Morgunblaðið - 05.02.2010, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 05.02.2010, Blaðsíða 2
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. FEBRÚAR 2010 2 Bílar Eftir Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is TOYOTA á Íslandi áætlar að kalla verði inn um 5.000 bifreiðar á Ís- landi vegna mögulegs galla í elds- neytisgjöf. Haft verður samband við eigendur viðkomandi bíla fljótlega og þeir beðnir að koma með bílinn til viðurkennds þjónustuaðila Toyota sér að kostnaðarlausu. „Toyota hefur alltaf lagt ofurkapp á að tryggja öryggi viðskiptavina sinna. Við munum því gera allt sem í okkar valdi stendur til að hefja sem allra fyrst þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem félagar okkar hjá Toyota í Evrópu hafa boðað,“ segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi. „Ég vil ítreka gagnvart við- skiptavinum okkar að tilvik sem þessi eru mjög sjaldgæf. Einungis hefur verið tilkynnt um 26 slík tilvik í Evrópu og Toyota í Evrópu hefur ekki fengið neinar fregnir af slysum tengdum þeim. Ég hvet hinsvegar eindregið þá sem hafa áhyggjur af virkni eldsneytisgjafar í bílum sín- um að hafa samband við næsta þjónustuaðila Toyota,“ segir Úlfar. Bifreiðarnar sem innkallaðar eru á Íslandi og framleiðslutími þeirra er sem hér segir: AYGO febrúar 2005 til ágúst 2009, iQ nóvember 2008 til nóv- ember 2009, Yaris nóvember 2005 til nóvember 2009, Auris október 2006 til 5. janúar 2010, Corolla októ- ber 2006 til desember 2009, Verso febrúar 2009 til 5. janúar 2010, Avensis nóvember 2008 til desem- ber 2009 og RAV4 nóvember 2005 til nóvember 2009. Bensíngjöfin getur staðið föst Toyota hefur innkallað um 8 milljónir bíla um allan heim vegna hættu á bilun í bensíngjöf. Þar af verða innkallaðar allt að 1,8 millj- ónir bifreiða í Evrópu. Vandamálið hefur hvorki komið upp í öðrum gerðum Toyota né Lexus bifreiðum. Bilun getur orðið vegna slits í eldsneytisgjöfinni. Við ákveðnar umhverfis- og notk- unaraðstæður getur þetta slit orðið til þess að núningur í eldsneyt- isgjöfinni eykst sem verður síðan til þess að af og til getur orðið erfiðara að stíga á bensíngjöfina, hún lyftist hægar til baka eða í versta falli get- ur hún orðið föst í inngjöf. Lausn liggur fyrir hjá Toyota í Evrópu og er verið að leggja loka- hönd á undirbúning og skipulag inn- köllunarinnar. Búið er að kynna hvernig gert verður við eldsneytis- gjöfina og verður byrjað að senda íhluti til viðgerðarinnar til Evrópu í næstu viku. Í framhaldi af því ber- ast þeir til Íslands. Nákvæm tímasetning á því hve- nær innköllun hefst á Íslandi liggur ekki fyrir en er í undirbúningi. Eig- endur viðkomandi bíla fá bréf um að koma með bílinn til viðgerðar sér að kostnaðarlausu. „Ef einhverjir hafa áhyggjur af bílum sínum eða telja sig hafa orðið vara við eitthvað óvenjulegt í eldneytisgjöf, hvetjum við þá eindregið til að hafa samband við næsta viðurkennda þjónustu- aðila Toyota,“ segir Páll Þorsteins- son upplýsingafulltrúi Toyota á Ís- landi. Ofangreint vandamál mun ekki hafa áhrif á núverandi framleiðslu Toyotabifreiða þar sem nýr bún- aður er notaður í þá bíla sem nú eru framleiddir. PSA innkallar 97.000 bíla Franski bílaframleiðandinn PSA hefur einnig ákveðið að innkalla 97 þúsund Peugeot 107 og