Akranes - 01.07.1944, Page 13
AKRANES
97
5. Föðurmissir
Þess er áður getið, að Jóhannes glerskeri, faðir Geirs, bjó
alla sína tíð í gömlu Smiðjunni frá innréttingatímunum.
Mun það hús aldrei hafa verið sérlega reisulegt, en þó tók
fyrst að keyra um þvert bak eftir að aldurinn færðist yfir
það. Var það loks orðið svo skakkt og snarað, að lítt gat
talizt búandi í því lengur.
Haustið 1842 tók Jóhannes sig til og reif mikinn hluta
torfþaksins, setti timburþak í staðinn og hres'sti dálítið upp
á kofasmánina að öðru leyti. Þóttist hann hafa unnið þarfa-
verk með þessu og mun hafa harmað það mest, að efna-
hagurinn leyfði ekki meiri bót húsnæðisins í bili. En með-
an hann var að laga þakið á bænum, kom heldur en ekki
babb í bátinn. Sjálfur bæjarfógetinn reis upp öfugur og
skipaði Jóhannesi að hætta við allt saman. Bæjarfógeti var
um þessar mundir Stefán Gunnlaugsson, ötull maður og
fullur áhuga um framfarir bæjarins, en afskiptasamur í
meira lagi og gefinn fyrir að rexa í smámunum.
Ástæðurnar, sem bæjarfógeti færði fyrir afskiptum sín-
um af þakinu á kofa Jóhannesar glerskera voru í stuttu
máli þær, að Jóhannesi hafði láðzt að sækja um leyfi til
hinnar háttvirtu byggingarnefndar!
Það var í raun og veru eðlilegt, að bæjarfógeta tæki sárt
til byggingarnefndarinnar, og vildi hafa veg hennar sem
mestan. Þetta var alveg ný stofnun og bráðnauðsynleg fyr-
ir vöxt og viðgang bæjarins. Hafði henni verið komið á
laggirnar 1839, og jafnframt gerð ákveðin byggingarsam-
þykkt. Fram til þess tíma gat hver og einn byggt eftir því
sem í honum veltist vömbin, svo framarlega sem hann hafði
fryggt sér lóðaréttindi. Hlaut slíkt eftirlitsleysi að leiða til
fullkomins óskapnaðar, enda hafði reynslan orðið sú, að
ekkert var skeytt um beina húsaröð eða nokkurt samræmi.
Þegar bæjarfógeti varð þess var, að Jóhannes Zoega var
tekinn að breyta bæ sínum, án þess að snúa sér fyrst til
byggingarnefndar, brást hann reiður við og heimtaði lög-
in í gildi. Fyrirbauð hann Jóhannesi að ljúka verkinu fyrr
en leitað hefði verið formlega leyfis nefndarinnar. Jóhann-
esi mun hafa þótt þetta þarflítil afskiptasemi, og setti á
timburþakið eigi að síður. Lét Stefán Gunnlaugsson þá
höfða mál gegn „glasmeistara Jóhannesi Zoéga“ vegna þess,
að hann reif „nokkurn hluta af torfþakinu á íbúðarhúsi
sínu og lagði það aftur á að nýju úr timbri, án þess að
hafa fyrirfram leitað byggingarnefndar þeirrar, sem með
opnu bréfi af 29. maí 1839 er tilskipuð fyrir Reykjavíkur-
bæ, og útvega sér téðrar nefndar samþykki til þessa starfa“.
Mál þetta var tekið til dóms í lögreglurétti Reykjavíkur
og féll dómur á þá leið, að Jóhannes var „fríkenndur fyrir
ákæru pólitíréttarins, þó svoleiðis, að hann greiði þann
af sökinni leidda kostnað“.
Ekki þótti nóg að gert með þessu. Var málinu skotið til
yfirréttar og kvað hann upp dóm sinn 12. desember 1842.
Blés þar engu byrlegar fyrir bæjarfógeta og byggingar-
nefnd, og var Jóhannes sýknaður me ðöllu. Losnaði hann
einnig við málskostnað. í dómsástæðum segir svo:
„Þar eð það nú er sannað og upplýst, að umbót sú, er
ákærði gerði á íbúðarhúsi sínu, einungis er þar í fólgin, að
hann lagði nýtt þak í stað gamals á nokkurn hluta þess,
oða réttara sagt timburhæð í stað þess, að áður hafði verið
reisifjöl með torfþaki, án þess að endurbótin, vegna fú-
inna máttarviða, sé þar að auki unnin til bráðabirgða, en
engrar frambúðar, og án þess að hann hreyfði í hinu
minnsta við hússins undir- eða máttarviðum, svo að húsið
og þakið að öllu leyti heldur sömu stærð, lögun og ummáli
sem áður, svo getur rétturinn ekki álitið, að ákærði hafi
framið neitt lagabrot með því að gera téða umbót, án þess
fyrirfram að hafa leitað byggingarnefndarinnar atkvæðis
til hennar, er umbótin, eftir því sem að framan er útlistað,
og undirdómarinn réttilega finnst að hafa álitið hana, er
þess eðlis, að hún hlýtur að vera undanþegin tilkynningar-
skyldunni. Eftir þessum sakarinnar kringumstæðum hlýt-
ur ákærði því að frífinnast fyrir ákærum hins opinbera í
ofangreindri sök, og sakarinnar kostnaður fyrir landsyfir-
réttinum, hvar á meðal laun sóknara og svaramanns, 5
rbd. til hvors um sig (sem ekki finnst næg ástæða til að
dæma á hinn ákærða), að greiðast úr opinberum sjóði.“
Jóhannes hrósaði því fullum sigri í þessum sviptingum
við stjórnarvöld bæjarins. Virðist sýnt á máli þessu, að
hann hafi átt það til að halda býsna fast fram settri stefnu.
