Ísfirðingur


Ísfirðingur - 12.12.1990, Blaðsíða 8

Ísfirðingur - 12.12.1990, Blaðsíða 8
8 ÍSFIRÐINGUR Sigurður H. Þorsteinsson skólastjóri Klúkuskóla: Gvendarlaug í Bjarnarfirði Sveinn Einarsson við Gvendarlaug. Gvendarlaug í Bjarnarfirði hét upphaflega Klúkulaug. Stendur laugin að húsabaki á Laugarhóli, en þar stóð áður Klúkubærinn. í Ferðabók Eggerts Ólafssonar er hennar minnst á bls. 386, en þar heitir hún raunar Klunkelaug. Árið 1877 segir Kristian Kaalund svo um hana í bók sinni um ís- lenska sögustaði: „í Bjarnar- firði eru nokkrar heitar upp- sprettur. Meðal þeirra er merk- ust Klúkulaug, sem hefur verið útbúin til baðs.“ Hins vegar hafa höfundar í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín ekkert gott um hana að segja á haustdögum, eða 20. septem- ber 1706. Um jörðina Klúku ljúka þeir kaflanum svo: „Hætt fyrir fénað á vor og haust af dýjum, foröðum og afætu- hveralækjum.“ Þannig hafa ýmsar hugmynd- ir verið uppi um notagildi laug- arinnar. Samkvæmt sögnum um Guðmund biskup Arason, er Klúkulaug í Bjarnarfirði ein þeirra uppspretta er hann vígði á ferðum sínum í Strandasýslu. Þegar svo helgi hans var upp tekin fóru menn að nefna laug- ina Gvendarlaug, eins og ýmsir aðrir staðir eru kenndir til nafns hans, um allt land. Nafn þetta festist þó ekki við laug- ina, þótt þess sjáist merki öðru hvoru á síðustu öld og oft á þessari. Nokkur helgi mun hafa myndast um laugina snemma og sagnir af því að heilnæmt væri að baða sig í henni. Auk þess sem Bjarnfirðingar sóttu í hana til baðs á eigin líkama, allt fram undir miðja þessa öld, var iðulega tekið úr henni vatn til þvotta fyrir sjúka og er svo enn. Jafnvel er tekið úr henni vatn til drykkjar og er það sér- staklega hreint og heilnæmt. Kaalund segir frá því að hún hafi verið útbúin til baðs, sem sannar það að hún var þegar upphlaðin sem baðlaug er hann kom þar. Samt mun laugin hafa verið upphlaðin löngu fyrir þann tíma, eða áður en Guð- mundur Arason kom að henni. Þá er hennar getið heldur óvirðulega í Jarðabókinni. Þetta, að fé gat farið sér að voða í lauginni, mun hafa vald- ið því að um eða rétt eftir miðja þessa öld var hleðslunni kring- um hana hrint ofan í laugina og henni lokað með því að setja yfir hana timbur. Ekki voru allir ánægðir með þessar til- tektir og tók Bjarni Jónsson í Skarði sig til og vildi koma í veg fyrir að frekari skemmdir yrðu unnar á henni. Leitar hann til Hermanns Jónassonar, þingmanns Strandamanna og biður hann ásjár um að laugin verði friðuð. Hermann snýr sér þá til þjóðminjavarðar, Krist- jáns Eldjárn og biður hann að huga að máli þessu. Skrifar Kristján Bjarna bréf um málið árið 1948 og tekur málaleitan hans, gegnum þingmanninn vel. Heitir hann honum að eitthvað jákvætt verði gert í málinu. Svo varð þó ekki að sinni. Þegar svo undirritaður kom sem skólastjóri að Klúku- skóla árið 1985 sneru nokkrir heimamenn sér til mín og báðu mig að reyna hvort ekki væri enn fært að gera eitthvað í þessu máli. Fremst í þessum hópi fóru Þórdís Loftsdóttir í Odda og Ingimundur Ingi- mundarson á Svanshóli. Fann Þórdís í fórum sínum bréf Kristjáns Eldjárn til Bjarna heitins og afhenti mér, ef það gæti einhverju um þokað. Það var svo einhverju sinni, að sonur Hermanns, Stein- grímur, var hér á ferð. Mun hann þá hafa verið forsætisráð- herra. Ræddi ég málið við hann og tjáði honum allt er ég vissi. kom okkur saman um að ég skrifaði þjóðminjaverði og færi fram á friðlýsingu laugarinnar. Hét Steingrímur að kynna mál- ið einnig oog fylgjast með að ekki yrði sami undandrátturinn aftur. Var nú ekki að sökum að spyrja, hvað rak annað og féllst þjóðminjavörður ljúflega á að friðlýsa laugina. Það var svo um ári seinna að ég starfaði sem ritari Lions- klúbbs Hólmavíkur. Gerði ég þá langtímaáætlun um störf klúbbsins að því er varðar að vinna að fegrun umhverfis á starfssvæði sínu og að halda við gömlum minjum. Þar fólst meðal annars í að safna fé til kaupa kirkjuklukkunnar úr Tröllatungukirkju og að hlaða upp í upprunalega mynd Gvendarlaug í Bjarnarfirði. Margt var um þessa áætlun rætt, en eiginkona mín hafði komið fram með hugmyndina að söfnun til kaupa á kirkju- klukkunni. Svo fór þó að áætl- unin