Citroën C1 bifreiðar sem framleiddar voru í tékkneskri verksmiðju sem PSA á með Toyota. Innkallanir síðustu daga eru ekki bundnar við þessa framleiðendur því Honda innkallaði einnig í vikunni 646.000 bíla vegna galla í gluggarofa í bílstjórahurð- inni. Um er að ræða Honda Fit og Honda Jazz bíla, sem smíðaðir voru 2002 og 2008. Þessi tíðindi öll þykja vera þungt högg fyrir japanskan bílaiðnað. Martröðin heldur áfram Og eins og framangreindur vandi Toyota sé ekki nóg þá kom nýr vandi upp í gær. Kom þá í ljós, að tugir kvartana hafa borist vegna vandræða í hemlabúnaði Prius bif- reiða í Norður-Ameríku og Japan. Óljóst er hvaða áhrif það á eftir að hafa á markaðssetningu á tvinn- bílnum Prius í þeim heimshluta. Að sögn talsmanns Toyota, Mieko Iwasaki, er verið að fara yfir kvart- anir sem borist hafa frá umboðs- mönnum Toyota í Norður-Ameríku og Japan. Hún segir að meðal þeirra bifreiða sem nú sé kvartað yfir sé nýja gerðin af Prius sem kynnt var til sögunnar í fyrra. Um 5.000 Toyota-bifreiðar innkallaðar á Íslandi Reuters Gölluð Toyota hefur innkallað um 8 milljónir bíla um allan heim vegna hættu á bilun í bensíngjöf en við ákveðnar umhverfis- og notkunar- aðstæður getur þetta slit orðið til þess að núningur í eldsneytisgjöfinni eykst sem verður síðan til þess að af og til getur orðið erfiðara að stíga á bensíngjöfina og í versta falli getur hún orðið föst í inngjöf. Spurningar og svör Eftir Leó M. Jónsson leoemm@simnet.is Ný 6 sílindra Cummins Spurt: Ég er með nýlegan Dodge Ram með nýju 6,7 lítra Cummins- dísilvélinni sem mér finnst ekki byrja nógu vel miðað við eldri 5,9 lítra dísilvélina sem ég hef góða reynslu af. Í upplýsingum sem fylgja bílnum er tekið fram að eldsneytið skuli vera „ULSCF Diesel Fuel“. Hvað þýðir þessi skammstöfun og get ég treyst því að eldsneytið sem hér er selt henti þessari vél? Svar: Að minnsta kosti 2 mismun- andi gerðir dísilolíu eru á banda- ríska markaðnum. ULSCF er skammstöfun fyrir „Ultra Low Sulp- hur Content Fuel“. Sú dísilolía inni- heldur minna en 15 ppm (millj- ónustu hluta) af brennisteini. Hin tegundin er LSCF sem er skamm- stöfun fyrir „Low Sulphur Content Fuel“ en hún inniheldur meiri brennistein, innan við 50 ppm, en brennisteinn virkar sem smurefni í eldri gerðum dísilkerfa með mek- anískum olíuverkum og spíssum. ULSCF-eldsneytið er meðal annars ætlað dísilvélum sem búnar eru forðagrein (common rail) í stað olíu- verks, þriggja efna hvarfakúti og sérstakri sótagnasíu (DPF). Brenni- steinssnauð dísilolía á að vera fáan- leg á ES-svæðinu síðan í ársbyrjun 2007. Engar upplýsingar fást um gæðastaðla eða efnainnihald elds- neytis hjá olíufélögum hérlendis og ekkert eftirlit er með gæðum þess af hálfu hins opinbera. Nýja Cummins 6,7 virðist ekki vera án „barna- sjúkdóma.