Bændablaðið - 07.06.2005, Blaðsíða 27

Bændablaðið - 07.06.2005, Blaðsíða 27
Þriðjudagur 7. júní 2005 27            ! "#  "#$ "# %"& & ' "# # "()# " *  "+ (    & , % - ./- 00 , (  #" 1" * .&"&( #  -&&1 # -&1! " "&1" 2& +# G BB  : /". 3 4// % &&( 500 3 , Grænmeti er orkulítil fæða sem veitir manninum ýmis mikilvæg næringarefni svo sem C vítamín og fólasín. Grænmeti er að miklu leyti vatn, kolvetni og trefjaefni. Einnig inniheldur það lítið eitt af fitu og prótínum og ekki má gleyma steinefnum og vítamínum. Þar sem vatnsinnhaldið í flestum grænmetistegundum er um 90% og fitan sáralítil verður orkugildið lágt. Heilt korn er ríkt af kolvetn- um (sterkju), trefjaefnum og ýms- um steinefnum og vítamínum en fitan er lítil. Í plöntuafurðum er fjöldi ann- arra efna en næringarefna og hafa sum þeirra virkni í líkamanum. Þau efni sem hafa jákvæð áhrif á heilsu fólks, án þess að um næringarefni sé að ræða, kallast plöntuhollefni. Á síðustu árum hefur athygli beinst að andoxunarefnum í grænmeti en þau veita vörn gegn skaðlegum efnum í líkamanum. Andoxunarefni gætu því átt þátt í að verja líkamann gegn sjúkdómum. Fjöldi rannsókna bend- ir til þess að grænmeti og ávextir geti átt þátt í að koma í veg fyrir sjúkdóma eins og hjarta- og æða- sjúkdóma og viss krabbamein, eink- um þau sem tengjast meltingarvegi. Korn skiptir einnig máli þótt það hafi ekki verið eins mikið rannsak- að. Það er því rík ástæða til að hvetja til aukinnar neyslu grænmetis, ávaxta og korns. Grænmeti og heilsa Talið hefur verið að hægt sé að koma í veg fyrir 20-40% allra krabbameina í Bandaríkjunum með breyttum fæðuvenjum. Samkvæmt þessu eiga aðeins reykingar stærri þátt í myndun krabbameina. Aukin neysla grænmetis og ávaxta ein og sér er talin geta komið í veg fyrir 20% krabbameina. Þær grænmetis- og ávaxtategundir sem einkum hafa verið tengdar við lækkaða tíðni krabbameins eru káltegundir (sér- staklega spergilkál, höfuðkál og ró- sakál), blaðgrænmeti, gulrætur og sítrusávextir. Alþjóðaheilbrigðismálastofnun- in hefur talið litla grænmetis- og ávaxtaneyslu vera meðal sjö helstu áhættuþátta ótímabærra dauðsfalla í Evrópu. Grænmeti er mikilvægur hluti af fjölbreyttu fæði. Heilbrigðis- yfirvöld víða um heim hvetja því til aukinnar neyslu grænmetis og ávaxta. Neysla Íslendinga á þessum hollu vörum er ennþá of lítil þótt hún hafi farið vaxandi á síðustu árum. Hollefni Athyglin beindist lengi vel mest að þeim efnum í jurtum sem voru nær- ingarefni fyrir manninn. Í plöntum er mikill fjöldi efna sem verður til við efnaskipti. Plöntur framleiða einnig efni til að verjast utanaðkom- andi áreiti eins og sjúkdómum og skaðvöldum. Á seinni árum hefur svo komið í ljós að önnur efni en næringarefni geta verið virk í mannslíkamanum. Efni í plöntum geta haft jákvæð áhrif á heilsu fólks og er þá talað um plöntuhollefni en þessi efni eru ekki næringarefni í hefðbundnum skilningi þess orðs. Plöntuhollefni geta verið andoxun- arefni, haft frumudrepandi áhrif, haft áhrif á veirur og unnið gegn stökk- breytingum. Þessi efni eru í græn- meti, ávöxtum, korni, baunum, hnet- um, kryddjurtum og tei. Af þessum efnum eru andoxunarefnin þekktust. Hvað eru andoxunarefni? Andoxunarefni veita vörn gegn skaðlegum áhrifum efna sem stuðla að oxun í líkamanum. Andoxunar- efni eru því meðal varna líkamans gegn oxunarálagi. Ef andoxunarefni skortir í líkamanum er hugsanlegt að heilsufarsleg vandamál fylgi í kjöl- farið. Sum andoxunarefni eru jafn- framt næringarefni eins og C vítam- ín og E vítamín. Grænmeti inniheldur talsvert af andoxunarefnum. Sama má segja um ber og ávexti. Athyglinni hefur minna verið beint að korni en í því eru einnig andoxunarefni. Hafrar eru sú korntegund sem mest hefur verið rannsökuð í þessu tilliti og hafa mælingar sýnt talsvert af andoxunar- efnum. Í byggi hefur greinst fjöldi andoxunarefna. Sérstaðan Í hverju felst sérstaða íslensks græn- metis? Nálægðin við markaðinn kemur fyrst upp í hugann. Það