Bændablaðið - 10.09.2009, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 10.09.2009, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | fimmtudagur 10. september 2009 Dagana 24.-27. ágúst sl. hélt Búfjárræktarsamband Evrópu (EAAP) 60. árs- þing sitt í Barselóna á Spáni. Bændasamtökin urðu aðilar að sambandinu skömmu eftir stofnun þess 1949, að frumkvæði dr. Halldórs Pálssonar, og hafa ýmsir íslenskir búvísindamenn sótt ráðstefnur og málþing sam- bandsins á liðnum áratugum. Fjölsótt ársþing Búfjárræktarsamband Evrópu, með höfuðstöðvar í Rómarborg á Ítalíu, fagnaði nú 60 ára afmæli sínu með metþátttöku 1500 manns frá flestum löndum Evrópu og nokkr- um Afríku- og Asíulöndum við Miðjarðarhaf sem einnig eiga aðild að sambandinu. Nú sem fyrr komu gestir frá öllum öðrum heimsálfum. Dagskrár í hinum níu deildum sam- bandsins voru óvenju fjölbreyttar og margvíslegur fróðleikur var á borð borinn. Starfsemin er greini- lega mjög framsækin um þessar mundir og í góðu samræmi við langtímamarkmið sem stjórnin setti nýlega. Er full ástæða til að hvetja íslenskt búvísindafólk og dýra- lækna til að kynna sér starfsemina og taka þátt í henni eftir því sem aðstæður og fjárhagur leyfa (www. eaap.org). Nú er hægt að kynna sér efnið sem lagt var fram á internet- inu, samtals 1247 erindi og vegg- spjöld. Að þessu sinni sátu ársþing Búfjárræktarsambands Evrópu þau Elsa Albertsdóttir doktorsnemi við Landbúnaðarháskóla Íslands, dr. Þorvaldur Árnason prófessor við LBHÍ, búsettur í Svíþjóð, og dr. Ólafur R. Dýrmundsson lands- ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands. Þess ber að geta að Elsa fékk ferðastyrk úr sérstökum sjóði sambandsins sem styrkir ungt fólk til þátttöku. Öll lögðu þau fram faglegt efni, Elsa og Þorvaldur um hrossakynbætur og Ólafur um frjó- semi sauðfjár, í samvinnu við ýmsa meðhöfunda. Nú, þegar kreppir að, þurf- um við að taka sem mestan þátt í slíku alþjóðlegu starfi, því að þarna erum við jafningjar hvað sem líður efnahagskreppu og skiptum skoðunum um aðild að Evrópusambandinu. Búféð okkar, og þær rannsóknir sem á því hafa verið gerðar, vekja víða athygli. Ég sat sérstakt málþing dagana 22.-23. ágúst um verndun erfðaefnis búfjár í tengslum við ársþingið, ásamt hópi fólks í svokölluðu ERFP Evrópusamstarfi sem fundaði á Íslandi í vor (sjá Bændablaðið 14. maí 2009). Það var ánægjulegt að heyra mörg þeirra tala um þann glæsilega árangur sem náðst hefur í íslenskum búfjárkynbótum og íslenskum landbúnaði almennt. Hér á landi mætti gjarnan tala meira um þá „útrás“ og það framlag sem íslenskir bændur, búvísindafólk, dýralæknar o.fl. fagaðilar leggja fram til samfélagsins. Bæði dr. Halldór Pálsson og sá sem þetta ritar sátu á sínum tíma um margra ára skeið í stjórn Sauðfjár- og geitfjárdeildar, sá fyrrnefndi sem ritari og forseti en sá síðarnefndi sem ritari og varaforseti. Nú gerð- ist það aftur á móti í fyrsta skipti að Íslendingur var kjörinn í stjórn Búfjárræktarsambands Evrópu, sá sem þetta ritar. Formaður hennar og jafnframt forseti sambandsins er dr. Kris Sejrsen frá Danmörku en dr. Andrea Rosati er framkvæmdastjóri þess með aðsetur