Monitor - 24.06.2010, Síða 8
ÞORBJÖRG MARINÓS
8 Monitor FIMMTUDAGUR 24. JÚNÍ 2010
„Vinur minn spurði mig um daginn hvort hann
ætti að setja nafnið mitt á bréfalúguna sína því
honum fannst eins og hann byggi með mér, því
hann sagðist sjá mig alls staðar. Ég skil alveg að
fólki finnist kannski einhver yfirgangur í mér, en
ég reyni að minnsta kosti alltaf að vera einlæg í því
sem ég geri,“ segir Þorbjörg Marinósdóttir, sem er
betur þekkt sem fjölmiðlakonan Tobba.
Í dag er hún í fullu starfi á tímaritinu Séð og heyrt,
bloggar á DV.is, stýrði sjónvarpsþættinum Djúpa
laugin í vetur og gaf á dögunum út sína fyrstu bók,
Makalaus.
Tobba er alin upp í Smárahverfinu í Kópavogi,
en segist vera mikil sveitastelpa og rekur ættir
sínar til Sauðárkróks. „Ég vann nokkur sumur hjá
Búnaðarsambandinu fyrir austan við að mjólka
beljur og temja hesta. Fór á böll í böffalóskóm um
helgar og fékk hest í fermingargjöf. Mín lengstu
ástarsambönd hafa einmitt verið við stráka utan af
landi,“ segir Tobba.
Hún er óhrædd við að elta uppi ævintýrin og fór
sem skiptinemi til Brasilíu í ár áður en hún lauk
stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.
Fyrir einu og hálfu ári útskrifaðist hún með
BA-gráðu í fjölmiðlafræði frá háskóla í Derby á
Englandi og fluttist svo aftur heim til Íslands. Það
er óhætt að segja að hún hafi náð að afreka margt á
þeim stutta tíma sem liðinn er síðan.
Viðfangsefni þín hafa verið á vettvangi sem fólk
hefur sterkar skoðanir á og kannski ekki alltaf
sérstaklega jákvæðar.
Já. Þegar við byrjuðum með Djúpu laugina fékk
ég bæði aðdáendagrúbbu og hatursgrúbbu um
mig, sem hét „Drepum skinkuna í Djúpu lauginni“
eða eitthvað álíka. Ég hef þó ekkert lent mikið í
einhverju dónalegu, enda er ég ekkert að fara inn
á Barnaland og lesa umræðu um mig þar. En ef þú
ætlar að vera í einhverju svona og gera nýja hluti
þá mun fólk hafa skoðun á þér. Ég vil frekar að
fólk hafi skoðun á mér heldur en að því sé alveg
sama. Þá er ég allavega að ná til fólks. Ég veit ekki
til þess að einhver íslensk kona hafi náð sér í
bókasamning, sjónvarpssamning og verið fastráðin
á fjölmiðil á svona stuttum tíma.
Kanntu vel við þig í sviðsljósinu?
Ég hef alltaf verið athyglissjúk. Ég ætlaði mér
alltaf að verða leikkona, en svo fann ég mig svo vel
í fjölmiðlafræðinni og kann vel við fjölbreytnina
sem fylgir starfinu. En það er fyndið að um leið og
maður fær athygli þá allt í einu meikar maður hana
ekki. Maður er búinn að vinna að því í nokkur ár að
gera eitthvað áhugavert og vera einhver sem fólk
nennir að lesa um eða vill hitta. Núna þegar fólk er
farið að taka aðeins eftir mér þá meika ég það ekki.
Ég hélt alltaf að ég vildi þetta mikið, en svo á ég
svolítið erfitt með þetta.
Hvernig þá?
Til dæmis þegar fólk er að stoppa mann niðri í
bæ, sérstaklega á djamminu, kannski einhverjir
fullir karlmenn. En yfir höfuð hefur mér verið tekið
mjög vel. Ég fæ alveg fimm til tíu pósta á dag og oft
ótrúlega fallega pósta frá konum. Ég fæ líka pósta
frá karlmönnum sem spyrja mig um ráð. Einn
fertugur sendi mér póst um daginn, hann var að
bjóða út stelpu sem hann var skotinn í og spurði
hvort það væri asnalegt að mæta með blómvönd.
Mér þykir vænt um að fá svona og svara þessu öllu.
Færðu einhverja skrýtna pósta?
Um daginn skrifaði ég bloggfærslu um að ég hefði
hellt neonbleiku naglalakki yfir 15 þúsund króna
leggings sem ég var í. Þá fékk ég póst frá gaur sem
heimtaði að fá að kaupa handa mér nýjar buxur.
Svo var einn sem hafði keypt sér chihuahua-
hund og skírt hann Tobbu og sendi mér myndir af
honum. Þetta sýnir bara hvað íslenskir karlmenn
eru óframfærnir. Þeir kaupa chihuahua-hunda og
skíra eftir þér og vilja gefa þér leggings í staðinn
fyrir að bjóða þér bara út.
Var hundurinn virkilega skírður í höfuðið á þér?
Já, hann fór ekkert leynt með það og setti inn
myndir af honum á Facebook. Ég var fegin að hann
„taggaði“ ekki nafnið mitt á myndir af hundinum.
Segðu mér stuttlega frá bókinni.
Hún fjallar um 25 ára einhleypa stelpu í Reykjavík,
sem er nokkrum kílóum of þung og nokkrum
mínútum of sein og er eiginlega alltaf í einhverju
veseni. Þetta er ýkta útgáfan af einhverju sem við
upplifum allar einhvern tímann. Ég held að margar
íslenskar konur geti tengt við hana.
Hversu mikið byggirðu sögupersónuna
á sjálfri þér?