er því mögulegt að senda nýtt innlent grænmeti á markað daglega. En að- stæður til ræktunar á Íslandi eru að mörgu leyti sérstakar, nefna má erfið birtuskilyrði, lágan umhverfishita og ræktun í gróðurhúsum. Grænmeti ræktað á norðlægum slóðum getur haft aðra samsetningu en það sem ræktað er í suðlægari löndum. Hæg- ur vöxtur í langan tíma gæti aukið styrk efna. Hugsanlegt er að íslensk náttúra og framleiðsla skili afurðum með samsetningu sem er sérstök, t.d. varðandi plöntuhollefni. Ýmsir þætt- ir svo sem sólarljós, þroski, geymsluskilyrði, árstími, landssvæði og vinnsla hafa mikil áhrif á mynd- un þessara efna. Sum hollefni verja plöntur gegn ytra áreiti og notkun varnarefna gæti því dregið úr mynd- un þeirra. Þetta kann að hafa þýð- ingu þar sem notkun varnarefna er lítil eins og á Íslandi. Ólafur Reykdal Matvælarannsóknum Keldnaholti Hollusta úr grænmeti og korni - Sérstaða inn- lendu framleiðslunnar Allir regnbogans litir Allir kannast við ráðleggingar um það að borða fjölbreytt úrval grænmetis sem er mismunandi á litinn. En hvaða máli skipta þessir litir? Byrja má á því að segja að karóteníð, litarefni sjálfrar náttúrunnar, koma hér mjög við sögu. Karótíníð eru fjölmörg og gefa liti frá rauðu yfir í gult. Sum karótí- níð, eins og beta-karótín, hafa A-vítamínvirkni í líkamanum. Lýkópen er annað karóteníð, það hefur þó enga vítamínvirkni en er þekkt hollefni. Tal- ið er að lýkópen veiti vörn gegn hjartasjúkdómum og sumum krabbamein- um. Bláan lit bláberja má rekja til antósýanín efna en þau hafa andoxunar- virkni. Þannig mætti áfram telja. Í kartöflum er lítil fita Flestar grænmetistegundir innihalda lítið af kolvetnum en kartöflur skera sig úr með um 15% af kolvetnum á formi sterkju. Í kartöflum er sáralítil fita frá náttúrunnar hendi og vatnsinnihaldið er um 80%, í hverjum 100 grömmum eru því aðeins um 70 hitaeiningar. Kartöflur eru nýttar á fjöl- breytilegan hátt. Pökkun og forvinnsla á kartöflum færist í vöxt og þær verða í framtíðinni aðgengilegri fyrir þá sem hafa lítinn tíma fyrir mat- reiðslu. Íslenskt bygg er trefjagjafi Bygg er nú ræktað á Íslandi með góðum árangri. Á undanförnum mánuð- um hefur færst í vöxt að boðið sé upp á íslenskt bygg í stóreldhúsum. Það hefur heldur ekki spillt fyrir að kokkalandsliðið hefur prófað sig áfram með matreiðslu úr bygginu. Bæði heilt bygg (bankabygg) og byggmjöl fæst nú í fjölmörgum verslunum. Áhugi á byggi til manneldis er ekki ástæðulaus. Byggið er frábær uppspretta trefjaefna og ekki bara það því stór hluti trefjaefnanna er vatnsleysanleg trefjaefni sem geta haft dempandi áhrif á blóðsykur og lækkað styrk kólesteróls í blóði. Bygg má nýta í margs konar rétti og bökunarvörur. Bygg er hægt að borða eins og hrís- grjón, byggið er einfaldlega miklu trefjaríkara. Hvað tekur langan tíma að framleiða tómata? Litsterkt grænmeti er oft auðugt af hollefnum og vítamínum. Taka má tómata sem dæmi, rauða litarefnið í tómötunum heitir lýkópen, en það er öflugt andoxunarefni. Talsverðan tíma þarf til að lýkópen myndist í tóm- atnum og því er forvitnilegt að velta fyrir sér ferlinu frá fræi til afurðar. Bóndinn sáir tómatafræjum milli jóla og nýárs í gróðurhúsi og síðan tekur við forræktun eða uppeldi á tómatplöntum. Um miðjan febrúar þarf að flytja plönturnar og er þeim plantað í gróðurhúsinu þar sem þær hafa rými og skilyrði til vaxtar. Fyrsta tómatuppskeran kemur svo í apríl og sömu plönturnar skila uppskeru fram í byrjun nóvember. Til þess að koma ferskum íslenskum tómötum á markað allt árið þarf því að sá til nýrra plantna tvisvar á ári, þ.e. um jólaleytið og svo aftur á miðju sumri. Það er því mikil vinna í gangi í gróðurhúsunum nánast allt árið. Til þess að þetta sé hægt þarf að nota raflýsingu við ræktunina allt að 18 tíma á sólarhring í skammdeginu. Notkun raflýsingar er dæmi um þá þróun sem hefur átt sér stað í grænmetisframleiðslu á Íslandi.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.