Vér mótmælum allir - 01.03.1946, Blaðsíða 2

Vér mótmælum allir - 01.03.1946, Blaðsíða 2
GUÐM. THORODDSEN, prófessor » VERNDIN" íslendinga hefur lengi langað til þess að vera húsbændur á sínu eigin heimili, og öll okkar sjálfstæðisbarátta hefur stefnt að því marki. Loks rann upp sá dagur, að ísland varð sjálf- stætt, fullvalda ríki, og vakti það almennan fögn- uð um land allt. Þó var sá hængur á, að heims- styrjöldin stóð þá sem hæst, og erlendir herir voru í landinu eins og ríki í ríkinu og réðu raunverulega öllu. Annar herinn hafði hernum- ið landið, en lofað um leið að hverfa burt strax að ófriðinum loknum. Hinn herinn höfðum við sjálfir „beðið um vcrnd", þó með því skilyrði og loforði forráðamanna, að hann færi líka burtu strax eftir stríðslok. Þetta ástand var ill nauðsyn, sem allir eða flestallir íslendingar hlökkuðu til að losna við sem fyrst. Heimsstyrjöldinni lauk í fyrrasumar við al- mennan fögnuð allra íslendinga, og strax var þá farið að tala um það manna á meðal, hvenær erlendu herirnir mundu fara héðan fyrir fullt og allt. Þá datt fáum í hug, að gefin loforð yrðu ekki efnd. Það datt því yfir menn, þegar þeir fréttu síðastliðið haust, að Bandaríkja- menn hefðu farið fram á það við ríkisstjórn íslands að fá á leigu til langs tíma flugvöllinn eða vellina á Reykjanesi, Hvalfjörð og Fossvog eða Fossvog og Skerjafjörð. Nánar hefur ekki heyrzt um leigumálann, enda farið með málið eins og mannsmorð, varla mátt á það minnast, rétt eins og þetta væri mál, sem þjóðinni kæmi ekkert við. Samt sem áður síaðist það smátt og smátt út, aðallega eftir útlendum heimildum, að fregnin væri rétt, og menn fóru að ræða málið, en á meðan hafa Bandaríkjamenn setið hér sem fastast og varðveitt flugvöllinn við Keflavík líkt og hernaðarleyndarmál, svo að jafnvel nefnd frá Alþingi hefur ekki fengið að koma þar, þótt hún æskti þess. Formælendur Bandaríkjamanna í þessu máli hafa, að vonum, verið fáir og haft sig lítið í frammi opinberlega þangað til nú, að Jónas Jónsson frá Hriflu gengur fram fyrir skjöldu og krefst þess, að við leyfum Bandaríkjunum hernaðaraðstöðu hér á landi. Og í áróðri sínum leyfir hann sér að nota samtök íþróttamanna, sennilega þó ekki með vilja þeirra né vitund fyrirfram, og nafn sjálfra Þingvalla. Samkvæmt málflutningi Jónasar gæti það litið svo út sem þágan væri miklu síður Bandaríkj- anna en okkar, svo væri „vernd" þeirra okkur mikilsverð. Við vitum ekki, hvenær næsta heimsstyrjöld verður háð, né heldur með hvaða tækjum. Ef til vill gæti hún fárið alveg fram hjá okkar landi. En hefðum við hér herstöðvar, gætum við verið þess vissir, að fram hjá okkur væri ekki gengið, og allir geta gert sér í hugarlund, hvað af mundi hljótast. Við vitum ekki heldur, hvorum megin okkar hagsmunir mundu liggja í þeim hildarleik. En eitt vitum við: Við lítil- lækkum sjálfa okkur og niðja okkar um aldur og ævi, ef við bjóðum eða leyfum Bandaríkja- mönnum eða nokkru öðru ríki að hafa her- stöðvar hér á landi. Það verður sár og átumein, sem aldrei grær. Jónas frá Hriflu hampar því í áróðri sínum, að Rússar muni koma hér sem þjófar á nóttu og setja hér upp herstöðvar. Það er ósennilegt, að þeir eða aðrir komi hingað óboðnir, og satt að segja er það jafnvel ósennilegt, að Banda- ríkjamenn haldi kröfu sinni um herstöðvar hér til streitu, eftir því sem nú horfir í alþjóðamál- um, enda er merkileg biðlund þeirra við svari íslendinga nú í rúmt hálft ár. Ef til vill þurfa þá ekki fleiri íslendingar að verða sér til minnkunar í þessu máli. 2 VÉR MÓTMÆLUM ALLIR!

x

Vér mótmælum allir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vér mótmælum allir
https://timarit.is/publication/937

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.