Annars hefur Jóhannes verið meðal hinna kyrrlátu í land-
inu, enda kemur hann ekki víða við sögu eftir þetta.
Bráðabirgðaviðgerðin á bæjargreninu dugði ekki nema
í fáein ár. Strax og börn Jóhannesar tóku að vaxa úr grasi
og gátu hjálpað til við að vinna fyrir heimilinu, var það
fyrsta nauðsynjaverkið, að reisa sæmilegt þak yfir höfuð-
ið. Var nú farið í öllu að lögum, leyfi byggingarnefndar
fengið með pomp og prakt, og frá öllu gengið sem vendi-
legast áður en framkvæmd var hafin. Árið 1848 réðst Jó-
hannes síðan til atlögu við bæinn og jafnaði honum við
jörðu. Hefur Geir að sjálfsögðu gengið skörulega fram í
því starfi ásamt föður sínum, enda var hann nú orðinn 18
ára gamall. Reistu þeir feðgar síðan lítið en sómasamlegt
timburhús á rústum Smiðjunnar, og þó ekki að öllu leyti
á sama grunni. Stóð það á horni Tjarnargötu og Kirkju-
strætis. Síðar komst þetta hús í eigu Sigurðar Arasonar
frá Þerney, og munu hinir eldri Reykvíkingar kannast við
nafnið Þerneyjarhús.
Svo er að sjá, sem Jóhannes Zoéga hafi gengt einu opin-
beru embætti á síðari árum sínum, en það var fátækrafull-
trúastaðan. Þurfti til þess starfa vandaðan mann, ráðdeild-
arsaman og vinsælan af almenningi. Virðist helzt, sem Jó-
hannes hafi allvel sameinað allt þetta. Var hann nú enn-
fremur að losna nokkuð úr fátækt sinni, og gat fremur en
áður um frjálst höfuð strokið. En hann átti ekki að ná há-
um aldri. Hinn 20. maí 1852 andaðist Jóhannes Zoéga, og
var jarðsunginn í Reykjavíkurkirkjugarði 26. maí. Ekki
hefur tekizt að fá vitneskju um það, hvert banameinið var,
né hvort dauðann bar að með snöggum hætti. Kirkjubók
getur ekki um dánarorsök og aðrar heimildir sleppa henni
einnig. Tvö blöð komu þá út í Reykjavík, Þjóðólfur og Ný
tíðindi, sem tekið höfðu við eftir að Landstíðindi hættu.
Þjóðólfur minnist ekki á lát Jóhannesar með einu orði, en
í Nýjum tíðindum stendur þessi klausa:
Mannlát. Jóhannes Zoéga borgari og fátækrastjóri í
Reykjavíkurbæ, f. 26. júní 1796, kvæntur 20. maí 1822, Ingi-
gerði Ingimundardóttur, dó 20. maí 1852. Hann átti 9 börn
alls, og lifa 6 þeirra enn.1)
Þegar Jóhannes féll frá, 56 ára gamall, var enn allþungt
heimili hans, og veitti ekki af öruggri forystu. Geir var nú
orðinn 22 ára að aldri, vanur flestri vinnu á sjó og landi,
stór og sterkur. Gerðist hann þegar fyrirvinna móður sinn-
ar og systra. Bjuggu þau áfram í hinu nýreista húsi á horni
Kirkjustrætis og Tjarnargötu. Var hinn ungi heimilisfaðir
brátt fengsæll og drjúgur í aðdráttum, enda sparaði hann
sig hvergi.
6. Sjómennska
Sjómennskan varð aðalstarf Geirs fyrstu árin eftir að
hann tók við búsforráðum á heimili móður sinnar. Mun Jó-
hannes faðir hans hafa átt bát lítinn, fjögra manna far, en
þau voru þá einna mest notuð af Reykvíkingum. Báti þess-
um stýrði Geir vor og haust, en lét sér það þó ekki nægja.
Eins og venja var flestra sjómanna í Reykjavík um þessar
mundir, stundaði hann sjó á aðalvertíð suður á Vatnsleysu-
strönd. Var hann þar háseti fyrstu árin, en ekki leið þó á
1) Ný tíðindi, 2. júní 1852.