Norðurland


Norðurland - 29.09.1977, Qupperneq 4

Norðurland - 29.09.1977, Qupperneq 4
NORÐURIAND Málgagn sósíalista í Norðurlandskjördæmi eystra Ritnefnd: Böðvar Guðmundsson, Helgi Guðmundsson, Soffía Guðmunds- dóttir, Þórir Steingrímsson, Þröstur Ásmundsson. Ritstjóri: Vilborg Harðardóttir (ábm.) Dreifing og auglýsingar: Haraldur Ingi Haraldsson. Ritstjórn, afgreiðsla, auglýsingar: Eiðsvallagata 18, sími 21875 Prentun: Prentsmiðja Björns Jónssonar Gefíð út af kjördæmisráði Alþýðubandalagsins „Tvö þjóðfélög“ Eitt og annað athyglisvert kom fram í umræðuþætti um jafnréttismál, sem sjónvarpið efndi til hér á dögunum, og sýndist sitt hverjum svo sem vænta mátti. Ragnar Tómasson taldi kynbundna verkaskiptingu ekki fela í sér misrétti, en hafði áhyggjur af börnunum útaf þessu öllu saman, því að jafnvel íhaldinu er ljóst, að ákveðin þróun í jafnréttisátt er að gerast og mun halda áfram, þótt afturhaldið í ýmsum myndum geri það, sem unnt er, til þess að tefja hana. Hér mætti skjóta því inn, að sé það raunverulega svo, að karlmenn, feðurnir, ali með sér áhyggjur af börnunum, þá liggur beint við, að þeir fari hið bráðasta að lina ögn á sprettinum úti í þjóðfélaginu, sinni að sama skapi meira um afkvæmi sín og láti daglegan heimilisrekstur til sín taka. Að sjálfsögðu myndu konurnar þá fyrir sitt leyti létta undir með þeim við öll ábyrgðar- og trúnaðarstörfin, sem margir eiga fullt í fangi með og fá vart undir risið. Þær létu þá líkast til af þeirri áráttu að sækja í lægst launuðu störfin sbr. kotroskna athugasemd frá Haraldi Blöndal í téðum þætti. Það er engin nýlunda hér á íslandi, að konur vinni erfiðisvinnu utan heimilis og innan. Það hafa þær ævinlega gert bæði til sjávar og sveita. Margar voru þannig settar, að þær urðu að vinna alla þá vinnu út á við, sem til féll, þótt þær hefðu stór heimili í sinni umsjá, til þess einfaldlega að sjá sér og sínum farborða. Hefur hvorki fyrr né síðar frétst af teljandi áhyggjum af því hvernig börnum þeirra reiddi af, er þær voru að heyja sína hörðu lífsbaráttu. Það voru aðeins konur, sem tilheyrðu hinum efnaðri stéttum, sem gátu rekið heimili sín með aðkeyptu vinnuafli. Þar með er ekki sagt, að þeirra hlutskipti innan fjögurra veggja heimilisins hafi endanlega verið það, sem þær hefðu kosið sér við aðrar aðstæður og valkosti, en það er önnur saga. Fram kom í umræðunni, að við búsetu úti á landi hefur það runnið upp fyrir Bryndísi Schram, að til er vinnandi fólk á íslandi og skilgreinir hún þá uppgötvun sem tvö þjóðfélög! Rétt er að leiðrétta þann misskilning, að þessi tvö þjóðfélög séu bundin við það hvar fólk á heima, heldur er hér um að ræða stéttaskiptingu í borgaralegu auðvaldsþjóðfélagi. Annars vegar eru þeir, sem selja vinnuafl sitt, og hins vegar þeir, sem græða á vinnu annarra. Skiptir ekki öllu máli í því sambandi, þótt svokallaðir athafnamenn hér á íslandi séu ekki burðugri en svo, að þeir ganga flestir á styrkjum og lánum af almannafé. Þeir, sem ráðskast með dýrmæt atvinnutæki landsmanna, hafa komist upp á lag með það sér til halds og trausts að kalla út stóran hóp kvenna, þegar mikið liggur við, en senda þær síðan heim, þegar þeim gott þykir, réttlitlar eða vita réttinda- lausar. Þetta öryggisleysi láglaunakvenna á vinnumarkaðin- um hefur ekki raskað ró karlmanna í verkalýðshreyf- ingunni svo heitið geti, og það fer að koma til álita, hvort konurnar eigi ekki þrátt fyrir allt að vera sér á báti með eigin verkalýðsfélög. Störfin flokkast greinilega eftir því, hvort þau eru unnin af körlum eða konum og atvinnuöryggi og launa- greiðslur eru þar eftir, hvað sem ágætum lagasetningum líður. Það hefur ekki reynst nægilega árangursríkt fyrir konurnar að vera með karlmönnunum í verkalýðsfélög- um, þótt sameining félaga hafi á sínum tíma verið eðlileg ráðstöfun. Það verða konur að gera sér ljóst, aðjafnrétt- isbarátta og stéttabarátta eru í órofa samhengi. Án grundvallarbreytinga á sjálfri undirstöðugerð þjóð- félagsins og valdahlutföllum þess mun fátt markvert gerast á sviði jafnréttisbaráttunnar. S.G. Egill Héðinn Bragason: Úr sögu Hjaltey Ungur námsmaður, Egill Héðinn Bragason, sem nú stundar nám við Háskólann, skrifaði í fyrra ritgerð um Hjalteyri og var hún liður í námi hans við MA. Ritgerðin er nokkuð löng og bauðst Egill til að stytta hana svo hún hentaði NORÐURLANDI til birtingar. Fer ritgerðin hér á eftir og er hún birt nú í tilefni af því að Landsbankinn hyggst á næstunni taka ákvörðun um hvað hann gerir við eignir þær á Hjalteyri sem hann tók við af þrotabúi Kveldúlfs fyrir ellefu árum. „Sú var tíðin, að Hjalteyri var þekktur staður. Þegar rætt var um sjávarútveg við Eyjafjörð var varla hægt að komast hjá að nefna Hjalteyri. Þar var um áratuga skeið rekin mikil útgerð að lang mestu leyti síldveiði en einnig nokkur þorskveiði. Saga eyrarinnar er að mörgu merki- leg, og hafa svo sannarlega skipst á skin og skúrir. Fyrstur til að gera út frá Hjalteyri mun hafa verið Friðrik Jónsson frá Siglunesi (f. 1829). Friðrik hóf útgerð sína árið 1854 á hákarlaskipinu Mínervu, sem hann smíðaði sjálfur upp úr gömlu flaki. Jón Antonsson, bóndi og útgerðarmaður, kom einnig mikið við sögu Hjalteyrarfram- an af. Hann var fæddur árið 1845 í Arnarnesi. Hann stund- aði smíðar á vetrum en útgerð á sumrum og hafði einhverja saltfiskverkun.

x

Norðurland

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Norðurland
https://timarit.is/publication/784

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.