Monitor - 05.08.2010, Blaðsíða 9

Monitor - 05.08.2010, Blaðsíða 9
K A R L B E R N D S E N Já Karl Berndsen kann að hafa komið við kauninn á þér einhvern tímann, en þannig er það oft með fólk sem liggur ekki á skoðunum sínum. En Karl er alls enginn hrotti. Hann hefur starfað um árabil við að farða og greiða ofurfyrirsætum um allan heim, en hefur í 14 ár haft bækistöðvar í London. Byrjum á byrjuninni. Hvar ólst þú upp? Á Skagaströnd. Ég byrjaði ferilinn sem yfirkokkur í Kántrýbæ. Ég fór í hótel- og veitingaskólann og tók sjókokkinn og ætlaði bara að halda mig á Skagaströnd. Faðir minn var vélvirki, blessaður, og hann vildi að ég færi að læra það en það var nú sennilega það allra síðasta sem mig langaði til að læra. En okkur kom saman um það að sjókokkurinn gæti verið nokkuð góður fyrir mig. Síðan fór ég einn túr á togara sem gekk nú frekar brösuglega, en það var svo sem allt í lagi, mér leiddist bara alveg agalega. Þá fór ég að kokka í Kántrýbæ og var þar í einhvern tíma. Eftir það flutti ég frá Skagaströnd og fór að læra hárgreiðslu. Hvað sagði sá gamli við því? Mjög góð spurning (hlær). Hann var náttúrulega vélvirki og bróðir minn líka, en ég var ekki alveg eftir uppskriftinni. En eftir að ég fór að koma heim á mánaðarfresti og var að taka vikulaunin hans á einni helgi fyrir að klippa 40-50 manns í kjallaranum sagði hann: „Ég kem aldrei til með að segja neitt. Þú bara gerir það sem þú vilt gera“. Síðan var bara staðið við bakið á mér það sem eftir var. Við það varð metnaðurinn miklu meiri og mér fannst ég verða að standa mig miklu betur en allir aðrir. Ekki vegna þrýstings frá öðrum, heldur fannst mér sjálfum ég verða að standa mig betur en aðrir. Ég ætlaði mér stóra hluti. Ég byrjaði með 48 stelpum í hárgreiðsludeildinni, því strákarnir fóru allir í rakarann, og ég varð auðvitað að verða betri en þær allar, og að sjálfsögðu varð ég það. Þú hefur mikið sjálfstraust og hælir sjálfum þér óspart. Ertu að grínast? Er ég svona ógeðslega montinn? (hlær) Fyrir mér er þetta hæðni. Nú stama ég og kem stundum ekki upp einu orði og mér finnst það hrikalega fyndið. Þú getur verið í þeirri aðstöðu að koma inn í herbergi og getur ekki sagt orð. Ert bara eins og illa skapaður andskotinn og þér líður þannig og verður að setja upp front sem aðstoðar þig við að sigla á móti hverju sem er. En jú, þetta er sannarlega hæðni. En ef þú hefur ekki trú á sjálfum þér þá hefur það enginn. Er þetta eitthvað sem þú hefur lært á fullorðinsárum eða hefurðu alltaf haft þetta sjálfstraust? Guð minn góður, ég gekk meðfram veggjum. Talandinn hefur staðið rosalega í vegi fyrir mér allsstaðar. Ef ég er stressaður eða næ ekki að hvílast þá kem ég ekki upp orði. Ég er mjög beinskeyttur og segi bara það sem mér finnst. Ég vil frekar vera dæmdur fyrir að hafa skoðun á hlutunum heldur en að vera eitthvað „wimp“ úti í horni sem er sammála öllu og um leið og viðkomandi snýr sér við að drulla þá yfir hann. Ég vil frekar bara segja þér það beint út. „If I don’t like you I don’t like you“. Nú voru ummæli þín um Heru og Eurovision- farana til dæmis ansi umdeild. Ég sagði það strax að mér fyndist hún frábær söngkona en það eina sem ég kommentaði á var að ég hefði sjálfur lagt örlítið meira á mig. Þetta er sjónvarp og þessi keppni byggist á kynþokka frá A til Z. Það er ekki nóg að hafa röddina, í dag verðurðu að hafa allt heildarlúkkið. Það var það eina sem ég sagði. Ég hefði lagt það á mig að missa nokkur aukakíló ef ég væri að fara að standa fyrir framan milljónir manna. Listamaðurinn Snorri Ásmunds gabbaði fólk upp úr skónum þann 1. apríl þegar hann auglýsti svokallað „beauty camp“ í þínu nafni og fullt af fólki rauk til og reyndi að skrá sig. Hvernig tókst þú uppátækinu? Hann náði mér. Algjörlega. Það tók mig langan tíma að fatta þetta. Ég horfði á myndina og hugsaði strax að ég hefði séð sjálfan mig í þessari pósu. Mér fannst þetta mjög fyndið. Nema maðurinn ætlaði náttúrulega að halda áfram með djókið og gera út á þetta og þá fannst mér þetta ekkert sérstaklega fyndið (hlær). Svo sá ég hann einhvers staðar niðrí bæ og hugsaði hvort þetta væri ég, en það gat að sjálfsögðu ekki verið. Þú varst í framboði fyrir Besta flokkinn. Segðu okkur aðeins frá