Eining - 01.12.1961, Page 2

Eining - 01.12.1961, Page 2
2 EINING hennar kennist á enni til banadægurs. í kvöld heilsum vér helgum jólum. „Ómbrim voldugt hins vígða málms“ hefur hringt heilaga hátíð yfir jörð- ina. Hið gamla guðspjall og sálmar fylla hús vor og helgidóma andblæ þeirrar hátíðar, sem hjarta flestra manna á Vesturlöndum stendur næst. En við gleðina geta blandazt beizkar spurn- ir: Höfum vér ekki margbrotið það, sem Kristur fæddist til að flytja mönn- unum? Krossfesti jörðin hann ekki, og hefur hún ekki útskúfað honum í 19 ald- ir? Um það eru milljónirnar á einu máli, að hann hafi borið oss dýrlegasta boðskapinn, sem fluttur hefir verið á jörðu. Fáeinir menn urðu svo lostnir af honum, að þeir báru hann út um löndin, og bæði konur og karlar létu fagnandi fyrir hann lífið. En drukkn- aði ekki þessi háleita kenning í vest- rænni heimshyggju og veraldlegri kirkju? Er hægt að halda heilög jól án þess að bera blygðun og harm? Ber heimurinn í dag þess merki, að Krist- ur kom? Þúsund sinnum já! Svo óafmáanlega þrýsti hann ,sem í jötu var lagður, merki sínu á þennan synduga heim, að eftir að hann kom, gat jörðin aldrei orðið eins og hún var áður. Þrátt fyrir allt, sem öfugt gengur, allar yfirsjónir, synd- ir, svik og tár, ber menningin merki hans, sem í húmi heilagrar nætur fædd- ist og var lagður í jötu vegna þess, að fyrir móður hans var hvergi rúm í mannahúsum. Enginn, sem hann hefur eitt sinn snortið, getur komizt að fullu undan áhrifavaldi hans aftur, frekar en umflúið sinn eigin skugga. Enginn, sem hefur séð hann, fær gleymt honum. Nauðug viljug verður sú jörð, sem hann hefur stigið fæti á, að bera merki hans um allan aldur. Hér er ekki um það að ræða, að vilja aðhyllast hann, eða vilja það ekki. Hér á mannssálin þess engan kost að velja. Ef hún mætir þessum óviðjafnanlega persónuleika, þessum einstæða syni Guðs og manns, fær hún aldrei umflúið minninguna um hann. Ef hún reynir að flýja hann, fylgja henni augu hans á flóttanum, og rödd hans hættir aldrei að óma henni í eyrum. Eitt augnablik andspænis hon- um, og merki þess ber mannleg sál að eilífu. Vegna þess að hann kom, getur jörðin, sem útskúfaði honum, aldrei um- flúið áhrifavald hans. Hér ræður ekki vilji manns. Hér eru örlög, sem hann fær aldrei flúið. 1 andlegt líf mannkynsins hefur Kristur markað þau spor, sem foksand- ur allra alda getur ekki falið. Fjarri fer því, að mannkynið hafi náð að lifa þá hugsjónahæð, sem hann benti á. En vegna þess að hann kom, verður aldrei fullur friður saminn við það, sem er í andstöðu við hann og hugsjónir hans. Vegna þess að Beethoven kom og skildi oss 9. sinfóníuna eftir, geta ó- merkileg dægurlög ekki lifað nema stutta stund. Vegna þess að meistar- arnir stóru hafa málað, verður lág- fleygt listafálm mönnum ófullnægjandi til frambúðar. Vegna þess að hin stóru skáld hafa kvatt sér hljóðs, fæðast lé- legar bókmenntir feigar. Svo hækkar hið stóra mælikvarða vorn á líf og list. Eins og lávarðurinn, sem í jötu var lagður, hefur enginn gefið oss guðlegar myndir, sýnt oss hið háa, heilagt líf, háleit markmið. Kenningum hans er Séra Jón Auðuns. V.