því var ýmis konar opinber aðstoð við sjávarútveginn aukin hvað eftir annað og fyrir hana greitt með álögum á innflutning. Óhagkvæm framleiðsla styrkt Með tilkomu vinstri stjórnarinnar árið 1956 var aðstoðinni komið fyrir framhald á bls. 4

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.