í Rómarborg, eins og áður var vikið að. Breyttar áherslur Eftir að hafa fylgst töluvert með starfsemi Búfjárræktarsambands Evrópu og verið virkur þátttak- andi í nokkrum þáttum hennar um rúmlega 30 ára skeið finnst mér sérlega ánægjulegt að verða vitni að margvíslegum breytingum í áherslum hjá sambandinu sem eru í beinu samhengi við þróun land- búnaðar og þess umhverfis sem hann býr við. Auk þess að stöðugt er verið að kynna nýjustu tækni og vísindi í hverri grein búfjárræktar og landbúnaðar í heild er sívaxandi umræða um svið sem áður voru lítið sem ekkert á dagskrá. Þar er sér- stök ástæða til að nefna þrjá þætti; velferð búfjár, verndun erfðaefnis búfjár og lífræna búskaparhætti. Allir þessir þættir fengu prýðilega umfjöllun í Barselóna, bæði í erindum um niðurstöður vísinda- legra rannsókna og kannana, svo og í líflegum umræðum þar sem margvísleg sjónarmið komu fram. Þótt mörg aðildarlandanna séu í Evrópusambandinu og landbún- aðarstefnu þess beri oft á góma, er þessi umræða miklu víðtækari og alþjóðlegri. Var hún raunar í ágætu samræmi við hinn opinbera titil sem ársþinginu var valinn að þessu sinni: „Líffræðileg fjölbreytni og sjálfbær búfjárframleiðsla“ Í ljósi mótvægisaðgerða gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda og líkum á frekari hækkun olíuverðs, jafnvel skorti í framtíðinni, er verið að gera kröfur til þess að búfjár- framleiðslan taki vaxandi tillit til umhverfisverndar, og jafnframt mannúðlegri meðferðar búfjár. En það eru ekki aðeins framleiðendur búfjárafurða og annarra búvara sem þurfa að axla vaxandi ábyrgð. Auka þarf stórlega fræðslu til neytenda og stjórnmálamanna um afleiðing- ar þess að krefjast stöðugt lægra matvælaverðs. Skuggahliðarnar blasa við og Búfjárræktarsamband Evrópu er greinilega tilbúið að taka virkan þátt í umræðum um leiðir til úrbóta. Önnur alþjóðleg samtök, svo sem IFOAM, alþjóðasamband bænda í lífrænum búskap og IFAP, alþjóðasamband búvöruframleið- enda, að ógleymdum NBC, samtök- um norrænna bænda, og samtökum evrópskra bænda, COPA-Cogeca, koma einnig við sögu, en fulltrúi þeirra síðastnefndu flutti þarna erindi á fundi um sjálfbæra búfjár- framleiðslu. Þar kom m.a. fram að á sama tíma og matvælaverð hefur verið að hækka í Evrópu um 5-6% nú í seinni tíð, eftir langt tímabil lækkana, hefur verð til bænda verið að lækka um 20-30%, m.a. vegna hækkunar á verði ýmissa aðfanga. Slíkt gæti ekki gengið til lengdar og væri alls ekki sjálfbær þróun, hvern- ig sem á málið væri litið. Í þessu sambandi var einnig vikið að fæðu- öryggi hinna ýmsu landa og þeirri ógn sem stafað getur af einstreng- ingslegum kröfum markaðshyggj- unnar. Á slíkum alþjóðlegum sam- komum skapast oft góð persónuleg kynni og átti ég m.a. gagnleg- ar viðræður við fólk frá ýmsum Evrópulöndum um kosti og galla aðildar að ESB. Landbúnaður á Spáni Sennilega er Spánn þekktari á Íslandi fyrir margt annað en land- búnað. Þó er hann mjög fjölbreyti- legur og hefur mikið efnahagslegt og félagslegt gildi. Í heildina nemur landbúnaðarframleiðsla Spánar um 13% af heildarframleiðslu ESB en hafa skal í huga að Spánn er meðal stærstu og fjölmennustu landa álfunnar með um 46 millj- ónir íbúa. Þótt meira fari fyrir akuryrkju ýmiss konar en búfjár- rækt er sú grein umfangsmikil, jókst mikið fyrir u.