Það er erfitt að skrifa um ást þegar þú ert
ekki ástfanginn sjálfur og ég hef heyrt marga
tónlistarmenn segja að þeir geti ekki samið góð
lög þegar þeir eru hamingjusamir. Þegar ég skrifaði
kaflann þar sem henni líður sem verst sat ég
heima og grenjaði við lyklaborðið til að koma þessu
frá mér. Auðvitað er þetta ekki allt ég og margt
í bókinni er kannski eitthvað sem ég upplifði í
gegnum vinkonur mínar. En sannleikurinn er miklu
bilaðri en skáldskapurinn og meira og minna allt í
bókinni kom fyrir mig eða einhvern í kringum mig
á einhverjum tímapunkti.
Viðtökurnar hafa verið góðar.
Já, fyrsta upplag, sem var tvö þúsund eintök, er
uppselt.
Má ekki greina á því að það hafi verið mikil þörf
fyrir svona stefnumótabiblíu?
Jú. Ég held líka að það hafi verið þörf fyrir einlæga
bók sem er skrifuð af íslenskri konu fyrir íslenskar
konur. Við erum alltaf að reyna að vera svo hipp og
kúl, en við erum ekkert alltaf hipp og kúl og það
er bara allt í lagi. Ég þoli ekki bækur þar sem allt
endar ótrúlega vel, með einhverjum Rauðu seríu-
endi þar sem parið ættleiðir barn bakarans sem dó
í fyrsta kafla. Makalaus er ekki svoleiðis. Þetta er
bara „real life“ Reykjavík og hún er svolítið röff.
Hvað finnst þér um íslenska
stefnumótamenningu?
Hún er bara loksins að verða til. Þetta var alltaf
bara bíó og rúntur niður Laugaveginn. Nú er fólk
loksins að fatta að málið er að gera eitthvað saman,
hvort sem það er að fara í skvass, fjallgöngu, sushi-
kennslu eða eitthvað annað. Ekki sitja á alltof litlu
borði á einhverju kaffihúsi með sveitta efrivör. Það
er bara ekki málið. Stefnumótamenningin er að
stökkbreytast og mér líst ótrúlega vel á hana og
finnst hún brilljant skemmtileg. Ég hef verið að fá
frábær stefnumótatilboð upp á síðkastið.
Hvernig stefnumótatilboð?
Einn vildi fara með mig í Klifurhúsið. Einn fór
með mig á svona 10. bekkjar-deit, þá fórum við í
þythokkí og keilu í Keiluhöllinni í ljótum skóm með
táfýlu. Það var mjög kjánalegt og skemmtilegt. Einn
fór með mig á skauta og annar í skvass. Ég fór sjálf
með einn í hot-yoga, þar sérðu strax hvað þetta
er liðugt og hvað er hægt að gera við þetta. Það er
margt mjög skemmtilegt í gangi. Svo bauð einn
mér á stefnumót til Danmerkur í vikunni. Ég er að
melta það.
Það hljómar eins og þú sért í fullri
vinnu við að fara á stefnumót.
Nei, ég er mjög lítið fyrir að hitta nýja menn. Ég
er með reglu sem heitir „fjögurra deita sénsinn“
sem hljómar þannig að þú mátt fara á fjögur deit
án þess að það sé eitthvað alvarlegt. En eftir fjögur
deit máttu ekki vera að hitta einhvern
annan á sama tíma því þá ertu bara
nastí. Þú mátt vera að hitta bæði Sigga
Texti: Björn Bragi Arnarsson bjornbragi@monitor.is
Myndir: Ernir ernir@mbl.is
Blaðakonan, bloggarinn, sjónvarpskonan og nú
síðast rithöfundurinn Tobba er rétt að byrja. Fyrsta
upplag af Makalaus er uppselt og stefnan er sett
á að gera leikinn sjónvarpsþátt upp úr bókinni.
„Hvað gerir
fíflið næst?“
Á 60 SEKÚNDUM
Frábær sjónvarpsþáttur: Footballers‘ Wives. Druslur og
drama. Ég sé mikið eftir þeim þætti.
Fyndin pikköpplína: Kalli Baggalútur kom með eina
góða um daginn. „Ertu búin að lotta flotta?“
Falleg Hollywood-stjarna:
Matthew McConaughey. Ég er
reyndar með mjög slæman smekk
á mönnum og var einu sinni með
fetish fyrir John Malkovich.
Staður á Íslandi sem er í miklu
uppáhaldi: Austurlandið allt og
Sauðárkrókur.
Góður skyndibiti: Sushi Train. Þá getur maður drukkið
hvítvín án þess að fá samviskubit því sushi er svo
fitusnautt.
Þitt lið á HM: Blessaður! Ég hata fótbolta. Mitt lið er
bara liðið sem vinnur af því að þá getur maður skálað
fyrir því.
Gott veitingahús fyrir stefnumót:
Vegamót því þar er ódýr og góður
matur, þægilegt rennerí og enginn
að glápa á þig. Ef ekki Vegamót
þá Sushi Train því þá siturðu ekki
beint á móti aðilanum, heldur eruð
þið hlið við hlið og þú þarft ekki að
bíða eftir matnum í einhverjum vandræðalegheitum. Ef
fólk vill svo fara eitthvað mjög rómantískt mæli ég með
Sushismiðjunni niðri við höfn.
Eitt frábært heilræði fyrir karlmenn: Að láta bara
vaða. Hætta að spá í hlutunum og ef ykkur langar að
bjóða einhverri stelpu á stefnumót eigið þið að láta
vaða strax, því annars verður hún búin að næla sér í
einhvern annan gæja.