__________________________________j hafnað, hugsjónum hans er misþyrmt, en vegna þess að han kom, getur aldrei gleymzt það, sem hann lifði og kenndi. Vér höfum ekki lifað hugsjónir hans, en vegna þess að hann flutti þær heimin- um, getum vér aldrei losnað við þær aftur. Þær eru örlög, sem vér fáum ekki umflúið. Vér minnumst þess nú, að hann kom í heiminn, að auðmjúkur gekk hann undir auðmýkjandi, mannleg kjör. Sár- þreyttri móður hans var neitað um að fæða hann í húsum manna, en jörðin gat ekki úthýst honum, hann var lagð- ur í jötu. Heródes hélt sig hafa losnað við hann, og Heródes dó, en hann lifði. Höfðingjarnir héldu sig hafa jafnað reikningana við hann og hróðugir héldu þeir heim frá Golgata. En þá var sig- urför hans að hefjast. Jarðneskir vald- hafar hafa þrásinnis reynt að losa sig við hann, þegar hann stóð í vegi fyrir fyrirætlunum þeirra. Þeir féllu, en hann hélt velli. Einstaklingarnir hafa reynt að losa sig við hann, þegar þeir sáu, að hann stóð í vegi fyrir þeim og því, sem þeir girntust að gera. En þeim tókst það aldrei til lengdar. Engri manns- sál, sem hefur mætt honum, hefur tekizt það, því að hann vekur það bergmál í sálu mannsins, sem aldrei þagnar aftur. Það er hægt að reyna að forðast hann, fara frá honum, stundum ótrúlega langt, en maðurinn verður að mæta honum aftur, á einhverjum krossgötum ber fundum þeirra saman í annað sinn. Þeim dómi verður ekki hrundið. 1 merkilegri tímaritsgrein um trúar- líf sitt segir rithöf. frægi, Chronin, frá kunnum guðleysingja. í kristnu þjóð- félagi hafði þessi maður alizt upp, en síðar taldi hann sig hafa gert upp reikn- ingana við kristindóminn. Af einbeitt- um huga lokaði hann úti frá sér allt, sem minnti á Krist, og þóttist vera al- gerlega laus við hann og allar „blekk- ingar hans“, eins og hann komst að orði. Friðlaus og vansæll dó þessi menntamaður fyrir nokkurum árum, í góðum efnakjörum. En rétt fyrir and- látið hrópaði hann sömu orðin, sem sagt er að fornaldarkeisarinn gríski, Júlían trúvillingur, hafi dáið með á vörum: „Þú hefur sigrað, Galílei!“ Eins og ungi maðurinn í ævintýra- ljóðinu kenndi á enni sér til æviloka koss sorgarinnar, hvert sem forlögin fluttu hann eftir þá samfundi, svo merkir Kristur því marki, sem aldrei máist af, sérhverja mannssál, sem hann hefur eitt sinn snortið. Með viljaákvörð- un kann hún að geta forðast hann, hald- ið honum með ofbeldi frá sér um stund. En þá mætir hún honum í dauðanum, eins og manninum fór. sem Chronin segir frá, eða einhversstaðar fyrir hand- an dauðann. * Nú erum vér að heilsa heilagri jóla- hátíð. Jólin hvetja hug þinn heim, í flestra manna hugum vakna minning- ar um bernskujól. Þá merkti Kristur sál barnsins, og það merki ber sál þín enn. Og þótt þú hafir fjarlægzt hann, hjarta þitt kólnað og mynd hans fölnað í huga þér, þá talar hún til þín því máli, sem hjarta þitt skilur, hin heilaga nótt. Og minningin um bemskujólin þín heima lætur þig finna, að nú ert þú að mæta honum enn. Og áhrifavald hans yfir þér er þess vegna sterkt, að hann talar til hins bezta, sem í sál þinni býr, til alls, sem bærist þar og gerir þig að be.tra manni, alls sem gerir þér lífið dýrmætt, vini þína verðmæta og sjálf- an þig að sönnum manni.

x

Eining

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Eining
https://timarit.is/publication/833

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.