þ.b. 40 árum og hefur breyst lítið að umfangi síðan í byrjun 8. áratugar liðinnar aldar. Búfjárframleiðslan nemur nú um 40% af heildarframleiðslu spánsks landbúnaðar. Því var við hæfi að halda 60. ársþingið í Barselóna í Katalóníu á Norðaustur-Spáni þar sem búfjárrækt og búvörufram- leiðsla standa almennt á traustum grunni. Á setningarathöfn ársþingsins flutti Josep Puxeu landbúnaðar- ráðherra ágætt ávarp, sem höfðaði til hins opinbera titils þingsins, og vék sérstaklega að efnahagslegum, félagslegum og umhverfistengdum þáttum þar sem vatnsvernd skipt- ir miklu máli. Hvað búfjárræktina varðar kom m.a. fram hjá honum að á Spáni eru til 178 búfjárkyn og þar af eru 123 í útrýmingarhættu. Til að vinna gegn þeirri þróun og renna styrkari stoðum undir við- hald líffræðilegs fjölbreytileika og fæðuöryggis væri ríkisstjórn Spánar nýbúin að ganga frá þjóð- aráætlun um verndun erfðaefnis búfjár og kynbætur á næstu árum. Er Spánn reyndar eitt af fyrstu ríkj- um í Evrópu sem hefur gefið út slíka áætlun. Í Katalóníu er landbúnaðarfram- leiðsla meiri en sem nemur neysl- unni og því er verulegur útflutning- ur, einkum á svínakjöti, nautakjöti og alifuglaafurðum, bæði kjöti og eggjum. Mikið er um stór, tækni- vædd bú (verksmiðjubú) en einn- ig er verulegt hefðbundið búfjár- hald þar sem beitilönd eru nýtt að fornum hætti, einkum til fjalla. Sum síðarnefndu búin eru komin með lífræna vottun. Akuryrkja og ávaxtarækt er umfangsmikil með- fram Miðjarðarhafinu þrátt fyrir löng þurrkatímabil ár hvert, og því þarf víða að nota áveitur. Þar, sem og annars staðar á Spáni, skipta því jarðvegs- og vatnsvernd miklu máli. Spánverjar hafa skiljanlega áhyggjur af áhrifum hlýnandi lofts- lags. Þá rúmu viku sem ég dvaldist þar í lok ágúst fór hitastigið sjaldan niður fyrir 30oC og voru þó mestu sumarhitarnir liðnir hjá. Ekki kom dropi úr lofti svo að teljandi væri, en rakastigið var hátt, einkum í logni. Bygginga eða skýla fyrir búfé er því þörf til að verjast hita- álaginu. Geitfjár- og sauðfjárbú heimsótt Í lok ársþingsins var gefinn kost- ur á kynnisferðum á býli af ýmsu tagi. Slóst ég í hóp þeirra sem sótti heim tvö býli í Girona, um 130 km norðan við Barselóna, skammt frá Miðjarðarhafsströndinni. Bæði eru dæmigerð fjölskyldubú. Á hinu fyrra, „Mas Alba“, búa tveir bræður með fjölskyldum sínum á 100 ha þar sem mest allt fóður fyrir nær 300 geita hjörð er ræktað, og öllu gefið inni árið um kring, þó með aðgangi að litlum útigerðum. Þarna er fyrst og fremst mjólkurframleiðsla til ostagerðar á býlinu sjálfu, vélmjólkað einu sinni á dag á hefðbundnum mjaltabásum, (700 kg nyt á 9 mánaða mjalta- skeiði). Búið hefur leyfi til þess að nota ógerilsneydda mjólk, að vísu undir ströngu eftirliti heilbrigðisyf- irvalda, sem felur í sér sýnatökur á tveggja vikna fresti og heimsóknir eftirlitsaðila á mánaðar fresti. Allar geiturnar eru vel merktar, bæði með plötumerkjum í eyrum og örmerkjahylkjum í vömb. Osturinn bragðaðist vel (þrjár tegundir) og