“ Festist í bremsum Spurt: Bíllinn minn er nýlegur Benz- fólksbíll. Að undanförnu hef ég lent í því nokkrum sinnum að bremsurnar að framan hita þar til þær verða rauðglóandi og festast. Búið er að skipta um klossa, diska og stimpla í dælum (1 í hvorri), loftakerfið marg- oft en allt kemur fyrir ekki. Stund- um festist annað framhjólið fyrst en síðan bæði og einnig hafa bremsurn- ar orðið óvirkar. Nú síðast var sett ný höfuðdæla en það breytti engu. Hvað getur valdið þessu? Svar: Þú nefnir að vísu ekki dæl- urnar sjálfar en miðað við lýsing- arnar hljóta þéttingar í þeim að vera orðnar ónýtar auk þess sem vökvinn hefur soðið og þarf því að endurnýj- ast. Mig grunar að upphafleg orsök hafi ekkert með bremsukerfið að gera heldur hafi vegna mistaka verið settur rúðu- eða kælivökvi í forðabúr höfuðdælunnar. Vatns- eða raka- mengaður bremsuvökvi getur valdið svona viðbrögðum nái hann að hitna í hjóldælum (bremsuvökva á að endurnýja með 2-3 ára millibili). Viðbót: Í framhaldi af þessu er ástæða til að hvetja til sérstakrar varkárni varðandi áfyllingu hinna ýmsu vökva sem fylgir þjónustu við bíla. Hluti jeppa er til dæmis búinn vökvafjöðrun (til dæmis nýrri Land- Cruiser). Sé fyrir misgáning settur rúðuvökvi á fjöðrunarkerfið eyði- leggst það á skömmum tíma og við- gerð getur orðið verk upp á 400-500 þúsund krónur. Biluð hraðastilling á miðstöð Spurt: Ég er í vandræðum með mið- stöðina í bílnum mínum. Blásturinn virkar ekki á 1, 2 eða 3. Einungis hæsta stillingin virkar (4). Getur þú sagt mér hver hugsanleg orsök kunni að vera. Þetta er Mitsubishi Carisma ’99. Svar: Þessi bilun er sígild, lýsir sér eins og er af sama toga í nánast öll- um miðstöðvarkerfum bíla: Hraða- stýringin fyrir blásaramótorinn – viðnámið – er ónýtt. Þetta er sér- stakt stykki sem er í stokknum næst blásaranum (leiðslur). Þú færð það hugsanlega hjá Stillingu eða N1 eða á partasölu (sama viðnámið er í flest- um Mitsubishi-bílum og þetta við- nám passar einnig úr Volvo S40).  Athugið að bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com Rétt eldsneyti og bilaðar bremsur Morgunblaðið/Jim Smart Biluð miðstöð Það er sígilt að miðstöðvar bili í fólksbílum og oft er vand- inn sá að hraðastýringin fyrir blásaramótorinn er jafnan ónýt. Höfundur er vélatæknifræðingur MEST seldi bíllinn í Evrópu á liðnu ári var Volkswagen Golf. Þar með hefur VW Golf fimm sinnum orðið söluhæsti bíll álfunnar frá alda- mótaárinu 2000. Einungis Opel Astra og Peugeot 206/207 hafa megnað að veita Golf einhverja sam- keppni undanfarinn áratug. Á ný- liðnu ári var það hin nýja Ford Fiesta sem veitti Golf hvað harðasta samkeppni. Það er markaðsfyrirtækið Jato Consult sem tekur árlega saman sölutölur á Evrópska efnahagssvæð- inu. Í nýbirtri skýrslu Jato fyrir árið 2009 segir að það hafi einkum verið smábílar og minni meðalbílar sem seldust á síðasta ári í álfunni og þar hafi sérstaka skilagjaldið á eldri eyðslufreka bíla sem mörg Evrópu- ríki komu á, ráðið mestu um. Skila- gjaldið var víðast hvar mjög rausn- arlegt og fékkst greitt út sem afsláttur af verði nýrra sparneyt- inna bíla gegn því að gamla bílnum yrði eytt. En í ár er ekkert slíkt skilagjald í augsýn neins staðar í álfunni þannig að bakslag í bílasölunni er vel hugs- anlegt. Slíkt bakslag gæti þannig komið illa við þá bílaframleiðendur sem mesta áherslu leggja á að fram- leiða smábíla. Jato telur á hinn bóg- inn að meiri stöðugleiki verði í framleiðslunni á meðalstórum og stórum bílum og að framleiðsla á gæðabílum gæti jafnvel aukist nokk- uð frá því sem hún var á síðasta ári. Vinsæll VW Golf er hvorki sjaldgæf sjón hér á landi né heldur í Evrópu. VW Golf vinsælastur í Evrópu á árinu 2009

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.