var samþykkt og farið að starfa samkvæmt henni. Það var svo 30. desember 1988, að þjóðminjavörður gaf út friðlýsingarbréf fyrir Gvendarlaug í Klúkulandi. Bréf þetta varð svo þinglýsing- arskjal, tölusett númer 1 hjá sýslumanninum á Hólmavík, Ríkharði Mássyni, þann 10. janúar árið 1989. Tekið skal fram að sýslumaður er einnig Lionsfélagi og mikill hvatam- aður að bæði starfsáætluninni og því að Gvendarlaug væri sómi sýndur. Sumarið 1989 hafði Lions- klúbbur Hólmavíkur fengið Svein Einarsson frá Hnjót, sem nú er búsettur að Egilsstöðum til að hlaða upp gamalt sæluhús á Steingrímsfjarðarheiði. Hafði þjóðminjavörður bent okkur á að leita til þessa manns. Verkin hans voru slík, að aftur var leitað til hans, enn með samþykki þjóðminjavarð- ar, en nú skyldi Gvendarlaug endurgerð. Kom hann svo hingað að Laugarhóli haustið 1990, eða nánar tiltekið þann 11. september. Fyrirmælin sem hann hafði voru þau, að engu mætti breyta. Þá varð að hefja starfið með því að leita að fyrstu gerð. Þetta reyndist auð- veldara en við hugðum í fyrstu. Þegar við skoðuðum sneiðar í hleðslu og umhverfi laugarinn- ar kom í ljós að þrep var þar sem hleðslan hafði áður setið. Setið innan við hana var orðið slitið ofan í móbergið af notkun. Hæð hleðslunnar varð ekki séð nema af einum punkti og var henni svo haldið. Var nú tekið til óspilltra málanna og upphleðslu laugarinnar lok- ið að kvöldi þess 14. sama mánaðar. Er þá eftir að ganga frá girðingu umhverfis laugina og leggja göngubraut að henni. Við verk þetta unnu auk Sveins, fjórir Lionsmenn og þrír Bjarnfirðingar. Síðasta kvöldið vorum við Sveinn einir að, við að leggja síðustu hönd á verkið. Voru það þreyttir en ánægðir menn sem þá komu inn til síðbúins kvöldverðar. Eins og málin standa í dag, er það svo Kaþólska kirkjan á íslandi sem lagði til það fé sem þurfti til að af verkinu gæti orðið. Síðan þarf að'kaupa efnið og nokkra vinnu við girð- inguna og gangbrautarlagning- una. Vinnuna munu Lions- menn og heimamenn leggja fram en efni þarf að kaupa. Það var svo sunnudaginn 30. september, að forseti íslands og fleiri af fyrirmönnum þjóð- arinnar voru á ferð hér til að endurvígja Staöarkirkju í Steingrímsfirði. Er við hjón vorum að búa okkur til kirkju, hringdi síminn. Var það sýslu- maðurinn okkar, Ríkharður Másson í bílasíma. Bað hann okkur að vera úti á hlaði eftir þrjár mínútur og taka á móti forseta íslands, biskupnum yfir íslandi og dóms- og kirkju- málaráðherra ásamt fylgdar- liði. Óskaði fólkið eftir að fá að skoða Gvendarlaug. Brugð- umst við hjón hratt við, en ekki náðist að taka timbrið ofan af lauginni, sem sett hafði verið þar til öryggis. Tekið var á móti gestunum og gengið með þeim til laugarinnar, þeim sýnd hún og sagt frá henni stuttlega og sögu hennar. Komu síðan gest- irnir aðeins inn í skólann og skráðu nöfn sín í gestabók. Var þetta góð heimsókn og okkur öllum sem átt höfðum hlut að máli mikil ánægja, að svo tignir gestir vildu skoða verkin hans Sveins frá Hnjót, sem þarna höfðu verið unnin til dýrðar Guðmundi góða. Stóð þessi einkaheimsókn forsetans okkar til Guðmundar Arasonar aðeins stutt, en hún skilur eftir gleði í hugum heimamanna og þeirra er að unnu. Vonum við aðeins að gestirnir hafi einnig haft ánægju af heimsókninni. Er forsetanum var sagt frá trúnni á lækningamátt vatnsins úr lauginni, rauð hún vatni úr lauginni á augu sín og sýndi þá best trú sína og samhygð með trú þegna sinna. Það var hlý stund. Vonandi verður svo Gvend- arlaug aðgengileg öllum gest- um sem koma vilja og skoða hana á sumri komanda. Gleðileg jól. Gestirnir ásamt skólastjórahjónunum í Klúkuskóla frá vinstir talið: Ríkharður Másson, sýslu- maður, Halldór Halldórsson, form. sóknarnefndar Staðarkirkju, Biskup íslands, herra Ólafur Skúlason og kona hans Ebba Sigurðardóttir, Svana Kristjánsdóttir og dóms- og kirkjumála- ráðherra Óli Þ. Guðbjartsson, forseti íslands frú Vigdís Finnbogadóttir, skólastjóri Klúku- skóla, Sigurður H. Þorsteinsson og kona hans Torfhildur Steingrímsdóttir.

x

Ísfirðingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ísfirðingur
https://timarit.is/publication/790

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.