fengum við einnig að kynna okkur ferðaþjónustu sem fjölskyldan rekur þar sem boðið er upp á gist- ingu, sölu afurða beint frá býlinu, hestaleigu og golf (www.masalba. cat). Á seinna býlinu sem við heim- sóttum, „Les Olives“, eru um 500 fjár sem er algeng bústærð þar um slóðir. Dilkakjöt er megin afurðin, bæði mjólkurlömb með 5 kg fall- þunga og lömb sem ganga mun lengur undir ánum með 12 kg fall- þunga. Líkt og á Íslandi er dilkakjöt í hávegum haft og bragðaðist það vel við ýmis tækifæri á meðan árs- þingið stóð yfir, m.a. á þessum bæ þar sem okkur var boðið til grill- veislu eftir heimsóknina í fjárhúsið. Ærnar eru ekki með árstíðabundinn fengitíma og ganga hrútar alltaf með þeim en ár hvert eru þó bestu ærnar teknar frá til sæðinga, líkt og gert er á geitabúinu. Sauðburður er því alltaf í gangi og ærnar tekn- ar frá um leið og þær bera. Þótt að meðaltali sé meira en einn burð- ur hjá hverri á, ár hvert, er fjöldi lamba til nytja aðeins 1,5 á árs- grundvelli. Féð er haft úti 5 tíma á dag, allt árið, þannig að beit nýstist nokkuð þó mest sé treyst á fóðrun á húsi. Merking og skráning er vel tæknivædd eins og á geitabúinu, og fá bændurnir opinberan stuðn- ing til að greiða mest allan kostn- að sem þessu fylgir. Eftir því sem ég komst næst eru styrkir á báðum þessum búum svipaðir og til fjárbú- skapar hér á landi. Þó kom fram að rekstrargrundvöllurinn væri orðinn erfiður vegna mikilla hækkana á tilbúnum áburði og aðkeyptu fóðri og óvissa væri um framtíðarstefnu ESB í stuðningi við landbúnað sem nú er að mestu orðin byggðastuðn- ingur frekar en framleiðslustuðn- ingur. Tvennt vakti sérstaka athygli á þessum búum og reyndar líka á ársþinginu. Í fyrsta lagi býsna útbreidd notkun örmerkja í ýmsu formi, ekki síst á Spáni, og í öðru lagi hin sterka viðleitni þar og víðar til að markaðssetja sérstakar, upp- runamerktar afurðir, gjarnan beint frá býli. Næsta ársþing EAAP Spánverjar skipulögðu þetta 60. ársþing Búfjárræktarsambands Evrópu með mikilli prýði og tóku vel á móti okkur. Næstu ársþing verða á eyjunni Krít í Grikklandi 2010, í Stavangri í Noregi 2011 og í Bratislava í Slóvakíu 2012, á svipuðum tíma árs. Á vegum sam- bandsins er ýmis önnur starfsemi, svo sem vinnuhópar og aðild að útáfu vísindaritsins Animal. Nánari upplýsingar um starfsemina veiti ég góðfúslega. Búfjárræktarsamband Evrópu fundaði á Spáni Íslendingur kjörinn í fyrsta skipti í stjórn þess Ripollesa-ær með lömb til kjötfram- leiðslu, allar kollóttar og dropóttar að lit, á fjölskyldubúinu Les Olives í Katalóníu. Í fjárhúsunum gengur féð á hálmi og aðstaða til hirðingar er ágæt en mikið þarf að hýsa vegna hita, einkum á sumrin. Á Mas Alba fjölskyldubúinu í Kata lóníu eru framleiddir geitaostar úr óger- ilsneyddri mjólk. Geiturnar eru af Murciano-Granadina kyni, flestar svart- ar og hyrndar, fáeinar þó mórauðar og nokkrar kollóttar. Vélmjólkað er í mjaltabásum einu sinni dag og er maltaskeiðsnytin 700 kg að meðaltali. Myndir Ó.R.D. Ólafur R. Dýrmundsson landsráðunautur BÍ í lífrænum búskap og landnýtingu ord@bondi.is Evrópusamstarf

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.