því. Jújú, ég var í heiðurssætinu þar og sit núna sem varamaður í Mannréttindaráði og mér finnst mjög mikill heiður í því. Ég hélt reyndar að þetta væri djók fram á seinustu stundu. En ég hef trú á þessu fólki. Eftir kosningar var öllum hóað saman á leynifund og þar varð ég mjög „impressed“. Óttarr Proppé gekk á milli borða þar sem fólk var að ræða hugmyndir sínar og spurði alla hvernig þeir ætluðu að hafa efni á hinu og þessu og sagði fólki að það þyrfti að hafa það á hreinu hvernig það ætlaði að fjármagna hugmyndir sínar. Þannig reka menn fyrirtækið sitt og ég hugsaði sem svo að þetta gæti ekki orðið verra en það var. Ég hugsaði líka um að Óttarri veitti nú ekki af smá make-overi en eftir að ég sá hvernig hann var þá fannst mér hann mega líta út hvernig sem hann vildi því hann er með heilann í lagi. Fjórða serían af Nýtt útlit er í bígerð og þátturinn hefur fengið góðar viðtökur, er það ekki? Hann hefur fengið mjög góðar viðtökur og gott áhorf. Mig hefði aldrei grunað að ég ætti eftir að verða umsjónarmaður í sjónvarpsþætti. En ég finn fyrir þessari miklu ábyrgð sem ég ber og þess vegna verð ég að vera heiðarlegur. Ég segi ekki að eitthvað krem sé gott bara út af því að einhver vill borga mér fyrir það. Ég er betur settur ef ég segi að kremið sé vont ef það er vont, og þannig veit fólk líka að ég er ekki að ljúga. Þú hefur verið búsettur lengi erlendis og unnið með ótrúlegasta fólki. Já, ég hef búið í London í 14 ár. Ég bjó áður í Los Angeles og hef búið í Berlín og Brussel, en mest verið í London. Þetta er búið að vera ótrúleg lífsreynsla en ég var eiginlega kominn með nóg. Þetta var gott veganesti og fólk segir oft um menn: „Þessi hefur ekki migið í saltan sjó“. En ég hef migið og skitið í saltan sjó þannig að ég tel mig hafa ástæðu til þess að hafa skoðanir á hlutunum, meira en margur annar. En að eldast í þessu er ekki hægt. Ég fór út á hárréttum tímapunkti. Þegar stílistinn og allt liðið í krúinu er orðið miklu yngra en þú þá er kominn tími til að hætta. Það sagði maður við mig einu sinni: „The lines in your forehead tell me a different story“ þegar ég var að reyna að ljúga því að honum ég væri yngri en ég var. En þá er það kannski bara spurning um bótoxið (hlær). Myndir þú fara í bótox? Alveg hiklaust. Ef ég væri með ónýta mjöðm þá myndi ég ekki nenna að draga á eftir mér helvítis löppina. Ég myndi láta laga það ef ég gæti. Ef þetta er spurning um hrukkur á enninu á mér þá finnst mér þetta sjálfsagt mál. Þetta er rosalegt feimnismál. Fyrst þverneita allir því að þeir hafi áhuga á að láta laga sig. En auðvitað höfum við öll áhuga á því að líta vel út. Ef þú getur aftrað því að þú verðir gamalt hrukkudýr fyrir aldur fram þá held ég að þú ættir að gera það. Texti: Haukur Viðar Alfreðsson haukurv@monitor.is Myndir: Ernir Eyjólfsson ernir@mbl.is 9FIMMTUDAGUR 5. ÁGÚST 2010 Monitor Orðið „tískulögga“ var fundið upp fyrir mann eins og Karl Berndsen. Hann undirbýr nú fjórðu seríuna af sjónvarpsþáttaröð sinni Nýtt útlit og opnaði nýlega hárgreiðslu- og förðunarstúdíóið Beauty Bar í Höfðatúninu. Og Karl má vart opna munninn án þess að einhver fari í fýlu. Á 60 SEKÚNDUM Uppáhaldsmatur? Saltað hrossakjöt. Ég fæ innspýtingu af karlhormónum þegar ég borða það og mér veitir ekki af því öðru hvoru. Uppáhaldskvikmynd? Þá fer það alveg í þveröfuga átt. Það er Breakfast at Tiffany’s með Audrey Hepburn. Best klæddi karlmaður Íslands? Ég held að það sé bara Villi Vill, lögfræðingur. Hann er alltaf spikk og span. Best klædda konan? Ég get ekki svarað þessu. Þær eru svo margar sem eru í uppáhaldi. Ég elska allar konur sem flassa kvenleika sínum. Hvaða persónu úr mannkynssögunni myndirðu vilja fá þér kaffibolla með? Bill Clinton. Hiklaust sko. Ég gæti nú alveg hugsað mér meira en kaffibolla með honum. Kvöldverður væri málið. Hverja er skemmtilegast að hafa í stólnum? Það er skemmtilegast á stóru sýningunum í París þegar maður fær allar fallegustu konur heims fyrir framan sig. Allt saman ofsalega hressar píur. Ég get ekki valið einhverja eina. En hver er erfiðust? Keisha í Sugababes. Erfiðust að díla við og erfiðast að fullnægja. í saltan sjó og skitið Ég hef migið

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.